Sarpur | 10:17

FF #47

25 Nóv

Er ekki ágætt að rifja þetta upp svona þegar fer að líða að jólum? Þarna set ég mér m.a. það markmið að læra að hekla mér til handagagns! Það er einmitt svolítið í föndri dagsins sem ég vildi sýna ykkur (sérstaklega Skruddunum mínum sem gáfu mér allt til hekls í afmælisgjöf 🙂 )

Þetta er reyndar enn í vinnslu, þ.e.a.s. ég er ekki búin en þó komin nokkuð langt með marglitt ullarteppi!

Hugmyndin er frá Erlu vinkonu sem gerði svona teppi og þegar ég rakst á auðveldar leiðbeiningar á netinu (hér) ákvað ég að slá til!

Uppskriftin er (held ég) nokkuð einföld:

Byrjað er á að fitja upp loftlykkjur (chain crochet), ég hætti í rauninni þegar ég hafði náð nógu mörgum í þá breidd á teppinu sem ég vildi. Á endanum eru gerðar tvær aukalykkjur til að geta byrjað á fyrstu „litalínunni“. Þá er gerður fastahekl (double crochet) í hverja keðju sem fitjað var upp á. Þegar þessi fyrsta litalína er búin er garnið klippt og dregið í gegnum síðustu lykkjuna til að búa til hnút. Síðan er næsti litatónn – og lykkja sett á garnið. Galdurinn er svo að stinga heklunálinni alltaf á milli tveggja fastahekla og þannig myndast mynstrið í teppið. Þegar búið er að þræða í gegnum gatið er slegið tvisvar upp á heklunálina og svo heklað fastahekl í framhaldinu. Þegar þessi lína er búin er heklað tvisvar sinnum fastahekl í lokin áður en gengið er frá endanum.

– kannski auðveldara að átta sig á myndunum:

Í sumar byrjaði ég og þá gekk þetta ansi hægt:

en nú er rífandi gangur í þessu hjá mér, ég hef meira að segja náð að mastera sjónvarpsgláp og hekl í einu!

Svona lítur teppið út í dag – og það sést að það er enn í vinnslu! Ég hef notað ýmis konar garn í það, afganga og nýtt garn og það gerir það dálítið sérstakt og áferðin verður skemmtileg. Eitt gott tips (sem ég held ég hafi fengið frá Erlu): Að ganga frá endunum jafnóðum! 😉

Það góða er að hvað það er kósí að sitja með það yfir hnjánum á köldum kvöldum og hekla…

Mér fannst nokkuð viðeigandi að síðasta Fimmtudagsföndrið fyrir jóladagatalsbrjálæðið í desember væri jafnframt eitt af handavinnumarkmiðum ársins 2010!!

Eruð þið svo ekki spennt fyrir jóladagatalinu – sem hefst í næstu viku???

Einhverjar óskir um föndur?