Sarpur | 12:27

Jóladagatal #18

18 Des

Hugmyndin að 18. glugganum kemur frá enn einni bandarískri handverkskonu; pappírsjólatré í potti.


Það sem þarf er:

 • Ýmis fallegur pappír (fer eftir stærð trésins)
 • Frauðplastkúlur, -keilur eða annað (fer eftir því hvað gera á)
 • Skæri eða dúkahnífur
 • Títuprjónar eða heftari
 • Lím
 • Litlir blómapottar (kallaðir „terracotta“), fást t.d. í föndurbúðum
 • Grænir frauðplasthringir til að setja ofan í pottinn, ef vill
 • Tréprik einhvers konar í trjábolinn
 • Málning
 • Mosi eða föndurmosi, ef vill
 • Skraut

Ef tréð á að vera í potti er byrjað á því að mála pottinn og prikin sem eiga að halda frauðplastinu uppi.

Síðan er græna frauðplastið sett ofan í pottinn og prikið þar ofan í og stóru frauðplastformin fest á. Gott að nota smá lím til að festa með.

Ef vill er hægt að hylja græna frauðplasthringinn með mosa eða föndurmosa og lím notað til að festa, getur jafnvel verið gott að nota títuprjóna líka til festingar.

Litríkur pappír (jólapappír eða föndurpappír) er klipptur niður í renninga.

Síðan eru renningarnir beygðir saman til helminga og festir á með títuprjón eða heftaðir á.

Þetta er gert í hring og síðan bætt annarri röð ofan á. Hægt er að hafa hverja röð með sínu mynstri eða blanda innan raðarinnar, svo má auðvitað hafa tréð einlitt.

Einnig má nota aðra aðferð og þá eru renningarnir klipptir í strimla og krullaðir í endann (vafðir utan um fingur eða blýant). Síðan eru þeir festir á sama hátt og hinir renningarnir á tréð.

Lokahnykkurinn er svo toppurinn á trénu. Þar má t.d. setja stóra slaufu en einnig stjörnu eða annað skraut.

Önnur aðferð var notuð á kúlutréð. Þar var klippt út lítið blóm úr mynstraða pappírnum sem fest er með títuprjón. Aðeins meiri vinna en svolítið krúttlegt:

Hugmynd: Stolið héðan!