Sarpur | 09:05

FF #37

16 Sep

Föndur dagsins er ein af fyrstu hugmyndunum sem ég fékk í þessu föndurbrjálæði mínu. Ég fann hana þegar ég var að fara yfir bókamerkin mín í gærkvöldi og ákvað að slá bara til. Og var líka svo stálheppin að eiga tómar plastflöskur því að við höfum verið ansi löt að fara í endurvinnsluna undanfarið (!)

Föndrið er sum sé klinkbudda úr kókflöskubotnum og allt sem þarf eru botnar úr tveimur hálfslítra-kókflöskum, skæri, límband, 20 cm rennilás (ég átti bara 18 cm og hann var örlítið of stuttur), tvær nálar (breið og grönn) og garn.

Flöskubotnarnir eru klipptir af flöskunum og snyrtir til. Best er að klippa alveg niður að neðri brúninni á botninum.

Límband er límt hringinn og teiknað fyrir saumagötunum.

Flöskubotninn er svo gataður með breiðu nálinni – hún þarf að hafa hvassan odd. Þetta er dálítil þolinmæðisvinna…

Síðan er rennilásnum smeygt ofan í og hann renndur í sundur. Byrjað að sauma um 2-3 cm frá byrjun rennilássins. Þetta er gert til þess að það sé hægt að fela endann á rennilásnum í frágangi í lokin.

Þegar neðri hlutinn er tilbúinn er efri hlutinn saumaður á sama hátt.

Þetta er svo tilvalin lítil budda undir klink eða annað lítið dót, e.t.v. ömmuspennur sem vilja jú alltaf þvælast út um allt! Skemmtilegast hefði mér fundið að vera með tvo litaða botna, t.d. græna, rauða eða gula en ég átti bara einn bláan og svo glæra.

Passa þarf vel að botnarnir séu sem minnst beyglaðir. Það sést e.t.v. af myndunum að blái botninn er ögn beyglaður (flaskan var samanbrotin) og fyrir vikið er örlítið erfiðara að renna rennilásnum.

Fínar leiðbeiningar á ensku má finna hér og hugmyndin er héðan.