Sarpur | Vinir og fjölskylda RSS feed for this section
2 Mar

Þegar ég kom heim í dag beið mín spennandi pakki með ítölskum merkingum og frímerkjum:

p3020138_a1

Ég opnaði hann og sá þennan fína afmælispakka:

p3020146

Í pakkanum voru skartgripir, bolur og hjemmelavet geisladiskur, alveg brilljant! Ekki hægt að hugsa sér betri mánudag…

p30201481

Ég var svo kát að ég hringdi rakleiðis í bestu systu í Mílanó og þakkaði henni ástsamlega fyrir afmælisgjöfina. Að vísu er hún dolítið sein en það er alfarið ítölsku póstþjónustunni að kenna. Takk aftur Dilla, þú ert bestust!

p3020154

Óskalisti

6 Feb

birthday-girl-candlesÉg er hin mesta afmælisstelpa. Í næstu viku á ég afmæli og ég er auðvitað farin að hlakka til. Ég býst þó ekki við að halda upp á afmælið fyrr en í lok mánaðarins eða í þeim næsta.

Þrátt fyrir að hafa keypt helling í Ástralíu er eitt og annað sem mig langar í í afmælisgjöf:

1. Múmínálfabollar
2. Afsteypur af styttum Ásmundar Sveinssonar (fást á Kjarvalsstöðum)
3. Ný íslensk tónlist, nokkurn veginn hvað sem er
4. Falleg ljósmyndabók, skáldsaga eða nokkurn veginn hvað sem er innbundið

349. Jóla-dagligdags – 80.hluti

24 Des

Elsku vinir!
Aðfangadagur upprunninn og allir bíða spenntir eftir að jólahátíðin gangi í garð.
Síðasti glugginn í dagatalinu mínu og sá fjórtándi er algjörlega fyrir mig. Það er hún Julie mín Andrews að syngja fallegt enskt jólalag. Þetta er hátíðleikinn og jólastemningin fyrir mér!
Gleðileg jól og njótið hátíðarinnar í faðmi fjölskyldu og vina!

14. Hark the herald angels sing – Julie Andrews. Úr jólaþætti „Julie Andrews Show“ (Julie’s Christmas Special) af BBC frá árinu 1973.

307. Dagligdags – 40. hluti

29 Okt

Lífið gengur svo sem sinn vanagang: vinna, borða, sofa. Engin lygi þar á ferð nema þegar ég drattast í sund. Sem er alltaf svo gott að ég skil ekki að ég skuli ekki gera þetta tvisvar á dag. Eins og ég hef sagt; þyldi húðin á mér og hárið það, myndi ég sennilega búa í sundlaug…

Svona er nú útsýnið hjá mér daglangt. Fallega og hraðvirka vinnutölvan mín sem er seigari en allt, síminn sem er enn með miðanum (sbr. 2. hluta) og myndin af ömmu sem mátti missa sín af myndaveggnum heima í forstofunni en ég tímdi ekki að láta fara. Núna horfi ég á hana á hverjum degi.

Varúð! Fyrstu ummerki jólanna má sjá heima hjá mér frá og með deginum í dag. Afi keypti handa mér jólastjörnu og sagðist hafa séð eftir því að hafa ekki gefið ömmu fleiri blóm á meðan hún lifði. Hann er nú ágætis karl. Svona þegar hann talar ekki of mikið um hægðatregðu 🙂

304. Dagligdags – 37. hluti

26 Okt

Notalegir svona sunnudagar þar sem maður gerir helst ekki neitt. Vakna seint og hengslast heima fyrir.
Tókum til í geymslunni í gær og ég skellti mér í útskriftarveislu.

Í dag var svo vöfflukaffi í Grafarvogi og matur í Garðabænum. Hittum alla strolluna í Grafarvoginum, líka þessa litlu mús sem undi sér sátt í forstofunni að leika sér að skóm.

290. Dagligdags – 24. hluti

8 Okt

Eins og heyrst hefur í öllum fjölmiðlum og út um allt er fólk að reyna að skera niður hjá sér og spara á hinum ýmsu sviðum. Ég tók mig t.d. til og skrifaði upp allt sem er í frystinum; og ætla að svo að smíða matseðil næstu daga út frá því (heyrði þetta einhvers staðar). Annað er að búa til matinn sjálfur frá grunni. Svo við skötuhjúin bjuggum okkur til fiskibollur í gær, þ.e.a.s. ÁPB bjó þær til. Þær urðu nú hálfgerðar kreppubollur því að þær steiktust illa í miðjunni og því urðum við að skera þær í tvennt og steikja þannig – þynnstu fiskibollur sem ég hef smakkað!

Tók þessa fínu artí-mynd af gamalli agúrku sem mér fannst dálítið skemmtileg í laginu!

Seinna um kvöldið var okkur svo boðið í kreppukaffi niður í miðbæ. Það var nú dálítið gott að koma þangað, fá sér kakó og stroh og blása út um alla vitleysuna sem maður hefur verið mataður á í fréttum undanfarið!

Er alveg heilluð af svona fjölbýlishúsa-/gluggamyndum (eitthvað nostalgískt við þær). Minna mig á Einar Áskel, eða eins og segir í Hvað varð um Einar ærslabelg? : „Um allan bæinn – og úti um allt land er urmull sjö ára krakka sem liggja vakandi.“

Kannski eru það frekar hinir fullorðnu sem liggja vakandi þessa dagana.
Með fjárhagsáhyggjur.

273. Dagligdags – 8. hluti

16 Sep

Afi minn er snillingur. Því miður heimsæki ég hann alltof sjaldan en þegar það gerist skemmtum við okkur alltaf konunglega. Hann er hafsjór af skemmtilegum sögum og fróðleik.

Áðan sagði hann mér t.d. frá því þegar hann var 8 ára og gekk á höndum yfir allan íþróttasalinn þrátt fyrir að hafa bara verið í koti en ekki pokabuxum eins og stóru strákarnir. Hann söng líka mikið og einu sinni söng hann svo hátt að langamma heyrði í honum alla leið niður í Fischersund en þau bjuggu á Stýrimannastíg.

Afi er líka algjör tækjakall. Ég var send að leita að hluta sem hann vantaði í talstöðvarloftnet. Eins og myndin ber með sér vantar hann þó alls ekki talsstöðvarnar…

Lóðin og húsið eru orðin vel gróin og einhvern veginn finnst mér þetta alltaf hafa verið þarna.

261.

24 Júl

myspace graphics

Create Your Own Polaroid

240. Kinda kúl

21 Feb

Þetta finnst mér ein besta hugmynd sem ég hef heyrt lengi!
Búið að redda afmælis- og jólagjöfum þetta árið 🙂

Hvað segiði þið? Ekki vera kindarleg, fáum okkur kind!

186. Blessað barnalán með B-i

31 Maí

 

Stórmerkilegt.
Þegar ég hóf námið í blaða-og fréttamennsku (sko, líka með b-i) vorum við um 20 manns í hópnum.
Við urðum fljótt mestu mátar en líklega hefur enginn gert ráð fyrir hversu alvarlegar afleiðingar þessi samvist okkar hafði á framtíðarplön allra!!
Í rauninni er eins og örlögin hafi verið ráðin strax í upphafi þegar Birta hætti í náminu eftir tvo mánuði vegna þess að hún var ólétt. Ekki löngu síðar fréttum við að Birkir ætti von á barni. Og síðan bættust Björg og Bryndís í hópinn.
Þetta fannst okkur voðalega fyndið og töluðum um að enginn nema B-in ættu eftir að eignast börn.
Og það kom sannarlega á daginn. Í dag frétti ég af þremur bekkjarsystrum mínum sem eru óléttar og hvað haldið þið, seinna nafn þeirra allra byrjar á b!!

Nú er þetta orðið furðulegt held ég, bæði með b-in og svo að svona stór prósenta af 19 manna hóp eignist börn á stuttum tíma.

Þið þrjár sem eftir eruð með b í fyrra eða seinna nafni, passið ykkur! Þetta er greinilega smitandi!