Sarpur | Eurovision RSS feed for this section

Euro-, evró- og júróvisjón!

7 Feb

Ég vil bara minna fólk á að ef það saknar Evróvisjón-umfjöllunar þá er hana alfarið að finna núna á sameiginlegri síðu minni og Hildar Tryggvadóttur Flóvenz, á www.jurovision.wordpress.com!

Kíktu þangað!

Eftir Eurovision!

17 Maí

Ég hafði sannarlega alrangt fyrir mér í síðustu færslu þegar ég spáði Grikklandi og Armeníu svo góðu gengi (Noregur vann hins vegar, svo að þar var ég ekki langt frá 😉 ) – Sakis okkar náði 7. sæti og armensku systurnar vermdu 10. sæti!

Úrslitin voru æsispennandi og stigagjöf varð sannarlega til þess að koma blóðrásinni af stað. Hér koma úrslitin:

1. Noregur (387 stig)
2. Ísland (218 stig)
3. Azerbaídjan (206 stig)

4. Tyrkland (177 stig)
5. Bretland (173 stig)
6. Eistland (129 stig)
7. Grikkland (120 stig)
8. Frakkland (107 stig)
9. Bosnía Hersegóvína (106 stig)
10. Armenía (92 stig)
11. Rússland (91 stig)
12. Úkraína (76 stig)
13. Danmörk (74 stig)
14. Moldavía (69 stig)
15. Portúgal (57 stig)
16. Ísrael (53 stig)
17. Albanía (48 stig)
18. Króatía (45 stig)
19. Rúmenía (40 stig)
20. Þýskaland (35 stig)
21. Svíþjóð (33 stig)
22. Malta (31 stig)
23. Litháen (23 stig)
24. Spánn (23 stig)
25. Finnland (22 stig)

Kom mest á óvart: Jah, Ísland satt að segja (og auðvitað Sakis, hvað er málið!!) 🙂 Dómnefndir hafa sennilega haft sitt að segja um að góður flutningur Jóhönnu Guðrúnar vék fyrir kosningabandalögum og almennum nágrannavinskap – eða hvað? Er Evrópa loksins komin á bylgjulengdina með okkur?? Svo má bæta því við að þetta eru sennilega kreppt samúðarstig.
Einnig kom mér virkilega á óvart að Frakkar skildu komast svona hátt. Ég hafði heldur ekki mikla trú á Bretum en flutningurinn á því lagi var virkilega góður. Patricia Kaas er ekki svo vel að öllum þessum stigum komin, sorrí!

Kom minnst á óvart: Svíþjóð og Finnland lentu neðarlega, sem og Spánn og Þýskaland. Þær þjóðir reyndu – en þó að þú hafir heimsþekktan burlesque-dansara á sviði með þér, dugar það greinilega ekki til.

Gleðiefni kvöldsins: Burtséð frá atriði Dima Bilans (sem fékk bæði færibandið og brúnkukremið hans Sakis lánað) og var algjörlega hilarious var ég ánægðust með Sakis, að sjálfsögðu! Atriðið hjá honum var alvöru Júróvisjón og hann var virkilega vel stemmdur greinilega. Tek það þó fram að ég á eftir að horfa á keppnina aftur í betra tómi, 300 manna aðalfundur RKÍ var gott Eurovision-partí en ég þarf þó mitt næði 🙂

Vonbrigði kvöldsins: Flutningur Alexanders fannst mér betri á fimmtudagskvöldinu, og það var eins og hann væri stressaður. Væntingarnar til þýska atriðisins voru nú ekki miklar fyrir en almáttugur… ég afskrifaði það um leið og ég sá silfurbuxurnar! Ódýr leið til að ná til homma-crowdsins!

Niðurstöður undanriðla: Í fyrri riðlinum var Ísland á toppnum eftir símakosninguna, fékk alls 174 stig! Það er 2 stigum meira en Tyrkland – algjörlega frábær árangur! Tékkar lentu hins vegar í neðsta sæti (flipp sem missti alveg marks). Noregur var langefstur eftir símakosningu í sínum riðli, en Lettar voru neðstir – lag sem enginn skildi…
Noregur og Ísland, tvö efstu lönd í sínum undanriðlum lentu svo í fyrsta og öðru sæti í aðalkeppninni!

Dómaraatkvæðin: Úr fyrri undanriðlinum komst Finnland áfram á dómaraatkvæði en Króatía úr hinum síðari. Þessi lönd lentu í sætum 25 og 18 í aðalkeppninni.

Að lokum vil ég endilega fá komment frá ykkur sem hafið verið að lesa 🙂 Látið í ykkur heyra, hvað var gott/vont, best/verst – hvernig fannst ykkur svo umfjöllunin?

Úrslitakeppnin í Eurovision 2009 er í kvöld!!!

16 Maí

Undanúrslitin í gær voru skemmtileg en fátt sem kom mér á óvart. Löndin sem komust áfram voru: Litháen, Króatía, Grikkland, Azerbaídjan, Moldavía, Eistland, Danmörk, Albanía, Noregur og Úkraína. Ég hafði trú á því að Hollendingar kæmust áfram af því að þeir voru síðastir á svið. Var dauðfegin að svo var ekki og mjög sátt við moldavíska lagið á sviði í staðinn.

Ég verð að vera ánægð með mínar spár hérna á blogginu, upp úr undankeppnunum spáði ég rétt í 16 af 20 keppendum, það er 80% skor – íslensku spekingarnir hvað? 🙂

Uppröðunin verður eftirfarandi í kvöld:

1. Litháen
2. Ísrael
3. Frakkland
4. Svíþjóð
5. Króatía
6. Portúgal
7. Ísland
8. Grikkland
9. Armenía
10. Rússland
11. Azerbaídjan
12. Bosnía Hersegóvína
13. Moldavía
14. Malta
15. Eistland
16. Danmörk
17. Þýskaland
18. Tyrkland
19. Albanía
20. Noregur
21. Úkraína
22. Rúmenía
23. Bretland
24. Finnland
25. Spánn

Nú vandast hins vegar málið þar sem símakosningin gildir 50% á móti vægi dómnefnda hvers lands sem gilda hin 50%. Þannig er nánast lífsins ómögulegt að ákveða hvernig þetta skiptist á milli því úrslit dómnefndar eru væntanlega afar ólík almenningskosningu, þar sem meira er um múgsefjun 🙂

Ég ætla því að spá því hvernig úrslitin líti út ef ég mætti ráða:

1.-3.
Grikkland
Noregur
Armenía

4.-6.
Bosnía
Úkraína
Moldavía

7.-10.
Eistland
Ísland
Króatía

11.-15.
Albanía
Malta
Finnland
Portúgal
Ísrael

16.-25.
Litháen
Azerbaídjan
Þýskaland
Tyrkland
Rússland
Rúmenía
Spánn
Danmörk
Frakkland
Svíþjóð
Bretland

Nú verðum við bara að bíða og vona! Jóhanna Guðrún á eftir að standa sig í kvöld, en það verður erfitt að vera á undan Grikklandi og Armeníu. Góða skemmtun!

Síðari undankeppnin í kvöld!

14 Maí

Jæja, löndin sem komust áfram á þriðjudag voru: Armenía, Malta, Rúmenía, Bosnía Hersegóvína, Finnland, Portúgal, Ísrael, Tyrkland, Svíþjóð og síðast en ekki síst Ísland 🙂 Guði sé lof – þá verður stemming á íslenskum heimilum á laugardaginn!
Ég var með 7 lönd af 10 rétt; veðjaði á að flippunum (Búlgaríu og Tékklandi) gengi betur en raun bar vitni (eiginlega sem betur fer)! Og Hvít-Rússinn með Voldemort-dansarann sinn komst heldur ekki á blað!

Spáin fyrir kvöldið í kvöld er hins vegar mál málanna. Í kvöld keppa eftirfarandi lög:

1. Króatía
2. Írland
3. Lettland
4. Serbía
5. Pólland
6. Noregur
7. Kýpur
8. Slóvakía
9. Danmörk
10. Slóvenía
11. Ungverjaland
12. Azerbaídjan
13. Grikkland
14. Litháen
15. Moldavía
16. Albanía
17. Úkraína
18. Eistland
19. Holland

Mín spá fyrir kvöldið er svo á þessa leið:

Króatía: Eina alvöru balkan-ballaðan í keppninni að mínu mati. Býst fastlega við því að lagið komist áfram, ef ekki á eigin verðleikum þá á atkvæðum Austur-Evrópu.
Noregur: Hypið í kringum þetta lag kemur honum í úrslit – en svo skulum við sjá! Mér finnst hann æði og vona að hann vinni, svo ég komist til Noregs á keppnina á næsta ári 🙂
Danmörk: Lagið sem miðaldra fólkið á eftir að kjósa, finnst það ekki spes en býst við að það komist áfram.
Azerbaídjan: Þeir komast áfram á welcome-votes því að þeir tóku fyrst þátt í fyrra. Lagið er ágætt.
Grikkland: Sakis er langsigurstranglegastur í þessari annars lélegu keppni (svona á heildina litið)!
Albanía: Kejsi litla gæti gert góða hluti á sviðinu.
Eistland: Flott lag og næstsíðast sem er gott! Minni á að síðustu 5 lögin í fyrri riðlinum komust öll áfram!!
Holland: Eru síðastir á svið sem á eftir að hjálpa þeim áfram, þrátt fyrir hörmulegt lag!
Litháen: Er ekki alveg viss um 10. lagið sem kemst áfram en skýt á Litháen, ágætt lag og dálítið öðruvísi!

Góða skemmtun í kvöld!

Fyrri undankeppnin í kvöld!!

12 Maí

Gleðilegt Eurovision, öll sömul!

Ég lofaði að fara yfir lögin sem keppa í kvöld og spá hver þeirra komast áfram. Röð laganna er á þessa leið:

1. Svartfjallaland
2. Tékkland
3. Belgía
4. Hvíta-Rússland
5. Svíþjóð
6. Armenía
7. Andorra
8. Sviss
9. Tyrkland
10. Ísrael
11. Búlgaría
12. Ísland
13. Makedónía
14. Rúmenía
15. Finnland
16. Portúgal
17. Malta
18. Bosnía Hersegóvína

Löndin sem ég tel að komist áfram, með símakosningu og á dómaraatkvæði (9 lög komast áfram á símakosningu og 10. lagið velur dómnefnd sem horfði á rennslið í gær):

Bosnía Hersegóvína: Góð etnískt poppballaða með rokkívafi. Svo eru þeir síðastir á svið.
Malta: Chiara á eftir að taka þetta á lokasprettinum, sakar ekki að vera næstsíðastur!
Finnland: Danslagið í kvöld, býst við að það komist áfram.
Rúmenía: „Balkan Girls“kemur sterkt inn því að það eru nú mörg Balkanlönd í keppninni…
Búlgaría: Málið er að það eru tvær óperuballöður í kvöld og ólíklegt að þær komist báðar áfram. Ég held að Búlgarinn Krassimír verði hlutskarpari – á kostnað sænsku óperusöngkonunnar…
Tyrkland: Jú, Hadise er nú líkleg til vinsælda!
Armenía: Systurnar Inga & Anush koma með þjóðlega lagið í kvöld og komast bókað áfram!
Hvíta-Rússland: Hvít-Rússinn Petr kemst áfram, ef ekki væri nema bara fyrir sléttujárnið sitt!
Ísland: Líkurnar eru góðar fyrir Jóhönnu Guðrúnu, kannski bara með dómaraatkvæðinu!
Tékkland: Flipplagið í kvöld gæti komist áfram á atkvæðum óhefðbundinna Eurovision-áhorfenda!

Góða skemmtun bara í kvöld og áfram Ísland!!

P.S. Set hérna að lokum inn lag Georgíumanna sem við fáum ekki að sjá þar sem það var bannað í keppnina! Get nú ekki sagt að það sé mikil eftirsjá af laginu (ekki mjög gott/frumlegt) en textinn er áhugaverður:

Eurovision í Moskvu – 6. hluti

10 Maí

Hér er síðasti Eurovision-pakkinn frá mér, njótið vel!
Set inn spá fyrir undanúrslitin á þriðjudag! 🙂

Tékkland
Flytjandi: Gispy.cz
Lag: Aven Romale

Opinbert flipplag frá Tékkum sem tóku fyrst þátt árið 2007 og hafa ekki riðið feitum hesti frá þessari keppni. Þeir gefa skít í þetta allt saman og senda rapparann Radoslav Banga með hljómsveitinni Gipsy.cz. Lagið var valið með því að hljómsveitin flutti tvö lög í sjónvarpsþætti heima fyrir og varð Aven Romale fyrir valinu. Í laginu er rómanskur lífsstíll lofaður og segir í textanum: „I can make you really sing like Gipsy“. Lagið er ekki allra; þjóðlagaskotið rapp og popp og satt best að segja á ég ekki von á góðu í keppninni.

Tyrkland
Flytjandi: Hadise
Lag: Dum Tek Tek (Boom Bang Bang)

Tyrkir senda óvenjulítið etnískt lag í ár. Hadise er hins vegar hin tyrkneska Shakira með Beyonce-takta. Hún flytur svona la-la r&b-popplag með tyrkneskum undirtón. Þið getið bókað að hér verður magadans! Gæti orðið vinsælt klúbbalag í Evrópu, virkar þannig á mig en veit ekki hvort þetta er sigurvegari…

Úkraína
Flytjandi: Svetlana Loboda
Lag: Be my Valentine! (Anti-crisis Girl) 

Ég skellti nú upp úr þegar ég sá live-myndbandið úr undankeppninni. Þetta lag gæti orðið flippið í ár, þó að það sé nú kannski ekki lagt upp með það. Söngkonan Svetlana er hress; tekur sér trommukjuða í hönd, skiptir um föt/er í harla litlum fötum og lætur bera sig inn á sviðið öfuga hangandi aftan á bakinu á einum dansaranum! Mér finnst gerviaugnhárin sem eru að detta af henni eiginlega best! Hvet ykkur til að kíkja á myndbandið (set það frekar inn heldur en opinbera myndbandið) Hlakka til að sjá þetta á sviði – þó að lagið sé fjarri því að vera gott!

Ungverjaland
Flytjandi: Zoli Ádok
Lag: Dance With Me

Ungverjum hefur gengið upp og ofan í keppninni. Þeir tóku fyrst þátt árið 1994 en tóku sér hlé frá 1998-2005 og svo aftur árið 2006. Besti árangurinn var 2007 en þá lentu þeir óvænt í 2. sæti með Unsubstantial Blues. Í fyrra lenti ungverska lagið hins vegar í neðsta sæti í sínum undanriðli. Lagið í ár er týpískt diskóskotið danslag sem er eiginlega hvorki fugl né fiskur, skv. myndbandinu veit það ekkert hvar það á heima (allar týpur af dansi dansaðar…). Á mjög líklega eftir að týnast e-s staðar!

Þýskaland
Flytjandi: Alex Swings Oscar Sings!
Lag: Miss Kiss Kiss Bang

Þjóðverjarnir slógu í gegn (a.m.k. hjá mér) með Frauen Regieren die Welt 2007 og ætla greinilega að reyna aftur við swingað danspopp. Söngvarinn Alex er samt hræðileg klisja, í myndbandinu er hann með skyrtuna opna niður að nafla og nauðrakaða bringu. Þjóðverjar keppa eins og venjulega í aðalkeppninni og ætla greinilega að leggja sig aukalega fram í ár því að heyrst hefur að burlesque-stjarnan og tísku-iconið Dita Von Teese komi fram á sviðinu með þeim Alex og Oscari! Það verður sannarlega spennandi!

Eurovision í Moskvu – 5. hluti

9 Maí

Hérna kemur næstsíðasti skammturinn af Eurovision. Það styttist óðum í fyrri forkeppnina sem er á þriðjudag og þá keppir Ísland (nánar um það síðar).

Slóvenía
Flytjandi: Quartissimo
Lag: Love Symphony

Eins og Eistland veðjar Slóvenía á popp með klassísku ívafi. Söngkonan Martina Majerle er þó í algjöru aukahlutverki hjá strengjakvartettnum Quartissimo því að heil mínúta líður af laginu áður en hún byrjar að syngja. Lagið er ágætt en mér finnst persónulega eistneska lagið betra. Þau eru þó ekki í sama riðli þannig að maður veit aldrei hvað gerist!

Spánn
Flytjandi: Soraya
Lag: La Noche Es Para Mí (The Night Is For Me)

Spánn sótti um að fá að kjósa í síðari undankeppninni en stóru löndin fjögur (Bretland, Spánn, Þýskaland og Frakkland) fara í pott og er dregið úr honum tvö lönd til að kjósa á hvorum undanúrslitum. Þetta þýðir að það eru þrjú stór lönd sem taka ekki þátt í öðrum undanúrslitunum sem kjósa (Rússland sem vann í fyrra, Frakkland og Spánn) en aðeins Bretland sem kýs í fyrri undankeppninni.
Hvað sem því líður, er langt síðan Spánn komst á sigurpall í Eurovision (1968 og 1969), spænsku lögin komust þó á topp 10 á árunum 2000-2004. Í ár er europopp málið með söngkonuna Sorayu í fararbroddi. Ég veit nú ekki hvort Evrópa fíli það á spænsku með örlítilli ensku en það eru víst nóg af europoppurum þarna úti 🙂

Svartfjallaland
Flytjandi: Andrea Demirovic
Lag: Just Get Out of My Life

Svartfellingar tefla hér fram ungri söngkonu, Andreu sem er fyrsti kvenfulltrúi þeirra frá því að þeir komu fram sem sjálfstæð þjóð 2007. Lagið er danspopp og ekkert sérstakt þannig, gæti gert einhverjar gloríur á sviðinu því að söngkonan er frekar góð og ekkert því til fyrirstöðu að lagið komist upp úr undankeppninni.

Sviss
Flytjandi: Lovebugs
Lag: The Highest Heights

Hljómsveitin Lovebugs hefur verið starfandi frá tíunda áratugnum og flytur í keppninni brit-pop-lagið The Highest Heights. Þeir eru greinilega undir áhrifum frá hljómsveitum á borð við U2 en lagið er ekkert sérstaklega spennandi sem slíkt og alveg spurning hvort flutningurinn á sviðinu geti gert það eftirminnilegt…

Svíþjóð
Flytjandi: Malena Ernman
Lag: La Voix

Svíar eru ein sigursælasta þjóðin í Eurovision og senda algjörlega skotheldar melódíur, jafntraustar og Volvo! Lagið í ár er þar engin undantekning en í fyrsta sinn í ár er stór hluti sænska lagsins sunginn á frönsku, sbr. titilinn. Óperusöngkonan Malena þenur sig í hæstu hæðir í lok lagsins sem er alltaf varhugavert en svo er það eitthvað við röddina sem ég fíla ekki. Þær laglínur sem eru ekki sungnar í óperustíl jaðra við að vera falskar og eru nánast of djúpar fyrir hana. Ég get ekki sagt að ég sé hrifin af sænska laginu í ár en við skulum sjá það á sviðinu!

Eurovision í Moskvu – 4. hluti

8 Maí

Áfram höldum við, næstu fimm lög eru eftirfarandi:

Portúgal
Flytjandi: Flor-de-lis
Lag: Todas As Ruas Do Amor (All the Streets of Love)

Ég er fyrsta manneskjan til að viðurkenna hvað ég fíla skrítin og fyndin Eurovision-lög en boy oh boy, þetta er fullmikið! Portúgalar setja hérna á svið hin ýmsu blómabörn, ung og gömul og spilar og syngur hver með sínu nefi. Við Hilla komumst að því að þetta væri svipað og þegar menntaskólar utan af landi flytja frumsamið hnoð í Söngvakeppni framhaldsskólanna! Pínu kjánahrollur! Portúgal fattar bara alls ekki Eurovision og sendir því persónugervinga Menntaskólans að Laugum í keppnina í ár! (djók) Alls ekki minn tebolli og klár pissupása! 

Rúmenía
Flytjandi: Elena
Lag: The Balkan Girls

Æ, hvað á maður að segja? Fáklæddur stúlknahópur sem struts their stuff á sviðinu og syngur um hversu skemmtanaglaðar og auðsveipar balkneskar stúlkur séu… þetta lag hefði slegið í gegn í Eurovision svona 2002-2004, en ekki núna. Það eru meira að segja búningaskipti á sviðinu og allt! Rúmeníu gekk best í keppninni á árunum 2005-2006 með klúbbateknóið sitt og ættu að halda sig við það.

Rússland
Flytjandi: Anastasia Prikhodko
Lag: Mamo (Mamma)

Rússar eru eins og gefur að skilja í aðalkeppninni í ár og óðurinn til móðurinnar er fluttur af úkraínsku söngkonunni Anastasiu á rússnesku. Hún fékk ekki að keppa fyrir hönd Úkraínu og bar fyrir sig kosningasvindl. Henni var því troðið inn í rússnesku undankeppnina á síðustu stundu og er því fyrsti útlendingurinn sem keppir fyrir hönd Rússlands. Live-flutningur lofar ekkert sérstaklega góðu en viðlagið er þó grípandi. Ég held að Rússar komist þó á blað fyrir að vera gestgjafar og jú, líka fyrir að vera Rússar!

Serbía
Flytjandi: Marko Kon & Milaan
Lag: Cipela

Hérna er komið svona týpískt Eurovision-þjóðlaga-djók-lag að hætti Verku Serduchku frá Úkraínu 2007. Þetta er reyndar svona poppað þjóðlag sungið af manni með mikið hár og bakradda/dansara sem dansa undarlega. Fyndnin kemst sannarlega ekki til skila utan Júgóslavíu því að lagið er sungið á serbnesku. Spurning hvert það skilar Serbíu í ár?

Slóvakía
Flytjandi: Kamil Mikulčík & Nela Pocisková
Lag: Let Tmou (Cross the Darkness in Flight)

Slóvakía hefur haldið sig frá Eurovision frá árinu 1998 þegar fulltrúi þeirra lenti í 21. sæti. Þá hafði landið keppt tvisvar áður í keppninni (1994 og 1996) með slökum árangri, 18. og 19. sæti. Lagið í ár er ekki líklegt til vinsælda, held ég! Myndbandið sýnir par sem er ofsalega sorgmætt, liggur ofan á flygli og heldur á stórum útskornum ramma þar sem söngvararnir tveir birtast. Það segir manni ýmislegt um dramaballöðuna, sem er hins vegar alls ekki spennandi eða nógu góð til að komast upp úr undankeppninni.

Eurovision í Moskvu – 3. hluti

7 Maí

Ætla að prófa að setja inn færri lög í einu… dálítið vesen að skrolla svona alltaf hreint!

En – hér koma 5 lög í viðbót:

Makedónía
Flytjandi: Next Time
Lag: Neshto Shto Ke Ostane

Frá Makedóníu kemur band með tvíburabræðurna Martin og Stefan Filipovski í fararbroddi, Stefan syngur en Martin leikur á gítar og syngur bakraddir. Þeir eru fyrsta dúóið sem Makedónía sendir og flytja 80’s-skotið rokklag og hafa greinilega fengið sér hárgreiðslu í stíl! Lagið minnir um margt á Bon Jovi en er lítið spennandi og ég spái þeim ekki í aðalkeppnina. Besti árangur Makedóna hefur verið 9. sætið og hann batnar ekki í ár, held ég.

Malta
Flytjandi: Chiara
Lag: What If We

Hér er önnur Eurovision-stjarna á ferðinni en Chiara hefur keppt fyrir hönd Möltu í tvígang, 1998 með lagið The One that I Love og árið 2005 með eigið lag/ABBA-lagið (!) Angel. Hún er ofsalega flott söngkona og lenti eftirminnilega í öðru sæti í keppninni 2005 þar sem hún laut í lægra haldi fyrir Helenu Paparizou með My Number One. Nú er hún mætt aftur en ekki með jafnsterkt lag og þá. Lagið er dramaballaða, vel flutt en það vantar einhvern neista. Vona samt að henni gangi vel því að hún væri vel að sigrinum komin…

Moldavía
Flytjandi: Nelly Ciobanu
Lag: Hora Din Moldova

Lagið heitir Hora frá Moldavíu og er nokkurs konar þjóðlegur hringdans, en lagið er poppað upp í dans-teknó-takt, meira að segja smá rapp í því líka. Sungið er á moldavísku og söngkonan er reynd þjóðlagasöngkona og skilar sínu án efa vel. Etnísk áhrif eru ríkjandi í laginu og gaman verður að sjá það á sviði. Spennandi!

Noregur
Flytjandi: Alexander Rybak
Lag: Fairytale

Kannski klisja að segja það en ég held að Norðmenn hafi hitt á gullæð í ár! Reyndar er gullæðin ekki norsk, heldur ættuð frá Hvíta-Rússlandi í formi Alexanders Rybaks, ungs stráks sem lítur í alvörunni út eins og Pétur Pan!! Hann er nú ekki sterkasti söngvarinn en samdi sjálfur lagið og leikur undir á fiðlu. Lagið er það sterkt að það gæti fleytt honum yfir á sæmilegum söng. Norðmenn hafa löngum verið í þessum ævintýrapælingum í Eurovision (Nocturne, Romeo o.s.frv.) og ég á alveg eins von á því að þeir sigri í ár – svo segja a.m.k. margir veðbankar!! 🙂 Það er sannarlega þess virði að horfa á seinni undanúrslitin bara fyrir Noreg!

Pólland
Flytjandi: Lidia Kopania
Lag: I Don’t Wanna Leave

Pólverjar tefla fram svipaðri uppsetningu í ár og Íslendingar; ung og hárprúð söngkona með drama-ballöðu. Reyndar held ég að samanburðurinn nái ekki lengra því að pólska lagið hefur ekki mjög sterka laglínu og af live-flutningi heyrist mér sú pólska ekki svo beysin. En við skulum nú ekki útiloka kosningamátt pólskra verkamanna og -kvenna út um alla Evrópu, þeir hljóta að vilja sjá sína konu í úrslitunum eins og við!

Eurovision í Moskvu – 2. hluti

23 Apr

Umfjöllunin heldur áfram um keppnina í maí – endilega kommentið og kíkið á lögin!! Update: Setti inn myndböndin líka, kannski auðveldari yfirferð núna…

 

Finnland
Flytjandi: Waldo’s People
Lag: Lose Control

Aldrei þessu vant veðja Finnarnir ekki á þungarokkið sem færði þeim sigurinn 2006. Í ár senda þeir danssveitina Waldo’s People sem stofnuð var 1998 og hefur verið sú stærsta í heimalandinu undanfarið. Lagið er ekta euro-danssmellur og mun heyrast á diskótekum um alla Evrópu í sumar en ég veit þó ekki með framgönguna í Moskvu. Fer allt eftir því hvað verður gert á sviðinu…

 

Frakkland
Flytjandi: Patricia Kaas

Lag: Et s’il fallait le faire (What To Do)

Frakkar senda reynsluboltann Patriciu Kaas sem er ein sú allra vinsælasta í Frakklandi, en hefur einnig skapað sér nafn í Belgíu, Sviss, Finnlandi, Hollandi, Austurríki og á Nýja-Sjálandi. Lagið er týpískt fransk kabaret-lag með harmonikku og er sérstakt að því leyti að það skiptist ekki í laglínu og viðlag, en slík lög voru vinsæl á árdögum keppninnar. Með því eru Frakkar sennilega að reyna að hverfa til baka til þeirra gömlu góðu daga þegar þeim gekk vel í keppninni (1958,1960,1962 og 1977 þegar þeir stóðu með pálmann í höndunum). Verst að restin af Evrópu er líklega ekki sama sinnis! Fyrir manneskju sem ekki skilur frönsku er lagið algjörlega óskiljanlegt, ekkert eftirminnilegt við það, dramakafli í lokin verður hálfkjánalegur en söngkonan skilar sínu.

 

Grikkland
Flytjandi: Sakis Rouvas
Lag: This Is Our Night

Oooog Sakis er mættur aftur!! Evróvisjón-aðdáendur fá ekki nóg! Hann flutti hið frábæra Shake It 2004 (hér er linkur á það ef þið eruð búin að gleyma því), tók þátt í lokaatriði Ólympíuleikanna í Aþenu 2004 og var svo kynnir í keppninni 2006. Hann lætur ekki deigann síga og mætir á svið í Moskvu 2009 með lag sem gæti verið pepplag fyrir alla keppendur og áhorfendur Eurovision, þetta er kvöldið okkar! Ég var ánægðust með hina klassísku Eurovision-hækkun sem er í laginu 🙂 Fyrir ykkur sem fílið þetta gamla góða júrópopp, er þetta sannarlega lagið ykkar! Þetta verður sko show í lagi…

 

Holland
Flytjandi: De Toppers
Lag: Shine

Ekki hefur farið mikið fyrir góðu gengi Hollands í Eurovision undanfarið. Eftir að hafa sigrað í keppninni 1975 með Ding-a-dong hefur hollenska framlagið hæst komist í 4.sæti árið 1998. Í ár sendir Holland þríeykið The Toppers (De Toppers) sem hefur notið nokkurra vinsælda í heimalandinu. Hérna er komið fyrsta frið-á-jörðu-lagið í ár, Shine. Að öllum líkindum munu Réne, Gordon og Gerard sem eru alveg jafn miðaldra og þeir hljóma, kveikja á litlum vasaljósum við flutning lagsins, eins og sést í myndbandinu. Minnir óneitanlega á tendrun friðarsúlunnar í Viðey þegar Yoko blikkaði I-love-you með vasaljósinu sínu. Úff… lagið er kynnt sem “nostalgic up-tempo disco schlager”… dæmi hver fyrir sig! Hollendingar eiga a.m.k. ekki eftir að gera neinar gloríur með þessu lagi.

 

Hv-Rússland
Flytjandi: Petr Elfimov
Lag: Eyes That Never Lie

Petr þessi er þriðji í röð einsöngvara sem Hvít-Rússar veðja á og flytur rokkballöðu. Hann hefur lýst því yfir að Queen séu hans helstu fyrirmyndir og stefnir á að landa titilhlutverkinu í rokkóperunni Jesus Christ Superstar. Í kynningunni er hann titlaður rómantíker og í vatnsberamerkinu. Lagið er kraftballaða og gæti gert góða hluti ef flutningurinn verður góður á sviðinu.

 

Írland
Flytjandi: Sinead Mulvey & Black Daisy
Lag: Et Cetera (O.s.frv.)

Stúlknasveitir eru svo sem ekkert nýtt í Eurovision, jafngamlar keppninni líklega. Hér senda Írar eighties-skotið popp eftir sömu höfunda og sömdu lag Heru Bjarkar í dönsku undankeppninni, Someday. Írar hafa farið illa út úr því að enska var leyfð í keppninni. Þessi sigurfræga þjóð sem hefur sigrað sjö (!) sinnum í Eurovision lenti t.d. í neðsta sæti árið 2007. Et Cetera er glimrandi eighties-popp flutt af hljómsveitinni Black Daisy frá Dublin og söngkonunni Sinead Mulvey. Viðlagið er grípandi og spurning hvort lagið eigi ekki eftir að koma Írum upp úr undankeppninni.

 

Ísland
Flytjandi: Yohanna/Jóhanna Guðrún
Lag: Is It True?

Jæja… ég sagði í bloggi um undankeppnina: “Hvað skal segja? Ágætislag svo sem, early Celine Dion… Fannst samt óþarfi að Jóhanna Guðrún tæki Celine bara alla leið, með slöngulokkana og glitrandi kjólinn. Hún var ekki sannfærandi í því hlutverki og það kom niður á flutningnum þó að söngurinn væri góður. Fær ekki mitt atkvæði.” Síðan þá hefur lagið verið spilað gengdarlaust í útvarpinu og ekki get ég sagt að það hafi batnað mikið við þá síbylju. OK, hún má eiga það að söngurinn og flutningurinn verður solid því að hún er reynslubolti en mér finnst bara lagið ekki nógu skemmtilegt, sorrí. Myndbandið fór svo alveg með það. Vonandi, vonandi hittum við bara naglann á höfuðið með þessu lagi og Evrópa fíli það og gefi okkur fullt af samúðarstigum 🙂

 

Ísrael
Flytjandi: Noa & Mira Awad
Lag: Einaiych – There Must Be Another Way

Engin bylting hér, Ísraelar halda áfram að syngja um frið og stríð. Textinn við lagið er á þremur tungumálum; hebresku, arabísku og ensku og hljómar svo: There must be another way/ We will follow a long/ A really hard way/ Together into the light/ Your eyes tell that/ All fears will disappear. Ísraelska undankeppnin var með sama sniði og í fyrra, flytjendurnir Noa & Mira fluttu fjögur ólík lög sem kosið var um og var þetta lag kosið með símakosningu. Lagið sjálft er harla leiðinlegt og ég býst ekki við að það komist neitt áleiðis að sigri.

 

Króatía
Flytjandi: Igor Cukrov
Lag: Lijepa Tena (Fagra Tena)

Ástarljóðið um hina fallegu Tenu sigraði í undankeppninni í Króatíu sem var blanda af tíu fyrir fram völdum lögum frá ríkissjónvarpinu og sex lögum frá tónlistarhátíðinni Dora. Igor flutti eitt af hinum tíu ríkislögum og þurfti því ekki að fara í gegnum undankeppni. Lagið er ballaða undir balkneskum áhrifum og vel sungin. Ég hlakka til að sjá flutninginn á sviði því lagið er kraftmikið með fallegum undirleik og gæti því vel komið á óvart enda fjölmargir unnendur balkneskra ballaða um alla Evrópu!

 

Kýpur
Flytjandi: Christina Metaxas
Lag: Firefly

Hin unga Christina flytur lagið Firefly. Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um þetta lag, raddbeitingin hjá henni er mjög undarleg í viðlaginu og með stressi á sviðinu fyrir framan milljónir manna gæti þetta orðið ámátlegt mjálm, satt að segja. Lagið er annars frekar flatt og lítið spennandi.

 

Lettland
Flytjandi: Intars Busulis
Lag: Sastregumi/Probka (Traffic Jam)

Lagið um manninn sem reynir að komast í gegnum umferðaröngþveiti til ástarinnar sinnar var upphaflega sungið á lettnesku en verður flutt á rússnesku í Moskvu. Er það í fyrsta sinn sem lag er algjörlega flutt á rússnesku í Eurovision síðan T.A.T.U fluttu Ne ver, ne bosya 2003 og ætla Lettar sér örugglega að koma sér í mjúkinn á gestgjöfunum með þessu móti. Hljómsveitin hefur keppt reglulega í lettnesku undankeppninni en aldrei unnið fyrr en nú. Ég hugsa að lagið sé ekki allra því að það er dálítið skrítið en áhugaverðastir voru kjólar bakraddanna í myndbandinu frá undankeppninni, vonandi verða þær í þeim í Moskvu. Risastórir og stórskemmtilegir!

 

Litháen
Flytjandi: Sasha Son (Dmitry Šavrov)
Lag: Love

Litháen er eina Eystrasaltslandið sem ekki hefur fundið gullnu leiðina í Eurovision á meðan Lettar og Eistar hafa hrósað sigri. Í ár senda þeir Sasha Son með píanó r&b-lagið Love. Lagið er flutt á ensku en inn í enskuna gætu komið erindi á litháensku og/eða rússnesku á sviðinu í Moskvu. Flutningurinn er góður og lagið er lágstemmt en nokkuð grípandi viðlag. Litháen gæti því komið á óvart í ár.