Sarpur | Djammið RSS feed for this section

Myndablogg #26

26 Okt

Mikið ofsalega, svakalega, æðislega var gaman á Heimilistónaballinu á laugardaginn! Næstum því meira gaman en í fyrra!

Við byrjuðum í sushi og hvítvíni hérna heima, allar uppstrílaðar og fínar í kjólunum okkar og með hárið uppsett og smart (sumar meira en aðrar). Við fengum svo skutl í bæinn og alveg upp að dyrum á Iðnó. Það var ekkert verra því við vorum allar á svo svakalega elegant ballskóm.

Iðnó skartaði sínu fínasta og við komum okkur vel fyrir á borði nálægt sviðinu. Þegar klukkan fór að nálgast miðnætti og allar Öskubuskur hefðu verið farnar að hugsa sér til hreyfings, steig loksins hljómsveit kvöldsins á svið. Eftirvæntingin leyndi sér ekki:

PA240058

Enda voru þær Heimilistónakonur; Ólafía, Elva Ósk, Ragga, Katla og Vigdís, hver annarri smartari og skemmtilegri. Svo maður tali nú ekki um hina ýmsu gestasöngvara og -dansara. Að öðrum ólöstuðum átti Smári rótari þó salinn og var klappaður upp margsinnis.

Eftir að hafa dansað af okkur skó, hæla, kálfa og hné fórum við örþreyttar heim í koju.

PA250068

(takið eftir fína bútasaumsteppinu á bak við trommusettið, systir hennar Ólafíu gerði það 🙂 )

Myndablogg #25

24 Okt

Ég er að fara á ball í kvöld… liggaliggalái! 🙂

PA240041

172. Tækifærismyndir

27 Feb

Gestgjafinn sjálfur - Super Mario Bros.

Skoðið albúmið endilega, það er merkt „Grímuball 16. feb ´07“

– og kommenta, takk fyrir!!

171.

19 Feb

Takk kærlega fyrir komuna á föstudaginn öll sömul! Þetta var rosalega skemmtilegt og miklu betra en ég þorði að vona (allir í svo svakalega fínum búningum).
Set myndir inn við tækifæri!

170. Grímuball á morgun

15 Feb

Vil bara minna lesendur síðunnar að þeir eru boðnir á grímuball annað kvöld, föstudag 16. febrúar 2007 kl. 20:30. Herlegheitin verða haldin á efstu hæð (salur) á Austurbrún 2. Fyrir þá sem ekki vita hvar það er þá er það fyrsta af þremur risa-blokkum sem eru beint á móti Hrafnistu í Reykjavík (mitt á milli Glæsibæjar, gamla IKEA, Laugarásvídjós og Laugardalslaugarinnar).

105. Sumarnótt

29 Maí

Þegar ég keyrði heim á sunnudagsmorguninn í blankalogni og glaðasólskini fann ég ekki til minnstu þreytu. Hafði verið í bænum og skemmti mér þokkalega. Fannst þó töluvert mikið af illa drukknu fólki sem og áflogum og látum. Það var eitthvað sem lá í loftinu. Kannski var það spenningurinn yfir kosningunum sem voru svo ekkert spennandi eftir allt saman. Nei, eitthvað var það.
Á leiðinni heim tók ég eftir að á nánast hverjum einasta ljósastaur sat mávur og svaf. Eymingjans mávarnir, ég vorkenndi þeim hálfpartinn. Allir agnúast út í þá; það eru læti í þeim, þeir eru uppáþrengjandi og það er allt of mikið af þeim. Mikið hljóta þeir að vera einmana stundum. Á slíkum stundum er það ef til vill tilvalið að velja sér svefnstað sem er mörgum metrum fyrir ofan mannfólkið.
Ég tölti síðan upp á þriðju hæðina sem er í sömu hæð og ljósastaurarnir og lagðist til svefns.

Afmælisferð í bústað 17.-19.febrúar

24 Feb


Fyrir þá sem misstu af bústaðaferðinni segir þetta meira en mörg orð um stemmarann á laugardagskvöldinu!

Hundaheppnin mín

2 Feb

Ég frétti að á ári hundsins, þ.e. árinu í ár, ættu allir þeir sem fæddir eru á hundaári (1982, 1994, 2006) að njóta sérstakrar blessunar, ástar og hamingju. Ennfremur að maður eigi að ýta undir hamingjuna með því að ganga með rauð belti eða í rauðum nærbuxum. Ég hef nú ekki gert mikið af því að ganga í rauðum nærbuxum (á þó einar) og ég á ekki rautt belti. Þrátt fyrir það vona ég heitt og innilega að ég eigi eftir að njóta sérstakrar blessunar í ár. Þá er ég ekki að halda því fram að ég sé ekki blessuð, öðru nær, því ég er ein hamingjusamasta mannvera sem ég þekki. En vitneskjan um að það sé samþykkt milli æðri máttarvalda og mín um að auðvelda mér lífsbaráttuna, gefur mér óneitanlega hlýja og mjúka tilfinningu í magann. Sem má nú alveg við því að upplifa eitthvað gott – það sem á hann hefur verið lagt undanfarið! Vona að hann verði til friðs framvegis…
Helstu fréttir eru þær að starfsþjálfunin ógurlega sem legið hefur í loftinu virðist loks vera að skella á. Hún byrjar á Fréttablaðinu á sunnudag. Síðan fer ég á RÚV útvarpið og sjónvarpið, NFS og Moggann. Þetta verður ábyggilega fróðlegt og skemmtilegt og vonandi fáum við að grípa pennann/hljóðnemann/kameruna og semja eitthvað frá eigin brjósti.
Ég er líka búin að bjóða slatta af fólki í bústaðinn í tilefni afmælis míns. Gleðin verður 17.-19.febrúar næstkomandi og gleðihúsið er á landi Drumboddsstaða sem er ekki langt frá Laugavatni/Úthlíð. Hér með eru þeir boðnir velkomnir sem hingað líta inn – hafi ég ekki sent þeim formlegt boðskort nú þegar!! Endilega kommentið hvort þið komið, viljið gista eða kíkja í kaffi. Afmæliskaffi verður á laugardeginum (formlegt) en grillið verður opið föstudags og laugardagskvöld og meðlæti verður á staðnum. Mættu með pylsuna þína!!!!

Langþráð innflutningspartí…

16 Okt

Jæja, þá er maður búinn að prófa að halda partí í nýju íbúðinni og það var barasta sallafínt. Fullt af fólki og greinilega ekki nóg af stólum, hmmm… samt fórum við Ásgeir í Rúmfó og keyptum auka stóla í gær. Á. mætti með son sinn og meðalaldurinn í selskapnum lækkaði all verulega. Hann var náttúrulega miðpunktur athyglinnar, alveg þangað til að hann fór inn í svefnherbergi og lagði sig – já og svaf allan tímann þrátt fyrir öll lætin. Þetta heppnaðist allt saman voðalega vel og við fengum fullt af fínum innflutningsgjöfum… takk fyrir þær!!
Annars er barasta mest lítið að frétta. Brjálæðið í skólanum að hellast yfir, í þarnæstu viku á ég að halda fyrirlestur um eignarhald á fjölmiðlum- sem verður stuð, þegar ég druslast til að hætta á netinu og byrja á honum 😉 Svo er það þetta blessaða verkefni í Alþjóðasamvinnu, ekki alveg að gera sig – en ég á nú bara að skrifa 12 og hálfa bls. um áhrif alþjóðavæðingar á pólska menningu, það er varla svo erfitt, eða hvað? En já, þetta er svona, svo er mamma að fara til Minneapolis í desember, ohhh *öfundöfund* -mig dreymir um útlöndin…
Meira seinna…

Samtöl og ekki…

21 Ágú

Varð vitni að skemmtilegu samtali þegar ég skrapp á klósettið á Café Rosenberg á menningarnótt. Það var ,,ættarmót“ hjá vinnunni hans Ásgeirs, gamlir vinnufélagar hittust yfir glasi og var kvöldið hin besta skemmtun. Ég fór sem sagt á klósettið, hið femíniska nóta bene, og fyrir utan beið einn karlmaður eftir að komast á hið fallíska/karlaklósettið… Á meðan ég sit á klósettinu heyri ég að stelpa kemur að og taka þau tal saman:
Hann: Jæja, hvað eigum við svo að tala um?
Hún: Híhíhí, það veit ég ekki.
Hann: Verður maður ekki að tala um eitthvað þegar maður bíður svona?
Hún: Ha, jú ætli það ekki. Híhíhí.
Hann: Kemurðu oft hingað?
Hún: Híhí nei eða sko, svona bara stundum.
Hann: Ertu kannski utan af landi?
Áður en stúlkan náði að svara opnaði ég og hleypti henni að. Samtalið hér að ofan er svo innihaldslaust og skemmtilegt eins og fólk er venjulega á slíkum og þvílíkum stöðum. Áður en ég leit þessa stúlku augum vissi ég sem var að hún var ljóshærð með sítt hár og blá augu, í stuttu pilsi og pinnahælum og það reyndist rétt hjá mér. Fordómar segið þið – jú, líklega hef ég fordóma fyrir ljóskum… Sennilega bitur eftir að hárið á mér sjálfri hætti að vera ljóst og íslenski sauðaliturinn tók yfir. Ég elska innihaldslaus samtöl eins og þetta hér að ofan. Ekkert situr eftir, enginn græddi neitt á manni – náði engum upplýsingum upp úr manni (ef það var ætlunin, eins og gaurinn fyrir utan klósettin)
Samtölin á MSN eru líka sama eðlis, þau eru bara blaður og froða um ekki neitt – I LOVE IT eins og KR sagði hérna um árið.
Merkilegt nokk, þá lærir maður nú samt svolítið um náungann sem og sjálfan sig af þessum samtölum sem snúast um allt og ekki neitt…