Sarpur | Ferðalög RSS feed for this section

Myndablogg #38

16 Nóv

Á þessari síðu (eins og örugglega fjölmörgum öðrum) er listi yfir 100 staði sem þú verður að heimsækja áður en þú deyrð.

Af þessum stöðum hef ég heimsótt: 2) Kínamúrinn, 13) Great Barrier Reef, 41) sýkin í Feneyjum, 67) Flórens, 89) British Museum og 97) Neuschwanstein-kastalann. Það gera 6 af 100 stöðum! Ég á sko nóg eftir 🙂

Hvert hefur þú komið? Og myndirðu vilja sjá e-ð annað á þessum lista?

Myndablogg #22

20 Okt

Akureyri var indæl. Ljúft veður, milt og svolítil rigning. Gengum um miðbæinn, borðuðum á Bautanum og Greifanum (namminamm), fórum í sund á Dalvík og í nokkrar búðir. Heimsótti tvær af uppáhaldsbúðunum mínum, þessa og þessa, og keypti plötur, bolla og glös og að sjálfsögðu te!

Það er samt alltaf notalegt að koma heim til sín aftur eftir svona mini-break.

PA170011

Myndablogg #20

16 Okt

Nú erum við á leið norður á Akureyri. Kem sennilega ekki til með að pósta neinu hérna inn fyrr en í næstu viku.
Það verður sennilega kalt og kannski snjór en það verður bara notalegt.

PA180035

Myndablogg #14

6 Okt

Óhætt að segja að dýralífið þarna fyrir vestan um helgina hafi verið fjölbreytt. Í göngunum rákumst við t.d. á margar tófur sem við rákum á undan okkur.
Þegar við gengum fyrir Ófærunesið í Trostansfirði kíktu á okkur tveir útselir. Þeir möruðu í hálfu kafi og fylgdust með okkur forvitnir; einn þeirra fylgdi smöluninni alveg inn í botn.
Þetta eru ekki þessir sætu litlu selir sem maður sér á myndum eða í Húsdýragarðinum. Þessir geta orðið 300-400 kíló og ansi illskeyttir. Kannski bara fínt að þeir héldu sig í sæmilegri fjarlægð.

Það er eitthvað hreppstjóralegt við hann þennan:

PA030016

Myndablogg #13

5 Okt

Fór vestur á Barðaströnd um helgina að smala með RGÍ.

Gengum Langabotn og Trostansfjörðinn í stafalogni og sums staðar snjó upp á miðja kálfa.
Vestfirðirnir skörtuðu sannarlega sínu fegursta og góða loftið og útiveran endurnæra þreyttan
Reykjavíkur-huga.

PA030009

Myndablogg #3

23 Sep

Við skötuhjúin fórum í frábært ferðalag í sumar um Austfirðina. Hún sveik okkur ekki austfirska þokan og það rigndi dálítið á okkur. Þegar við keyrðum niður á firðina sáum við varla út um framrúðuna í nokkrum tilfellum. Samt var voða ljúft að vera þarna í rigningunni því að helv. rokið varð eftir fyrir sunnan 😉
Ég tók myndaseríu í ferðalaginu sem fékk vinnuheitið „Húmor á landsbyggðinni ’09“ og við skemmtum okkur heilmikið yfir. Pósta hérna einni góðri frá Stöðvarfirði, takið eftir neðsta skiltinu:

P7301179

Göngu-júní 2009

6 Júl

Á þessum bæ einkenndist júní af göngum á hina og þessa hóla og hæðir.
Hápunktarnir hingað til hafa þó verið Leggjabrjótur og Tindfjallahringurinn í Þórsmörk.

Sunnudaginn 28. júní gekk ég Leggjabrjót við þriðja mann. Leiðin liggur frá Þingvöllum yfir í Hvalfjörð og við gengum þá leið. Fréttum svo að Ferðafélagið gengi yfirleitt frá Hvalfirði og yfir til Þingvalla. Sem er ótrúlegt því að það er svo miklu skemmtilegra að koma niður í gróðurinn og fegurðina í Hvalfirðinum eftir vindblásnu melana á leiðinni. Svo ég tali nú ekki um hvað Hvalfjarðaruppgangan er brött 🙂
Leiðin er um 15 km. Við vorum 6 tíma á leiðinni, nutum útsýnisins og stoppuðum nokkrum sinnum.

P6280737 P6280746

4.-5. júlí fórum við skötuhjúin í Þórsmörk og gengum Tindfjallahringinn á laugardeginum. Við gengum í brakandi blíðu upp Stóraenda og Stangarháls og höfðum þá útsýni yfir allt Goðalandið. Gengum svo upp á Búðahamar þar sem ó-lofthrædda ég naut mín 🙂 Fórum síðan hringinn í kringum Tindfjöllin, borðuðum nesti í Tröllakirkju og komum niður í Slyppugilið. Reyndar held ég að þetta sé öfugur Tindfjallahringur þar sem oftast er farið upp Slyppugilið og niður í Stóraenda. Við vorum 4 tíma á leiðinni og sólbrunnum hressilega aftan á hálsinum!

P7040799 P7040810

P7040826

Sumarfrí 2009

8 Jún

Þetta er þessi árlega „get-ekki-beðið-eftir-að-komast-í-sumarfrí“-færsla…

Við erum aðeins byrjuð að skipuleggja sumarfríið sem verður í styttra lagi í ár af mörgum ástæðum – aðallega vegna þess að ég kláraði nær alla sumarfrísdagana í Ástralíu 🙂

Hlakka svo til að rannsaka Austurlandið í sumar – allar ábendingar um áhugaverða staði vel þegnar!

Af Satorialist.blogspot.com

6 Maí

The Satorialist er skemmtileg vefsíða þar sem götutíska er í fyrirrúmi.

Þessa dagana er ljósmyndarinn í Ástralíu – það er vetur í Sydney:

sydney1

(Tekið við Royal Botanic Gardens með Harbour Bridge í baksýn. Takið eftir gangbrautarmerkingunum)

bondi1

(Bondi Beach)

sydney2

(Óperuhúsið, tekið á Circular Quay)

The Forgotten Garden

3 Maí

Þegar ég var að undirbúa ferðalagið til Ástralíu sá ég til þess að ég hefði nú nóg að lesa í ferðalaginu og pakkaði því samviskusamlega niður þremur enskum kiljum. Ég hafði heyrt að maður ætti að miða við eina viku á bók (!) og að sjálfsögðu var mun sniðugra að taka með sér lesefni á ensku sem hægt væri að skilja eftir á farfuglaheimilum fyrir aðra að njóta þegar ég væri búin. Enn einni kiljunni var svo gaukað að mér, þar sem sögusviðið var Ástralía.

Það er skemmst frá því að segja að ég opnaði ekki neina af þessum kiljum en skildi þær allar þrjár eftir, eina í Sydney og tvær í Melbourne. Hins vegar las ég ósköpin öll af glansblöðum. Góðærispúkinn keypti sér svo kilju í Brisbane til að lesa á heimleiðinni…

Um daginn tók ég til við að lesa fjórðu kiljuna, The Forgotten Garden eftir ástralska höfundinn Kate Morton. Eintakið ferðaðist með mér til Ástralíu og aftur til baka án þess að vera lesið. Þessi bók hitti mig svo algjörlega í hjartastað og ég er ofsalega fegin að ég les hana núna en ekki á meðan á dvölinni stóð því að lýsingarnar á ástralska umhverfinu vekja upp unaðslegar minningar. Hitinn, frangipani-trén í blóma, hljóðið í cicada-bjöllunum í regnskógunum í Brisbane… æðislegt! Fyrir utan nú söguþráðinn sem er skemmtilegur!

ABBA-spekingnum í mér var líka skemmt við byrjun lestursins. Eins og aðrir nördar vita var ABBA risastór í Ástralíu, nánast stærri en í Norður-Evrópu (eins og t.d. Brúðkaup Muriel gefur til kynna). Þess vegna fannst mér pínukrúttlegt að aðalpersónan í The Forgotten Garden heitir svo Cassandra eftir einu laga þeirra!