Sarpur | Fimmtudagsföndur RSS feed for this section

FF #39

30 Sep

Fyrir daginn í dag föndraði ég dálítið sængurgjafar-/skírnarkort.

Ég á útsaumsmynstur úr gömlu dönsku blaði þar sem hægt er að sauma kornabarn, fermingardreng og stúlku, brúðhjón o.fl. og hef gert dálítið af því að sauma svona út.

Það sem þarf er pappi fyrir kortið, útsaumuð mynd, lítill dúkahnífur til útskurðar, skraut og lím/límbyssa.

Fyrst bjó ég til kortið…

… og merkti svo fyrir myndinni

Ég skar svo út með dúkahnífnum.

Til að gera kortið svolítið skemmtilegra klippti ég út úr gamalli nótnabók (Góði hirðirinn) og límdi framan á kortið.

Útsaumsmyndin er límd á pappa og aftan á forsíðu kortsins. Lokapunkturinn var svolítið skraut neðst á kortið.

Til að fela fráganginn (límið o.fl.) límdi ég pappír aftan á forsíðuna.

Og þá er kortið tilbúið fyrir kveðjuna til nýburans eða skírnarbarnsins 🙂

Þetta fermingarkort gerði ég í vor eftir sama mynstri – fyrir fína fermingarstúlku!

FF #38

23 Sep

Ég sá þetta fallega og einfalda haustskraut hjá Elsie og datt í hug að föndra það fyrir daginn í dag. Laufin eru öll farin að fölna úti og það hefur verið svo sérstaklega fallegt haustveður undanfarið. Þetta skraut er ofsalega fljótlegt og gæti jafnvel verið gaman að gera með krökkum:

Allt sem þarf er marglitt fílt, stór nál og ullargarn.

Fíltið er klippt út eins og laufblöð.

Ég byrjaði á því að sauma miðjuna á laufin í mismunandi litum.

Og síðan voru laufin saumuð saman í borða sem hægt er að skreyta með og hengja hvar sem er!

FF #37

16 Sep

Föndur dagsins er ein af fyrstu hugmyndunum sem ég fékk í þessu föndurbrjálæði mínu. Ég fann hana þegar ég var að fara yfir bókamerkin mín í gærkvöldi og ákvað að slá bara til. Og var líka svo stálheppin að eiga tómar plastflöskur því að við höfum verið ansi löt að fara í endurvinnsluna undanfarið (!)

Föndrið er sum sé klinkbudda úr kókflöskubotnum og allt sem þarf eru botnar úr tveimur hálfslítra-kókflöskum, skæri, límband, 20 cm rennilás (ég átti bara 18 cm og hann var örlítið of stuttur), tvær nálar (breið og grönn) og garn.

Flöskubotnarnir eru klipptir af flöskunum og snyrtir til. Best er að klippa alveg niður að neðri brúninni á botninum.

Límband er límt hringinn og teiknað fyrir saumagötunum.

Flöskubotninn er svo gataður með breiðu nálinni – hún þarf að hafa hvassan odd. Þetta er dálítil þolinmæðisvinna…

Síðan er rennilásnum smeygt ofan í og hann renndur í sundur. Byrjað að sauma um 2-3 cm frá byrjun rennilássins. Þetta er gert til þess að það sé hægt að fela endann á rennilásnum í frágangi í lokin.

Þegar neðri hlutinn er tilbúinn er efri hlutinn saumaður á sama hátt.

Þetta er svo tilvalin lítil budda undir klink eða annað lítið dót, e.t.v. ömmuspennur sem vilja jú alltaf þvælast út um allt! Skemmtilegast hefði mér fundið að vera með tvo litaða botna, t.d. græna, rauða eða gula en ég átti bara einn bláan og svo glæra.

Passa þarf vel að botnarnir séu sem minnst beyglaðir. Það sést e.t.v. af myndunum að blái botninn er ögn beyglaður (flaskan var samanbrotin) og fyrir vikið er örlítið erfiðara að renna rennilásnum.

Fínar leiðbeiningar á ensku má finna hér og hugmyndin er héðan.

FF #36

9 Sep

Föndrið í dag er smávegis „meik-over“ á gamalli peysu sem ég var eiginlega hætt að nota. Þetta er svona týpísk golla en það var kominn ljótur blettur í stroffið á annarri erminni.

Svona leit hún út fyrir breytingu:

Ég klippti síðan bara stroffið af…

… og stytti ermarnar í 3/4.

Til að hressa upp á peysuna saumaði ég litla blúndu í hana

… og setti rjómalitar bryddingar á ermarnar í leiðinni!

Lítið mál – og fyrir vikið nánast ný peysa! Ekki slæmt 🙂

FF #35

2 Sep

Í gær föndraði ég svolítið fyrir haustið. Það er í rauninni viðeigandi því að það er farið að dimma á kvöldin og orkureikningarnir að hækka (!) að búa til kertastjaka fyrir sprittkerti. Ég er líka forfallinn blúndufíkill og ákvað að nýta mér hugmynd sem ég sá hér, að stífaðri blúndu sem kertastjaka.

Ég átti auðvitað blúndu/dúllu og ákvað að móta hana eftir ílöngum blómavasa/stjaka sem ég á. Annað sem ég þurfti var bara stífisprey (ég keypti þetta hérna). Í hugmyndinni hér að ofan er notast við þykkt lím og það er auðvitað hægt að gera líka.

Ég byrjaði á því að vefja smá Vitawrapi utan um vasann svo að stífispreyið skemmdi hann ekki. Ég tyllti honum svo upp á krukku því að dúllan var lengri en vasinn. Það er líka gott að hafa e-ð undir þessu svo að spreyið skemmi ekki borð eða undirlag.

Svo er það stífispreyið…

… og spreyjað og spreyjað. Ég gjörsamlega gegnbleytti dúlluna og reyndi svolítið að móta hana í fellingum á meðan hún var enn blaut.

Ég lét hana standa svona yfir nótt og tók hana svo af vasanum. Með Vitawrapinu er það frekar auðvelt. Nú er dúllan alveg stíf en til að gera hana enn „massívari“ þarf að spreyja fleiri umferðum af stífelsi.

Svo er bara að kveikja á kertum og hafa það huggulegt. Ég vil samt benda á að passa þarf ofsalega vel upp á kertin því að svona dúllur bleyttar í stífelsi geta auðveldlega fuðrað upp ef óvarlega er farið!

Hafið það gott í skammdeginu!

FF #34

26 Ágú

Haustkvefið herjar hér á þessum bæ en ég ætla nú samt að skella inn smá föndri sem ég dundaði mér við yfir sjónvarpinu í gærkvöldi. Þetta er verulega lítið mál og ætti ekki að taka meira en hálftíma í framkvæmd. Hugmyndina fékk ég  hér, þ.e.a.s. að gera hálsmen úr stuttermabolum. Allt sem þarf er stór stuttermabolur, skæri og saumavél.

Þegar ég athugaði málið fann ég engan stuttermabol á lausu en ég átti dálítið af hvítu lérefti og notaði það í staðinn. Ég reif það niður í strimla, 3 x3.

Svo eru strimlarnir saumaðir saman í annan endann og byrjað að flétta. Ég klippti líka niður dálítið af grárri blúndu sem ég fléttaði saman við í eina fléttuna – alls verða þær þrjár.

Svo er gengið frá fléttunum með því að sauma endann saman…

… og svo saman í hring.

Til að fela endana er smá stuttermabolsbútur tekinn og saumaður utan um endana…

… þétt upp við til að hylja endana og halda öllu heila klabbinu saman!

Þá lítur þetta svona út. Einfalt og fljótlegt skraut, sem má auðvitað vera aðeins styttra. Ég mæli samt með því að nota stuttermabol í þetta hálsmen því að það verður örugglega mun teygjanlegra og skemmtilegra við það!

FF #33

19 Ágú

Bráðum fer nýtt skólaár í hönd. Það er alltaf skemmtilegur tími og flestir spenntir að byrja aftur í skólanum. Föndrið þessa vikuna er líka svona „back to school“-föndur, eins og föndurkonur úti í netheimum gera mikið þessa dagana.

Það besta við nýtt skólaár finnst mér alltaf vera ný skóladagbók/skipulagsbók. Fullt af óútfylltum blaðsíðum til að skrifa á og skreyta! En skóladagbækur eru oft mjög leiðinlegar og hálflitlausar með helling af auglýsingum. Ég ákvað því að búa til mína eigin skipulagsbók sem hefur ENGAR auglýsingar heldur bara auðar skemmtilegar blaðsíður. Ég notaði auðar hvítar og ljósar síður, en til skrauts nótur og eina blaðsíðu úr landabréfabók, bara að gamni.

Ég fékk hugmyndina héðan.

Það sem ég notaði voru sem sé blaðsíðurnar, dúkahnífur og skæri og gömul bók með flottri kápu sem ég fékk í Góða hirðinum (en hefði líka getað notað hvaða bók sem er – kannski skemmtilegt að nota kápu utan af gamalli Biblíu, ef fólki finnst það ekki helgispjöll!) Ég notaði líka breiða nál til að stinga í gegnum blaðsíðurnar og aðra grennri og sterkan þráð/girni.

Ég byrjaði á því að skera blaðsíðurnar sem fyrir voru í bókinni úr með dúkahnífnum.

Svo klippti ég kjölinn upp á bókinni…

…og límdi skemmtilegar myndir innan á kápur bókarinnar beggja vegna.

Þá var komið að blaðsíðum bókarinnar. Ég skipti þeim í fimm minni bunka og í hverjum voru ca. 6-10 blöð. Hver bunki var brotinn saman á þverveginn og kantinum þrýst niður  – ég notaði breiðan bréfahníf til þess.

Til að gera göt í blaðsíðurnar klippti ég smá pappabút út og gerði skapalón fyrir fimm göt svo að jafnt væri á milli þeirra. Passaði líka að hafa eitthvað undir blöðunum þegar ég stakk í gegn til að rispa ekki borðið…

… og þá voru götin komin á blaðsíðurnar!

Þá var bara að sauma hvern blaðsíðubunka saman. Lykillinn er að byrja aftan á blaðsíðunum að stinga og fara svo út úr næsta gati og yfir í það næsta – þannig að það verði alltaf undir-yfir-undir-yfir (_-_-)

Síðasta stungan á að vera innan í og út í gegnum miðjugatið og þar er þráðurinn bundinn saman í þéttan hnút. Þetta er gert við alla bunkana.

Það þarf líka að gata kápuna og passa að götin standist á…

… svo er bara að sauma saman! Þráðurinn er þræddur í við hnútana á kilinum á öllum bunkunum og saumað þannig saman að þeir haldist allir fastir saman sem og kápan.

Voilá!

Innan í bókinni eiga bara að sjást sléttir einfaldir saumar – og aldrei saumað tvisvar yfir sama þráðinn (nema í öryggisskyni)

Að lokum fannst mér betra að líma með rafvirkjalímbandi (þykkt sterkt límband, allir iðnaðarmenn nota svoleiðis) yfir kjölinn til að fela saumana.

Og þar með lauk ég við mitt fyrsta bókbandsföndur! Ekki slæmt, er það nokkuð? Og nú get ég svo sannarlega byrjað að skipuleggja haustið og gera listana mína 🙂

FF #32

12 Ágú

Mikið er ég fegin að ég kláraði föndur dagsins! Ég hef haft það hangandi yfir mér í allt sumar en ekki komið mér í það, enda dálítið mikið maus!

Ég hef alltaf verið rosalega hrifin af kveðjum á mörgum tungumálum og féll algjörlega í stafi yfir myndinni hérna til vinstri.

Þetta er hugverk konu sem framleiðir og prentar undir nafninu MadeByGirl og hérna má nálgast þessi plaköt. Ég hef líka séð þau í hvítu og einnig með orðinu love.

Íslenska er hins vegar ekki á þessu plakati (surprise, surprise) og mig langaði svoldið að ráða mínum eigin tungumálum þannig að ég ákvað að búa mér bara til mína eigin útfærslu á þessu „halló“-plakati!

Það sem ég notaði var stór rammi og pappakarton í hann. Ég vildi nota landakort eða e-ð slíkt í bakgrunninn, þ.e. ekki hafa hann einlitan þannig að ég notaði gamlar landabréfabækur (úr Góða hirðinum). Að sjálfsögðu þarf að prenta út orðin sem eiga að vera á myndinni, en ég prentaði þau út í svörtu á örlítið stífan pappír. Að lokum tvöfalt límband og skæri, ég notaði líka smávegis af límstifti.

Eftir að hafa skoðað allar landabréfabækurnar komst ég að þeirri niðurstöðu að vegakort væri besta leiðin, og notaði þessa stórgóðu þýsku kortabók:

Orðin klippti ég öll niður (og skar út með dúkahníf) og setti hvert í sitt box; stafirnir voru mjög misstórir og því vont að blanda þessu saman.

Blaðsíður bókarinnar voru rifnar úr og límdar á pappakartonið…

… og stafirnir einfaldlega límdir þar á!

Auðvitað þurfti nákvæmar mælingar, a.m.k. milli orða svo að þau dreifðust sem best. Þetta tók langan tíma, sérstaklega þar sem sumir stafir voru talsvert litlir.

Afraksturinn er þó nokkuð góður þó að ég segi sjálf frá. Hérna er heilsað á 10 tungumálum og þar á meðal íslensku! Hin málin eru franska, spænska, pólska, portúgalska, danska, japanska, ástralska, hindí og ítalska!

Þið afsakið glampann á myndinni og lélega uppstillingu… ég var að lengi fram eftir í gærkvöldi og hafði því ekki tíma til að finna myndinni endanlegan stað. Set inn nýja mynd eftir að myndin hefur verið hengd upp!

FF #30

29 Júl

Í föndrinu í dag bjó ég til hárskraut sem ég skreytti með fíltblómum og tölum. Leiðbeiningarnar við að gera fíltblómin eru hér og felast í því að klippa fíltið út, saumað það saman að neðan og draga saman þannig að það myndi blóm. Talan er svo saumuð í miðjuna og fíltbútur límdur á bakvið.

Ég gerði litla stelpuspöng með tveimur blómum…

… líka hárbönd fyrir enn minni stelpur sem vilja samt vera fínar! Bætti við smá tjulli og öðrum lit…

… og svo gerði ég líka svona spöng fyrir mig með svörtum og rauðum blómum! Ótrúlega sniðugt og einfalt, væri hægt að nota til að skreyta föt og fleira 🙂

FF #29

22 Júl

Ég gerði aðra útfærslu á skartgripahengi fyrir daginn í dag. Eins og þið munið kannski gerði ég svona skartgripahengi í apríl.

Föndrið í dag er gert á samskonar hátt – eyrnalokkahengi. Hugmyndin er af síðunni Pearl, Handcuffs and Happy Hours:

Ég keypti lítinn skrautlegan ramma í Góða hirðinum og hænsnanet í metravís í Byko.

Ég límdi svo hænsnanetið aftan á og þykkt karton sem ég plastaði aftan á það. Þannig er hægt að hengja upp eyrnalokkana án þess að stinga í gegnum kartonið.

Að lokum límdi ég lítinn hanka aftan á rammann til að hengja upp. Afraksturinn leit svona út: