Sarpur | Stjórnmál og samfélag RSS feed for this section

321. Dagligdags – 53. hluti

16 Nóv

Ég fór í gær með mömmu og pabba á mótmælin á Austurvelli. Svo gerðu u.þ.b. 6 þúsund aðrir Reykvíkingar og nærsveitarmenn. Við stóðum reyndar svo framarlega og nálægt sviðinu að við sáum ekki hversu pakkaður Austurvöllurinn var. Stemningin var góð og fólk var flest í besta skapi. Hressilegar ræður komu blóðinu á hreyfingu í lýðnum sem hrópaði og klappaði og það var ágætt – því það var alveg skítkalt að standa svona!

p1010035

Mér fannst gaman að sjá frumleikann í skiltagerð og slagorðum. Kemur mér alltaf jafnmikið á óvart hvað fólk getur verið beitt en um leið fyndið og frumlegt.

p10100361

315.

6 Nóv

Er nú ekkert vön að taka of mikið til mín það sem gerist í erlendum stjórnmálum en maður hefur varla getað annað en fylgst með framgangi mála í Ameríkunni. Og nú virðist bandaríska þjóðin loksins hafa flykkst á kjörstað og hugsað örlítið um framtíðina…

Finnst þetta rosalega sterk mynd:

november-4-2008

309. Dagligdags – 42. hluti

31 Okt

Jæja, þá er mér nóg boðið!

Eins og gefur að skilja hef ég verið að skoða hitt og þetta varðandi ferðalagið til Ástralíu. Þar sem nú eru tæpir tveir mánuðir til brottfarar (!) hef ég verið að skoða hótelkostnað á ýmsum stöðum og fleira. Á einni síðunni gat ég breytt úr ástralska dollaranum yfir í íslenskar krónur og gerði ég það til að átta mig betur á kostnaðinum… Þá sá ég í fyrsta sinn áþreifanlega hvað gengi krónunnar er í miklu fokki, afsakið orðbragðið!!!

Ég gerði smá athugun á netinu og eftirfarandi niðurstaða er að

1 AUD dollari er í íslenskum krónum hjá:

xe.com (sem ég miða langoftast við):  79,7 ISK
oanda.com: 80,5 ISK
landsbanki íslands (eini ísl. bankinn sem gefur upp AUD): 79,75 ISK
gocurrency.com: 148,7 ISK
bank of canada: 79,35 ISK
bloomberg: 79,7 ISK
iccfx.com: 80,5 ISK
uk.finance.yahoo.com: 148,62 ISK
ratesfx.com: 158,05 ISK
expedia.co.uk: 76,5 ISK

Er þetta alveg í lagi??? Á maður bara að velja eða hvað? Nú verður eitthvað að fara að gerast í þessum málum, takk fyrir!!

289. Dagligdags – 23. hluti

7 Okt

– varúð, niðurdrepandi færsla –

Undanfarna tvo daga hef ég verið í vinnunni, hálfutangátta með óbragð í munninum. Er það furða að maður sé svolítið ringlaður á þessu ástandi? Fólk að missa spariféð út úr höndunum, svo ég tali nú ekki um húsnæðislán í myntkörfu… einhvern veginn snertir þetta alla.
Fréttaflutningurinn hefur svo bætt gráu ofan á svart og eftir allt saman er maður úttaugaður og ferlega hræddur um sig og sitt. Efast um að ég sé sú eina.

Nú er víst bara að þrauka í gegnum þessar þrengingar (er komin með nóg af þessum sjómannamyndlíkingum) og bíða betri tíðar, sem kemur örugglega… einhvern tímann… vonandi…

286. Dagligdags – 20. hluti

2 Okt

Eins og alvöru fréttasnápur er ég nú farin að ganga með myndavélina á mér og lyfti henni við minnsta tækifæri. Í hádeginu í dag var það líka bara eins gott:

Við sáum bílinn verða alelda á svipstundu, manninn komast út (guði sé lof) og brátt tepptist allt á gatnamótunum við hliðina á okkur. Nokkrar sprengingar komu í kjölfarið en einhverjir eldhugar héldu samt áfram að troðast fram hjá honum þar til löggan lokaði veginum.

Sé mest eftir því að hafa ekki sent myndirnar til fjölmiðla, finnst þær mun betri en það sem ég hef séð hingað til 😉

177. Lán og ólán

18 Apr

(Ábyggilega ekki sú fyrsta sem bloggar um brunann):
Til hamingju með að eiga nú Reykjavík sem er laus við yfirhnakkamelluskemmtistað dauðans. Því miður kostaði það blóðtöku og miðbæjarbragsmissi. Það eru alltof fá hús eftir sem byggð voru á þarþarsíðustu öld.
P.S. Er ég voðalega leiðinleg ef ég segi að mér hafi ekki fundist neitt sérstaklega mikið varið í húsið vegna starfseminnar?
P.P.S. Áskotnaðist í dag ofnæmi fyrir beinum sjónvarpsútsendingum, jú (frétta) menn verða að æfa sig svo þeir séu vel máli farnir á skjánum!

152. Ljósið kemur langt og mjótt

28 Sep

Áðan stóð ég ásamt nokkrum tugum Kópavogsbúa og horfði á þegar ljósin voru slökkt í Reykjavík og nágrenni. Eða ætti ég að segja ekki slökkt? Því það var síst minni ljósmengun af ljósunum í heimahúsum og bílunum sem voru sífellt á ferðinni.
Þar sem ég stóð í miðju kirkjuholtinu var þó sæmilega myrkvað. Einstaka bílljós truflaði mig merkilega mikið. Engar stjörnur sáust. Jú, ein. Sennilega Pólsstjarnan. Hins vegar hef ég sjaldan séð jafnmargar þyrlur sveimandi hérna yfir og akkúrat þá. Eftir því sem myrkrið varð meira því betur leið mér. Ég stóð þarna innan um fullt af ókunnugu fólki sem ég sá ekki framan í. Þannig var ég ein í heiminum og það var voða notalegt.
Þangað til að hvert bæjarfélagið af öðru tók sig til og byrjaði að skjóta upp flugeldum til að bæta borgarbúum upp stjörnuleysið. Uss hvað ég var fúl. Maður fékk ekki einu sinni að hafa myrkrið (þá sjaldan sem það gefst) í friði fyrir sprengingum.
Slagorðið: Slokkni ljós, kvikni stjörnur missti því algerlega marks. Þar kom ekkert fram um rakettur, hnuss…

En mikið var gaman að sjá þegar ljósin komu aftur, hægt og rólega

26 Maí

Svona stendur maður þá gagnvart þessum blessuðu kosningum, a.m.k. í borginni þó að ekki megi ég kjósa þar…

Þú ert 40% hlynntur V lista
Þú ert 20% hlynntur S lista
Þú ert 20% hlynntur F lista
Þú ert 10% hlynntur D lista
Þú ert 10% hlynntur B lista

Viltu reikna út hvar þú stendur? Farðu þá hingað!

Annars er ég í stórfelldri fýlu út í bloggerinn. Hann gleypti frá mér þrjár LANGAR færslur um Evróvisjón og ég er ekki sátt við það. Kannski ég fari að finna mér annan stað til að tjá mig á.
Ég er nú að vinna við að skoða þessa hluti allan daginn og ætti því að vera komin með nasaþefinn af því hvað er best o.s.frv. Hvað segið þið? Hvar er best að blogga?

Kvennafrí

25 Okt

Það var einstök tilfinning að standa neðst á Ingólfstorgi og líta til baka og svo langt sem augað eygði voru konur í kröfugöngu um bætt kjör og jafnrétti til handa öllum. Við héldum tvær vinkonurnar af stað í miklum baráttuhug og ætluðum sko að berjast til síðasta blóðdropa. Vorum hins vegar dulítið svekktar þegar 50 þúsund konur spásseruðu niður Skólavörðustíg og Laugaveg og sötruðu kaffi úr teikavei-bollum og kíktu í búðarglugga. Baráttuandinn sveif ekki beinlínis yfir vötnum. Margar af þessum konum eflaust fegnar að sleppa úr vinnunni svona snemma á virkum degi þegar gott var veður. En líklega var þetta bara í þvögunni sem við vorum í því iðulega heyrðum við óm af hvatningarópum og söng. En konur höfðu ekki beinlínis hátt á leið sinni niður á Ingólfstorg, fremur að þær læddust með veggjum… Eitthvað held ég að þetta hafi nú verið öðruvísi fyrir 30 árum.

En þegar niður á Ingólfstorg var komið hafði reiðin og baráttugleðin magnast upp í konunum og ungar sem aldnar tóku þær undir baráttusöng og köll. Eftir um klukkustundarlangan fund í troðning og kulda héldu þær síðan heim á leið og snerust í kringum kallinn sem var dauðfúll yfir að ekkert skyldi vera í matinn og enginn hafi verið tilbúinn með blaðið og pípuna… Uss, hvað það hefur lítið breyst – jafnrétti fyrir alla, líka karla!!

Dull veður

12 Júl

Agalega verður maður eitthvað þreyttur í svona veðri… Er í vinnunni og er ekki alveg að meika þetta, sossum allt í lagi að hafa svona veður þegar maður þarf að sitja inni yfir tölvu. En svona til lengdar er þetta ansi slappt, það haustar snemma að. Við bíðum annars spennt eftir að geta farið að undirrita kaupsamninginn… þetta verður ekki að raunveruleika fyrr en þá!! Þá verðum við fasteignaeigendur. Verð þó að viðurkenna að það fór dálítið um mig eftir umfjöllunina um að fasteignamarkaðurinn væri að fara að hrynja… fékk svoldið í magann yfir að við værum kannski að gera einhverja bölvaða vitleysu að vera að kaupa núna. En ég meina, það er ekki hægt að bjóða fólki endalaust að leigja á þessum prís í Reykjavík… svo ég tali nú ekki um að við erum búin að leigja ÞRJÁR íbúðir á jafnmörgum árum… kominn tími á okkar eigin, held ég.