Sarpur | mars, 2010

Yfirlit marsmánaðar :)

29 Mar

FF #12

25 Mar

Föndur dagsins spratt út frá hugmynd að hálsmeni sem ég rakst á á netvafrinu mínu. Héðan fékk ég hugmyndina. En þetta er hálsmenið sem ég skoðaði á Anthropologie.com og kostar $42:

Hugmyndin er frekar einföld; að sauma saman reipi! Ég var hins vegar ekki á þeim buxunum að kaupa mér hvítt reipi bara til að föndra úr (og ekki átti ég til reipi sem ég vildi klippa niður). Reipið á fyrirmyndinni var hvítt og því í sjóarastílnum/matrósastílnum en ég ætlaði nú ekki að setja það neitt sérstaklega fyrir mig.

Svarið kom þegar ég rakst á gardínuhanka með dúski, eins og voru festir á þungu gluggatjöldin í gamla daga. Svoleiðis hanka sá ég í Vogue á 450.- stk. en keypti einn bleikan í Góða hirðinum á 100.-

Á myndinni sést dúskafestingin vel og ég er viss um að allir kannast við kauða!

Sem skraut notaði ég eyrnalokk sem ég keypti e-n tímann fyrir slikk og  hafði brotnað. Ég gekk svo frá endunum með föndurvír.

En fyrst af öllu var að sauma reipið saman. Ég lagði það á sama hátt og reipið í Anthropologie-hálsmeninu og saumaði á köntunum.

Svona lítur það þá út!

Endunum hætti til að trosna í sundur þannig að ég vafði aðeins límbandi utan um og límdi þá svo saman með límbyssunni. Að lokum vafði ég föndurvírnum þétt utan um. Núna er það svo vítt að ég get sett það yfir höfuðið en ef ég vildi stytta hálsmenið þyrfti ég að ganga öðruvísi frá endunum.

Að lokum límdi ég fyrrverandi eyrnalokkinn á með límbyssunni – sem skraut!

Útkoman er svona!

FF #11

18 Mar

Þetta föndur var bókstaflega það, föndur! Ég vissi alls ekki hvernig það kæmi út og var bara að prófa mig áfram. Hugmyndin sem ég fékk var að búa til skerma/skraut á inniljósaseríu.


Það sem ég notaði voru nokkrar vatnsblöðrur (líka hægt að nota aðrar blöðrur og blása þær lítið upp), hvítt og gráyrjað ullargarn sem ég keypti í Europris, pensill og böns af lími!!

Og þá meina ég böns! Ég byrjaði á því að nota glært föndurlím (sem ég keypti einhvern tímann í Klinkinu í Skeifunni) og þynnti það aðeins með vatni. Það var hins vegar ekki nóg, þannig að ég fékk trélím í byggingarvöruverslun og þynnti það líka. Það er hvítt en verður nærri glært þegar það þornar.

Það sem gerði þetta föndur að F-Ö-N-D-R-I var klessuverkið og límið sem fylgir þessu. Ég blés upp blöðrurnar ca. hnefastórar. Vafði svo garninu utan um – fyrst því hvíta og svo gráyrjótta. Og svo gluðaði ég límblöndunni yfir þannig að garnið varð allt gegnblautt.

Að lokum var ég komin með nokkra garnbolta. Ég passaði mig samt á því að vefja ekki of þétt því að ég vildi fá ljósið út á milli á skemmtilegan hátt. Svo tyllti ég boltunum ofan á glös til að þeir þornuðu. Þurfti reyndar að snúa þeim nokkrum sinnum. Þannig lak líka af þeim auka límið og þeir festust ekki við neitt eins og kannski hefði gerst ef ég hefði lagt þá á sléttan flöt.

Þegar boltarnir voru orðnir alveg þurrir hófst fjörið! Að sprengja blöðrurnar innan úr þeim!

Að vísu þurfti ég að losa límið á milli blöðrunnar og garnsins því að annar festust blöðrutægjur innan í kúlunum. Þetta tók smá stund en var samt mjög skemmtilegt 😉

Ég fékk síðan glæra ljósaseríu með hitaþolnum perum, fást t.d. í Byggt og búið. Ég held að perurnar verði að vera hitaþolnar annars skapast eldhætta af þessu. Þið sem hafið verið að fást við heklaðar bjöllur utan um svona seríur vita það e.t.v. betur (?)

Þar sem þetta var bara föndur og algjört tilraunaverkefni stakk ég bara ljósaperunum inn í kúlurnar og kveikti á. Þannig gengur þetta upp á lárréttum fleti. Ég þyrfti að finna út hvernig ég festi perurnar inn í kúlurnar og allar tillögur eru vel þegnar!

Hérna sést á annars óskýrri mynd að ég skildi eftir smá gat í ullarvafningnum þar sem hnúturinn var á blöðrunni og gerði ráð fyrir að þar færi peran inn í kúluna.

Skemmtilegast við þetta er að kúlurnar verða svo ólíkar, misstórar og misjafnlega vafnar. Sjáið bara hvað birtan verður flott á veggnum!

FF #10

11 Mar

Föndur dagsins kemur af fundi Föndurheimsveldisins sem hittist í gærkvöldi. Þar var mikið um dýrðir og hin ótrúlegustu föndur litu dagsins ljós. Ég tók mig til og bjó til hárspennu og tvo hringa.

Spennan var ákaflega einföld og það eina sem ég þurfti var nál og tvinni, hvítt tjull sem ég keypti í Vogue, lím og blúnda (nema hvað ;)).

Til skreytingar setti ég gamlan stakan eyrnalokk sem ég hafði fengið gefins.

Tjullið og blúnduna braut ég saman og saumaði í nokkurs konar fellingu.

Síðan límdi ég eyrnalokkinn framan á með límbyssu. Til þess að loka saumnum að aftan setti ég lítinn hvítan fíltbút. Annan fíltbút setti ég inn í spennuna sjálfa og límdi þá svo saman svo að skreytingin detti ekki af spennunni.

Voilá! Hugmyndina fékk ég héðan!

Síðan skáldaði ég tvo hringa sem ég gerði úr borðum. Ég hafði séð þá einhvers staðar en gat ómögulega munað hvernig þeir voru gerðir.

Það sem ég notaði var nál og tvinni, frekar þykkur borði, perlur eða tölur, gömul hárteygja sem var farin að slitna svolítið og lím.

Ég byrjaði á að þræða borðann með tvinnanum.

Síðan rykkti ég hann saman og saumaði eins og mér fannst fallegast. Ofan á rykkinguna saumaði ég perlur og tölur. Síðan setti ég einn límdropa undir og límdi teygjuna, hæfilega stóra fyrir fingurinn á mér.

Svona litu hringarnir út á endanum. Fljótlegt og ódýrt skart!

Yfirlit yfir föndurmánuðina tvo sem liðnir eru

8 Mar

FF #9

4 Mar

Í dag er fimmtudagsföndrið dálítið sögulegt – því að það er fyrsta saumavélarsaumaða föndrið! Ég hef hægt og bítandi verið að yfirvinna áralanga óbeit mína á saumavélum og var m.a.s. að klára saumanámskeið!
Ég ákvað því að nota mér hugmynd sem námskeiðshaldarinn Helga Rún kom með og sauma mér kraga/hálstau.
Hún benti okkur á heildsölu sem selur jersey-efni sem er ofið í hring og maður getur keypt sér í metravís og klippt niður. Ég keypti svona páskagult efni 😉

Klippti svo efnið í 70 cm hólk. Úr hólkinum klippti ég dálítinn bút sem ég ætlaði að sauma blúndu á.

Svo festi ég blúnduna á efnisbútinn og saumaði saman. Þegar það var svo komið saumaði ég efnisbútinn við hólkinn svo að hann varð aftur heill.

Að lokum ákvað ég að skreyta neðri kantinn með blúndu – af því að maður getur aldrei verið með of mikið af blúndum 😉

Þetta lítur svo svona út að lokum – og tók ekki nema klukkutíma að gera!

Þá er að smella kraganum á sig:

Voilá! 🙂 Skín svo eins og sól í heiði. Er það ekki akkúrat eitthvað sem okkur vantar núna í kuldanum og snjónum?!