Sarpur | 16:05

Jóladagatal #22

22 Des

Það styttist óðum í jólin og síðasti vinnudagurinn fyrir jól er í dag, jibbí!
Ég ætla að setja inn smá jólaföndur fyrir nammigrísina í dag: „Kossamistiltein“ og molatré! Kannski hafið þið séð þetta áður en aldrei er góð (nammi)vísa of oft kveðin!

Fyrst er það „kossamistilteinninn“ eða jólaskraut með Hershey’s kossum. Í það þarf að nota:

  • Frauðplastkúlu/-r (fer eftir því hversu mikill nammigrís þú ert, hvort þú gerir eina eða tvær:) )
  • Hershey’s súkkulaðikossapoka (jólamolarnir eru marglitir, en annars er hægt að nota þessa silfruðu)
  • Borði og límbyssa

Fyrst er borað í gegnum miðja frauðplastkúluna með blýanti eða penna og borði þræddur í gegn. Hann verður að vera nógu langur til að þræða líka í gegnum neðri kúluna ef kúlurnar eru tvær. Borðinn er svo hnýttur undir kúlunni.

Því næst er súkkulaðið límt á með límbyssu (varúð – límið er mjög heitt!)
Síðan má hengja þetta svona upp:

Önnur nammiútfærsla er molatréð. Það er svipuð hugsun og með kossana, en þarf ekki endilega að nota límbyssu.

Það sem þarf er:

  • Frauðplastkeilu
  • Títuprjónar, hefti eða límbyssa
  • Alls kyns molar í bréfi (t.d. Macintosh, Fazer Mint o.fl.)
  • Skraut

Molarnir eru svo bara festir á keiluna með títuprjónum eða lími og byrjað neðst. Þannig vinnur maður sig upp á toppinn og setur svo borða eða skraut efst. Tilvalin jólagjöf fyrir sælgætisfíkla! 🙂