Sarpur | Vísindi og fræði RSS feed for this section

Myndablogg #12

3 Okt

Ég skoða oft dv.is-vefmiðilinn, mér til einstakrar skemmtunar. Til að rifja upp „gömlu, góðu“ tímana á próförkinni á DV *nettur hrollur* 🙂

Var minnt frekar óþyrmilega á próförkina þegar ég rak augun í flash-auglýsinguna fyrir miðri síðu. Hún byggir á góðri hugmynd:

stafs1

Þarna er innsláttarvilla sett viljandi inn í auglýsinguna. Í næstu andrá er hún svo leiðrétt:

stafs2

Hins vegar geta glöggir séð að þarna er eitt auka -n SEM EKKERT ER VERIÐ AÐ HAFA FYRIR AÐ LEIÐRÉTTA.

Úff, svona fer í taugarnar á mér! Kommon! Í auglýsingu?!
Þetta þýðir bara að traustið til Snöru vefbókasafns snar-minnkar, ef ég á að segja alveg eins og er…

4 Sep

Ég er að komast í haustgírinn. Búin að skrá mig í ræktina og á hotyoga-námskeið, aðeins farin að fá tilfinningu fyrir kúrsunum sem ég er í í HÍ (eins gott, því að þeir eru fjarnámskúrsar) og starfið að byrja í G-RKÍ.
Fyrir ári síðan var ég týnd í Ástralíupælingum og gat ekki beðið eftir að jólin yrðu búin. Nú ætla ég bara að njóta tímans fram að jólum… Haustið er alltaf svoldið notalegt, skemmtileg birta og hlýtt um miðjan daginn. Kannski ég skelli mér út með myndavélina um helgina.

300. Dagligdags – 33. hluti

20 Okt

(vó, 300 færslur!)

Í dag fór ég eftir vinnu niður í Árnagarð og ég finn hvað ég sakna þess að vera þar. Finn alveg hvað andinn lyftist og ég hef alvarlega verið að pæla í því hvort ég ætti ekki að skella mér í almenn málvísindi, svo sem eins og einn eða tvo kúrsa með vinnunni… sé til…

… ég sakna líka Mímis, bæði tímaritsins og nemendafélagsins!

Ég rakst annars á sniðugan lista á netinu í dag. Allir vita að það eru fáir listar sem ég stenst mátið við að mæla mig við og þessi bar yfirskriftina: 30 bækur sem þú átt að lesa áður en þú verður þrítug/ur!
Skelli honum hérna inn með smá tvisti frá mér, svona finnst mér að hann eigi að líta út – ef þið eruð ósammála látið vita í kommentum!!

1. 1984 e. George Orwell.
2. A Clockwork Orange e. Anthony Burgess.
3. Alkemistinn e. Paulo Coelho.
4. Á hverfanda hveli e. Margaret Mitchell.
5. Ástkær e. Toni Morrison
6. Babettes gæstebud e. Karen Blixen.
7. Brave New World e. Aldous Huxley.
8. David Copperfield e. Charles Dickens.
9. Gamli maðurinn og hafið e. Ernest Hemingway.
10. Glæpur og refsing e. Fjodor Dostojevskí.
11. Grandavegur 7 e. Vigdísi Grímsdóttur.
12. Guðdómlegi gleðileikurinn e. Dante Alighieri.
13. Himnaríki og helvíti e. Jón Kalmann Stefánsson.
14. Hroki og hleypidómar e. Jane Austen.
15. Ilmurinn e. Patrick Suskind.
16. Kona fer til læknis e. Ray Kluun.
17. Hundrað ára einsemd e. Gabriel García Márquez.
18. Sálmurinn um blómið e. Þórberg Þórðarson.
19. Sjálfstætt fólk e. Halldór Laxness.
20. Stríð og friður e. Leó Tolstoj.
21. Svartfugl e. Gunnar Gunnarsson.
22. Art of War e. Sun Tzu.
23. The Catcher in the Rye e. J.D. Salinger.
24. Þrúgur reiðinnar e. John Steinbeck.
25. The Lord of the Rings e. J.R.R. Tolkien.
26. Uppruni tegundanna e. Charles Darwin.
27. Prinsinn e. Niccolo Machiavelli.
28. Tómas Jónsson metsölubók e. Guðberg Bergsson.
29. The Republic e. Plató.
30. Wuthering Heights e. Emily Bronte.

(þær eru bara í stafrófsröð, ekki mikilvægisröð)

211. Montblogg

26 Okt

p9240191.jpg

Hér gefur að líta mín helstu afrek um dagana. Afrek segi ég af því að ég á víst engin börn. Eins og Hlíf segir þá eru þetta Börnin mín.
Það eldra er jafnframt ögn barnalegra og „þynnra“ en stórmerkilegt og frumlegt engu að síður og mér mjög kært eins og frumburðir eru.
Hið yngra lét hafa fyrir sér en komst þó heilu og höldnu í heim þennan. Fagna ég því eftir 9 mánaða meðgöngu.

Svo er það bara útskrift á morgun (sem ég reyndar mæti ekki í) og útskriftarkaffi eftir viku. Jibbí!

203.

24 Sep

Laugardagurinn 27. október næstkomandi er merkilegur fyrir margar sakir. Sjálfsagt á fullt af fólki afmæli þennan dag. Ég las einhvers staðar að um 10 Íslendingar ættu að meðaltali afmæli hvern einasta dag ársins. Ég á hins vegar ekki afmæli þá.
Ég mun hins vegar útskrifast þá með meistarapróf í blaða- og fréttamennsku frá Háskóla Íslands. Það er gott og blessað og eins og gefur að skilja hef ég lokið við margþvælt meistaraverkefnið. Fæðingin var löng, nærri eins og hjá mannfólki, um 9 mánuðir. Hins vegar get ég um frjálst höfuð strokið nú þegar fæðingin sjálf er afstaðin (annað en þær konur sem hafa í raun fætt barn, vinnan er rétt að byrja fyrir þær 😉 )
Ég set nú kannski mynd af þessu afkvæmi mínu við tækifæri á bloggið – ef ég nenni…
Þetta er hins vegar aðeins önnur ástæðan fyrir því að 27. okt er merkilegur. Hin er sú að þann dag fyrir þremur árum upphófst þetta blogg! (þið getið séð það sjálf í Sarpnum hér við hliðina á)

Í tilefni af þessum tímamótum ætla ég að lífga þetta blogg við og vera duglegri að hafa samskipti við vefheiminn en undanfarið…
Hvað ég sé að gera nú þegar MA-ritgerðin er farin frá mér? Jah, það er nú bara mest lítið svona… reyna að finna mér eitthvað til dundurs…

199. Af nafninu skuluð þér dæma þá

29 Ágú

Ég pæli mjög mikið í nöfnum. Það mætti jafnvel segja að þau séu sérstakt áhugamál hjá mér. Þrátt fyrir að ég þykist víðsýn og kalli ekki allt ömmu mína þegar kemur að skrítnum samsetningum og klúðurnefnum sem tröllríða samfélaginu get ég ekki annað en stoppað við þegar ég heyri sykursæt tvínefni. Ég ímynda mér alltaf litlar sætar stelpur með spékoppa og lokka sem hvirflast um höfuðið þegar ég heyri nöfn á borð við Anastasía Anja eða Sandra Ísabella og litla drengi með skipt til hliðar og himinblá augu þegar nöfn eins og Tristan Karel eða Mána Snæ ber á góma.
Er ekki einhver fróður um nöfn og hvaða áhrif þau hafa á persónuleika fólks? Hlýtur að reynast erfitt að fóta sig með svakalega sætt nafn í hörðum bissness eða í undirheimum. Gabríel Glói vasaþjófur? – hljómar eins og í teiknimynd…
Íris París ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins?
Aríel Þúfa  fréttamaður?

Nei, maður spyr sig…

187. Mímir 51

1 Jún

Vil benda öllum lesendum síðunnar á að blað stúdenta í íslenskum fræðum, Mímir, er komið út. Um er að ræða 51. tölublað þessa stórgóða vettvangs fyrir íslenskunema að tjá sig og skrifa greinar t.d. upp úr lokaritgerðum og kúrsaritgerðum.
Að þessu sinni er blaðið afar veglegt, 144 síður og efnið ekki af verri endanum. Þar er m.a. fjallað um minningagreinar, tungutækni, MSN-málfar og margt fleira. Þá eru úrslit úr ljóðasamkeppni kynnt, birt spennandi viðtal við fræðimann og listi yfir lokaritgerðir síðustu 10 ára.
Þetta er sannarlega blað sem þú mátt ekki missa af!
Verðið er náttúrulega ekki neitt, 1500 kr. sem er jafnmikið og bíóferð með poppi og kóki – og sannið þið til, Mímir er sko miklu skemmtilegri en bíó!

Við óskum eftir nýjum áskrifendum (nafn og kennitala) á mimirinn@gmail.com en svo er auðvitað hægt að kaupa bara þetta tölublað hjá mér…

Mímir lifi!

176. Ekki góðar fréttir

20 Mar

Búin að týna glórunni. Hún er einhvers staðar í draslinu heima, sennilega við hliðina á dugnaðinum og samviskuseminni og ofan á afslöppuninni og hreyfigetunni.
Allt sem eftir er og verður fram til 4. maí er stress og streita, kvíði og svefnleysi.

Blogga aftur þegar ég næ að tjasla mér saman og finna á mér hausinn.

166. Sama gamla sagan

11 Jan

Hmmm…. 11. janúar og enn eru engar einkunnir komnar. Próf.is getur ekkert hjálpað okkur því áfangarnir eru allir próflausir (!)
Mig minnir endilega að ég hafi verið á sama stað í fyrra, getur það verið??????????? Þann 26. janúar 2006 var staðan svona:
Óska hér með eftir svæsnum hugmyndum um hvernig eigi að lumbra á aðila sem á enn eftir að skila af sér einkunn!! ARRGG!!

 

Ég segi það enn og aftur: Ég hefði ekki átt að skipta yfir í félagsvísindadeild!!!!

162. Minns frægur

15 Des

Síðasti séns að auglýsa einstæðan fyrirlestur um nýjar -st-sagnir í íslensku.

Lögbergi, 101 kl. 10:30 – núna á eftir!!!

Sjá hér