Sarpur | Heilsan RSS feed for this section

341. Dagligdags – 72. hluti

13 Des

p1010m010

Svo ég gleymi nú ekki alveg myndablogginu ætla ég að skella færslu hérna inn.
Ég skrapp í eftirmiðdagsgöngutúr með Helgu um daginn. Sagði við hana að ég kæmi til hennar um 16 „svo að við næðum smávegis birtu“. Því var nú öðru nær. Myrkrið í Þingholtunum og Vesturbænum var orðið þykkt og svart en það var snjóföl yfir og voðalega notalegt að vappa um.

p101001m4

Jólastemningin er orðin viðvarandi hjá flestum, held ég og það er nauðsynlegt að fara í örlítinn göngutúr endrum og sinnum, sérstaklega ef þið eruð eins og ég og fáið vöðvabólgu þegar þið lítið á tölvuskjá…

302. Dagligdags – 35. hluti

22 Okt

Í dag finnst mér ég vera dálítil hetja. Ég hef verið að vinna í lofthræðslunni minni undanfarið og hef náð býsna langt. Ég er afskaplega hrædd í djúpi vatni, veit ekki hvort hægt er að kalla það lofthræðslu (ég veit alveg að ég dett ekki í vatninu) en samt, finnst það mjög óþægilegt.

Ég fór sem sagt áðan með Helgu í Sundhöllina þar sem dýpsti hlutinn eru 4 metrar niður á botn (ég athugaði það). Þar hefur mér alltaf liðið illa og þótt ég láti mig hafa það að synda þar kíki ég aldrei niður. Áðan synti ég um og alveg niður á botn, snerti botninn með fótunum ooooog… hoppaði af litla pallinum á bakkanum ofan í og alveg niður á botn! Ji adrenalínsjokkið! Mjög erfitt en ég er þvílíkt stolt að hafa þorað þessu! Næst þegar ég fer verður þetta enn minna mál og að lokum eins og að drekka vatn! Og þá get ég sko bara sagt: Ástralía og Kóralrifið, hér kem ég!!!

291. Dagligdags – 25. hluti

10 Okt

Á miðvikudaginn fór ég í reglubundna lyfjagjöf. Fer alltaf á tveggja mánaða fresti og sit í klukkutíma á meðan lyfið pumpast inn í æðarnar. Þetta er nú rólegheitastund, maður situr og les kannski í bók og slappar aðeins af. Allt annað líf náttúrulega eftir að sérstofa á St. Jó var fyllt af lasyboy-stólum og við gátum fengið að vera pínu afsíðis.

Þetta tæki er bölvaður höfuðverkur og hefur sjálfstæðan vilja. Pípir af og til eins og brjálæðingur en er til friðs þess á milli.

Svona lítur hinn dýri vökvi út… sérblanda straight up!

278. Dagligdags – 12. hluti

22 Sep

Fór í mína fyrstu lýtaaðgerð núna rétt áðan (stefni nú sossum ekki á neinar fleiri, þannig að ekki búast við að bloggið mitt fari að snúast um það…)

Fór sum sé að láta taka blettinn á gagnauganum (sést á myndinni að ofan). Hann kom þegar ég var í MH, og hefur verið að stækka, dökkna og breyta um lögun; þ.e. klassískt dæmi um það að eitthvað sé að grassera sem ekki er fýsilegt…

Svona er ég þá núna. blettlaus, og má ekki fara í sund í 2 vikur …
– T V Æ R  V I K U R ??
Hvað á ég til bragðs að taka? Ji minn…
En eins og ég sagði við Rósu, þá er víst gott að láta tékka á sér áður en við grillumst í Ástralíu!

276. Dagligdags – 10. hluti

20 Sep

Hef undanfarið verið að reyna að yfirvinna lofthræðsluna sem mér virðist eðlislæg. Ég er í því sem kallast hugræn atferlismeðferð.
Helginni ætla ég að verja við það að „æfa“ mig, þ.e.a.s. fara á staði sem hræða mig og komast eins hátt og mögulegt er fyrir mig. Komst t.d. alla leið upp á topp í Perlunni á miðvikudaginn og gat gengið hringinn efst uppi meðfram handriðinu. Eitthvað sem hefði verið ómögulegt ef ég hefði ekki lært ákveðna tækni við þessar aðstæður…

Læt fylgja hér með mynd frá Látrabjargi þar sem hæðin var alveg að drepa mig.

206. Nýr og betri kroppur

1 Okt

Er að spá í að prófa að fara í Trimform – og nýta til þess stéttarfélagsstyrkinn minn! 😉
Held það væri ekki vitlaust til að hressa aðeins upp á línurnar. Ég er náttúrulega líka úber-heilsusamleg með því að fara í sund á hverjum degi en þarf samt að skera af mér mörinn…

Svo er bara spurning hvernig gengur í sykurbindindi – ég hef hingað til alltaf þjáðst af ólæknandi sykurþörf nánast á hverjum degi! Einhverjar hugmyndir um hvernig maður sigrast á þörfinni?

205. Facebook snilld!

28 Sep

Ég lofaði sjálfri mér því þegar ég greindist með Crohn´s að ég skyldi nú ekki fara að láta allt snúast um hann, og hvað þá að fara að blogga um hann!
Ég sé það núna að ég hef bloggað nokkrar færslur og biðst afsökunar ef einhverjum hefur sárnað það 😉

Ég er hins vegar orðin brjáluð í Facebook og komst að því að þar eru nokkrir Crohns-hópar og meira að segja hópur sem spjallar um lyfið sem ég er á, Remicade. Það er náttúrulega bara snilld!
Það er nefnilega ósköp takmarkað sem ég hef fengið upp úr lækninum varðandi ýmislegt í tengslum við lyfið, t.d. meðgöngu og mataræði – og nú get ég fengið upplýsingar beint í æð frá fullt af fólki sem hefur mikla reynslu af þessum málefnum og er í sömu sporum og ég, einfaldlega með því að setja þar inn póst! Þarna eru meira að segja einhverjar konur sem hafa lagt út í meðgöngu á Remicade!! Spennandi…

P.s. Mér finnst að allir ættu að fá sér Facebook 😉

202. Haustveður

21 Sep

Dásamlegt veður í dag!
Á svona dögum finnst mér litlu hversdagslegu hlutirnir svo skemmtilegir og skondnir.
Í sundlauginni í hádeginum synti par á sömu braut hlið við hlið í hrókasamræðum. Þau mættu áður en ég kom og voru enn að, syntu hægt og rólega og spjölluðu og spjölluðu, þegar ég var hálfnuð með 700m mína. 🙂
Þegar ég var búin í sundi og labbaði fram hjá skyndibitaskálanum við Vesturbæjarlaugina heyrði ég að fréttirnar voru stilltar á hæsta styrk. Fréttin sem ég heyrði var þess efnis að grænt te hefði forvarnaráhrif á sykursýki og drægi úr sykursýki hjá sjúklingum. „Nú, jæja, ég fæ þá allavega ekki sykursýki!“ hugsaði ég þegar ég rölti yfir á Orðabókina aftur með sólina í augunum.

Lífið er frábært á Íslandi þegar sólin skín. Svo einfalt er það.

193. Hinn mjúki mjöður

18 Júl

Undanfarin ár hef ég verið ákafur talsmaður hvers kyns temenningar. Ég hætti að drekka kaffi og upphóf mikla tedrykkju sem stendur enn og sér varla fyrir endann á. Þegar ég var sem verst drakk ég te í öll mál og borðaði helst ekkert, kannski kex. Tekex.
Því má segja að teið hafi bjargað mér þegar ég var með ómaga því að það var eitt af því fáa sem ekki fór illa í hann.

Sem barn var ég sí og æ með blöðrubólgu og var ég látin drekka te við henni og hvarf tilfinningin eins og dögg fyrir sólu. Hef ekki fengið blöðrubólgu síðan. Þessu tvöfalda bjargræði mun ég seint gleyma. Því hef ég einsett mér að verða Tedrykkjukona með stóru T-i alla mína tíð.
Ósköpin byrjuðu fremur látlaust, ég skipti úr pokatei í laufte og keypti mér eina og eina tegund. Áður en ég vissi af var ég búin að hlaða í kringum mig alls kyns baukum og kirnum sem ég fyllti af ýmsum tegundum af tei. Ef ég keypti mér nýja tegund af tei en átti ekki bauk undir það keypti ég hann bara líka. Safnið er nú orðið ansi stórt.
Svona munaði fylgir ýmis búnaður sem sannur teaðdáandi má ekki láta fram hjá sér fara. Byrjendapakkinn samanstendur af meðalstórum katli, síu og tebolla í stórri stærð. Þegar maður fer að færa sig upp á skaftið bætast fleiri katlar og bollar við og skúffurnar fyllast af ýmis konar síum. Hunanginu má heldur ekki gleyma.
Ég vissi sem var að teið hafði haft sín góðu áhrif á mig en þegar ég fór að kynna mér hlutina betur komst ég að raun um að te hefur sjaldnast slæm áhrif. Eiginlega bara góð:

 • Drykkja á svörtu tei getur komið í veg fyrir gasmyndun í meltingarvegi
 • Svart te minnkar líkur á ákveðnum tegundum af krabbameini í maga
 • Hjartasjúklingar, sem drekka tvo bolla af tei á dag, minnka líkur á alvarlegum afleiðingum sjúkdómsins um 44%.
 • Svart te má nota útvortis til að flýta fyrir því að græða sár því að telaufið ýtir undir samdrátt húðarinnar.
 • Snefilefni í svörtu tei eru góð til varnar inflúensu-vírus og hafa meiri andoxunarefni en E-vítamín.
 • Svart te hefur eiginleika til varnar skaðlegum áhrifum geislunar úr umhverfinu.
 • Grænt te er án efa eitt öflugasta andoxunarefni sem til er. Það er ekki gerjað og er því auðugt af ýmis konar vítamínum og steinefnum; t.d. A, B1, kalki, járni, kalíum, sódíum, potassíum og sínki.
 • Grænt te lækkar kólesteról og blóðþrýsting og hefur einnig uppbyggjandi áhrif á ónæmiskerfið.
 • Japansk grænt te er gott fyrir húðina, ver gegn tannskemmdurm, er talið gott gegn æðaþrengslum, bakteríusýkingum, nýrnasteinum og offitu.  
 • Grænt te er talið svo C-vítamínríkt að tveir bollar af grænu tei gefa jafnmikið C-vítamín og stórt glas af hreinum appelsínusafa.
 • Rauðrunnate er talið gott við ýmis konar vöðvaverkjum og við exemi. Einnig er mælt með því við þá sem þjást af svefnleysi og hafa viðkvæman maga eða taugar.

Nú í sumar fór ég til Þýskalands og var alveg veik þegar ég rakst á litla búð sem seldi eingöngu te og tevörur. Mig hreinlega langaði til að kaupa allt sem fékkst þar. Hamdi mig og keypti nokkrar tetegundir sem ég vissi að voru ekki til heima.

Ástæðan fyrir þessari bloggfærslu er sú að núna upp á síðkastið hef ég EKKI drukkið sérstaklega mikið af tei. Drekk alltaf bolla á morgnana áður en ég fer í vinnuna og annan þegar ég kem heim. En ekkert meira. Sem er ekki svipur hjá sjón því að þegar ég vann að ritgerðinni í vor drakk ég sem nam tveimur stórum tekötlum yfir daginn, sennilega um tylft bolla.
Ég hef líka fundið fyrir sleni og mikilli þreytu. Er viss um að þar er teleysinu um að kenna.
Verð að fara að hressa mig við og fá mér tebolla, þessi færsla er orðin alltof löng… 

 

176. Ekki góðar fréttir

20 Mar

Búin að týna glórunni. Hún er einhvers staðar í draslinu heima, sennilega við hliðina á dugnaðinum og samviskuseminni og ofan á afslöppuninni og hreyfigetunni.
Allt sem eftir er og verður fram til 4. maí er stress og streita, kvíði og svefnleysi.

Blogga aftur þegar ég næ að tjasla mér saman og finna á mér hausinn.