Sarpur | 13:43

FF #7

18 Feb

Föndrið í dag er ein af jólagjöfum síðustu jóla – bók sem er hol að innan! Gaf bróður mínum hana, fannst þetta svona strákaleg gjöf og því kannski hægt að gera svona fyrir litla strákaprakkara 🙂

Ég byrjaði á því að kaupa gamla bók í Góða hirðinum. Þar má finna bækur og blöð frá 50-200 kr. og því einstaklega hentugt fyrir budduna.

Bókin var á dönsku og leit svona svolítið veglega út, sem ég held að skipti máli. T.d. er örugglega verra að búa til hola bók úr þunnri bók og hún verður að vera innbundin.

Það sem ég notaði var sum sé téð bók, reglustika, límblanda (fljótandi lím+örlítið vatn) og dúkahnífur.

Ég byrjaði á því að taka fyrstu síðuna frá, en það verður útskýrt á eftir hvers vegna. Síðan gluðaði ég heilmiklu lími á blaðsíður bókarinnar þegar hún var lokuð. Ég tók fyrstu blaðsíðuna frá með því að setja pappaspjald á milli hennar og næstu. Þá límdist hún ekki við restina sem er mikilvægt.

Síðan er farg sett ofan á bókina og látið standa. Ég þurfti að endurtaka líminguna tvisvar sinnum því að blaðsíður bókarinnar voru dálítið verptar (gömul bók) og því ekki alveg rennisléttar.

Síðan mældi ég með reglustikunni stærðina á gatinu og miðaði við að taka allan þann flöt sem texti var á. Best er að strika síðurnar  út og skera með fram strikinu svo að þetta sé allt sem nákvæmast!

Þetta er LANGMESTA vinnan, að sarga í gegnum 6-700 síður með dúkahníf þannig að maður rífi ekki rammann um blaðsíðurnar í leiðinni er mikið þolinmæðisverk!

Þegar loksins glittir í síðustu síðuna og að lokum kápuna er skurðurinn snyrtur og síðan penslaður með lími.

Að lokum er fyrsta síðan lögð yfir og límd sérstaklega. Þannig er hægt að hylja öll strik eftir mælingar reglustikunnar og ónákvæma skurði með fyrstu síðunni. Svo er hún skorin út með fram hinum skurðinum.

Lokaafurðin lítur því svona út og ég var ofsa stolt að ná að klára hana! Að vísu hefði ramminn mátt vera jafnari en ég kenni verptum og þvældum síðum notaðrar bókar fremur um en óvönduðum skurði föndrarans!

Ég pakkaði svo ýmsu smádóti ofan í og pakkaði inn í gjafapappír. Þannig var þetta tvöföld ánægja; hol bók og aukadót sem var inni í henni. Ekki sniðugt?

(Myndir: Héðan)