Sarpur | 08:30

FF #12

25 Mar

Föndur dagsins spratt út frá hugmynd að hálsmeni sem ég rakst á á netvafrinu mínu. Héðan fékk ég hugmyndina. En þetta er hálsmenið sem ég skoðaði á Anthropologie.com og kostar $42:

Hugmyndin er frekar einföld; að sauma saman reipi! Ég var hins vegar ekki á þeim buxunum að kaupa mér hvítt reipi bara til að föndra úr (og ekki átti ég til reipi sem ég vildi klippa niður). Reipið á fyrirmyndinni var hvítt og því í sjóarastílnum/matrósastílnum en ég ætlaði nú ekki að setja það neitt sérstaklega fyrir mig.

Svarið kom þegar ég rakst á gardínuhanka með dúski, eins og voru festir á þungu gluggatjöldin í gamla daga. Svoleiðis hanka sá ég í Vogue á 450.- stk. en keypti einn bleikan í Góða hirðinum á 100.-

Á myndinni sést dúskafestingin vel og ég er viss um að allir kannast við kauða!

Sem skraut notaði ég eyrnalokk sem ég keypti e-n tímann fyrir slikk og  hafði brotnað. Ég gekk svo frá endunum með föndurvír.

En fyrst af öllu var að sauma reipið saman. Ég lagði það á sama hátt og reipið í Anthropologie-hálsmeninu og saumaði á köntunum.

Svona lítur það þá út!

Endunum hætti til að trosna í sundur þannig að ég vafði aðeins límbandi utan um og límdi þá svo saman með límbyssunni. Að lokum vafði ég föndurvírnum þétt utan um. Núna er það svo vítt að ég get sett það yfir höfuðið en ef ég vildi stytta hálsmenið þyrfti ég að ganga öðruvísi frá endunum.

Að lokum límdi ég fyrrverandi eyrnalokkinn á með límbyssunni – sem skraut!

Útkoman er svona!