Sarpur | maí, 2010

FF #21

27 Maí

Fimmtudagsföndrið í dag er í seinna lagi og ég biðst afsökunar á því en það er sent út beint úr pressutjaldinu við Telenor-höllina í Osló þar sem ég er að fylgjast með Eurovision!

Föndrið er líka í takt við það – og ég gerði það áður en ég fór út.

Ég bjó til íslenskafánaspangir til að skarta á keppnisdaginn. Ég gerði nokkrar sem við tókum með vinkonurnar. 

Það sem ég notaði var blá spöng sem ég keypti í Tiger, fánaborði sem fæst í öllum föndurbúðum, smávegis af tjulli og yo-yo-rósettur sem ég gerði úr efnisafgöngum og hafði í fánalitunum!

Þetta límdi ég svo allt saman á spangirnar og hafði þær mismunandi. Þessu skörtuðum við svo á undankeppninni og verðum með þetta líka á aðalkeppninni.

Hér gildir sko að vera vel merktur með íslenska fánanum! 🙂

FF #20

20 Maí

Æ, ég hef nú verið sáttari við föndur en læt þetta flakka. Ég hef verið að prófa mig áfram með að breyta fötum, sem hefur kannski ekki alveg gengið eins vel og ég vonaði. Ég er ekki mikil nákvæmnismanneskja í saumaskapnum og finnst betra að slumpa bara. Þið getið ímyndað ykkur hvað það skilar oft góðum árangri 🙂

En ég ætlaði sumsé að sauma mér kjól með því að sauma neðan á hlýrabol. Hljómar einfalt ekki satt?

Ég fékk gamlan jersey-kjól hjá mömmu sem var skósíður (og reyndar af systur minni) og ákvað að nota neðrihlutann af honum.

Ég mældi bara hlýrabolinn og títaði neðrihlutann á og saumaði. Ekki fegursta saumspor sem ég hef séð, ég átti pínulítið í erfiðleikum með fellingar, kann ekki alveg á svoleiðis…

Svona lítur hann þá út að endingu:

Ég setti smá jó-jó-dúllu framan á til að fela versa saumaskapinn, en þið sjáið hvernig þetta er annars.

Bara svona fjarska-fallegt held ég … og ég get alveg notað hann í sumar!

FF #19

13 Maí

Föndrið í dag gerði ég reyndar fyrir um hálfu ári síðan og gaf það í jólagjöf. Það voru landakortsglasamottur.

Ég keypti ódýrar glasamottur á nytjamarkaðnum í Mörkinni á 100 kr. stk.

Síðan sneið ég niður af gömlu landakorti sem ég átti (hafði keypt í Góða hirðinum fyrir slikk).

Ég límdi kortið á glasamotturnar með dobbelteipi og lakkaði svo með glæru föndurlakki yfir. Við það urðu kortin dálítið upphleypt en það lagaðist eftir að þær þornuðu.

FF #18

6 Maí

Takk fyrir frábærar viðtökur í síðustu viku. Eins og ég sagði á Facebook, var dreginn út vinningshafi í Fimmtudagsgjöfinni og það var Karen Pálsdóttir en hún sendi þetta komment:

Í fimmtudagsföndrinu í dag gerði ég hálsmen úr prjónuðum strokki með glerperlum. Það er hægt að kaupa prjónaða strokka t.d. í A4 í metravís og þeir kosta ekkert mikið. Ég átti svo glerperlur í poka sem ég notaði í festina.

Ég notaði svo bara samlitan tvinna og nál og saumaði stokkinn saman eftir hverja glerkúlu.

Ég skildi svo dálítinn spotta eftir, saumaði endann saman og setti í tölu.

Mjög ánægð með árangurinn 🙂

Fyrr í vetur prófaði ég það sama með gulum strokki. Þá hafði ég hann styttri en saumaði svo við band sem ég gerði úr gömlum stuttermabol.

Til að fela samskeytin setti ég svona yo-yo og tölu með smá tjulli.

Þarna var ég reyndar með plastperlur sem virka held ég betur, glerkúlurnar verða dálítið þungar, allavega ef maður er með festina í heilan dag! 🙂

Föndur-apríl leit svona út! :)

3 Maí