Sarpur | 08:56

FF #8

25 Feb

Fimmtudagsföndrið í þetta sinn hefur verið mjöööög lengi í vinnslu og er loksins tilbúið. Ég hef nefnilega verið að flikka upp á lampafætur og búa mér til lampa!

Þetta byrjaði eins og oft áður í Góða hirðinum þar sem ég fann þennan líka ljóta lampafót, gylltan með útskornum marmarastykkjum. Ég keypti hann og ákvað að pússa marmarann og lakka hann svartan.

Svona leit þetta allt saman út. Sem betur fór voru hlutirnir bara skrúfaðir saman og nóg var að losa eina skrúfu og þá var hægt að taka allan fótinn í sundur.

Smekklegt, ha?

Ég byrjaði á grunninum sem var spreyjaður á hlutina. Eins og sést á myndinni var skarð í neðsta marmarahringnum og ég ákvað að sparsla upp í það. Sem var nú meira málið… að sparsla og pússa svona er algjör geðveikisvinna. Á endanum var þetta þó orðið nokkuð slétt hjá mér svo að ég grunnaði hann aftur.

Eftir að hafa grunnað stykkin varð ég að hengja þau upp í spotta í bílskúrnum hjá pabba til þess að geta lakkað. Með því tókst mér að lakka allt í einu (tímasparnaður) og fá jafna áferð (enga uppsafnaða dropa eða helgidaga).

Hann er nú farinn að taka á sig dálitla mynd, fóturinn.

Svona lítur hann út tilbúinn. Nú þarf bara að kaupa nýtt perustæði (sem verður svart í stíl við fótinn, en ekki hvítt eins og það sem fyrir er) og þá er hann tilbúinn!

Eins og alvöru föndrarar er ég líka með einn lampa tilbúinn til að sýna ykkur. Ég lakkaði hann og pússaði á undan en klikkaði á að taka myndir af því ferli. Hann er stærri og með útskorna gyllta fætur og stykki.

Ég keypti nýtt perustæði og kló á hann og skerm úr Ilvu, kemur hann ekki bara svolítið vel út?

Uppfært 02.03.2010:

Hérna er  mynd af hinum lampanum með skermi og öllu!!