Sarpur | 07:52

FF #31

5 Ágú

Mér datt í hug að gera skemmtilega föndurhugmynd sem ég rakst einhvern tímann á hér. Ég setti hana í Bookmarks og rifjaði svo upp einn sólardaginn hérna í borginni. Þetta er kertastjaki úr niðursuðudós sem er einmitt gott að dunda sér við jafnt í hita og sól sem síðsumars 🙂

Ég byrjaði á því að hreinsa tóma niðursuðudós og taka af henni miðann. Síðan fyllti ég hana af vatni og skellti í frystinn.

Því næst bjó ég til mynstrið á stjakann á þunnan pappír, hérna notaði ég pappírinn utan af vínylplötunni sem var notaður í stjakann um daginn!

Pappírinn er límdur vandlega á dósina…

… síðan settist ég bara út á svalir með handklæði og hamar og lítinn nagla.

Og gerði göt með því að negla í dósina eftir mynstrinu. Klakinn gerir það að verkum að það verður auðveldara að negla án þess að beygla dósina. Hins vegar bráðnar klakinn fljótt og þess vegna er best að vinna ofan frá og niður! Þetta tók svona u.þ.b. hálftíma að klára dósina (ca. 10 cm há hjá mér) og ég mæli með því að hafa langa nagla, þá er minni hætta á negldum fingrum!

Svo er pappírinn bara tekinn utan af og þá blasir við skemmtilegt mynstur.

Restina af klakanum notaði ég svo bara út í ísteið mitt 🙂

Kertastjakinn er tilbúinn! Ég sé fyrir mér að þetta geti verið skemmtilegt að nota í sumarbrúðkaupum úti við. Það getur líka verið ofsalega gaman að nota svona stjaka úti í garði á síðsumarskvöldum nú þegar aðeins er farið að rökkva, eða bara úti á svölum í logninu!