Fimmtudagsföndrið í þetta sinn hefur verið mjöööög lengi í vinnslu og er loksins tilbúið. Ég hef nefnilega verið að flikka upp á lampafætur og búa mér til lampa!
Þetta byrjaði eins og oft áður í Góða hirðinum þar sem ég fann þennan líka ljóta lampafót, gylltan með útskornum marmarastykkjum. Ég keypti hann og ákvað að pússa marmarann og lakka hann svartan.
Svona leit þetta allt saman út. Sem betur fór voru hlutirnir bara skrúfaðir saman og nóg var að losa eina skrúfu og þá var hægt að taka allan fótinn í sundur.
Smekklegt, ha?
Ég byrjaði á grunninum sem var spreyjaður á hlutina. Eins og sést á myndinni var skarð í neðsta marmarahringnum og ég ákvað að sparsla upp í það. Sem var nú meira málið… að sparsla og pússa svona er algjör geðveikisvinna. Á endanum var þetta þó orðið nokkuð slétt hjá mér svo að ég grunnaði hann aftur.
Eftir að hafa grunnað stykkin varð ég að hengja þau upp í spotta í bílskúrnum hjá pabba til þess að geta lakkað. Með því tókst mér að lakka allt í einu (tímasparnaður) og fá jafna áferð (enga uppsafnaða dropa eða helgidaga).
Hann er nú farinn að taka á sig dálitla mynd, fóturinn.
Svona lítur hann út tilbúinn. Nú þarf bara að kaupa nýtt perustæði (sem verður svart í stíl við fótinn, en ekki hvítt eins og það sem fyrir er) og þá er hann tilbúinn!
Eins og alvöru föndrarar er ég líka með einn lampa tilbúinn til að sýna ykkur. Ég lakkaði hann og pússaði á undan en klikkaði á að taka myndir af því ferli. Hann er stærri og með útskorna gyllta fætur og stykki.
Ég keypti nýtt perustæði og kló á hann og skerm úr Ilvu, kemur hann ekki bara svolítið vel út?
Uppfært 02.03.2010:
Hérna er mynd af hinum lampanum með skermi og öllu!!
Vá ekkert smá flottir! Þú ert sko alvöru föndrari!
vóts hólí mólí makkaróní hvað þetta er töff
Mér finnst þetta ægilega fínt. Ég hef séð tilbúna lampann í „holdinu“ og get vottað að hann er mjög smart. Nýi lampinn verður það ugglaust líka. Til lukku með þetta, veena.
Hugmyndaflugið! Þetta er mjög fínt hjá þér Eyrún 🙂
Vá, rosalega kemur þetta flott út. Skemmtileg hugmynd sem verður enn betri eftir svona persónulegt föndur.
Til hamingju með flotta lampa Eyrún mín
Kveðja pabbi
Very beautiful!
Mjög metnaðarfullt og flott föndur. Verrí næs.
Þú ert nú algjör snillingur 🙂 Geggjaðir lampar hjá þér!!
Þetta er mjög flott hjá þér, er ekki hægt að kaupa hjá þér lampa ef þú heldur þessu áfram?
… ég veit nú ekki alveg hvort ég leggi í að fjöldaframleiða svona, þetta er nefnilega dálítið moj þegar maður getur ekki gert þetta hérna heima. Ég var að þessu í bílskúrnum hjá pabba og hann var nú ekkert alltof sáttur að lána „athvarfið“ sitt! 😉
Sjúklega flottur. Þú ert snillingur.
Hæ Eyrún! Ótrúlega flottur lampi hjá þér.
Ég á einmitt svona svipaðann lampa, frá ömmu, og langar að gera hann nothæfann.
En værir þú til í að skrifa hér inn á hvaða efni þú ert að nota og hvar þau eru keypt? T.d grunnurinn og lakkið…
Með fyrirfram þökk og gangi þér vel í komandi föndrum.
Kv. Arna
Takk fyrir hrósin, mínar kæru!
Arna, ég byrjaði því að pússa marmarakúlurnar með bara mjög fínum sandpappír (svo að allar ójöfnur færu en ekki rispa þær). Ég fékk spreygrunn (gráan) hjá pabba, en það er hægt að nota hvernig grunn sem er. Mjög þægilegt að spreyja honum bara beint á.
Lakkið sem ég keypti var matt föndurlakk í lítilli 2-300 ml dós og ég fékk hana í málningardeildinni í Byko – þeir vissu nákvæmlega hvað mig vantaði þegar ég sagðist ætla að nota þetta í föndur.
Vonandi gengur þetta hjá þér, mátt endilega senda mér mynd af lampanum þegar þú klárar 😉
Ofsalega fínn nýi lampinn þinn!
Þetta er geðveikt flott Eyrún, þú ert snillingur!!!
Þetta er bara æðislegt, ég er einmitt með einn svona marmarahlunk sem ég er ekkert of hrifin af, en get ekki hent honum þar sem mamma á hann
held ég fái bara leyfi til að pimpa hann upp eins og þú gerir svo snilldarlega við þinn.
Þú ert algjör snillingur =) takk fyrir frábæra hugmynd!
Ég VERÐ að gera þetta. Ég er búin að fara endalaust margar ferðir í Góða Hirðinn að leita mér að fallegum lampa í gömlum stíl og eingöngu fundið lampa sem líkjast þessum sem þú keyptir. Mér datt ekki í hug að lakka svoleiðis! Fer í dag og kaupi lampa! Takk fyrir hugmyndina.
Já, það er alltaf nóg af ljótum marmaralömpum í GH! 😉 Gangi þér vel með föndrið!