Sarpur | nóvember, 2010

Yfirlit yfir nóvember-föndur!

26 Nóv

FF #47

25 Nóv

Er ekki ágætt að rifja þetta upp svona þegar fer að líða að jólum? Þarna set ég mér m.a. það markmið að læra að hekla mér til handagagns! Það er einmitt svolítið í föndri dagsins sem ég vildi sýna ykkur (sérstaklega Skruddunum mínum sem gáfu mér allt til hekls í afmælisgjöf 🙂 )

Þetta er reyndar enn í vinnslu, þ.e.a.s. ég er ekki búin en þó komin nokkuð langt með marglitt ullarteppi!

Hugmyndin er frá Erlu vinkonu sem gerði svona teppi og þegar ég rakst á auðveldar leiðbeiningar á netinu (hér) ákvað ég að slá til!

Uppskriftin er (held ég) nokkuð einföld:

Byrjað er á að fitja upp loftlykkjur (chain crochet), ég hætti í rauninni þegar ég hafði náð nógu mörgum í þá breidd á teppinu sem ég vildi. Á endanum eru gerðar tvær aukalykkjur til að geta byrjað á fyrstu „litalínunni“. Þá er gerður fastahekl (double crochet) í hverja keðju sem fitjað var upp á. Þegar þessi fyrsta litalína er búin er garnið klippt og dregið í gegnum síðustu lykkjuna til að búa til hnút. Síðan er næsti litatónn – og lykkja sett á garnið. Galdurinn er svo að stinga heklunálinni alltaf á milli tveggja fastahekla og þannig myndast mynstrið í teppið. Þegar búið er að þræða í gegnum gatið er slegið tvisvar upp á heklunálina og svo heklað fastahekl í framhaldinu. Þegar þessi lína er búin er heklað tvisvar sinnum fastahekl í lokin áður en gengið er frá endanum.

– kannski auðveldara að átta sig á myndunum:

Í sumar byrjaði ég og þá gekk þetta ansi hægt:

en nú er rífandi gangur í þessu hjá mér, ég hef meira að segja náð að mastera sjónvarpsgláp og hekl í einu!

Svona lítur teppið út í dag – og það sést að það er enn í vinnslu! Ég hef notað ýmis konar garn í það, afganga og nýtt garn og það gerir það dálítið sérstakt og áferðin verður skemmtileg. Eitt gott tips (sem ég held ég hafi fengið frá Erlu): Að ganga frá endunum jafnóðum! 😉

Það góða er að hvað það er kósí að sitja með það yfir hnjánum á köldum kvöldum og hekla…

Mér fannst nokkuð viðeigandi að síðasta Fimmtudagsföndrið fyrir jóladagatalsbrjálæðið í desember væri jafnframt eitt af handavinnumarkmiðum ársins 2010!!

Eruð þið svo ekki spennt fyrir jóladagatalinu – sem hefst í næstu viku???

Einhverjar óskir um föndur?

FF #46

18 Nóv

Í gær föndraði ég dulítið fílt. Eins og þið vitið sennilega er fílt nokkuð þykkt ullarefni sem hægt er að klippa til og móta af vild. Það minnir mig alltaf dálítið á veturinn og því við hæfi að gera litríkt vetrarhálsmen úr fílti sem hlýjar manni á hálsinum um leið og það lítur smekklega út.

Hugmyndin er héðan frá hinu ótrúlega skemmtilega bloggi vefverslunarinnar Papernstitch.com.

Til að gera þetta þarf því marglitt fíltefni, gott fljótandi lím, skæri, nál og tvinna. Byrjað er á því að móta hringi í fíltið.

Hringirnir tveir eru svo límdir saman…

… og klippt upp í þá á fjóra vegu:

Þá er það saumaskapurinn, hornin eru brotin inn að miðju og saumuð föst:

– ekki mjög flókið! Á endanum minnir fílthringurinn dálítið á 17.júní-rellu! 🙂

Síðan er perla eða annað skraut sett í miðjuna, en má þó sleppa (getur verið gott að gera það til að fela saumana).

Þá eru skraut“rellurnar“ tilbúnar. Ég ætlaði að gera úr þeim hálsmen og varð því að sauma þær saman:

– gerði það á brúnunum þar sem þær mætast.

Svo gataði ég fyrir festingum með nálinni og festi svo granna keðju í. Ég gerði líka tvær nælur þar sem ég setti annars konar skraut í miðjuna og saumaði nælufestingu aftan á.

Hlýtt og fínt! 🙂 Að ég tali nú ekki um litríkt í skammdeginu!

FF #45

11 Nóv

Föndrið í dag er alveg ótrúlega einfalt – tók mig ekki nema 15 mínútur að gera!

Ég þurfti að pakka inn afmælisgjöf og vantaði e-ð lítið skraut til að setja punktinn yfir i-ið. Þá datt mér þessi hugmynd í hug; pakkaskraut úr marglitum pappír. Og af því að ég er með landakort á heilanum (sjá hér, hér og hér) ákvað ég að nýta þau í þetta 🙂

Það sem þarf er því landakort eða annar marglitur/skrautlegur pappír, skæri eða pappírshnífur, heftari og tvöfalt límband/lím.

Pappírinn er klipptur niður í 9 búta, í rauninni mega þeir vera af hvaða lengd sem er (ég notaði lengst ca. 7-8 cm langa og 1 cm breiða). 3 eru lengstir, næstu 3 eru u.þ.b. 1 cm styttri og næstu tveir 1 cm styttri en þeir. Síðasti búturinn er rétt um þumlungur að lengd.

Hver og einn bútur er brotinn saman í slaufu og heftaður saman í miðjunni.

Minnsti búturinn er rúllaður upp í kúlu og límdur með tvöföldu límbandi.

Þá er slaufunum raðað saman eftir stærð, hverri ofan á aðra. Þær eru límdar saman í miðjunni með tvöföldu límbandi.

Í lokin er svo kúlunni tyllt í miðjuna. Og þá er skrautið tilbúið!

Skrautið verður aðeins meira „púffí“ ef maður brýtur örlítið upp á hornin á hverri slaufu fyrir sig áður en þær eru límdar saman.

Svo er bara að skella þessu á pakkann – með smávegis límbandi! 🙂

Jóladagatalið frá því í fyrra

5 Nóv

er núna aðgengilegt á sérsíðu (sjá undir titlinum).

Þar getið þið smellt á myndirnar fyrir hvern dag og lesið færslurnar frá því í desember í fyrra 🙂

FF #44

4 Nóv

Nú er veturinn almennilega genginn í garð hérna fyrir sunnan og það fer að líða að lokum fimmtudagsföndursins hjá mér, ekki nema tveir mánuðir eftir af þessu skemmtilega ársverkefni þar sem ég föndra e-ð í hverri viku! Ótrúlegt að hafa haldið það út svona lengi 🙂

Í dag bjó ég til dúskahálsmen/ennisband úr gömlum bómullarbol. Hugmyndin er af þessari síðu (þar eru líka allar leiðbeiningar) og útfærslurnar hjá henni eru ótrúlega krúttlegar, t.d.:

Ég gerði þetta örlítið öðruvísi. Það sem ég notaði var bómullarbolur í tveimur litum sem var með áföstum blettum og orðinn of lítill á mig, skæri, smávegis pappabútur og sterkt garn (t.d. sláturgarn).

Ég byrjaði á að klippa ermarnar frá…

… og klippti þær svo í ca. fingurbreiðar lengjur. Það er allt í lagi að saumarnir komi með og líka að lengjurnar séu fleiri en ein fyrir hvern dúsk.

Ég vafði svo lengjunum nokkuð þétt upp á pappaspjaldið. Síðan er sláturgarnið bundið utan um öðru megin. Ég notaði nál til að þræða í gegn því að þetta var orðið nokkuð þykkt í lokin.

Þegar búið er að binda lengjurnar saman er spjaldið tekið og allur vöndullinn bundinn saman í miðjunni. Þá er hægt að klippa dúskinn í sundur – eins og sýnt er í leiðbeiningunum:

Minn dúskur leit þá svona út:

Ég gerði svo annan bláan úr hinni erminni og ögn stærri hvítan úr bolnum sjálfum:

Ég klippti svo breiðan borða úr bolnum og notaði sem festi. Dúskarnir voru bara saumaðir á hann í lokin. Ég gerði það þannig að skilja eftir einn eða tvo „kósa“ í dúsknum óklippta og með þeim gat ég þrætt dúskana upp á festina. Ég passaði samt að sauma dúskana vel fasta, því að þeir eru töluvert þungir.

Þá er hér komið nokkurs konar fjölnota ennisband/hárskraut –

– og hálsmen sem bundið er um hálsinn!