Sarpur | 09:35

FF #10

11 Mar

Föndur dagsins kemur af fundi Föndurheimsveldisins sem hittist í gærkvöldi. Þar var mikið um dýrðir og hin ótrúlegustu föndur litu dagsins ljós. Ég tók mig til og bjó til hárspennu og tvo hringa.

Spennan var ákaflega einföld og það eina sem ég þurfti var nál og tvinni, hvítt tjull sem ég keypti í Vogue, lím og blúnda (nema hvað ;)).

Til skreytingar setti ég gamlan stakan eyrnalokk sem ég hafði fengið gefins.

Tjullið og blúnduna braut ég saman og saumaði í nokkurs konar fellingu.

Síðan límdi ég eyrnalokkinn framan á með límbyssu. Til þess að loka saumnum að aftan setti ég lítinn hvítan fíltbút. Annan fíltbút setti ég inn í spennuna sjálfa og límdi þá svo saman svo að skreytingin detti ekki af spennunni.

Voilá! Hugmyndina fékk ég héðan!

Síðan skáldaði ég tvo hringa sem ég gerði úr borðum. Ég hafði séð þá einhvers staðar en gat ómögulega munað hvernig þeir voru gerðir.

Það sem ég notaði var nál og tvinni, frekar þykkur borði, perlur eða tölur, gömul hárteygja sem var farin að slitna svolítið og lím.

Ég byrjaði á að þræða borðann með tvinnanum.

Síðan rykkti ég hann saman og saumaði eins og mér fannst fallegast. Ofan á rykkinguna saumaði ég perlur og tölur. Síðan setti ég einn límdropa undir og límdi teygjuna, hæfilega stóra fyrir fingurinn á mér.

Svona litu hringarnir út á endanum. Fljótlegt og ódýrt skart!