Sarpur | desember, 2009

Jóladagatal #15

15 Des

15. glugginn er líka af föndurvefnum hjá Sorpu og er ákaflega smart jólahitaplatti úr kóktöppum.

Það sem þarf eru:

 • Kóktappar
 • Efnisbútar til að sauma utan um kóktappana
 • Lím
 • Fíltefni
 • Skæri

Allar leiðbeiningarnar eru aðgengilegar hér. Góða skemmtun!

Jóladagatal #14

14 Des

Í 14. glugganum er jólakúla af frábærum föndurvef Sorpu.

Það sem þarf er:

 • Gamalt dagatal eða annan stífan pappír
 • Skæri
 • Lím
 • Glas eða annað hringlaga form
 • Nál og tvinna

Leiðbeiningarnar má allar finna hér.

Jóladagatal #13

13 Des

Í þrettánda glugganum er svolítið jólaskraut frá skemmtilegri handavinnukonu, Lupin.
Hún saumar (flest)allt í höndunum og það kemur virkilega vel út hjá henni.

Það sem þarf til er:

 • Saumanál
 • Títiprjónar
 • Nokkrir litir af fílt-efni (að minnsta kosti tvo)
 • Saumþráður í stíl
 • Borðar til að hengja upp
 • Saumaskæri

Fyrst er mynstrið klippt út og svo sniðið eftir því á efninu.

Síðan eru tveir litir valdir til að fá fram þessa skemmtilegu „contrasta“.
Fyrsta sniðið er svo nælt með títiprjóni á hið síðara – munið að gera ráð fyrir kanti!
Svo er þráður í sama lit og síðara fíltefnið notaður til að sauma hið fyrra við.

Saumsporið verður að vera eins jafnt og hægt er þar sem þetta á líka að vera til skrauts,
en ekki bara til að halda efnisbútunum saman! Hins vegar er líka hægt að nota þráð í sama lit og hið fyrra,
ef maður er ekki mjög klár í saumaskapnum:


Síðan er títiprjónninn tekinn og klippt u.þ.b. 1/2 – 1 cm frá kantinum á efra fíltinu.
Betra að klippa meira en minna, þá er alltaf hægt að taka meira af því síðar.


Nú er komin ein hlið af skrautinu. Hin hliðin er gerð á nákvæmlega sama hátt.

Því næst er borðinn valinn, og brotinn í tvennt til að búa til lykkju. Hann er síðan saumaður aftan á fremra stykkið og á því ekki að sjást í endann þegar báðar hliðar hafa verið saumaðar saman.

Að lokum er bara að sauma hliðarnar saman og það er gert með því að hafa þráðinn í sama lit og neðra fíltið og saumað eins nálægt kantinum á efra fíltinu og hægt er.

Hérna eru hugmyndir Lupinar um mynstur:

Voilá! Svaka fínt á jólatréð!

Hugmynd: Áðurnefnd síða hjá Lupin, hér.

Jóladagatal #12

12 Des

12. færslan í jóladagatalinu er mitt eigið föndur, blúndukertastjaki. Ég fann reyndar svipað á netinu (og bæti hugmyndinni við þegar ég finn hana aftur…) en þá var notast við pappírsdúllur, svipaðar þeim sem notaðar eru undir kökudiska.
Slíkar dúllur eru ekki á hverju strái og því datt mér í hug að nota í staðinn blúndu af gardínu sem ég fékk í Góða hirðinum.

Það sem þarf er glær kertastjaki, límbyssa og dobbelteip, þunnt siffon-efni og blúnda (pappírs eða efnis).

Byrjað er að líma dobbelteipið á glerið sbr. kanilstangakertastjakann.

Síðan er siffonið límt á. Erfiðast var að slétta úr því þannig að það leggðist jafnt yfir allan stjakann.

Síðan klippti ég blúnduna út úr gardínunni sem ég notaði og límdi með límbyssu yfir siffonið.

Eftir þetta var blúndan misvel límd og ekki mjög þétt upp við. Ég lakkaði því yfir með glæru lakki.

Svona kemur þetta þá út!

Jóladagatal #11

11 Des

Í 11. glugganum er uppskrift í krukku sem gæti verið hugmynd að jólagjöf 🙂

Allt sem þarf er:

 • Þurrefnin úr uppáhaldsuppskriftinni þinni
 • Myndir af útkomu uppskriftarinnar
 • Nokkuð stór krukka
 • Skæri og lím
 • Smá skær-/skemmtilega mynstraður efnisbútur
 • Borði
 1. Byrjaðu á því að velja uppáhaldsuppskriftina þína/uppskrift úr fjölskyldunni, sem hefur bæði þurrefni og vökva. Kökur eða smákökur eru tilvaldar og undirbúðu hana.
 2. Komdu þurrefnunum fyrir í krukkunni í lögum eftir áferð og lit (t.d. hveiti, púðursykur, lyftiduft, kanill…)
 3. Skrúfaðu lokið á og festu efnisbútinn á með borðanum.
 4. Taktu svo mynd af útkomunni, t.d. þegar kakan hefur verið bökuð og prentaðu hana út í passamyndarstærð.
 5. Meðfylgjandi krukkunni geturðu látið fylgja aðrar uppáhaldsuppskriftir í litlum bæklingi sem er eins og pakkamiði. Framan á hann límirðu passamyndina af uppskriftinni í krukkunni. Hérna geturðu fundið útlit bæklingsins. Gakktu frá bæklingnum og festu við krukkuna með því að gata eitt hornið og þræða borðann í gegn. Þannig getur sá sem fær gjöfina einnig prófað aðrar skemmtilegar uppskriftir sem þú hefur í pokahorninu um leið og hann klárar að baka það sem í krukkunni er.

Hugmynd: Stolið samviskulaust héðan.

Jóladagatal #10

10 Des

Ahh… loksins tókst mér að klára að skrifa jólakortin! Bunkinn er búinn að liggja fyrir framan mig heillengi og bíða eftir að verða kláraður. Núna er ég á leiðinni með þau í póst, vuhú!

Í tilefni af því er ekki úr vegi að smella inn myndum af herlegheitunum. Mér finnst nú yfirleitt skemmtilegra að vita ekki hvernig jólakortin líta út sem ég fæ, en ykkur finnst kannski bara gaman að sjá þau svona fyrir fram!
Ég bjó þau til frá grunni (nánast) en ætla ekki að útskýra nánar 🙂 Sumir vita þó alveg hvaða efni ég notaði í þau!

Jóladagatal #9

9 Des

Uppfært: Mæli með því að fönduróðir skoði Fréttablaðið í dag, þar er kálfur um handgert skraut 🙂

9. glugginn í jóladagatalinu er þessi pappírsjólastjarna!

Eins og sést á stimplinum á myndunum er þetta ekki mín eigin hugmynd en ég ætla að reyna að framkvæma hana sem fyrst því að mér líst vel á þetta. Það sem þarf er pappír, límstifti og skæri.

Maður þarf fyrst af öllu fallega lit A4-blað/origami-pappír. Sníða þarf það til svo að allar hliðar séu jafnlangar.

Síðan er það brotið í tvennt, svona:

Svo er blaðið brotið aftur í tvennt svo að maður er með lítinn ferning. Svo er blaðið opnað í sundur aftur.

Blaðið er svo brotið langsum svo að annað hornið snerti hitt. Blaðið opnað í sundur aftur.

Blaðið brotið aftur langsum svo að hin hornin tvö snertist. Þegar blaðið er opnað í sundur aftur eiga að sjást 8 þríhyrningar.

Síðan er klippt upp í allar hliðar til hálfs, alls fjórum sinnum.

Brjótið hvert brot frá klippta hlutanum og að brotlínunni í pappírnum.

Svona lítur fyrsti armur stjörnunnar út. Endurtakið þar til allir fjórir eru tilbúnir.

Svona lítur þá stjarnan út:

Síðan er límt með límstiftinu ofan á vinstri helming hvers arms á stjörnunni.

Síðan er hægri hluti armsins límdur ofan á alveg að samskeytum. Þrýst saman. Endurtekið við hina armana líka. Að síðustu getur þurft að ýta brotinu efst á stjörnunni út.

Svona lítur þá fyrri helmingur stjörnunnar út. Endurtakið til að gera seinni helminginn. Helmingarnir er svo límdir saman á þann hátt að allir 8 armar stjörnunnar eru sjáanlegir.

Fínasta stjarna til að hengja í gluggann!

Hugmynd: Stolið héðan (eins og sést)

Jóladagatal #8

8 Des

Í dag ætla ég að sýna ykkur jólasmákökuföndrið mitt á laugardaginn var. Sum sé: jólabakstur.

Þetta er uppskrift frá danskri langömmu minni og nöfnu og þær eru alltaf kallaðar ömmukökur heima hjá mér. 250 gr af smjöri og 250 gr af sykri eru brædd saman í potti og sýrópi bætt út í (100-200 gr). Síðan er kryddi bætt út í og heilum möndlum. Herlegheitin eru krydduð með engiferi, negul, pottösku og allra handa.

Hrært í þar til blandan nær suðumarki. Þá er 500 gr. af hveiti bætt saman við.

Deigið lét ég svo kólna í pottinum í smá stund þar til það varð meðfærilegt. Þá rúllaði ég því upp í lengjur sem síðan eru kældar vel í ísskáp (ca. 3-4 tíma).

Þær eru svo skornar niður í þunnar sneiðar, skellt á bökunarplötu og bakaðar efst í ofni í 7-8 mínútur (135-180°C)

Kökurnar verða þunnar og dálítið stökkar – nammi namm!

Jóladagatal #7

7 Des

Ég áttaði mig á því að ég hef mun meira gaman af föndri sem viðkemur pappírsskrauti og -dóti, þannig að ég bið þá lesendur (þær) að fyrirgefa sem eru miklar sauma- eða prjónakonur. Ég er bara svakalega lítið inni í svoleiðis hlutum (nema þá kannski útsaumi). Hérna kemur ein lítil uppskrift að pappírsskrauti: Jólatré úr pappa.

Það sem þarf eru grænn pappi, skæri, viðarprjónn (grillpinni t.d.) og límbyssa. Fyrst er byrjað á því að klippa út úr pappanum hringi (5-15 cm). Hver hringur er svo brotinn í fernt, og svo aftur í fernt. Þegar brotið hefur verið er sneitt ofan af hringnum svo að lítið gat sé í miðjunni.

Hringunum er síðan raðað á pinnann eftir stærðarröð (sá minnsti efst) í líki jólatrés. Lítill límdropi er látinn neðan á hvern hring og haldið við í nokkrar sekúndur. Neðsti hringurinn á að gera tréð stöðugt þannig að grillpinninn er klipptur örlítið fyrir ofan neðsta barðið.

Að lokum má skreyta t.d. með því að setja litla gyllta perlu ofan á toppinn á trénu (oddinn á grillpinnanum). Voilá!

Hugmynd: Stolið frá engri annarri en sjálfri Mörthu Stewart!

Jóladagatal #6

6 Des

Fór í stórskemmtilegt Skrudduboð með kökum, pökkum og spilum – mér leið eins og jólin væru komin! Takk takk, allar Skruddur!

6. glugginn á jóladagatalinu er þessi fíni jólasveinn í spotta.

Það sem þarf er lítil trékúla/annars konar kúla, rautt og hvítt felt (fæst í föndurbúðum og saumabúðum), pípuhreinsari, límbyssa, svartur penni, nál og tvinni og band til að hengja upp með.

Fyrsta sem gert er er að klippa húfu og skegg út úr feltinu samkvæmt þessu.  Síðan er pípuhreinsarinn þannig að búinn er til hanki á endann á honum en síðan er húfan saumuð utan um hann. Húfan er svo límd á kúluna með því að setja örlítið lím á innra byrðið og skeggið límt á. Augun teiknuð með svörtum penna. Bandið er svo þrætt í gegnum hankann og bundið saman, gott er að líma hnútinn við hankann með smá límdropa!

Hugmynd: Stolið héðan