Sarpur | Ljósmyndun RSS feed for this section

Myndablogg #40

22 Nóv

Yndislegt veður í dag, reif aðeins í lungun þegar ég fór út að labba áðan. En alveg blæjalogn.

Sólin er nú líka alltaf velkomin, sérstaklega þegar baráttan við skammdegið stendur sem hæst:

Myndablogg #33

7 Nóv

PB080137

Loksins! Nóvemberkaktusinn minn risinn upp frá dauðum og farinn að blómstra 🙂

Myndablogg #31

3 Nóv

P1010560

Síðasta daginn okkar í Ástralíu fórum við í göngutúr í kóalagarði í Brisbane. Við sáum nú reyndar enga villta kóalabirni. Þeir dvelja yfirleitt svo hátt upp í trjánum og sofa svona 18 af 24 tímum á sólarhring (þ.e. þegar þeir vaka hreyfa þeir sig mjööög lítið og hægt). Ég sá hins vegar dálítið fallega klifurjurt á trjábol.
Ég var að skoða myndirnar mínar og stoppaði við hana þessa. Væri þetta ekki dálítið fallegt mynstur á veggfóðri… nú eða tattú, fyrir ykkur tattúóðu konur/menn? 🙂

Myndablogg #29

30 Okt

PA300102

Ég er niðursokkin í að raða ljósmyndum sem ég var að sækja úr framköllun. Mín leið til að hleypa skipulagsáráttunni aðeins út…

Myndablogg #14

6 Okt

Óhætt að segja að dýralífið þarna fyrir vestan um helgina hafi verið fjölbreytt. Í göngunum rákumst við t.d. á margar tófur sem við rákum á undan okkur.
Þegar við gengum fyrir Ófærunesið í Trostansfirði kíktu á okkur tveir útselir. Þeir möruðu í hálfu kafi og fylgdust með okkur forvitnir; einn þeirra fylgdi smöluninni alveg inn í botn.
Þetta eru ekki þessir sætu litlu selir sem maður sér á myndum eða í Húsdýragarðinum. Þessir geta orðið 300-400 kíló og ansi illskeyttir. Kannski bara fínt að þeir héldu sig í sæmilegri fjarlægð.

Það er eitthvað hreppstjóralegt við hann þennan:

PA030016

Myndablogg #11

2 Okt

Vann þá þrekraun eitt kvöldið í vikunni að sortéra í fataskápnum mínum.

Fór yfir öll föt og skildi sumarföt frá vetrarfötum. Blendnar tilfinningar þegar blómapils, stuttbuxur og hlýrabolir fóru upp í sumarkörfuna og þykku peysurnar og ullarvestin breiddu úr sér í hillunum. Útséð með að ég geti verið á hörbuxunum meira þetta árið *dæs*

Tók svo mynd af herlegheitunum þegar þessu var lokið. Nota bene, fataskápurinn helst ekki svona fínn og skipulagður nema rétt á meðan myndatökunni stendur. Ég viðurkenni það: ég er fataskáps-slóði!

P9290012

Myndablogg #10

1 Okt

Var á fundi í Höfðatorgi, húsnæði borgarinnar í Borgartúninu (við hliðina á glerturninum).

Æ, þetta er grái kumbaldinn þarna, með öllum gluggunum. Hann er alveg jafngrár að innan.

Ekkert nema læstar hurðir og aðgangskort. Ekki beint upplífgandi svona þegar skammdegið er að hellast yfir okkur.

Útsýnið af efstu hæðunum er nú samt flott.

P9290001

Myndablogg #8

29 Sep

Mér finnst alltaf e-ð dálítið heimilislegt við Landakotsholtið. Þegar ég var lítil bjuggum við þar rétt hjá og ég fæ alltaf skemmtilega tilfinningu að ganga þarna um. Svo er Landakotskirkjan náttúrulega ein sú fallegasta á landinu.
Ein skemmtilegasta minning sem ég á úr Vesturbænum tengist einmitt þessum stað. Þá hafði Jóhannes Páll páfi komið í heimsókn til Íslands árið 1989 og við fórum að heilsa upp á hann. Man eftir mannfjölda og að reyna að sjá e-n skrítinn karl.

P9230005

Myndablogg #6

27 Sep

Ég skrapp upp á Landakot í vikunni.
Snarstoppaði í anddyrinu, gramsaði ofan í stóru Mary Poppins-töskunni og dró upp myndavélina. Gat ekki annað en smellt af. Hvað finnst þér?

Flísarnar og þessi fíni stóll. Love it.

P9230009

Myndablogg #4

24 Sep

Síðasta laugardag brá ég mér í hjólatúr og hjólaði úr Kópavoginum í Garðabæinn til ma&pa. Það var svona köflótt rigning og ég slapp að mestu en á móti kom að umhverfið var allt svo hressilegt og gróðurinn eins og vaknaður af dvala. Síðan hefur kólnað ansi mikið finnst mér, það er bara komið alvöru haust…

P9190006

Kópavogurinn skartaði sínu fegursta þegar ég stoppaði að taka myndir við Þinghólinn:

P9190012