Sarpur | febrúar, 2010

FF #8

25 Feb

Fimmtudagsföndrið í þetta sinn hefur verið mjöööög lengi í vinnslu og er loksins tilbúið. Ég hef nefnilega verið að flikka upp á lampafætur og búa mér til lampa!

Þetta byrjaði eins og oft áður í Góða hirðinum þar sem ég fann þennan líka ljóta lampafót, gylltan með útskornum marmarastykkjum. Ég keypti hann og ákvað að pússa marmarann og lakka hann svartan.

Svona leit þetta allt saman út. Sem betur fór voru hlutirnir bara skrúfaðir saman og nóg var að losa eina skrúfu og þá var hægt að taka allan fótinn í sundur.

Smekklegt, ha?

Ég byrjaði á grunninum sem var spreyjaður á hlutina. Eins og sést á myndinni var skarð í neðsta marmarahringnum og ég ákvað að sparsla upp í það. Sem var nú meira málið… að sparsla og pússa svona er algjör geðveikisvinna. Á endanum var þetta þó orðið nokkuð slétt hjá mér svo að ég grunnaði hann aftur.

Eftir að hafa grunnað stykkin varð ég að hengja þau upp í spotta í bílskúrnum hjá pabba til þess að geta lakkað. Með því tókst mér að lakka allt í einu (tímasparnaður) og fá jafna áferð (enga uppsafnaða dropa eða helgidaga).

Hann er nú farinn að taka á sig dálitla mynd, fóturinn.

Svona lítur hann út tilbúinn. Nú þarf bara að kaupa nýtt perustæði (sem verður svart í stíl við fótinn, en ekki hvítt eins og það sem fyrir er) og þá er hann tilbúinn!

Eins og alvöru föndrarar er ég líka með einn lampa tilbúinn til að sýna ykkur. Ég lakkaði hann og pússaði á undan en klikkaði á að taka myndir af því ferli. Hann er stærri og með útskorna gyllta fætur og stykki.

Ég keypti nýtt perustæði og kló á hann og skerm úr Ilvu, kemur hann ekki bara svolítið vel út?

Uppfært 02.03.2010:

Hérna er  mynd af hinum lampanum með skermi og öllu!!

FF #7

18 Feb

Föndrið í dag er ein af jólagjöfum síðustu jóla – bók sem er hol að innan! Gaf bróður mínum hana, fannst þetta svona strákaleg gjöf og því kannski hægt að gera svona fyrir litla strákaprakkara 🙂

Ég byrjaði á því að kaupa gamla bók í Góða hirðinum. Þar má finna bækur og blöð frá 50-200 kr. og því einstaklega hentugt fyrir budduna.

Bókin var á dönsku og leit svona svolítið veglega út, sem ég held að skipti máli. T.d. er örugglega verra að búa til hola bók úr þunnri bók og hún verður að vera innbundin.

Það sem ég notaði var sum sé téð bók, reglustika, límblanda (fljótandi lím+örlítið vatn) og dúkahnífur.

Ég byrjaði á því að taka fyrstu síðuna frá, en það verður útskýrt á eftir hvers vegna. Síðan gluðaði ég heilmiklu lími á blaðsíður bókarinnar þegar hún var lokuð. Ég tók fyrstu blaðsíðuna frá með því að setja pappaspjald á milli hennar og næstu. Þá límdist hún ekki við restina sem er mikilvægt.

Síðan er farg sett ofan á bókina og látið standa. Ég þurfti að endurtaka líminguna tvisvar sinnum því að blaðsíður bókarinnar voru dálítið verptar (gömul bók) og því ekki alveg rennisléttar.

Síðan mældi ég með reglustikunni stærðina á gatinu og miðaði við að taka allan þann flöt sem texti var á. Best er að strika síðurnar  út og skera með fram strikinu svo að þetta sé allt sem nákvæmast!

Þetta er LANGMESTA vinnan, að sarga í gegnum 6-700 síður með dúkahníf þannig að maður rífi ekki rammann um blaðsíðurnar í leiðinni er mikið þolinmæðisverk!

Þegar loksins glittir í síðustu síðuna og að lokum kápuna er skurðurinn snyrtur og síðan penslaður með lími.

Að lokum er fyrsta síðan lögð yfir og límd sérstaklega. Þannig er hægt að hylja öll strik eftir mælingar reglustikunnar og ónákvæma skurði með fyrstu síðunni. Svo er hún skorin út með fram hinum skurðinum.

Lokaafurðin lítur því svona út og ég var ofsa stolt að ná að klára hana! Að vísu hefði ramminn mátt vera jafnari en ég kenni verptum og þvældum síðum notaðrar bókar fremur um en óvönduðum skurði föndrarans!

Ég pakkaði svo ýmsu smádóti ofan í og pakkaði inn í gjafapappír. Þannig var þetta tvöföld ánægja; hol bók og aukadót sem var inni í henni. Ekki sniðugt?

(Myndir: Héðan)

FF#6

11 Feb

Föndrið mitt þessa vikuna hefur snúist um þetta blessaða teboð sem stendur til að halda seinna í dag. Það er meira sem þarf að pæla í fyrir svona dömuteboð 🙂

Fimmtudagsföndrið eru því heimildir um þennan undirbúning. Þetta útbjó ég til dæmis í gærkvöldi og glöggar tedrykkjukonur geta hugsanlega ímyndað sér hvað hér er á ferðinni:

Hér að neðan sést eina* föndrið sem ég útbjó. Þetta er forláta borði (e. garland) sem ég klippti út úr efnisbútum og strengdi á veggina. Mér finnst svona alltaf svo skemmtilegt og minnir mig pínulítið á vorið sem er örugglega alveg að koma!

(* ekki alveg eina föndrið sem ég gerði, hitt föndrið fá teboðsgestir að sjá fyrstir)

Svo er það meiri veitingaundirbúningur. Víí, ég hlakka til!

Euro-, evró- og júróvisjón!

7 Feb

Ég vil bara minna fólk á að ef það saknar Evróvisjón-umfjöllunar þá er hana alfarið að finna núna á sameiginlegri síðu minni og Hildar Tryggvadóttur Flóvenz, á www.jurovision.wordpress.com!

Kíktu þangað!

FF #5

4 Feb

Föndrið í dag er sögulegt að því leyti að það var búið til á fyrsta formlega fundi Föndurheimsveldisins!Föndurheimsveldið eru ég, HTF og KP og þrátt fyrir að vera bara þrjár er þetta engu að síður heimsveldi „in making“! Við vorum ótrúlega framleiðnar (þ.e. framleiddum helling) og ætlum sannarlega að hittast aftur svona. Auglýsum hér með eftir umsóknum nýrra meðlima, sem verða þó að vera einbeittir föndrarar! 🙂

Ég bjó til hálsmen úr blúndu. Undirbúningsvinnuna vann ég heima. Þá klippti ég blúndu út úr koddaveri sem ég komst yfir. Kosturinn við það er að svona blúndur eru fjórar á koddaverinu og því gæti ég gert þrjú hálsmen í viðbót:

Blúnduna stífaði ég svo í heitu sykurvatni (sbr. 1. fimmtudagsföndrið) og lét þorna vel. Hún var því orðin stíf þegar ég fór á heimsveldisfund. Ég tók mig svo til og saumaði blúnduna á appelsínugult fílt.

Fíltið var svo klippt til.

Að lokum klippti ég svolítil göt í fíltið og þræddi í gegn keðju. Ég hafði keypt nokkuð grófa keðju í Byko en keðjur fást auðvitað í föndurbúðum líka.

Svona varð því afraksturinn! Nokkuð sátt með hann og einstaklega gott að föndra í félagi við fleiri því að þá fær maður leiðbeiningar og hrós sem er alltaf vel þegið 🙂

Ég prófaði svo hálsmenið þegar ég kom heim. Myndin er að mestu úr fókus en skilar því sem skila þarf, ekki satt? Kemur þetta ekki bara vel út?

– og nú vil ég fá komment frá þeim sem lesa alla færsluna, það væri gaman að sjá hverjir kíkja hérna inn (híhí)