Sarpur | október, 2010

Yfirlit yfir október-föndur!

29 Okt

FF #43

28 Okt

Ef þið skoðið föndurblogg jafnmikið og ég (sem er nú kannski hæpið) hafið þið sennilega rekist á silhouette-skreytingar sem hafa tröllriðið öllu. Fólk býr til skuggamyndir af prófíl barnanna sinna o.fl. Mér finnast bollar með skuggamyndum sérstaklega skemmtilegir, t.d. hjá þessari hér.  Svo eru yfirvaraskeggsbollar sprenghlægilegir:

Ég ákvað að prófa að fríska upp á nokkra þreytta hvíta bolla sem voru til heima.

Ég notaði stensla, postulínsmálninguna PermEnamel (keypt í Föndurstofunni) og svamp. Eftir á að hyggja hefði ég e.t.v. átt að fjárfesta í mjóum pensli en lét svampinn duga í þetta skipti. Það er einnig hægt að spreyja á bollana en þá þarf að passa að spreyið þoli þvotta!

Ég byrjaði á því að velja mér stenslamyndir af netinu og skar þær út.

Ég límdi þær svo á bollana…

… og málaði með svampinum. Áferðin varð dálítið „hraunuð“ en skemmtileg.

Ég verð nú að viðurkenna að bollarnir urðu misfallegir og kannski helst til „fjarskafallegir“ 🙂

Yfirvaraskeggsbollinn kom líka vel út:

… ég setti örlítið skegg hinum megin á hann líka!

Svo er bara að fá sér tebolla!

FF #42

21 Okt

Föndrið í dag er útsaumaður dúkur (löber) sem ég kláraði í sumar og langaði að sýna ykkur. Ég saumaði hann með krosssaumi í grábrúnan hör og notaði hvítan og dökkgráan þráð.

Mér finnst ofsalega gaman að sauma út en HRIKALEGA leiðinlegt að ganga frá stykkjunum þegar saumnum er lokið. Svo leiðinlegt reyndar að ég er með heilu staflana af ókláruðum verkefnum hjá mér sem þarf bara örlítið að ganga frá.

Ég hef sko yfirleitt fengið mömmu til að hjálpa mér með þessa praktísku hluti en ákvað að reyna að bjarga mér sjálf núna eftir að hafa fengið sömu leiðbeiningarnar þúsund sinnum! 🙂

Á svona dúk/löber þarf náttúrulega ekkert annað að gera en að ganga frá kantinum og strauja. Best er að byrja að brjóta kantinn inn á röngunni, tvöfalt:

… og festa niður…

… svo er bara saumað allan hringinn. Í hornunum klippti ég upprúllaða kantinn aðeins til svo að hann passaði ofan á hinn á móti og saumaði hann svo við.

Sko, þetta gat ég! Miklu minna mál en ég hafði gert mér grein fyrir og fínn dúkur á skenkinn í stofunni kominn með lítilli fyrirhöfn!

FF #41

14 Okt

Ég lagði loksins í að sauma mér annan kjól – í þetta sinn kjól úr tveimur stuttermabolum (double t-shirt dress). Þetta var sum sé hugmyndin sbr. myndina hér að neðan (tekin af Burdastyle.com) en aðlöguð og staðfærð svolítið.

Það sem þarf til eru tveir stórir stuttermabolir (helst karlmanna og helst í XL-XXL), skæri og saumavél.

Til að byrja með er hálsmálið klippt af báðum stuttermabolunum…

… annar þeirra kemur nefnilega til með að verða neðri hluti kjólsins (pilsið) og hinn efri hlutinn – með stórum kraga 🙂

Ef við byrjum á neðri hlutanum þá eru ermarnar klipptar til og saumaðar saman til að mynda grunna vasa. Með því að sauma þetta svona við efri hlutann koma þessir skemmtilegu vængir í efnið yfir mjaðmirnar.

Ég púlla hins vegar engan veginn svoleiðis aukavídd á mjaðmirnar og vildi aðeins breyta sniðinu á kjólnum og laga að mínum líkamsvexti. Þess vegna ákvað ég að nota neðri bolinn bara sem strokk, þ.e. klippti af ermarnar.

Ég breytti líka aðeins og saumaði saman renning af svörtu jersey-efni til að nota á milli bolanna tveggja, undir brjóstin.

Af minni takmörkuðu reynslu af saumaskap hef ég komist að því að jersey-efni er ekki það skemmtilegasta að sauma. Best er að ganga frá saumnum þannig að efnin eru saumuð saman með sikksakki og over-lockað yfir endana. Annars er hætta á að saumaspretta verði þegar farið er í kjólinn og það teygist á efninu.

Fyrst saumaði ég svarta strokkinn við efri hluta kjólsins og svona kom það út:

Ég bætti svo neðri hlutanum neðan við svarta strokkinn og þá kemur þetta nokkurn veginn svona út:

Eins og sést er kraginn mjög stór og hægt að leika sér með hann á ýmsa vegu!

Þetta væri t.d. hinn fullkomni Airwaves-kjóll: Léttur og hægt að svitna í honum í trylltum dansi 🙂

Fimmtudagsgjöfin!

11 Okt

Rétt í þessu dró ég úr kommentunum ykkar, gott fólk!

Upp úr pottinum kom nafnið hennar Emilíu, sem skildi eftir þetta krúttlega komment:

– ég hugsa að ég renni nú bara til þín við tækifæri, Emma mín, með hjörtun! Til lukku 🙂

FF #40 – fimmtudagsgjöfin!

7 Okt

Í dag langar mig að endurtaka það sem ég gerði í sumar – FIMMTUDAGSGJÖFINA! Í þetta sinn er föndur dagsins jafnframt fimmtudagsgjöfin. Þetta er smá leikur sem ég vildi gjarnan að þú, lesandi góður, tækir þátt í.

Það sem þú þarft að gera er:
1. Lesa póstinn
2. Skilja eftir nafn og skilaboð um að þig langi að taka þátt í athugasemdum/kommentum. Það er allt í lagi þó að þú skoðir þetta blogg bara stundum eða þekkir mig ekki persónulega – það er alltaf gaman að fá komment 🙂
3. Fylgjast með hér á blogginu eða á Facebook, því að kl. 10 á mánudagsmorgun (11.10.2010) dreg ég einn heppinn lesanda út sem fær fimmtudagsgjöfina senda í pósti! 🙂

Nú, eigum við þá að vinda okkur í föndur dagsins?

Ég er alltaf pínu svag fyrir landakortum og ýmsum möguleikum þeirra (hefurðu kannski tekið eftir því? Bendi þér á þetta og þetta). Ég sá mjög skemmtileg hjörtu gerð úr landakortum á þessari síðu hér og datt í hug að það væri sniðugt að prófa þau og velja skemmtilega staði á íslenskum kortum.

Það sem þarf eru gömul og sjarmerandi landakort, saumnál og þráður og smá tróð/efni.

Ég byrjaði að klippa út skapalón fyrir hjartað:

Svo klippti ég út úr kortunum hjörtu á réttum stöðum, tvö hjörtu fyrir hvert:

Hjörtun eru svo saumuð saman á kantinum til að gera eitt. Passa þarf að skilja eftir smávegis gat á einum stað til að setja tróðið í:

Ég notaði tróð úr gömlu bómullarefni.

Þegar hjörtun eru tilbúin verða þau skemmtilega bústin!

Ég festi svo bönd í þau og þau sóma sér vel sem hvers kyns skraut, t.d. upp á vegg, á pakka o.fl.

Mundu að kvitta fyrir lesturinn – og til að taka þátt í leiknum! Fylgstu svo spennt/-ur með á mánudaginn! 🙂