Sarpur | Fimmtudagsföndur RSS feed for this section

FF #28

15 Júl

Föndrið í dag var gert handa lítilli afmælisskvísu og er ein enn útfærslan á yo-yo-unum sem ég hef til dæmis notað í spangir áður, eins og hér. Þetta er armband úr yo-yo-um með tölum. Ég missti reyndar af tækifærinu að taka mynd af henni með armbandið (því að hún var rokin af stað) en í staðinn er hérna mynd frá Zakkalife þaðan sem ég fékk hugmyndina:

Fyrst þarf að búa til yo-yo. Á þessari síðu eru ágætar kennsluleiðbeiningar. Yo-yoin eru svo saumuð saman, eins og Zakkalife sýnir:

Þau eru svo saumuð í lengju og tölurnar ofan á.

Síðasta talan í lengjunni er jafnframt talan sem festir armbandið saman. Ég bjó til litla lykkju undir yo-yo-ið sem er svo smeygt yfir töluna:

Svona leit litla armbandið svo út – ekki á handlegg! 🙂

FF #27

8 Júl

Föndur dagsins er einfalt endurvinnsluföndur sem ég fann meðal annars hér. Ef þú átt gamlar rispaðar vinylplötur sem þvælast bara fyrir, væri nú óvitlaust að nýta þær í svona föndur: vinylplötuvasa!

Það sem þarf er ein gömul vinylplata, e-s konar skál sem þolir hita og ofn.

Skálin er sett á ofnplötu. Ég notaði sósuskál úr stáli sem hafði kringlóttan botn og var sæmilega há.

Vinylplatan er sett ofan á skálina og inn í ofn.

Ofninn er stilltur á 100°C. Bið ykkur að afsaka skítuga eldavél – ég var í miðjum bökunarklíðum og datt í hug að nýta ofninn meðan hann var heitur 😉

Eftir nokkrar mínútur hefur platan bráðnað örlítið og lekur þá niður. Þá er hún tekin út úr ofninum.

Ég notaði svo ofnhanska til að móta skálina örlítið og lét hana svo kólna. TILBÚIN!

Eins og gefur að skilja er tæplega hægt að bera fram súpu í þessari skál – það er jú alltaf gat í botninum! En það væri nú t.d. hægt að gera smart ávaxtaskál…

… eða fjarstýringageymslu eins og á mínu heimili 🙂

FF #26

1 Júl

Föndrið í dag er ótrúlega fljótlegt og hagnýtt.

Ég veit ekki með ykkur en ég er alltaf að vandræðast með nálarnar mínar þegar ég er að sauma. Hingað til hef ég geymt þær á stórum nálapúða en það er vægast sagt ópraktískt, sérstaklega þegar maður þarf að ferðast með dótið.  Ég fann mjög skemmtilegar leiðbeiningar um nálabók hjá föndurkonunni Kelly Rachel og ákvað að deila henni með ykkur hér.

Nálabókin er hugsuð sem lítið veski sem hægt er að opna eins og umslag með fílt-„blaðsíðum“ þar sem nálarnar eru geymdar. Útlit nálabókarinnar má nálgast hér. Það sem þarf er tvenns konar efnisbútar fyrir innra og ytra byrði veskisins, 2 fíltbútar og lítill efnisbútur sem má nota sem frímerki. Saumavélin er nauðsynleg ásamt dökkum og ljósum tvinna (eða sem passar við efnið) og ég hafði straujárnið líka við hendina.

Ég byrjaði á því að klippa út formið, bæði fyrir veskið sjálft (innra og ytra byrði), fíltsíðurnar tvær og frímerkið. Svo straujaði ég vel efnið, áður en ég títaði frímerkið fast við ytra byrðið. Ég saumaði það svo fast og svo línurnar þrjár sem líta út eins og heimilisfang utan á umslaginu 🙂

Svona leit þetta þá út:

Næst braut ég fíltið saman í miðjunni og títaði niður á efnisbútinn sem átti að vera inni í veskinu. Svo renndi ég þessu í gegnum saumavélina og passaði að loka vel í báða enda (sauma fram og til baka).

Þá er maður kominn með tvö stykki: ytra byrðið með frímerki og línum og innra byrði með ásaumuðum fíltsíðum. Því næst sneri ég réttunum saman á þessum tveimur stykkjum og festi með títuprjónum. Þetta var svo saumað saman með neutral-tvinna, ég notaði hvítan. Passið bara að skilja eftir smá gat til að geta snúið veskinu við á réttuna.

Ég klippti svo í hornin og gekk frá röngunni og sneri við á réttuna. Nú er gott að strauja aftur og sauma svo með fínu spori þá hlið sem skilin var eftir opin.

Hliðarnar eru straujaðar niður og brotnar saman eins og um umslag sé að ræða:

Þá er veskið bara tilbúið! Fullkomið til að geyma allar óþægar nálar sem vilja týna tölunni þegar maður skilur þær eftir hér og þar…

Ég ætla að ganga betur frá veskinu við tækifæri og setja á það smellu. Þangað til nota ég bara öryggisnælu til að loka 🙂

Yfirlit yfir júní-föndrið!

28 Jún

FF #25

24 Jún

Mig hefur lengi langað að búa mér til krítartöflu sem er svona skemmtilega retró og sæt, eins og t.d. þessi hér eða þessi. Ég lét verða af því fyrir fimmtudagsföndrið í dag og keypti mér gamlan ljótan ramma í Góða hirðinum og lakkaði hann upp. Svo lenti ég í smá vandræðum því að ég fann hvergi plötu til að mála. Mér var sagt að ég þyrfti svokallaða „masónít“-plötu, svipaða þessu:

Þær var bara hægt að kaupa í 4 m plötum í byggingarvöruverslunum, og voru eftir því dýrar – og það var ekki alveg málið! Á endanum fór ég styttri leiðina: Keypti mér einfaldlega eldgamla krítartöflu af ca. þeirri stærð sem ég vildi í Góða hirðinum (kostaði 100 kall!) og sagaði hana til!

Gamla platan var orðin mjög ljót og því ákvað ég að lakka hana með krítartöflumálningu. Hana fékk ég bara í Byko og 1 lítri kostaði tæpar 2000 kr. Ég lakkaði svo bara töfluna nokkrum sinnum til að fá fallega áferð.

Þegar platan var tilbúin límdi ég hana í rammann með epoxy-lími, einhverju sterkasta lími sem ég hef fundið – og maður notar t.d. til að líma postulín.

Að lokum skreytti ég rammann smávegis, setti t.d. stafina okkar ÁPB:

Svo get ég bara farið að nota fínu töfluna mína – fyrir innkaupalista, minnisatriði og almenn og hressileg skilaboð: 🙂

FF #24

17 Jún

Gleðilegan þjóðhátíðardag, Íslendingar!
Í fyrsta sinn á ævinni föndraði ég alla nóttina. Púllaði all-nighter með límbyssunni og sjónvarpinu. Ástæðan er sú að ég verð með föndrið mitt á Rútstúni í Kópavogi á 17. júní-hátíðinni í dag. Fyrirvarinn var stuttur og ég átti ekki mikið til „á lager“, satt að segja bara sáralítið.

Ég er í fyrsta sinn að „framleiða“, hef bara verið að gera fyrir mig og í tækifærisgjafir. Það verður gaman að sjá hvernig gengur. Ég verð allavega með ýmis konar spangir:

Svo gerði ég dálítið af eyrnalokkum til að selja. Þeir eru hvítir og gráir blómaeyrnalokkar úr blúndum með marglitum borðum. Takið eftir því hvað miðarnir eru fínir 🙂

Af því að það er 17. júní, gott veður og fánarnir blakta við hún ákvað ég að gera slatta af fánaspöngum. Þær eru hvítar, rauðar/bleikar og bláar með yo-yo-dúllum, fánaborðum og blúndum eða tjulli.

Njótið dagsins í góða veðrinu! Hvet ykkur öll að kíkja við í Kópavoginum og heilsa upp á mig!

FF #23

10 Jún

Föndrið í dag skorar ekki hátt á hagnýtniskalanum, eins og sumt af því sem ég hef verið að gera áður… og er meira kannski svona skraut. Ég held mig þó við endurnýtinguna 🙂

Í dag föndra ég pinwheel horse ribbon-orður, ef svo má kalla. Þið kannist við þær því að þær eru gerðar til að festa á eyrun á verðlaunahestum!

Það sem ég notaði er ýmis konar pappír og úrklippur, límstifti, borðar og límbyssan góða!

Ég byrjaði á því að fletta gömlum blöðum og klippti út skemmtilegar setningar og tölur.

Ég festi númerin og orðin á sterkara karton – og líka á eina svona viðartölu!

Harmonikkupappírsorðan sjálf er afskaplega einföld að gerð: pappírinn klipptur niður í langar ræmur (t.d. lengdin á einu A4 blaði) og breiddin er smekksatriði. Síðan er búturinn brotinn sundur og saman eins og harmonikka.

Að því loknu eru endarnir tveir festir saman með lítilli límrönd úr límbyssunni og þá er þetta orðinn harmonikkuhólkur. Til að gera hann hringlaga er hann opnaður varlega eins og blævængur.

Erfiðast getur reynst að festa harmónikkuorðuna í hring, sérstaklega ef pappírinn er þykkur. Ég setti smá límbyssulím inn í miðjuna – og til að vera alveg safe límdi ég smá pappírsbút yfir sárið.

Þá getur þetta litið svona út:

Á síðunni Style Me Pretty sem er síða helguð brúðkaupsundirbúningi eru sýndar svona pappírsdúllur með tölum í miðjunni í staðinn fyrir pappaspjald – og það kemur ekki síður vel út! Skemmtilegt og ódýrt skraut fyrir brúðkaup!

Ég gerði nokkrar týpur t.d. úr landakorti:

Svo er nítjánda sætið náttúrulega mikið í umræðunni þessa dagana 🙂 Bjó til eitt með tölunni 19 og íslenska fána-borða neðan úr. Hera hefði kannski átt að fá svona orðu?

Það er líka minnsta mál að skella öryggisnælu aftan á svona pappaorðu og nota sem barmmerki!

Héðan kemur innblásturinn minn fyrir daginn í dag!

FF #22

3 Jún

Ég er alltaf öðru hverju að gera spangir – eins og sást í síðustu viku. Ætla hér með að láta flakka nokkrar myndir af þeim!

1. Fyrir dömuboð. Ég notaði aðferðina úr þessu jólaföndri til að búa til blómið. Keypti spöngina í Tiger, límdi á hana blúndu og blómið og ofan á það gamlan eyrnalokk sem hafði brotnað. Marglita garnið keypti ég í Europris – fannst það of flott til að nota ekki! 🙂

2. Einföld með slaufu. Slaufan einfaldlega límd á mjóa spöng. Mjög fín og smart t.d. við svart.

3. Rauð yo-yo spöng. Svipuð og íslenska-fána-spöngin, yo-yo-dúllurnar hafðar marglitar og límdar ofan á tjullbút og blúndu. Skemmtilegt að setja tölur með líka.

4. Fílt-blóm. Til að búa til þessi fíltblóm þarf að gera svona. Þetta er nú ekki mikið mál og gaman að finna ólíkar tölur og hnappa til að setja ofan á. Blómin eru svo bara límd á spöngina.

– Endalausir möguleikar á hárspöngum! Nú er bara að finna eitthvað fyrir sumarið 🙂

Svona var föndrið í maí!

2 Jún

FF #21

27 Maí

Fimmtudagsföndrið í dag er í seinna lagi og ég biðst afsökunar á því en það er sent út beint úr pressutjaldinu við Telenor-höllina í Osló þar sem ég er að fylgjast með Eurovision!

Föndrið er líka í takt við það – og ég gerði það áður en ég fór út.

Ég bjó til íslenskafánaspangir til að skarta á keppnisdaginn. Ég gerði nokkrar sem við tókum með vinkonurnar. 

Það sem ég notaði var blá spöng sem ég keypti í Tiger, fánaborði sem fæst í öllum föndurbúðum, smávegis af tjulli og yo-yo-rósettur sem ég gerði úr efnisafgöngum og hafði í fánalitunum!

Þetta límdi ég svo allt saman á spangirnar og hafði þær mismunandi. Þessu skörtuðum við svo á undankeppninni og verðum með þetta líka á aðalkeppninni.

Hér gildir sko að vera vel merktur með íslenska fánanum! 🙂