Sarpur | 08:44

FF #5

4 Feb

Föndrið í dag er sögulegt að því leyti að það var búið til á fyrsta formlega fundi Föndurheimsveldisins!Föndurheimsveldið eru ég, HTF og KP og þrátt fyrir að vera bara þrjár er þetta engu að síður heimsveldi „in making“! Við vorum ótrúlega framleiðnar (þ.e. framleiddum helling) og ætlum sannarlega að hittast aftur svona. Auglýsum hér með eftir umsóknum nýrra meðlima, sem verða þó að vera einbeittir föndrarar! 🙂

Ég bjó til hálsmen úr blúndu. Undirbúningsvinnuna vann ég heima. Þá klippti ég blúndu út úr koddaveri sem ég komst yfir. Kosturinn við það er að svona blúndur eru fjórar á koddaverinu og því gæti ég gert þrjú hálsmen í viðbót:

Blúnduna stífaði ég svo í heitu sykurvatni (sbr. 1. fimmtudagsföndrið) og lét þorna vel. Hún var því orðin stíf þegar ég fór á heimsveldisfund. Ég tók mig svo til og saumaði blúnduna á appelsínugult fílt.

Fíltið var svo klippt til.

Að lokum klippti ég svolítil göt í fíltið og þræddi í gegn keðju. Ég hafði keypt nokkuð grófa keðju í Byko en keðjur fást auðvitað í föndurbúðum líka.

Svona varð því afraksturinn! Nokkuð sátt með hann og einstaklega gott að föndra í félagi við fleiri því að þá fær maður leiðbeiningar og hrós sem er alltaf vel þegið 🙂

Ég prófaði svo hálsmenið þegar ég kom heim. Myndin er að mestu úr fókus en skilar því sem skila þarf, ekki satt? Kemur þetta ekki bara vel út?

– og nú vil ég fá komment frá þeim sem lesa alla færsluna, það væri gaman að sjá hverjir kíkja hérna inn (híhí)