Sarpur | 08:56

FF #45

11 Nóv

Föndrið í dag er alveg ótrúlega einfalt – tók mig ekki nema 15 mínútur að gera!

Ég þurfti að pakka inn afmælisgjöf og vantaði e-ð lítið skraut til að setja punktinn yfir i-ið. Þá datt mér þessi hugmynd í hug; pakkaskraut úr marglitum pappír. Og af því að ég er með landakort á heilanum (sjá hér, hér og hér) ákvað ég að nýta þau í þetta 🙂

Það sem þarf er því landakort eða annar marglitur/skrautlegur pappír, skæri eða pappírshnífur, heftari og tvöfalt límband/lím.

Pappírinn er klipptur niður í 9 búta, í rauninni mega þeir vera af hvaða lengd sem er (ég notaði lengst ca. 7-8 cm langa og 1 cm breiða). 3 eru lengstir, næstu 3 eru u.þ.b. 1 cm styttri og næstu tveir 1 cm styttri en þeir. Síðasti búturinn er rétt um þumlungur að lengd.

Hver og einn bútur er brotinn saman í slaufu og heftaður saman í miðjunni.

Minnsti búturinn er rúllaður upp í kúlu og límdur með tvöföldu límbandi.

Þá er slaufunum raðað saman eftir stærð, hverri ofan á aðra. Þær eru límdar saman í miðjunni með tvöföldu límbandi.

Í lokin er svo kúlunni tyllt í miðjuna. Og þá er skrautið tilbúið!

Skrautið verður aðeins meira „púffí“ ef maður brýtur örlítið upp á hornin á hverri slaufu fyrir sig áður en þær eru límdar saman.

Svo er bara að skella þessu á pakkann – með smávegis límbandi! 🙂