Sarpur | 09:30

FF #4

28 Jan

Í dag ætla ég að skella inn einni af jólagjöfunum 2009. Hún tók talsverðan tíma en var alveg ótrúlega gaman að gera! 🙂
Ég bjó til krans úr dúskum.

Ég byrjaði á því að fá dúskamót lánuð hjá tengdamömmu. Með þeim verður dúskagerðin leikur einn og ekkert mál að gera 10-15 dúska yfir sjónvarpinu á kvöldin. Þau líta svona út:

Leiðbeiningarnar sem ég sýni hér fæ ég frá þessum föndurbloggara því að ég tók ekki nógu góðar myndir af mínu eigin föndurferli (hennar myndir eru líka mjög góðar)!

Það sem þarf í kransinn er þykkur tágakrans (sem fæst í föndur- og blómabúðum) og a.m.k. fjórir litir af ullargarni.

Tágakransinn er síðan vafinn til að ekki flísist úr honum. Á myndunum er hann vafinn í fílt en ég vafði nú bara Vitawrapi utan um og það virkaði fínt.

Þegar dúskarnir eru gerðir er passað upp á að skilja tvo þræði eftir þegar klippt er. Ég lærði það af reynslunni því að fyrstu 20 dúskana gerði ég bara með einum þræði og endaði með því að þurfa að losa þá alla frá. Þræðirnir tveir eru svo notaðir til að binda dúskana þétt upp á kransinn.

Dúskunum er raðað þannig á kransinn að litirnir dreifist jafnt og eins að það sé regla á þeim.

Þegar kransinn er tilbúinn má sjá regluleikann í dúskunum, sbr. hér:

Í leiðbeiningunum setur hún litla hjartarstyttu neðst á kransinn upp á svona „vintage touch“.

Mér fannst það frábær hugmynd og setti lítinn hund. Þið takið kannski eftir því að kransinn minn er mun stærri en í leiðbeiningunum en mér fannst hann koma mjög vel út.

Svona krans væri jafnvel hægt að hafa uppi allt árið en ekki bara um jólin. Þetta gæti a.m.k. verið svona haustkrans – er það ekki?

Aðra dásamlega hugmynd að kransi má finna hér, hann er gerður úr fíltkúlum: