Sarpur | 08:20

2010 Jóladagatal #2

2 Des

Þá er kransinn kominn á útihurðina og tími til kominn að taka til við glugga nr. 2 í jóladagatalinu!

Í dag er 2. desember og 22 dagar til jóla! Spennan fer að magnast og sérstaklega hjá litlu krökkunum sem eru að fatta að þau fá súkkulaði á hverjum degi í jóladagatalinu sínu 😉

Ekkert súkkulaði í þessu jóladagatali – bara föndur! Og í dag ætla ég í endurvinnslu og gera pakkamerkimiða.

 

 

Efniviður:

  • Gömul litrík jólakort
  • Skæri
  • Skapalón fyrir merkimiða (keypt í Föndurstofunni á ca. 800 kr) eða merkimiðagatara (paper punch – fæst t.d. í Litum og föndri og kostar ca. 4400 kr)
  • Gatari/götunarbyssa

Nú er um að gera að nýta fallegu gömlu jólakortin sem maður tímir ekki að henda og búa til pakkamerkimiða fyrir jólagjafirnar.

Ég fjárfesti í skapalóni (sem er held ég notað í skrapp-föndur) og get því gert merkimiða í fjölmörgum stærðum og gerðum. Það verður bara að passa að bakhlið jólakortanna sé alveg hrein og auð!

Svo strika ég bara fyrir merkimiðunum:

… og klippi út!

Að lokum eru miðarnir svo gataðir með götunarbyssunni/gataranum.

Og þá eru þeir tilbúnir!

Eftir smástund var ég komin með heilan haug! Svona er hægt að láta jólakortin lifa a.m.k. tvisvar – og spara pening og sleppa því að kaupa merkimiða úti í búð!