Sarpur | Föndur RSS feed for this section

2010 Jóladagatal #5

5 Des

Jæja, er ekki kominn tími til að opna fimmta gluggann í jóladagatalinu? Í dag er sem sé 5. desember og 19 dagar til jóla. Föndrið í dag er tilvalið fyrir þennan fína sunnudag, og meira að segja hægt að gera með börnum! Það eru jólaljósker úr WC-pappírsrúllum. Einnig mætti nota þetta sem skraut yfir borðstofuborði, e.t.v. hangandi neðan úr ljósakrónu.

Efniviður:

 • Nóg af klósettrúllum
 • Málning og penslar
 • Glimmer
 • Lím
 • Skæri eða dúkahnífur
 • Vír til að hengja upp með

1. Gott er að byrja á því að mála rúllurnar, einn lit innan í og annan utan á. Liturinn sem er utan á ætti að ríma við litinn á glimmerinu, svo að ekki verði mikil skil þegar glimmerið er límt á. Til að geta málað alla rúlluna er sniðugt að nota þvottaklemmu sem hægt er að halda í (en svo þarf að færa hana til að mála þar undir).

2. Á meðan málningin er enn blaut er rúllunni velt upp úr glimmerinu. Passa að færa þvottaklemmuna til að setja glimmer þar líka. Látið þorna.

3. Þegar rúllan er þurr notið skæri eða dúkahníf til að skera rifu í hana, í spírallaga hring. Passið að byrja ekki alveg efst og enda rétt ekki neðst, hafið ca. 1 cm frá brún. Skerið aðra rifu u.þ.b. 2 cm frá hinni og haldið svo áfram út alla rúlluna. Þrýstið á topp og botn rúllunnar til að rifurnar stækki og hún verði í laginu eins og ljósker.

4. Gerið eitt gat hvoru megin á efri brún rúllunnar, þræðið vírinn þar í gegn og bindið.

5. Límið í loftið með hvítu límbandi eða festið í ljósakrónu.

Stolið samviskulaust HÉÐAN!

2010 Jóladagatal #4

4 Des

Vííí, enn einn glugginn í jóladagatalinu til að opna! Í dag er 4. desember og það eru 20 dagar til jóla! Ég ákvað að gera englahárskrans því að mér finnst englahár alveg lúmskt skemmtilegt. Nema kannski í þrifunum eftir jólin, þá vill það sitja dálítið eftir á gólfinu 🙂 Hugmyndin er héðan en ég bætti aðeins við og nýtti það sem ég átti til.

Efniviður:

 • Útsaumshringur úr tré eða plasti (eða annar nokkuð stór hringur sem til er á heimilinu, ca. 20 cm)
 • Englahár
 • Annað skraut (ef vill)

Það sem er gott við að nota svona útsaumshring (þ.e. tvöfaldan hring sem maður setur útsaumsstykki í) er að á þeim er hanki. Hankinn er mikilvægur við að vefja englahárinu utan um hringinn því að þar byrjar maður – og felur endann í leiðinni. Svo er hann auðvitað líka til að hengja fínheitin upp þegar kransinn er tilbúinn!

Ég notaði bara ytri hluta plasthringsins og það er alveg nóg. Svo er bara vafið allan hringinn – og passað að englahárið sé sem minnst beyglað og nokkuð þétt!

Sem skraut mætti taka þunnan pappír, brjóta saman í harmonikku og binda í miðjunni.

Með því að klippa hann til og ýfa má gera smávegis skraut. Ég gerði dúsk úr garni sem ég notaði líka.

Á endanum lítur kransinn svona út – pínu retró og fínn! 🙂

2010 Jóladagatal #3

3 Des

Í dag er 3. desember og því 21 dagur til jóla – það er ekki neitt! Þriðji glugginn í jóladagatalinu verður opnaður í dag og í honum eru origami-jólapakkar. Hugmyndin og leiðbeiningarnar eru héðan og ég skemmti mér stórkostlega við að reyna að finna út úr origamiinu. Það er nefnilega smáheilaleikfimi – e-ð aðeins meira en að klippa og líma 😉

Efniviður:

 • Pappír, t.d. gamlar bækur (ég notaði innvolsið úr bókinni sem ég gerði í Fimmtudagsföndri #7)
 • Skrautborða og vír

Byrjað er á því að klippa niður í ferninga 8 blöð, fjögur fara í botninn og 4 í lokið. Ég notaði ca. 8-10 cm stóra ferninga.

Til að byrja er fyrsta blaðið brotið til helminga:

og helmingurinn aftur til helminga:

Síðan er það brotið þvert yfir:

Efra hornið hægra megin er svo brotið í átt að þverbrotinu:

– og miðjan á blaðinu brotin í átt að neðra horninu vinstra megin þar sem þverbrotið byrjar:

Þegar rétt er úr þessu er síðan langi hlutinn (sem er vinstra megin á myndinni fyrir ofan) brotinn aftur fyrir kassann. Þá er komið eitt af fjórum hornum kassans!

Þetta þarf svo að endurtaka þrisvar sinnum og smella hornunum saman:

Þegar kassinn er kominn er þetta gert alveg eins með hin 4 blöðin sem mynda lokið! Og það þarf sko ekkert lím til að festa kassann saman!

Að öllum líkindum er kassinn ykkar á þessum tímapunkti pínulítið laus í sér, t.d. ystu blöðin. Þegar skrautborði er að lokum bundinn utan um hann ætti hann þó að verða áferðarfallegri!

Þegar vír hefur verið brugðið í gegnum slaufuna á pakkanum er hægt að nota þessa litlu kassa sem jólaskraut!

2010 Jóladagatal #2

2 Des

Þá er kransinn kominn á útihurðina og tími til kominn að taka til við glugga nr. 2 í jóladagatalinu!

Í dag er 2. desember og 22 dagar til jóla! Spennan fer að magnast og sérstaklega hjá litlu krökkunum sem eru að fatta að þau fá súkkulaði á hverjum degi í jóladagatalinu sínu 😉

Ekkert súkkulaði í þessu jóladagatali – bara föndur! Og í dag ætla ég í endurvinnslu og gera pakkamerkimiða.

 

 

Efniviður:

 • Gömul litrík jólakort
 • Skæri
 • Skapalón fyrir merkimiða (keypt í Föndurstofunni á ca. 800 kr) eða merkimiðagatara (paper punch – fæst t.d. í Litum og föndri og kostar ca. 4400 kr)
 • Gatari/götunarbyssa

Nú er um að gera að nýta fallegu gömlu jólakortin sem maður tímir ekki að henda og búa til pakkamerkimiða fyrir jólagjafirnar.

Ég fjárfesti í skapalóni (sem er held ég notað í skrapp-föndur) og get því gert merkimiða í fjölmörgum stærðum og gerðum. Það verður bara að passa að bakhlið jólakortanna sé alveg hrein og auð!

Svo strika ég bara fyrir merkimiðunum:

… og klippi út!

Að lokum eru miðarnir svo gataðir með götunarbyssunni/gataranum.

Og þá eru þeir tilbúnir!

Eftir smástund var ég komin með heilan haug! Svona er hægt að láta jólakortin lifa a.m.k. tvisvar – og spara pening og sleppa því að kaupa merkimiða úti í búð!

2010 Jóladagatal #1

1 Des

Jólabörn nær og fjær (hæ Hilla)!

Nú hefst niðurtalningin og jóladagatal Fimmtudagsföndursins 2010, jibbí! 🙂 Hér ætla ég að birta nýtt föndur með leiðbeiningum á hverjum degi til jóla – rétt eins og í fyrra en það má skoða á stikunni hérna fyrir ofan undir Jóladagatal 2009.

Ég ætla að reyna að föndra þetta mestmegnis sjálf en eins og með venjulega Fimmtudagsföndrið eru hugmyndirnar yfirleitt héðan og þaðan af netinu. Ég ætla þó ekki að sverja fyrir það að ein og ein hugmynd slæðist inn beint af netinu en þá vísa ég á síðuna sem ég stel hugmyndinni af.

Í dag er 1. desember og því 23 dagar til jóla. Þið munið kannski að ég gerði jólakrans á hurðina í fyrsta glugga jóladagatalsins í fyrra. Hann leit svona út:

Í dag ætla ég líka að gera krans á hurðina. Hugmyndin er upphaflega héðan en ég ætla aðeins að staðfæra hana að mínum hugmyndum (reyna örlítið að draga úr ameríska stílnum) og því sem ég á til í skúffunum.

Efniviður:

 • Pappírskarton og jólapappír/marglitur pappír af annarri gerð (bara ekki ljósritunarpappír, of þunnur)
 • Lím og límbyssa
 • Járnhringur með hanka – hægt að gera t.d. úr vírherðatré (einnig flatir tréhringir eins og þessi)
 • Heftari
 • Ýmislegt jólaskraut eða annað skraut; könglar o.fl.

Ég á heilmikið af skrautlegum jólapappír og mun meira en ég kem nokkurn tímann til með að nýta þannig að ég ákvað að fara aðeins lengri leið og líma hann á A4 karton. Síðan klippti ég hann niður í lengjur í nokkrum stærðum, frá ca 1 cm upp í 3 cm.

Lengjurnar eru brotnar saman eins og harmónikka og ef ég man rétt, gerði ég svona í Fimmtudagsföndrinu #23. Endarnir eru svo heftaðir saman og lítið karton límt aftan á til að halda hringnum saman.

Svo er bara að láta hugmyndaflugið ráða og skreyta með alls kyns dóti! 🙂 Ég notaði dálítið af gömlu skrauti sem ég notaði til að skreyta tágakrans sem ég átti (svona með áföstum vír sem var jafnvel dottinn af).

Hringirnir eru svo límdir á járn-/tréhringinn með límbyssunni. Best er að byrja á þessum stærstu og bæta svo við og hafa þetta svolítið þétt. Ég var með svo grannan járnhring að ég náði ekki nema einfaldri röð en breiðara undirlag leyfir alveg tvöfalda röð eða svona „ofan á hvern annan“.

Svo er sniðugt að vera með e-ð lítið skraut til að líma á milli ef það verður autt pláss:

Svona lítur þetta þá út að aftan:

… og framan:

Þá er bara að hengja upp!

FF #47

25 Nóv

Er ekki ágætt að rifja þetta upp svona þegar fer að líða að jólum? Þarna set ég mér m.a. það markmið að læra að hekla mér til handagagns! Það er einmitt svolítið í föndri dagsins sem ég vildi sýna ykkur (sérstaklega Skruddunum mínum sem gáfu mér allt til hekls í afmælisgjöf 🙂 )

Þetta er reyndar enn í vinnslu, þ.e.a.s. ég er ekki búin en þó komin nokkuð langt með marglitt ullarteppi!

Hugmyndin er frá Erlu vinkonu sem gerði svona teppi og þegar ég rakst á auðveldar leiðbeiningar á netinu (hér) ákvað ég að slá til!

Uppskriftin er (held ég) nokkuð einföld:

Byrjað er á að fitja upp loftlykkjur (chain crochet), ég hætti í rauninni þegar ég hafði náð nógu mörgum í þá breidd á teppinu sem ég vildi. Á endanum eru gerðar tvær aukalykkjur til að geta byrjað á fyrstu „litalínunni“. Þá er gerður fastahekl (double crochet) í hverja keðju sem fitjað var upp á. Þegar þessi fyrsta litalína er búin er garnið klippt og dregið í gegnum síðustu lykkjuna til að búa til hnút. Síðan er næsti litatónn – og lykkja sett á garnið. Galdurinn er svo að stinga heklunálinni alltaf á milli tveggja fastahekla og þannig myndast mynstrið í teppið. Þegar búið er að þræða í gegnum gatið er slegið tvisvar upp á heklunálina og svo heklað fastahekl í framhaldinu. Þegar þessi lína er búin er heklað tvisvar sinnum fastahekl í lokin áður en gengið er frá endanum.

– kannski auðveldara að átta sig á myndunum:

Í sumar byrjaði ég og þá gekk þetta ansi hægt:

en nú er rífandi gangur í þessu hjá mér, ég hef meira að segja náð að mastera sjónvarpsgláp og hekl í einu!

Svona lítur teppið út í dag – og það sést að það er enn í vinnslu! Ég hef notað ýmis konar garn í það, afganga og nýtt garn og það gerir það dálítið sérstakt og áferðin verður skemmtileg. Eitt gott tips (sem ég held ég hafi fengið frá Erlu): Að ganga frá endunum jafnóðum! 😉

Það góða er að hvað það er kósí að sitja með það yfir hnjánum á köldum kvöldum og hekla…

Mér fannst nokkuð viðeigandi að síðasta Fimmtudagsföndrið fyrir jóladagatalsbrjálæðið í desember væri jafnframt eitt af handavinnumarkmiðum ársins 2010!!

Eruð þið svo ekki spennt fyrir jóladagatalinu – sem hefst í næstu viku???

Einhverjar óskir um föndur?

FF #46

18 Nóv

Í gær föndraði ég dulítið fílt. Eins og þið vitið sennilega er fílt nokkuð þykkt ullarefni sem hægt er að klippa til og móta af vild. Það minnir mig alltaf dálítið á veturinn og því við hæfi að gera litríkt vetrarhálsmen úr fílti sem hlýjar manni á hálsinum um leið og það lítur smekklega út.

Hugmyndin er héðan frá hinu ótrúlega skemmtilega bloggi vefverslunarinnar Papernstitch.com.

Til að gera þetta þarf því marglitt fíltefni, gott fljótandi lím, skæri, nál og tvinna. Byrjað er á því að móta hringi í fíltið.

Hringirnir tveir eru svo límdir saman…

… og klippt upp í þá á fjóra vegu:

Þá er það saumaskapurinn, hornin eru brotin inn að miðju og saumuð föst:

– ekki mjög flókið! Á endanum minnir fílthringurinn dálítið á 17.júní-rellu! 🙂

Síðan er perla eða annað skraut sett í miðjuna, en má þó sleppa (getur verið gott að gera það til að fela saumana).

Þá eru skraut“rellurnar“ tilbúnar. Ég ætlaði að gera úr þeim hálsmen og varð því að sauma þær saman:

– gerði það á brúnunum þar sem þær mætast.

Svo gataði ég fyrir festingum með nálinni og festi svo granna keðju í. Ég gerði líka tvær nælur þar sem ég setti annars konar skraut í miðjuna og saumaði nælufestingu aftan á.

Hlýtt og fínt! 🙂 Að ég tali nú ekki um litríkt í skammdeginu!

FF #45

11 Nóv

Föndrið í dag er alveg ótrúlega einfalt – tók mig ekki nema 15 mínútur að gera!

Ég þurfti að pakka inn afmælisgjöf og vantaði e-ð lítið skraut til að setja punktinn yfir i-ið. Þá datt mér þessi hugmynd í hug; pakkaskraut úr marglitum pappír. Og af því að ég er með landakort á heilanum (sjá hér, hér og hér) ákvað ég að nýta þau í þetta 🙂

Það sem þarf er því landakort eða annar marglitur/skrautlegur pappír, skæri eða pappírshnífur, heftari og tvöfalt límband/lím.

Pappírinn er klipptur niður í 9 búta, í rauninni mega þeir vera af hvaða lengd sem er (ég notaði lengst ca. 7-8 cm langa og 1 cm breiða). 3 eru lengstir, næstu 3 eru u.þ.b. 1 cm styttri og næstu tveir 1 cm styttri en þeir. Síðasti búturinn er rétt um þumlungur að lengd.

Hver og einn bútur er brotinn saman í slaufu og heftaður saman í miðjunni.

Minnsti búturinn er rúllaður upp í kúlu og límdur með tvöföldu límbandi.

Þá er slaufunum raðað saman eftir stærð, hverri ofan á aðra. Þær eru límdar saman í miðjunni með tvöföldu límbandi.

Í lokin er svo kúlunni tyllt í miðjuna. Og þá er skrautið tilbúið!

Skrautið verður aðeins meira „púffí“ ef maður brýtur örlítið upp á hornin á hverri slaufu fyrir sig áður en þær eru límdar saman.

Svo er bara að skella þessu á pakkann – með smávegis límbandi! 🙂

FF #44

4 Nóv

Nú er veturinn almennilega genginn í garð hérna fyrir sunnan og það fer að líða að lokum fimmtudagsföndursins hjá mér, ekki nema tveir mánuðir eftir af þessu skemmtilega ársverkefni þar sem ég föndra e-ð í hverri viku! Ótrúlegt að hafa haldið það út svona lengi 🙂

Í dag bjó ég til dúskahálsmen/ennisband úr gömlum bómullarbol. Hugmyndin er af þessari síðu (þar eru líka allar leiðbeiningar) og útfærslurnar hjá henni eru ótrúlega krúttlegar, t.d.:

Ég gerði þetta örlítið öðruvísi. Það sem ég notaði var bómullarbolur í tveimur litum sem var með áföstum blettum og orðinn of lítill á mig, skæri, smávegis pappabútur og sterkt garn (t.d. sláturgarn).

Ég byrjaði á að klippa ermarnar frá…

… og klippti þær svo í ca. fingurbreiðar lengjur. Það er allt í lagi að saumarnir komi með og líka að lengjurnar séu fleiri en ein fyrir hvern dúsk.

Ég vafði svo lengjunum nokkuð þétt upp á pappaspjaldið. Síðan er sláturgarnið bundið utan um öðru megin. Ég notaði nál til að þræða í gegn því að þetta var orðið nokkuð þykkt í lokin.

Þegar búið er að binda lengjurnar saman er spjaldið tekið og allur vöndullinn bundinn saman í miðjunni. Þá er hægt að klippa dúskinn í sundur – eins og sýnt er í leiðbeiningunum:

Minn dúskur leit þá svona út:

Ég gerði svo annan bláan úr hinni erminni og ögn stærri hvítan úr bolnum sjálfum:

Ég klippti svo breiðan borða úr bolnum og notaði sem festi. Dúskarnir voru bara saumaðir á hann í lokin. Ég gerði það þannig að skilja eftir einn eða tvo „kósa“ í dúsknum óklippta og með þeim gat ég þrætt dúskana upp á festina. Ég passaði samt að sauma dúskana vel fasta, því að þeir eru töluvert þungir.

Þá er hér komið nokkurs konar fjölnota ennisband/hárskraut –

– og hálsmen sem bundið er um hálsinn!

FF #43

28 Okt

Ef þið skoðið föndurblogg jafnmikið og ég (sem er nú kannski hæpið) hafið þið sennilega rekist á silhouette-skreytingar sem hafa tröllriðið öllu. Fólk býr til skuggamyndir af prófíl barnanna sinna o.fl. Mér finnast bollar með skuggamyndum sérstaklega skemmtilegir, t.d. hjá þessari hér.  Svo eru yfirvaraskeggsbollar sprenghlægilegir:

Ég ákvað að prófa að fríska upp á nokkra þreytta hvíta bolla sem voru til heima.

Ég notaði stensla, postulínsmálninguna PermEnamel (keypt í Föndurstofunni) og svamp. Eftir á að hyggja hefði ég e.t.v. átt að fjárfesta í mjóum pensli en lét svampinn duga í þetta skipti. Það er einnig hægt að spreyja á bollana en þá þarf að passa að spreyið þoli þvotta!

Ég byrjaði á því að velja mér stenslamyndir af netinu og skar þær út.

Ég límdi þær svo á bollana…

… og málaði með svampinum. Áferðin varð dálítið „hraunuð“ en skemmtileg.

Ég verð nú að viðurkenna að bollarnir urðu misfallegir og kannski helst til „fjarskafallegir“ 🙂

Yfirvaraskeggsbollinn kom líka vel út:

… ég setti örlítið skegg hinum megin á hann líka!

Svo er bara að fá sér tebolla!