Sarpur | 10:28

2010 Jóladagatal #13

13 Des

Áfram heldur jóladagatalið í nýrri viku. Við skelltum upp jólaseríum um helgina sem vinnur aðeins á skammdeginu. Það er alveg voðalegt að fara að heiman í myrkri á morgnana og koma heim í myrkri seinnipartinn; þess vegna verður maður að fá smá birtu í daginn! Í dag er 13. desember og 11 dagar til jóla! Í dag gerði ég dálítinn jólaengil sem væri hægt að hengja á jólatréð. Hugmyndina rakst ég á hér og sú föndurkona gerði einnig svona nælu – sem væri líka hægt, þó að ég sé lítið að ganga með jólanælur 🙂

Efniviður:

  • Blúndur úr dúk/gardínu o.fl. (stór ca. 10 cm fyrir búkinn og tvær minni ca. 5-7 cm fyrir vængi)
  • Þráður og nál
  • Einhvers konar hnoðri fyrir haus (hægt að nota bómullarhnoðra en ég notaði ullarhnoðra sem ég þæfði í þvottavélinni með því að setja inn í ónýtar sokkabuxur og binda hnút fyrir hvern og einn)
  • E.t.v. smávegis skraut og borði til að hengja upp

Blúndan í búkinn er saumuð saman = rykkt saman.

Blúndurnar í vængina eru líka rykktar saman á sama hátt og saumaðar hvor sínu megin á stóru blúnduna.

Hausinn er saumaður á milli vængjanna og efst á stóru blúnduna.

Síðan festi ég band í og setti örlítið skraut framan á engilinn.

Svona er frágangurinn aftan á:

Þetta er svo auðvelt að það væri þess vegna hægt að gera heilan englakór til að hengja á jólatréð! 🙂