Sarpur | 21:23

238. Árið 2007 gert upp

15 Jan

Hefst þá árleg yfirferð:

Janúar: Bíódagar sáu Kalda slóð og Foreldra í bíói og ég sá Sitji guðs englar og hinar Bakkynjur í Þjóðleikhúsinu með Helgu. Ég beið eftir einkunnum sem létu sjá sig seint og um síðir. Síðan tók við mesta vinnutörn sem ég hef upplifað; vinnan við MA-ritgerð og sjónvarpsþátt sem var hluti af lokaverkefni. Þeirri vinnu lauk ekki fyrr en seint á árinu. Við fórum á árshátíð URKÍ-R í lok janúar sem var mjög vel heppnuð. Ég tók líka að mér aðstoðarkennslu í námskeiði í grunnnámi íslenskunnar sem ég veit ekki enn hvort var góð ákvörðun eða ekki…

Febrúar: Við ÁPB lögðumst í eldhúsframkvæmdir sem tóku nokkra mánuði. Á meðan borðuðum við mest grillað brauð og höfðum ísskápinn í stofunni. Ég sá Misery á NASA með Maríu og Þóru. Haldið var upp á kvartaldarafmæli undirritaðrar. Herlegheitin voru haldin í sal á 13. hæð í húsinu þar sem systir mín býr. Blásið var til grímuballs og mætti her manns og flestallir í grímubúning sem gerði kvöldið ákaflega skemmtilegt. Verðlaun voru veitt fyrir besta og frumlegasta búninginn og þótti mörgum úrslitin lykta af spillingu en í dómnefnd sat afmælisbarnið sjálft! 😉 Ég sá Dag vonar í Borgarleikhúsinu. Farin var önnur árleg Akureyrarferð 23.-25. febrúar með B. og E. og var hún í alla staði frábær, fyrir utan smá húsnæðisörðugleika í upphafi :S (það kemur ekki fyrir aftur!) Við sáum Svartan kött hjá LA, fórum í sund, út að borða og nutum frísins!

Mars: Í upphaf mánaðarins hófust tökur fyrir lokaverkefnisþáttinn og gengu vel þó að ekki hafi þær gengið alltof hratt fyrir sig… Bókamarkaðurinn árlegi var heimsóttur og mikið verslað. Þessir fyrstu mánuðir ársins voru svo gott sem undirlagðir í ritgerðarvinnu, upplýsingaöflun og allsherjar lokaverkefnis-„plönun“. Bókaklúbburinn fór í bíó á Perfume eftir að hafa lesið Ilminn eftir Patrick Suskind. Spilaklúbbur norðursins hittist reglulega allt árið (mjög skilvirkt). Á flótta-leikur var spilaður á Sauðárkróki 16.-18. mars og var einkar skemmtilegur, ekki síst vegna góðs undirbúnings heimamanna. Við ÁPB fórum aftur norður í skírn hjá Emelíu Ísold. Við Helga tókum svo eina úber-lærdómshelgi í lok mánaðarins og slógum öllu öðru á frest!

Apríl: Í byrjun apríl fór ég á vortónleika Söngsveitarinnar Fílharmóníu. 22. apríl skellti ég mér við þriðja mann á Stokkseyri á tónleika Rásar 2 Plokkað hringinn en þar spiluðu Lay Low, Pétur Ben og Ólöf Arnalds. Þeir voru frábærir og Ólöf klárlega ein af uppgötvunum ársins í íslenskri tónlist.

Maí: Mikið spáð í Eurovision eins og endranær, hlustað á lögin og ég fylgdist vel með norrænu spekingunum. Keppnin sjálf var ágæt og ég er verulega sátt við lagið sem vann. Svo tökum við þetta bara í Zagreb! 😀 Á seinni Eurovision/kosningadeginum fórum við systkinin með M&P í sumarbústað í tilefni af afmæli múttu.
Ég vann hörðum höndum með ritstjórn Mímis, blaðs stúdenta í íslenskum fræðum, við að koma út tölublaði 51. Það náðist í lok mánaðarins. Fór á Kvennakórstónleika í Grensáskirkju 3. maí. Ég fór með bókaklúbbnum á söngleikinn Leg í Þjóðleikhúsinu.

Júní: Byrjaði að vinna fulla vinnu. Fór um miðjan mánuðinn til Þýskalands með hele familien. Það var stórgóð ferð þar sem við keyrðum yfir 2000 km á þýsku hraðbrautunum. Áttum góða viku suður við Bodensee í leiguíbúð og vorum svo í nokkra daga í Berlín á leiðinni heim.
Eftir að ég kom heim hófst hin mikla líkamsrækt sem stóð út árið og vel það… Ég fór að fara í sund á hverjum virkum degi í hádeginu (þ.e. sundlaugin var hinum megin við götuna frá vinnustaðnum mínum). Hef sjaldan tekið betri ákvörðun og synti og synti. Bætti þrek og þol og vonandi líkamsástand til einhverra muna.

Júlí: Vinnuvika verkefnastjórnar Á flótta. Sáum Shrek III og Harry Potter 5 í bíó. Buðum t.d. H. og Ó. í mat.

Ágúst: Ágúst leið með hefðbundinni vinnu, bæði á vinnustaðnum og lokavinnslu MA-verkefnis. Verkefnið Vellíðan á Vestfjörðum átti sér stað á Barðaströnd um verslunarmannahelgina. Lögðum hart að okkur um að hafa það nú gott!! 😉 Fórum t.d. í dásamlega göngu á Rauðasandi. Ég fór þó á tónleikana á Miklatúni á menningarnótt og horfði á flugeldasýninguna af svölunum á URKÍ. Í lok mánaðarins fórum við svo stór hópur upp í Landmannahelli þar sem Þóra var skálavörður um sumarið. Þar var dálítið rok og rigning en ofsalega gott að vera og vorum við þar yfir helgina, m.a. vígðum nýtt tjald sem ÁPB fékk í afmælisgjöf. Heimleiðin var ekki eins skemmtileg þar sem vatn fór inn á bílinn (nefni ekki við hvaða aðstæður) og við vorum dregin í bæinn í ískulda.

September: Annarfundur Á flótta 1. sept. Sá Astrópíu með Bíódögum, snilld að fá svona íslenska grínmynd. Var að vesenast með mataræði hluta af mánuðinum, matardagbækur o.fl.
Langþráð dagsetning, 13. sept, leit dagsins ljós: Þegar ég skilaði MA-verkefninu, sem hafði þá verið 9 mánuði í fæðingu (já, það má segja að ég hafi orðið léttari þarna…). Undanfarinn hafði verið langur og ég stússaðist heilmikið í prentun og brennslu á diskum. Allt í allt kostaði það mig tæp 30.000 að útskrifast með MA-próf! Ég fór í gönguferðir og matarboð, hélt fyrirlestur og stússaðist heilmikið fyrir Á flótta-verkefnið. Reyndar var svo leikurinn sem átti að vera á Sauðárkróki undir lok mánaðarins blásinn af. Fór á Vísindavöku í Hafnarhúsi sem fulltrúi vinnunnar minnar.

Október: Fór aðeins í Trimform í byrjun mánaðarins en svo datt það upp fyrir, einna helst vegna tíðra útlandaferða í þessum mánuði og þeim næsta. Ritstjórn Mímis sleit samstarfinu með því að fara út að borða. Haldið var til Póllands 11.-15. október í brúðkaup hjá vinafólki okkar sem við kynntumst fyrst þar í landi árið 2002. Við fórum saman sex og var þetta heilmikið ævintýri á 5 dögum; töskur týndust, brúðkaupið, brúðkaupsveisla nr. 1 og nr. 2, vodkadrykkja og gömul kynni endurnýjuð. Frábær haustferð. Eftir að við komum heim fór ég í speglun, spilaði flóttaleik á Kjalarnesi daginn sem formleg útskrift fór fram úr HÍ (fór bara í vikunni á eftir og sótti plaggið) og hitti fólk í hinum ýmsu klúbbum o.fl.

Nóvember: Í byrjun mánaðar var haldið lítið samsæti í tilefni útskriftarinnar hjá m&p. Ég lét draga úr mér endajaxl, fór í lyfjagjöf og afmæli. Ég hélt aftur til Póllands með Maríu á námskeið um hlutverkaleiki (LARP) dagana 13.-20. nóvember. Þar voru gömul kynni einnig endurnýjuð og stofnað til nýrra. Margar hugmyndir kviknuðu sem vinna þarf meira með. Æðislegt að heimsækja Pólland, sérstaklega Kraków, að vetrarlagi. Jólin nálguðust og við fórum á jólahlaðborð og skárum út laufabrauð. ÁPB tekur upp á að viðbeinsbrotna. Nýr spilaklúbbsmeðlimur lítur dagsins ljós þann 28.11 og ég fer á jólatónleika Kvennakórsins.

Desember: Ég uppgötvaði að ég hef ekki verið upplifað desember án prófa og stress í heil 19 ár, eða síðan ég byrjaði í skóla! Samt var ekki fyrir mikilli jólakyrrð í desember að fara. Mér fannst hann fljúga áfram og ég ekki hafa tíma fyrir neitt. Svona er þetta þegar maður er orðin vinnandi kona! Ég fór með vinnunni á málþing í Reykholti þann 1. desember sem var mjög áhugavert. Fór í klippingu, í bókaklúbb, jólaðist (gerði jólakort og bakaði smákökur), fór á Jólasöngva í Langholtskirkju og borðaði jólamat með systkinum. Rétt fyrir jól lagðist ég í sjálfsdekur þegar ég fór bæði í fótsnyrtingu á Nordica og nudd í Bláa lóninu. Einnig fórum við á jólahlaðborð og í 95 ára afmæli í Iðnó.

Svona hefur nú árið liðið. Vonandi hefur einhver komist í gegnum þetta. Tek fram að þetta eru svona helstu hápunktar hvers mánaðar sem tilgreindir eru. Kannski er þetta mikill sparðatíningur en ég er nú heldur ekki vön því að skrifa „borða-vinna-sofa“-blogg, nema þá bara einu sinni á ári 😀