129. Annar hittingur kvikmyndaklúbbsins Bíódaga

17 Júl

Bíódagar hittust á nýjan leik í gærkvöldi og var það á Ásbrautinni. Mættir voru 5 heitir meðlimir klúbbsins og spenna var í loftinu. Allir biðu í ofvæni eftir að sjá hina margumtöluðu mynd Foxtrot eftir Jón Tryggvason frá árinu 1988. Og áhorfendur urðu sannarlega ekki fyrir vonbrigðum (jah, allir nema einn ;)) Myndin var hörkuspennandi þó haft væri á orði að sumir lifðu sig meira inn í hana en aðrir.

Í stuttu máli sagt er myndin um endurfundi hálfbræðranna Tomma Thors (Steinarr Ólafsson) og Kidda Thors (Valdimar Örn Flygering) sem báðir eru fótboltastjörnur. Kiddi hafði reynt fyrir sér á Spáni en sneri aftur heim eftir mannorðsmorð og hóf að vinna sem öryggisvörður hjá banka (?) og reddar bróður sínum vinnu þar. Þeir leggja svo upp í ferðalag austur á firði með 18 milljónir í skottinu á tröllajeppa. Þeir hitta fyrir puttaferðalanginn Lísu (Maríu Ellingsen) og til þess að eyðileggja ekki spennuna fyrir þeim sem ekki hafa séð myndina þá má segja að viðskipti bræðranna við þá stúlku séu rauði þráðurinn í gegnum myndina.

Foxtrot er þekkt í íslenskri kvikmyndasögu sem einn fyrsti íslenski krimminn og sem slíkur gengur hann alveg upp. Plottið er þéttara en í mörgum öðrum myndum og þó að nokkur göt séu í því og fáeinir lausir endar í lokin, t.d. hvað gerðist á Spáni hjá Kidda, þá er myndin á heildina litið talsvert trúverðug. Myndataka, klipping og hljóð eru í meðallagi eins og í flestum öðrum myndum. Þó má segja að brellurnar hafi verið talsvert metnaðarfullar í þessari mynd. T.a.m. tóku allir andköf þegar tröllajeppinn steyptist á hliðina eftir að skotið var á hann. Það sem veikir myndina sem heild er almennt lélegur leikur (no kidding) en Valdimar á þó bestan leik af leikurunum og sjaldan hef ég séð persónu í íslenskri mynd sem er jafn illa innrætt og Kiddi. Benda má á Eggert Þorleifsson sem segir eitt orð í myndinni en er þó ógleymanlegur sem íslenskur bóndi.

Tvö þemu eru gegnumgangandi í myndinni. Þar sem hún er gerð árið 1988 er líklegt að í handritinu sé verið að vísa til nýskeðinna atburða en árið 1982 réðst íslenskur maður á tvær franskar stúlkur á Mýrdalssandi og myrti aðra þeirra. Þó að söguþráðurinn í Foxtrot sé vissulega ólíkur er margt sem minnir á þennan harmleik sem átti sér stað 6 árum áður. Ég er viss um að áhorfendur í kvikmyndahúsum hafa strax leitt hugann að þessu. Þannig hefur myndin vissulega sögulega tilvísun og er merkileg heimild ef ekki væri nema fyrir þær sakir.

Hins vegar er öll myndin undirorpin þeirri hugmynd sem komið er inn hjá áhorfenda að fyrirmyndin sé hið villta vestur Ameríku. Það er þó aldrei beinlínis sagt berum orðum, en gefið til kynna með myndatöku. Ber að nefna myndataka af flöktandi skiltum og kyrkingslegu tré úti í miðri auðninni. Kiddi og Tommi eru líka kúrekar á sinn hátt. Þeir hafa verkefni sem þarf að ljúka, sama hvaða hindranir verða á vegi þeirra. Kiddi er líka harðari en allt hart og á sér fáa líka í einurð og kuldalegu fasi.

Áhorfendur voru almennt sammála um að Foxtrot væri afbragðs skemmtun og sannarlega ein af perlum íslenskrar kvikmyndasögu sem lagt var upp með að finna með stofnun klúbbsins. Næst verður hittingur eftir tvær vikur í Grafarvoginum og verður tekin fyrir fjölskyldumyndin Veiðiferðin eftir Andrés Indriðason (frá árinu 1980).

Auglýsingar

Eitt svar to “129. Annar hittingur kvikmyndaklúbbsins Bíódaga”

  1. Hilla júlí 17, 2006 kl. 10:34 #

    Að vanda glæsileg yfirferð! Þó ég sé nú ekki sammála öllu 😉

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: