Sarpur | Lífsstíll RSS feed for this section

Góð áminning!

12 Jan

Myndablogg #31

3 Nóv

P1010560

Síðasta daginn okkar í Ástralíu fórum við í göngutúr í kóalagarði í Brisbane. Við sáum nú reyndar enga villta kóalabirni. Þeir dvelja yfirleitt svo hátt upp í trjánum og sofa svona 18 af 24 tímum á sólarhring (þ.e. þegar þeir vaka hreyfa þeir sig mjööög lítið og hægt). Ég sá hins vegar dálítið fallega klifurjurt á trjábol.
Ég var að skoða myndirnar mínar og stoppaði við hana þessa. Væri þetta ekki dálítið fallegt mynstur á veggfóðri… nú eða tattú, fyrir ykkur tattúóðu konur/menn? 🙂

Myndablogg #13

5 Okt

Fór vestur á Barðaströnd um helgina að smala með RGÍ.

Gengum Langabotn og Trostansfjörðinn í stafalogni og sums staðar snjó upp á miðja kálfa.
Vestfirðirnir skörtuðu sannarlega sínu fegursta og góða loftið og útiveran endurnæra þreyttan
Reykjavíkur-huga.

PA030009

317. Dagligdags – 49. hluti

10 Nóv

Við skelltum okkur í afmælisveislubústað um helgina og það var sko ljúft! Bústaðurinn var hinn þægilegasti með heitum potti sem var óspart notaður dag og nótt. Hins vegar var nú ekki eins mikið um leti og reiknað var með því að ég fór í tvo massíva göngutúra, annan á laugardeginum og hinn á sunnudeginum.

Fór með Unni og Erlu í Surtshelli á laugardeginum sem var alveg hreint magnað. Við Unnur fórum alla leið í gegn á þrjóskunni með eitt höfuðljós! Það gekk brösuglega með tilheyrandi hausasteypingum og eymslum 🙂 Mæli með þessu fyrir alla, dálítið klöngur en það er bara skemmtilegra!

p1010036

p1010051

Á sunnudeginum gengum við Erla upp í gilið fyrir ofan Húsafell. Farið er upp hjá gamla bænum sem er á hægri hönd á leiðinni inn á sumarbústaðasvæðið.

p1010057

Gilið er uppfullt af steinmyndum eftir listamanninn Pál Guðmundsson. Það leynast ýmsar furðuverur í steinunum sem maður tekur ekki eftir fyrr en maður gengur fram á þær.

p1010062

Innst í botninum var fallegur foss sem við Erla höfðum töluvert fyrir að komast að, það var vel þess virði.

p1010085

308. Dagligdags – 41. hluti

30 Okt

Mikið vildi ég að allir fimmtudagar væru eins og þessi! Jah, eða að minnsta kosti enduðu eins og hann. Morguninn var nú kannski ekkert spes þar sem það kviknaði í loftljósi í vinnunni. Upp gaus þessi svakalegi reykur og slökkviliðið kom og allt! Sem betur fer var engin hætta á ferðum og eini skaðinn var ónýtt ljós. Það var þó varla líft inni á skrifstofu vegna stybbu, oj bara!
Eftir vinnu fór ég svo í dekurnudd í Baðhúsið með Dillu. ÞAÐ myndi ég vilja gera á hverjum fimmtudegi ef það væri ókeypis. Voða notalegt og á eftir skelli ég mér í ljós. Náði mér í þennan fína rauða andlitslit og nú sit ég hér eins og karfi í framan.

Myndin er af mínum staðgóða kvöldmat; Kjarnajarðaberjagraut með sojamjólk og flatköku með smjöri og osti…

272. Dagligdags – 7. hluti

15 Sep

Skellti mér í sund eftir kvöldmat. Var svo yfir mig södd og dösuð eftir Kringluferð að ég ákvað að rölta upp í Kópavogslaug og taka með mér myndavélina í hálfrökkrinu.

Sóknarkirkjan mín, reyndar finnst mér hún svo falleg að ég gæti tekið mynd af henni á hverjum degi.

Rökkrið hafði náð dökkbláum lit þegar ég kom að sundlauginni og í húminu líktist upplýst rennibrautin hálfpartinn ævintýrakastala. Tek það fram að ég freistaðist samt ekki til að fara eina bunu. Synti bara mína 500 metra, fór í pottinn og upp úr.

263. Síðasti sólardagur sumarsins?

20 Ágú

Ég sit hérna inni í vinnunni. Er að gíra mig upp fyrir átök haustsins. Úff, alltof gott að vera í sumarfríi eða sumarafslöppun… Borgarkerfið er að rakna úr rotinu eftir sólböð og sumarfrí (förum ekki varhluta af því í fjölmiðlum undanfarið!). Einmitt að fara í kveðjuboð í fyrramálið hjá sama manni og bauð mér í velkomst-partí í lok janúar. Úff púff.

Sumarið er búið að vera æðislegt; gott að fara í sumarfrí í fyrsta sinn á minni stuttu ævi (búin að vera í skóla í 19 ár og því lítið um sumarfrí á launum…. ;)) Keyrðum út um allt, nokkur highlights: Langanes, Herðubreiðarlindir, Látrabjarg, Fjörður og Flateyjardalur. Bara frábært og ekki var síðra að hitta allt þetta frábæra fólk sem við hittum í fríinu, takk fyrir það!

Hef sett mér það markmið, ásamt því að uppfæra lookið á blogginu, að nú skuli ég blogga tvisvar í viku. Ekki síst fyrir suma sem staðsettir eru í Finnlandi…

Á eftir er ég að fara í pikknikk í sólinni með Skruddunum mínum… dásamlegt veður hæfir dásamlegri bók – Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalmann Stefánsson!

206. Nýr og betri kroppur

1 Okt

Er að spá í að prófa að fara í Trimform – og nýta til þess stéttarfélagsstyrkinn minn! 😉
Held það væri ekki vitlaust til að hressa aðeins upp á línurnar. Ég er náttúrulega líka úber-heilsusamleg með því að fara í sund á hverjum degi en þarf samt að skera af mér mörinn…

Svo er bara spurning hvernig gengur í sykurbindindi – ég hef hingað til alltaf þjáðst af ólæknandi sykurþörf nánast á hverjum degi! Einhverjar hugmyndir um hvernig maður sigrast á þörfinni?

199. Af nafninu skuluð þér dæma þá

29 Ágú

Ég pæli mjög mikið í nöfnum. Það mætti jafnvel segja að þau séu sérstakt áhugamál hjá mér. Þrátt fyrir að ég þykist víðsýn og kalli ekki allt ömmu mína þegar kemur að skrítnum samsetningum og klúðurnefnum sem tröllríða samfélaginu get ég ekki annað en stoppað við þegar ég heyri sykursæt tvínefni. Ég ímynda mér alltaf litlar sætar stelpur með spékoppa og lokka sem hvirflast um höfuðið þegar ég heyri nöfn á borð við Anastasía Anja eða Sandra Ísabella og litla drengi með skipt til hliðar og himinblá augu þegar nöfn eins og Tristan Karel eða Mána Snæ ber á góma.
Er ekki einhver fróður um nöfn og hvaða áhrif þau hafa á persónuleika fólks? Hlýtur að reynast erfitt að fóta sig með svakalega sætt nafn í hörðum bissness eða í undirheimum. Gabríel Glói vasaþjófur? – hljómar eins og í teiknimynd…
Íris París ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins?
Aríel Þúfa  fréttamaður?

Nei, maður spyr sig…

197. Gisp og hrmpf!

10 Ágú

Alveg merkilegt með þetta system okkar hérna.
Ég hef núna eytt rúmum 19 árum ævi minnar í skóla, aldrei tekið mér neitt frí. Nú sér loksins fyrir endann á þessum áralanga námsferli mínum þar sem ég fer ekki í skóla í haust.
Þetta sama haust ákveður Reykjavíkurborg (og raunar allt höfuðborgarsvæðið) að gefa námsmönnum frítt í strætó!
Hvers á maður eiginlega að gjalda?