Sarpur | Jólin RSS feed for this section

Jóladagatal #24

24 Des

(Gleðileg jól öll sömul! Ég kom mér aldrei í það að opna föndurgluggana fyrir Þorláksmessu og aðfangadag en finnst hálf hallærislegt að sleppa þeim svo að …)

Hér kemur 24. glugginn á aðfangadag: Innpökkun gjafa!

Í dag verða ekki hefðbundnar leiðbeiningar heldur ætla ég að setja inn myndir af gjöfunum innpökkuðum.

Ég notaði hefðbundinn umbúðapappír í brúnum og grænum lit og gerði svo ýmsar skreytingarútfærslur. Það sem ég hafði ákveðið var að skrifa nafn hvers og eins á pakkann (sbr. þessa hugmynd) og ég gerði það á flesta pakkana (a.m.k. hjá flestum í fjölskyldunni sem kunna að lesa 😉 )

Síðan prentaði ég út jólalaganótur og notaði sem skraut, sem og kúlurnar úr 19. glugga hér að framan.

Ég fann ofsalega skemmtilegan blúndulímborða í Megastore í Smáralind og hann kom vel út á pakka:

Ég gerði um 100 stk af dúskum fyrir jólin (þ.e. í jólagjöf) og átti nokkra afgangs sem ég skreytti pakka með:

Ég varð mér líka út um litla trébúta sem ég notaði sem pakkamiða á suma pakka:

Í Megastore fann ég loksins pappírsdúllur sem ég hef verið að leita að í allt haust, bæði í hvítu og gylltu og notaði þær á pakka:

Ég gerði líka nokkra pakkaskrautið í 21. glugga og setti á skókassa með dúsk og skreytti líka með úrklippum af jólakortunum í ár:

Takk kærlega fyrir að hafa lesið (og kommentað) jóladagatalið mitt í ár! Ég skemmti mér konunglega þrátt fyrir að hafa ekki náð að föndra næstum því allt sem mig langaði að gera. Stundum varð ég því að finna netleiðbeiningar að hlutum sem ég náði ekki að gera…vona að þær hafi ekki verið síðri!

Ég fer kannski að snúa mér meira að föndurbloggi, eins og svo margir virðast lesa og skemmta sér yfir!

Jóladagatal #23

23 Des

(Gleðileg jól öll sömul! Ég kom mér aldrei í það að opna föndurgluggana fyrir Þorláksmessu og aðfangadag en finnst hálf hallærislegt að sleppa þeim svo að …)

… hér kemur 23. glugginn: Pappírsstjarna!

Ég rakst fyrst á þessar stjörnur í tölvudeildinni í vinnunni en þar var jólaskreytingarkeppni. Mér var sagt að þetta væri bara minnsta mál í heimi að gera og þess vegna ætla ég að smella þessu hér inn.

Það sem þarf eru einfaldlega nokkur A4-blöð, skæri, glært límband og heftari.

Til að búa stjörnuna til þarf 6 A4-blöð, eitt fyrir hvern arm. Byrjað er á því að sníða hvert blað þannig að allar hliðar séu jafnlangar. Síðan er blaðið brotið í tvennt svo að þríhyrningur myndast. Í hann eru svo klippt sex sinnum, þrisvar hægra megin og þrisvar vinstra megin, sbr. myndina:

Síðan er blaðið brotið í sundur og þá á það að líta svona út:

Byrjað er á því að rúlla miðjunni þétt saman og mynda svona pulsu:

Síðan er blaðinu snúið við og næstinnsti hringurinn límdur saman í hina áttina. Hann er mun víðari og sívalari en fyrsti hringurinn.

Svona er einnig gert við þriðja og fjórða hringinn og að endingu lítur armurinn svona út:

Þá er fyrsti armur stjörnunnar tilbúinn og nú þarf að gera slíkt hið sama við hina fimm. Síðan er að festa alla armana saman. Fyrst eru þrír armar festir saman með því að taka efst um þá alla með einni hönd og hefta saman.

Síðan er hinn helmingur stjörnunnar heftaður við hinn fyrri.

Gott er að hefta armana saman til að koma í veg fyrir að þeir losni í sundur. Best er að hefta þar sem armarnir eru límdir saman á ysta hringnum.

Nú á stjarnan að vera tilbúin!
Fleiri föndurbloggarar hafa notað þetta mynstur t.d. í fíltefni. Þá er búinn til einn stjörnuarmur og í stað þess að líma endana saman eru þeir saumaðir saman. Hægt er að búa til fínasta óróa úr þessu:

Hugmynd: Stolið héðan!

Jóladagatal #22

22 Des

Það styttist óðum í jólin og síðasti vinnudagurinn fyrir jól er í dag, jibbí!
Ég ætla að setja inn smá jólaföndur fyrir nammigrísina í dag: „Kossamistiltein“ og molatré! Kannski hafið þið séð þetta áður en aldrei er góð (nammi)vísa of oft kveðin!

Fyrst er það „kossamistilteinninn“ eða jólaskraut með Hershey’s kossum. Í það þarf að nota:

 • Frauðplastkúlu/-r (fer eftir því hversu mikill nammigrís þú ert, hvort þú gerir eina eða tvær:) )
 • Hershey’s súkkulaðikossapoka (jólamolarnir eru marglitir, en annars er hægt að nota þessa silfruðu)
 • Borði og límbyssa

Fyrst er borað í gegnum miðja frauðplastkúluna með blýanti eða penna og borði þræddur í gegn. Hann verður að vera nógu langur til að þræða líka í gegnum neðri kúluna ef kúlurnar eru tvær. Borðinn er svo hnýttur undir kúlunni.

Því næst er súkkulaðið límt á með límbyssu (varúð – límið er mjög heitt!)
Síðan má hengja þetta svona upp:

Önnur nammiútfærsla er molatréð. Það er svipuð hugsun og með kossana, en þarf ekki endilega að nota límbyssu.

Það sem þarf er:

 • Frauðplastkeilu
 • Títuprjónar, hefti eða límbyssa
 • Alls kyns molar í bréfi (t.d. Macintosh, Fazer Mint o.fl.)
 • Skraut

Molarnir eru svo bara festir á keiluna með títuprjónum eða lími og byrjað neðst. Þannig vinnur maður sig upp á toppinn og setur svo borða eða skraut efst. Tilvalin jólagjöf fyrir sælgætisfíkla! 🙂

Jóladagatal #21

21 Des

Jæja, þá er maður heldur betur kominn í jólagírinn. Brátt fer líka að líða að því að jólagjöfum verði pakkað inn og í 21. glugganum er auðvelt jólapakkaskraut.

Það sem þarf er:

 • Skæri
 • Tómar klósettrúllur
 • Marglitt ullargarn (a.m.k. 120 cm langt)

Byrjað er á því að brjóta klósettrúlluna saman og klippa niður í ca. 1 cm langa búta.

Síðan er bara hafist handa við að vefja garninu á. Passið að skilja eftir nægan enda þegar þið byrjið og að vefja nokkuð þétt. Þegar komið er hringinn þá eru endarnir tveir bundnir saman.

Ef gera á fleiri en eitt skraut er slíkt hið sama gert við aðra búta.

Síðan er bara að festa skrautið á pakkann. Fleiri not má örugglega finna fyrir svona skraut, t.d. sem borðskraut, sérvéttuhringi eða sem jólatrésskraut!

Hugmynd: Stolið samviskulaust héðan!

Jóladagatal #20

20 Des

Í dag er 20. desember og föndur dagsins er fyrir alla pípuhreinsaravini: Pípuhreinsaraórói eða -hengi.

Það sem þarf eru bara pípuhreinsarar (í hengið á myndinni voru notaðir um 150), skæri og þolinmæði! Þetta tekur dálítinn tíma en kemur ofsalega skemmtilega út sem órói, hengi fyrir glugga eða til að skipta herbergi upp eða jafnvel hangandi yfir lampaskerm.

1. Til að gera blómblöðin, er pípuhreinsarinn beygður til helminga og festur saman með því að snúa endana tvo saman. Um 1 cm er síðan skilinn eftir við hvorn enda. Síðan er myndað blómaform með því að teygja pípuhreinsarann aðeins til. Þetta getur líka litið svolítið út eins og fiskur.

2. Til að gera miðjuna á blóminu er pípuhreinsari klipptur í tvennt og beygður í hring, endarnir festir saman og gengið frá þeim með því að vefja um hringinn sjálfan á hvora hlið.

3. Til að gera demantsformið, er heill pípuhreinsari beygður í rétt horn (90°) á nokkrum stöðum. Síðan er endunum snúið saman eins og  með blómblöðin og skilinn eftir ca. 1 cm á hvorum enda.

4. Þessir hlutar eru svo allir festir saman með því að endarnir á blómblöðunum eru festir við miðjuna og demantsformin við blómblöðin. Allir lausir endar eru festir við annað form. Til að tengja heilt blóm við annað eru auka pípuhreinsarar notaðir til festingar.

5. Síðan er haldið áfram að búa til svona blóm og form þar til nóg efni er í hengið eða óróann. Þá eru farið að festa þau öll saman á víð og dreif. Gott að halda henginu uppi til að sjá hvar bæta þarf við. Efst er svo bætt við pípuhreinsurum í hringjum til að hengja upp. Voilá!

Hugmynd: Stolið héðan!

Jóladagatal #19

19 Des

19. glugginn er svolítið sem ég hef verið að prófa og ætla að nota t.d. í innpökkun jólagjafa í ár; pappírsjólakúlur.

Það sem þarf er:

 • Litríkur pappír
 • Skæri (ég notaði reyndar skurðarhníf)
 • Gatari
 • Litlir stálpinnar sem notaðir eru til að festa pappírinn saman, keypti í föndurbúð en fást örugglega víðar.

Byrjað á því að klippa/skera pappírinn til. Ég prentaði út mynstur af netinu sem náði langsum yfir A4-síðu og prófaði annars vegar að klippa það í tvennt og þrennt, til að fá tvær mismunandi stærðir af kúlum.

Nota þarf 10-15 renninga af pappír. Þeir eru síðan gataðir með gataranum. Ég er með gatara sem gerir lítið gat og tekur ekki mjög mikið í einu þannig að ég varð að skipta bunkanum upp.

Síðan eru stálpinnarnir festir í gatið. Þeir eru klofnir í endann svo að hægt er að brjóta þá út og festa þannig pappírinn saman.

Svona lítur þá pappírsbunkinn út að aftan:

Þegar þetta er tilbúið er byrjað á því að snúa varlega við síðasta renningnum þannig að mynstrið snúi út.

Síðan er restinni snúið á sama hátt. Passið bara að festingin aftan á stálpinnanum rífi ekki pappírinn.

Mínar jólakúlur komu svona út: Sú minni varð þéttari og meiri kúla því að þar voru fleiri renningar, en sú stærri gisnari en samt svolítið flott.

Svo má festa bandspotta í kúlurnar og hengja t.d. á jólatréð eða festa á pakkann. Einnig er hægt að festa nokkrar saman og búa til óróa. Svo má auðvitað nota þær til annars skrauts; setja nokkrar saman í glæran vasa sem borðskraut t.d.

Hugmynd: M.a. héðan!

Jóladagatal #18

18 Des

Hugmyndin að 18. glugganum kemur frá enn einni bandarískri handverkskonu; pappírsjólatré í potti.


Það sem þarf er:

 • Ýmis fallegur pappír (fer eftir stærð trésins)
 • Frauðplastkúlur, -keilur eða annað (fer eftir því hvað gera á)
 • Skæri eða dúkahnífur
 • Títuprjónar eða heftari
 • Lím
 • Litlir blómapottar (kallaðir „terracotta“), fást t.d. í föndurbúðum
 • Grænir frauðplasthringir til að setja ofan í pottinn, ef vill
 • Tréprik einhvers konar í trjábolinn
 • Málning
 • Mosi eða föndurmosi, ef vill
 • Skraut

Ef tréð á að vera í potti er byrjað á því að mála pottinn og prikin sem eiga að halda frauðplastinu uppi.

Síðan er græna frauðplastið sett ofan í pottinn og prikið þar ofan í og stóru frauðplastformin fest á. Gott að nota smá lím til að festa með.

Ef vill er hægt að hylja græna frauðplasthringinn með mosa eða föndurmosa og lím notað til að festa, getur jafnvel verið gott að nota títuprjóna líka til festingar.

Litríkur pappír (jólapappír eða föndurpappír) er klipptur niður í renninga.

Síðan eru renningarnir beygðir saman til helminga og festir á með títuprjón eða heftaðir á.

Þetta er gert í hring og síðan bætt annarri röð ofan á. Hægt er að hafa hverja röð með sínu mynstri eða blanda innan raðarinnar, svo má auðvitað hafa tréð einlitt.

Einnig má nota aðra aðferð og þá eru renningarnir klipptir í strimla og krullaðir í endann (vafðir utan um fingur eða blýant). Síðan eru þeir festir á sama hátt og hinir renningarnir á tréð.

Lokahnykkurinn er svo toppurinn á trénu. Þar má t.d. setja stóra slaufu en einnig stjörnu eða annað skraut.

Önnur aðferð var notuð á kúlutréð. Þar var klippt út lítið blóm úr mynstraða pappírnum sem fest er með títuprjón. Aðeins meiri vinna en svolítið krúttlegt:

Hugmynd: Stolið héðan!

Jóladagatal #17

17 Des

Í 17. glugganum er haldið aðeins áfram með hugmyndina frá því í gær með tappaskrauti.

Það sem þarf er:

 • Nokkrir gos- eða bjórflöskutappar
 • Gömul jólakort eða gjafapappír sem hægt er að klippa út úr
 • Límbyssa
 • Skæri
 • Blýant
 • Borða eða annað til að nota til að hengja upp

Byrjað er á því að klippa út úr kortunum eða pappírnum myndirnar sem á að nota. Þær eru klipptar í litla hringi sem passa inn í tappana. Gott að nota blýantinn til að strika út fyrir myndunum.

Myndirnar eru svo límdar með límbyssu inni í tappann og þrýst létt á.

Síðan er borðinn eða það sem nota á til að hengja upp (perlufesti á myndunum) límd aftan á tappann og látið þorna. Þá er skrautið tilbúið til að hengja á jólatréð!

Hugmynd: Stolið héðan.

Jóladagatal #16

16 Des

Jólaföndur nr. 16 er jólakúla með álímdum myndum.

Það sem þarf er:

 • Frauðplastkúla
 • Fallegar myndir (ég klippti út úr dagblaði)
 • Lím
 • Borði eða band til að hengja upp
 • Heftari

Ég byrjaði á því að hefta borðann við kúluna. Síðan passaði ég að líma myndirnar vel yfir endana.

Svo eru myndirnar bara límdar á. Ég þurfti að klippa þær aðeins niður svo að þær pössuðu og penslaði svo yfir með lími.

Eftir að allar myndirnar voru komnar á sá ég að það var kannski ekki besta hugmyndin að nota dagblaðapappír þar sem prentið kom allt í gegn. En ég hengdi kúluna upp til þerris og þá var hún svona:

Daginn eftir hafði hún skánað heilmikið – en það er kannski ráð að nota þykkari pappír/glanspappír í svona, en hann er þá náttúrulega stífari og ekki eins meðfærilegur. Kúlan fer alla vega á jólatréð 🙂

Jóladagatal #15

15 Des

15. glugginn er líka af föndurvefnum hjá Sorpu og er ákaflega smart jólahitaplatti úr kóktöppum.

Það sem þarf eru:

 • Kóktappar
 • Efnisbútar til að sauma utan um kóktappana
 • Lím
 • Fíltefni
 • Skæri

Allar leiðbeiningarnar eru aðgengilegar hér. Góða skemmtun!