Sarpur | janúar, 2010

FF #4

28 Jan

Í dag ætla ég að skella inn einni af jólagjöfunum 2009. Hún tók talsverðan tíma en var alveg ótrúlega gaman að gera! 🙂
Ég bjó til krans úr dúskum.

Ég byrjaði á því að fá dúskamót lánuð hjá tengdamömmu. Með þeim verður dúskagerðin leikur einn og ekkert mál að gera 10-15 dúska yfir sjónvarpinu á kvöldin. Þau líta svona út:

Leiðbeiningarnar sem ég sýni hér fæ ég frá þessum föndurbloggara því að ég tók ekki nógu góðar myndir af mínu eigin föndurferli (hennar myndir eru líka mjög góðar)!

Það sem þarf í kransinn er þykkur tágakrans (sem fæst í föndur- og blómabúðum) og a.m.k. fjórir litir af ullargarni.

Tágakransinn er síðan vafinn til að ekki flísist úr honum. Á myndunum er hann vafinn í fílt en ég vafði nú bara Vitawrapi utan um og það virkaði fínt.

Þegar dúskarnir eru gerðir er passað upp á að skilja tvo þræði eftir þegar klippt er. Ég lærði það af reynslunni því að fyrstu 20 dúskana gerði ég bara með einum þræði og endaði með því að þurfa að losa þá alla frá. Þræðirnir tveir eru svo notaðir til að binda dúskana þétt upp á kransinn.

Dúskunum er raðað þannig á kransinn að litirnir dreifist jafnt og eins að það sé regla á þeim.

Þegar kransinn er tilbúinn má sjá regluleikann í dúskunum, sbr. hér:

Í leiðbeiningunum setur hún litla hjartarstyttu neðst á kransinn upp á svona „vintage touch“.

Mér fannst það frábær hugmynd og setti lítinn hund. Þið takið kannski eftir því að kransinn minn er mun stærri en í leiðbeiningunum en mér fannst hann koma mjög vel út.

Svona krans væri jafnvel hægt að hafa uppi allt árið en ekki bara um jólin. Þetta gæti a.m.k. verið svona haustkrans – er það ekki?

Aðra dásamlega hugmynd að kransi má finna hér, hann er gerður úr fíltkúlum:

Bókahilla vikunnar

27 Jan

Mjög fagrar bókahillur sem eru hagnýtar líka!
Fann þær á þessari síðu.

Í tveggja hæða húsi væri þetta náttúrulega upplagt!

Topp tónlistin 2009 (íslensk)

25 Jan

Frá áramótum hefur mig langað að birta lista yfir það skemmtilegasta sem ég hlustaði á á árinu 2009. Ég var sérstaklega dugleg að hlusta á íslenska tónlist – og keypti mér meira af íslenskum diskum en nokkru sinni fyrr!

Hérna er listinn minn yfir bestu íslensku plöturnar 2009:

10. Sykur – Frábært eða frábært
Hlustaði bara lítillega á þessa plötu en þarf að taka hana til frekari skoðunar. Úrvals synthapopp. Besta lag: Rocketship.


9. Árstíðir – Árstíðir
Árstíðir komu á óvart með tærar raddir og gullfallegar melódíur. Eitthvað við lögin þeirra sem er svo svakalega kunnuglegt. Bestu lög: Sunday Morning og Látum okkur sjá.


8. Á Ljúflingshól – Sigríður Thorlacious og Heiðurspiltar
Fallegu lögin eftir Jónas og Jón Múla Árnasyni í skemmtilegum útsetningum sungin af góðri söngkonu. Getur varla klikkað! Bestu lög: Í hjarta þér og Sérlegur sendiherra.


7. Trúbatrix – Taka 1
Þessi diskur kom mér á óvart og ég set hann hérna inn af því að lögin eru fjölbreytt og skemmtileg og mjög mikil gróska. Bestu lög: Þynnkublús og En þú varst ævintýr.


6. Feldberg – Don’t be a stranger
Ég hafði hlustað aðeins á Eberg áður og þessi plata kom sem himnasending. Fór ekki úr spilaranum í lengri tíma! Bestu lög: Eiginlega öll, helst í einum rikk!


5. Hjálmar – IV
Marglofuð plata og stendur gersamlega undir öllu lofinu. Fór með ÁPB á forsýningu myndarinnar (sem fylgir disknum) og forsýningartónleikana, sem stóð upp úr af tónleikum á árinu. Besta lag: Taktu þessa trommu.


4. Múm – sing along to songs you don’t know
Mjög skemmtileg plata og allt öðruvísi tónlist en múm hafði verið að gera. Enginn sem er svikinn af að eignast þessa plötu. Besta lag: Húllabbalabbalú.


1.-3. Bloodgroup – Dry land
Ég gat eiginlega ekki gert upp á milli þriggja efstu en hlustaði sama og ekkert á nýju Bloodgroup fyrr en eftir jól. Hún er alveg svakalega góð og er ekki enn farin úr spilaranum. Bestu lög: Öll.


1.-3. Hjaltalín – Terminal
Þessi önnur plata Hjaltalín er svo yfirmáta vel unnin og flott heild að það er engu lagi líkt. Loksins fáum við líka að heyra hvað Sigríður Thorlacius er rosalega góð söngkona! 😉 Besta lag: Feels Like Sugar.


1.-3. Hermigervill – Leikur vinsæl íslenzk lög
Ef ég væri neydd til að taka eina plötu frá 2009 með mér á eyðieyju myndi ég taka þessa snilld með mér! Öll lögin eru stórkostleg hvert á sinn hátt og hugmyndin er svo góð. Uppgötvun ársins!

Topp tónlistin 2009 (erlend)

24 Jan

Frá áramótum hefur mig langað að birta lista yfir það skemmtilegasta sem ég hlustaði á á árinu 2009. Ég var mun meðvitaðri í hlustun á erlendu efni á síðasta ári  en oft áður og það skilaði sér í mjög fjölbreyttri skemmtun og mörgum uppgötvunum (þó að þær hafi ekki allar verið frá 2009, heldur margar frá 2008 og 2007)

Hérna er listinn minn yfir bestu erlendu plöturnar 2009:

10. Kanye West – 808s and heartbreaks
Hlustaði svolítið á þessa plötu fyrri hluta árs, síðasta ár var þó ekki besta ár flytjandans (hehe). Besta lag: Say You Will.

9. Muse – The Resistance
Þessi plata kom nú ekki mikið fyrir hjá mér á síðasta ári, hef meira hlustað á hana það sem af er 2010. Inniheldur þó marga hittara, t.d. Undisclosec Desires.

8. Franz Ferdinand – Tonight: Franz Ferdinand
Hressleiki og djamm, besta lag: Hittarinn Ulysses.

7. Empire of the Sun – Walking On a Dream
Féll í stafi þegar ég heyrði í þessum svölu Áströlum, hljómurinn og raddanirnar svo skemmtilegar. Besta lag: Hittarinn Walking On a Dream og We Are the People.

6. Lily Allen – It’s Not Me It’s You
Ég fíla Lily, hún er að mörgu leyti eins og Megas okkar: Lagasmíðirnar eru mjög skemmtilegt popp og textarnir smellnir. Bestu lög: The Fear, Not Fair, 22.

5. Florence and the Machine  – Lungs
Hluti af þessari „female artist“-bylgju sem virðist vera við lýði núna (vúhú). Ógnarhress og kjaftfor. Bestu lög: Kiss with a Fist, Drumming, You’ve Got the Love og Rabbit Heart.

4. Bat For Lashes – Two Suns
Algjörlega frábær tónlistarmaður, þó að ég hafi fremur fílað fyrri plötuna hennar Fur and Gold sem heildarverk. Þessi rennur þó mjög ljúflega í gegn og ég hlakka til að heyra meira. Bestu lög: Sleep Alone, Moon and Moon, hittarinn Daniel og Pearl’s Dream.

3. Karen O and the Kids – Soundtrack from Where the Wild Things Are
Þessa tónlist uppgötvaði ég alveg óvart og finnst hún alveg hreint yndisleg. Komst að því að þessi Karen O er söngkona í hljómsveitinni The Yeah Yeah Yeahs sem ég kannast lítillega við. Fyrir ykkur sem ekki þekkið myndina (er ekki komin í sýningu hér) er hér á ferð falleg barnamynd eftir einni skemmtilegustu barnabók sem ég hef lesið. Mæli með henni – og auðvitað tónlistinni. Bestu lög: Allt saman!


2. Röyksopp – Junior
Flestir kannast nú við Norðmennina úr Röyksopp og þessi plata er algjör snilld. Þeir fá sænsku súbersöngkonurnar Robyn, Lykke Li og söngkonu The Knife í lið með sér og útkoman er svakaleg partíplata sem batnar við hverja hlustun. Bestu lög: The Girl And The Robot og It’s What I Want.

1. La Roux – In For the Kill
Uppgötvun ársins. Alveg svakalega heilsteypt og flott plata og söngkonan Eleanor Jackson algjört dúndur. Hvet alla til að kynna sér þessa plötu! Bestu lög: In for the Kill, Quicksand, hittarinn Bulletproof og Fascination.

Skelli svo inn íslensku plötunum 2009 við tækifæri!

FF #3

21 Jan

Í dag verður föndrið í einfaldara lagi, en þó tvenns konar. Ég veit að fólk á almennt mikið af glerkertastjökum, glervösum og -glösum sem tilvalið er að hressa aðeins upp á!

Annars vegar tók ég litla glerflösku (ávaxtadrykkjarflösku, pillaði miðann af) og einn af blúndudúkunum úr Góða hirðinum sem ég virðist alltaf enda með á kassanum 🙂
Ég klippti svo fallega dúllu út úr blúndunni:

Í þetta skiptið ákvað ég að nota bara tvöfalt límband (dobbelteip) í stað límbyssunnar, en ég er viss um að það gengur líka. Það er bara töluvert meira klessuverk. Það eina við dobbelteipið er að það kemur til með að gulna svolítið með tímanum en ég er ekki viss um að það sé svo slæmt, kemur kannski bara vel út.

Útkoman er þá á þessa leið þegar búið er að líma dúlluna á. Kannski kæmi líka vel út að lakka yfir hana, en ég nennti ekki að hafa fyrir því!

Hins vegar datt mér í hug að nota betur nótnaheftin sem ég notaði í jólapakkana og skreytti litla teljósastjaka sem ég átti:

Dobbelteipið kemur að mjög góðum notum hér líka 🙂

Þegar ég var búið að líma nótnablaðið á stjakann skar ég umfram pappírinn af.

Til þess að svona glerstjakar brenni ekki för í undirlagið er gott að setja fílt-tappa undir, eins og undir stóla.

Voilá! Nú hafið þið e-ð að gera yfir helgina 😉

Bókahilla dagsins

20 Jan

Þar sem ég er heilluð af nýjum notum fyrir gamla muni þessa dagana fannst mér þessar bókahillur dálítið skemmtilegar.

Hönnuðurinn, Isabel Quiroga, keypti notuð borð og bjó til þessa fínu hillu og gaf henni nafnið Storyteller sem er sannarlega réttnefni því að þessi borð eiga hvert sína sögu.

(fengið héðan)

FF #2

14 Jan

Eruð þið jafnspennt og ég fyrir Fimmtudagsföndri nr. 2?

Í þessari viku gerði ég minn eigin kökustand! (e. tall tier) Mig hefur lengi langað í e-n svipaðan þessum

en aldrei fundið neinn nógu fínan eða á viðráðanlegu verði! Þá er um að gera að föndra bara einn!

Ég byrjaði á því að fara tvær ferðir í Góða hirðinn og kaupa mér fallega diska, matar-og kaffidiska. Síðan keypti ég blóma- og kertastjaka til að setja á milli, ætlaði líka að nota eggjabikara en fann enga fína. Þetta er allt sem þarf auk GÓÐS postulínslíms (ég notaði Epoxy-lím sem þarf kjarnorkuvetur til að losa í sundur)

Ég merkti svo miðjuna á diskunum svo að ég gæti miðað við hana þegar ég límdi stjakana á. Því að maður lagar það ekkert svo glatt, það er bara ein tilraun!

Ég hafði stærri vasa (eiginlega ísskál) undir neðsta diskinum upp á stöðugleikann.

Límið þurfti að taka sig vel og því límdi ég þetta í nokkrum áföngum. Og á endanum lítur þetta svona út:

Ég var að hugsa hvort ég hefði átt að mála diskana hvíta en eftir á að hyggja finnst mér þetta meira töff svona. Hvað segið þið?

Bókahilla vikunnar!

13 Jan

Er ekki löngu kominn tími á þetta? Datt alveg upp fyrir í jóladagatalsbrjálæðinu…

Mér finnst lágar bókahillur ofsalega skemmtilegar. Þær minna mig á gamaldagsbókasöfn.

Svona hillur geta stækkað rými og gefa manni tækifæri til að hengja fallegar myndir á veggina/setja fallega muni ofan á. Eini ókosturinn er að það kemst ekkert voðalega mikið í þær – nema kannski að maður komi þeim fyrir meðfram öllum veggjum!

Ég fékk smá jólafíling (var ekki skammturinn búinn??!!) þegar ég fékk þetta sent í pósti í gær:

Góð áminning!

12 Jan

FF #1

7 Jan

__________________________________________________________________________________

Ég er ótrúlega spennt að prófa þennan nýja lið hérna á blogginu: Fimmtudagsföndrið. Hérna ætla ég að (reyna að) setja inn í hverri viku skemmtilegt og fjölbreytt föndur… og er nú þegar komin með fjölmargar hugmyndir!

Fyrsta færslan er áramótaspöngin sem ég bjó til.

Það sem ég notaði var hvít spöng úr föndurbúð (kostar ca. 250-350 kr), blúndur úr gardínum (keyptar í Góða hirðinum á 200 kr) og ein hvít tala (fékk hjá mömmu) + límbyssan góða.

Ég byrjaði á að velja fallegan hluta úr blúndunni til að klippa út.

Síðan stífaði ég blúndubútana upp úr sykurlausn (sykur leystur upp í vatni). Það á víst líka að vera gott að stífa upp úr undanrennu. Svo vindur maður bútana vel og festir með títuprjónum/teiknibólum á t.d. frauðplast til þerris.
Þegar þetta var allt saman orði vel þurrt og hart festi ég blúnduna á spöngina með límbyssunni (varúð, heitt lím!)
Talan var svo sett sem punkturinn yfir i-ið! 🙂

Blúndan varð ekkert voðalega stíf hjá mér og ég gat alveg beygt hana í boga yfir spöngina. Kannski væri lokahnykkurinn að spreyja yfir með stífispreyi sem fæst í stórmörkuðum.

Og hvernig líst ykkur svo á?
Fyrst að ég gat gert þetta, getið þið það líka!

(Uppruni þemamyndar: Héðan)