Sarpur | 14:05

Jóladagatal #7

7 Des

Ég áttaði mig á því að ég hef mun meira gaman af föndri sem viðkemur pappírsskrauti og -dóti, þannig að ég bið þá lesendur (þær) að fyrirgefa sem eru miklar sauma- eða prjónakonur. Ég er bara svakalega lítið inni í svoleiðis hlutum (nema þá kannski útsaumi). Hérna kemur ein lítil uppskrift að pappírsskrauti: Jólatré úr pappa.

Það sem þarf eru grænn pappi, skæri, viðarprjónn (grillpinni t.d.) og límbyssa. Fyrst er byrjað á því að klippa út úr pappanum hringi (5-15 cm). Hver hringur er svo brotinn í fernt, og svo aftur í fernt. Þegar brotið hefur verið er sneitt ofan af hringnum svo að lítið gat sé í miðjunni.

Hringunum er síðan raðað á pinnann eftir stærðarröð (sá minnsti efst) í líki jólatrés. Lítill límdropi er látinn neðan á hvern hring og haldið við í nokkrar sekúndur. Neðsti hringurinn á að gera tréð stöðugt þannig að grillpinninn er klipptur örlítið fyrir ofan neðsta barðið.

Að lokum má skreyta t.d. með því að setja litla gyllta perlu ofan á toppinn á trénu (oddinn á grillpinnanum). Voilá!

Hugmynd: Stolið frá engri annarri en sjálfri Mörthu Stewart!