Sarpur | 08:30

FF #11

18 Mar

Þetta föndur var bókstaflega það, föndur! Ég vissi alls ekki hvernig það kæmi út og var bara að prófa mig áfram. Hugmyndin sem ég fékk var að búa til skerma/skraut á inniljósaseríu.


Það sem ég notaði voru nokkrar vatnsblöðrur (líka hægt að nota aðrar blöðrur og blása þær lítið upp), hvítt og gráyrjað ullargarn sem ég keypti í Europris, pensill og böns af lími!!

Og þá meina ég böns! Ég byrjaði á því að nota glært föndurlím (sem ég keypti einhvern tímann í Klinkinu í Skeifunni) og þynnti það aðeins með vatni. Það var hins vegar ekki nóg, þannig að ég fékk trélím í byggingarvöruverslun og þynnti það líka. Það er hvítt en verður nærri glært þegar það þornar.

Það sem gerði þetta föndur að F-Ö-N-D-R-I var klessuverkið og límið sem fylgir þessu. Ég blés upp blöðrurnar ca. hnefastórar. Vafði svo garninu utan um – fyrst því hvíta og svo gráyrjótta. Og svo gluðaði ég límblöndunni yfir þannig að garnið varð allt gegnblautt.

Að lokum var ég komin með nokkra garnbolta. Ég passaði mig samt á því að vefja ekki of þétt því að ég vildi fá ljósið út á milli á skemmtilegan hátt. Svo tyllti ég boltunum ofan á glös til að þeir þornuðu. Þurfti reyndar að snúa þeim nokkrum sinnum. Þannig lak líka af þeim auka límið og þeir festust ekki við neitt eins og kannski hefði gerst ef ég hefði lagt þá á sléttan flöt.

Þegar boltarnir voru orðnir alveg þurrir hófst fjörið! Að sprengja blöðrurnar innan úr þeim!

Að vísu þurfti ég að losa límið á milli blöðrunnar og garnsins því að annar festust blöðrutægjur innan í kúlunum. Þetta tók smá stund en var samt mjög skemmtilegt 😉

Ég fékk síðan glæra ljósaseríu með hitaþolnum perum, fást t.d. í Byggt og búið. Ég held að perurnar verði að vera hitaþolnar annars skapast eldhætta af þessu. Þið sem hafið verið að fást við heklaðar bjöllur utan um svona seríur vita það e.t.v. betur (?)

Þar sem þetta var bara föndur og algjört tilraunaverkefni stakk ég bara ljósaperunum inn í kúlurnar og kveikti á. Þannig gengur þetta upp á lárréttum fleti. Ég þyrfti að finna út hvernig ég festi perurnar inn í kúlurnar og allar tillögur eru vel þegnar!

Hérna sést á annars óskýrri mynd að ég skildi eftir smá gat í ullarvafningnum þar sem hnúturinn var á blöðrunni og gerði ráð fyrir að þar færi peran inn í kúluna.

Skemmtilegast við þetta er að kúlurnar verða svo ólíkar, misstórar og misjafnlega vafnar. Sjáið bara hvað birtan verður flott á veggnum!