Sarpur | Útivera RSS feed for this section

Myndablogg #15

7 Okt

Nú er orðið kuldalegt hérna í Reykjavíkinni. Maður leiðir hugann ósjálfrátt að jólunum, a.m.k. er annað hvert status-update á Facebook e-ð á þessa leið: „komin/n í jólaskap“, „snjókorn falla“, „hlakkar til jólanna“. Ég er því ekki ein um þetta.

Set hérna inn mynd frá því í vor þegar ég fór í göngutúr í Garðabænum, ansi vetrarlegt:

P3020248

Myndablogg #14

6 Okt

Óhætt að segja að dýralífið þarna fyrir vestan um helgina hafi verið fjölbreytt. Í göngunum rákumst við t.d. á margar tófur sem við rákum á undan okkur.
Þegar við gengum fyrir Ófærunesið í Trostansfirði kíktu á okkur tveir útselir. Þeir möruðu í hálfu kafi og fylgdust með okkur forvitnir; einn þeirra fylgdi smöluninni alveg inn í botn.
Þetta eru ekki þessir sætu litlu selir sem maður sér á myndum eða í Húsdýragarðinum. Þessir geta orðið 300-400 kíló og ansi illskeyttir. Kannski bara fínt að þeir héldu sig í sæmilegri fjarlægð.

Það er eitthvað hreppstjóralegt við hann þennan:

PA030016

Myndablogg #7

28 Sep

Nokkur óyggjandi dæmi þess að haustið er komið:

  • Sveppir vaxa um allar koppa grundir
  • Ég set upp hanska í bílnum á morgana
  • Geitungarnir verða aðgangsharðir – jæks!
  • Ég kveiki á hitaranum í bílsætinu, ahhhh…… og síðast en ekki síst: Ég er komin í sokkana aftur! Búin að vera berfætt síðan í maí…

    P3020211

Myndablogg #4

24 Sep

Síðasta laugardag brá ég mér í hjólatúr og hjólaði úr Kópavoginum í Garðabæinn til ma&pa. Það var svona köflótt rigning og ég slapp að mestu en á móti kom að umhverfið var allt svo hressilegt og gróðurinn eins og vaknaður af dvala. Síðan hefur kólnað ansi mikið finnst mér, það er bara komið alvöru haust…

P9190006

Kópavogurinn skartaði sínu fegursta þegar ég stoppaði að taka myndir við Þinghólinn:

P9190012

Myndablogg #1

21 Sep

P9130015

Fyrsta bloggið lítur dagsins ljós hér með. Ég var að dást að haustlitunum fyrir vestan í ljósmyndum frá RGÍ og mundi þá eftir berjalynginu á Mýrunum sem ég tók myndir af þegar við skötuhjúin skruppum í bústað með góðum og hressum vinum. Litirnir verða e-n veginn svo miklu fallegri úti á landi heldur en hér í höfuðborginni, finnst ykkur það ekki?
(Undantekning á því: Risastóru aspirnar hjá Menntaskólanum við Sund, eeeelska þær! Heiðgular allar saman, eins og þær hafi bara ákveðið: „Einn, tveir og nú!“ 🙂 )

113. Klámfengið sumarplan

9 Jún

Af titlinum mætti halda að ég ætlaði að fara með svívirðu og klámkjaft hér á opinberum vettvangi. En það geri ég ekki, einfaldlega vegna þess að klámfengið er hér samheiti orðsins grófur sem er andstæða orðsins smár, fínlega gerður. Sum sé, uppkast að skema yfir sumarafþreyingu mína og minna. Því ekki ætla ég að vinna í allt sumar. (Ég uppfæri þetta svo jafnóðum:)

17. júní: Brúðkaup á Hvammstanga
Nokkrir dagar þar á eftir: Ferðalag um Norðurland, Húsavík, Akureyri o.fl. – Bóndinn er í einhverjum jeppahugleiðingum.
24. júní: Einar þrjár útskriftir.
25. júní: Kompudagur og útsala Fílharmóníunnar í Kolaportinu! Allir að mæta!
6. júlí: Mega spilakvöld!

– Best að stefna á kórhitting um miðjan júlí

27. júlí: Tónleikar Belle og Sebastian & Emilíönu Torrini á NASA kl.21
28.- 30. júlí: Ættarmót fyrir norðan
Verslunarmannahelgin: Tjaldferðalag með útlendinga

28. sept – 3. okt: Búlgaríuferð Fílharmóníunnar!!

-ok, ég veit að þetta síðasta er kannski ekki beint á sumrinu en ég hlakka bara svo til! Vona bara að við kórkonurnar komum ekki skornar í andliti til baka…

Fyrirbæri dagsins: Klárlega Emilíana Torrini og Belle og Sebastian í tilefni gærdagsins. Kann Emilíönu aftur á bak og áfram enda hér á ferð einn fyrsti og tryggasti aðdáandi hennar frá því hún söng í Hárinu hér um árið!

105. Sumarnótt

29 Maí

Þegar ég keyrði heim á sunnudagsmorguninn í blankalogni og glaðasólskini fann ég ekki til minnstu þreytu. Hafði verið í bænum og skemmti mér þokkalega. Fannst þó töluvert mikið af illa drukknu fólki sem og áflogum og látum. Það var eitthvað sem lá í loftinu. Kannski var það spenningurinn yfir kosningunum sem voru svo ekkert spennandi eftir allt saman. Nei, eitthvað var það.
Á leiðinni heim tók ég eftir að á nánast hverjum einasta ljósastaur sat mávur og svaf. Eymingjans mávarnir, ég vorkenndi þeim hálfpartinn. Allir agnúast út í þá; það eru læti í þeim, þeir eru uppáþrengjandi og það er allt of mikið af þeim. Mikið hljóta þeir að vera einmana stundum. Á slíkum stundum er það ef til vill tilvalið að velja sér svefnstað sem er mörgum metrum fyrir ofan mannfólkið.
Ég tölti síðan upp á þriðju hæðina sem er í sömu hæð og ljósastaurarnir og lagðist til svefns.

29 Júl

Vá maður! Ég held ég hafi sjaldan verið jafn brunnin eftir jafnstuttan tíma í sólinni, ég sat nefnilega í sólinni á miðvikudag og sötraði hvítvín á svölunum hjá Helgu í 5 tíma. Náði ég mér í þónokkurn lit… alla vega er ég eins og Tommi tómatur núna, með þetta svakalega kerlingarbolafar á bringunni og rauða handleggi – en það er bara smart held ég. Tónar vel við snakahvítan magann á mér…

– vil deila með ykkur setningu sem ég hef verið með á heilanum í viku, held að ég hafi heyrt það í Stundinni okkar fyrir löngu… og mér finnst ákaflega viðeigandi um þessa helgi, þegar allir eru í óðaönn að skemmta sér og öðrum:

Engum ætti að leyfast að leiðast – nema hönd í hönd!

Sumarsumar

22 Júl

Sumarið hefur lent í Reykjavík. Áætlaður komutími var í byrjun maí en það mætti „fashionably late“ – sem er allt í lagi… þegar maður situr inni við tölvur og vinnur imbavinnu. Ég er hins vegar svo hæstánægð með vinnuna og vinnufélagana að ég get ekki kvartað. Við erum svakalega dugleg að nördast; spjöllum hálfu dagana um íslenska málstefnu og tilbrigði í málinu og tístum yfir skemmtilegum málhöfum og dæmum sem við rekumst á. Við höfum farið út að borða… svona fínna en á kaffistofuna í Odda… 3x ( í Norræna húsið, Tæknigarð og Rossopomodorro) og í dag kom ein með svakalegt bakkelsi og trakteringar (brauð og kökur) og við sátum í pikknikk fyrir utan Árnagarð og röðuðum í okkur brauði, hummus, osti og vínarbrauðum. Núna er ég líka gersamlega að springa…
Helgin hljómar líka vel… Ásgeir er kominn í sumarfrí og ég vinn aldrei á laugardögum og svo ætla ég að taka mér frí á mánudag (langþráða langa helgi) og það verður eitthvað skemmtilegt brallað… dadara
Eins og Spaugstofumenn sungu hér um árið… ,,Allt á, allt á uppleið…“

Skrýtið þetta frí!

28 Maí

Ég held ég kunni ekki að vera í fríi, er gjörsamlega búin á því eftir þennan dag. Ætlaði að gera hundrað milljón hluti; dekra við mig og baka og þvo og allt en endaði á því að hjóla um allan bæ með poka og pinkla og taka til í geisladiskunum mínum!! Eldaði svo með Ásgeiri og er bara alvega að leka niður…
-eftir stutt föndur komst ég hins vegar að því að uppáhaldslitirnir mínir eru blár og gulur… gaman að því!!!