Sarpur | Yfirlit RSS feed for this section

Topp tónlistin 2009 (íslensk)

25 Jan

Frá áramótum hefur mig langað að birta lista yfir það skemmtilegasta sem ég hlustaði á á árinu 2009. Ég var sérstaklega dugleg að hlusta á íslenska tónlist – og keypti mér meira af íslenskum diskum en nokkru sinni fyrr!

Hérna er listinn minn yfir bestu íslensku plöturnar 2009:

10. Sykur – Frábært eða frábært
Hlustaði bara lítillega á þessa plötu en þarf að taka hana til frekari skoðunar. Úrvals synthapopp. Besta lag: Rocketship.


9. Árstíðir – Árstíðir
Árstíðir komu á óvart með tærar raddir og gullfallegar melódíur. Eitthvað við lögin þeirra sem er svo svakalega kunnuglegt. Bestu lög: Sunday Morning og Látum okkur sjá.


8. Á Ljúflingshól – Sigríður Thorlacious og Heiðurspiltar
Fallegu lögin eftir Jónas og Jón Múla Árnasyni í skemmtilegum útsetningum sungin af góðri söngkonu. Getur varla klikkað! Bestu lög: Í hjarta þér og Sérlegur sendiherra.


7. Trúbatrix – Taka 1
Þessi diskur kom mér á óvart og ég set hann hérna inn af því að lögin eru fjölbreytt og skemmtileg og mjög mikil gróska. Bestu lög: Þynnkublús og En þú varst ævintýr.


6. Feldberg – Don’t be a stranger
Ég hafði hlustað aðeins á Eberg áður og þessi plata kom sem himnasending. Fór ekki úr spilaranum í lengri tíma! Bestu lög: Eiginlega öll, helst í einum rikk!


5. Hjálmar – IV
Marglofuð plata og stendur gersamlega undir öllu lofinu. Fór með ÁPB á forsýningu myndarinnar (sem fylgir disknum) og forsýningartónleikana, sem stóð upp úr af tónleikum á árinu. Besta lag: Taktu þessa trommu.


4. Múm – sing along to songs you don’t know
Mjög skemmtileg plata og allt öðruvísi tónlist en múm hafði verið að gera. Enginn sem er svikinn af að eignast þessa plötu. Besta lag: Húllabbalabbalú.


1.-3. Bloodgroup – Dry land
Ég gat eiginlega ekki gert upp á milli þriggja efstu en hlustaði sama og ekkert á nýju Bloodgroup fyrr en eftir jól. Hún er alveg svakalega góð og er ekki enn farin úr spilaranum. Bestu lög: Öll.


1.-3. Hjaltalín – Terminal
Þessi önnur plata Hjaltalín er svo yfirmáta vel unnin og flott heild að það er engu lagi líkt. Loksins fáum við líka að heyra hvað Sigríður Thorlacius er rosalega góð söngkona! 😉 Besta lag: Feels Like Sugar.


1.-3. Hermigervill – Leikur vinsæl íslenzk lög
Ef ég væri neydd til að taka eina plötu frá 2009 með mér á eyðieyju myndi ég taka þessa snilld með mér! Öll lögin eru stórkostleg hvert á sinn hátt og hugmyndin er svo góð. Uppgötvun ársins!

Topp tónlistin 2009 (erlend)

24 Jan

Frá áramótum hefur mig langað að birta lista yfir það skemmtilegasta sem ég hlustaði á á árinu 2009. Ég var mun meðvitaðri í hlustun á erlendu efni á síðasta ári  en oft áður og það skilaði sér í mjög fjölbreyttri skemmtun og mörgum uppgötvunum (þó að þær hafi ekki allar verið frá 2009, heldur margar frá 2008 og 2007)

Hérna er listinn minn yfir bestu erlendu plöturnar 2009:

10. Kanye West – 808s and heartbreaks
Hlustaði svolítið á þessa plötu fyrri hluta árs, síðasta ár var þó ekki besta ár flytjandans (hehe). Besta lag: Say You Will.

9. Muse – The Resistance
Þessi plata kom nú ekki mikið fyrir hjá mér á síðasta ári, hef meira hlustað á hana það sem af er 2010. Inniheldur þó marga hittara, t.d. Undisclosec Desires.

8. Franz Ferdinand – Tonight: Franz Ferdinand
Hressleiki og djamm, besta lag: Hittarinn Ulysses.

7. Empire of the Sun – Walking On a Dream
Féll í stafi þegar ég heyrði í þessum svölu Áströlum, hljómurinn og raddanirnar svo skemmtilegar. Besta lag: Hittarinn Walking On a Dream og We Are the People.

6. Lily Allen – It’s Not Me It’s You
Ég fíla Lily, hún er að mörgu leyti eins og Megas okkar: Lagasmíðirnar eru mjög skemmtilegt popp og textarnir smellnir. Bestu lög: The Fear, Not Fair, 22.

5. Florence and the Machine  – Lungs
Hluti af þessari „female artist“-bylgju sem virðist vera við lýði núna (vúhú). Ógnarhress og kjaftfor. Bestu lög: Kiss with a Fist, Drumming, You’ve Got the Love og Rabbit Heart.

4. Bat For Lashes – Two Suns
Algjörlega frábær tónlistarmaður, þó að ég hafi fremur fílað fyrri plötuna hennar Fur and Gold sem heildarverk. Þessi rennur þó mjög ljúflega í gegn og ég hlakka til að heyra meira. Bestu lög: Sleep Alone, Moon and Moon, hittarinn Daniel og Pearl’s Dream.

3. Karen O and the Kids – Soundtrack from Where the Wild Things Are
Þessa tónlist uppgötvaði ég alveg óvart og finnst hún alveg hreint yndisleg. Komst að því að þessi Karen O er söngkona í hljómsveitinni The Yeah Yeah Yeahs sem ég kannast lítillega við. Fyrir ykkur sem ekki þekkið myndina (er ekki komin í sýningu hér) er hér á ferð falleg barnamynd eftir einni skemmtilegustu barnabók sem ég hef lesið. Mæli með henni – og auðvitað tónlistinni. Bestu lög: Allt saman!


2. Röyksopp – Junior
Flestir kannast nú við Norðmennina úr Röyksopp og þessi plata er algjör snilld. Þeir fá sænsku súbersöngkonurnar Robyn, Lykke Li og söngkonu The Knife í lið með sér og útkoman er svakaleg partíplata sem batnar við hverja hlustun. Bestu lög: The Girl And The Robot og It’s What I Want.

1. La Roux – In For the Kill
Uppgötvun ársins. Alveg svakalega heilsteypt og flott plata og söngkonan Eleanor Jackson algjört dúndur. Hvet alla til að kynna sér þessa plötu! Bestu lög: In for the Kill, Quicksand, hittarinn Bulletproof og Fascination.

Skelli svo inn íslensku plötunum 2009 við tækifæri!

Gleðilegt ár!

31 Des

Elsku vinir og ættingjar!
Kærar þakkir fyrir frábært ár, þrátt fyrir kreppu og vosbúð.
Megi 2010 verða okkur öllum happadrjúgt!

322. Dagligdags – 54. hluti

18 Nóv

p1010039

Bálkur hrakfalla það sem af er nóvembermánuði:

8. nóvember: Flýg á hausinn í Surtshelli. Uppsker marbletti á ólíklegustu stöðum og skrapa skinn af hægri hendinni.
15. nóvember: Loka bílhurð á olnbogann á mér (sjá mynd hér að ofan). Uppsker ótrúlegan marblett.
17. nóvember: Reyni að rista sjálfa mig á hol í sturtunni í Laugardalslauginni. Vopnið eru tvær ömmuspennur á teygju utan um úlnliðinn.

Get ekki sagt að mér finnist ég mjög heppin þessa dagana. Lít sannarlega ekki út fyrir það!

256.

10 Jún

Ætlaði alltaf að blogga meira um Evróvisjón, þetta varð svolítið endasleppt hjá mér! En svo meikaði ég það ekki og það dróst og dróst… svo hérna fáið þið skemmtilesningu í staðinn. Svona listar eru svo mikið sumardæmi eitthvað, enginn helst við í vinnunni og nennir ekkert að gera (lesist: Ég)…

1. ERTU SKÍRÐ/UR Í HÖFUÐIÐ Á EINHVERJUM? Jah, ég var það ekki þangað til fyrir stuttu. Í janúar sl. bætti ég Ellýjar-nafninu við og heiti nú í höfuðið á langömmu. Þetta stóð til þegar ég var skírð en einhverra hluta vegna hættu foreldrarnir við á síðustu stundu.

2. HVENÆR FÓRSTU SÍÐAST AÐ GRÁTA? Hágrét í síðustu viku þegar ég kláraði síðustu kaflana í bókinni Kona fer til læknis. Mæli með henni við alla, hún er rosalega áhrifamikil og um venjulegt fólk.

3. FINNST ÞÉR ÞÚ SKRIFA VEL? Mér fannst ég aldrei skrifa vel, fékk aldrei neitt hátt í skrift í barnaskóla og æfði mig aaaaaldrei að skrifa nafnið mitt þúsund sinnum eins og vinkonur mínar. En ég held ég hafi snotra rithönd.

4. ÁTTU BÖRN ? EF JÁ HVE MÖRG? Engin börn enn sem komið er.

5. EF ÞÚ VÆRIR EINHVER ANNAR EN ÞÚ ERT,VÆRIRÐU VINUR ÞINN? Ef ég væri einhver annar þá þyrfti ég örugglega að hafa talsvert fyrir því að komast undir skelina á „mér“, ég á ekkert of auðvelt með að kynnast nýju fólki. En um leið og við, ég og ég, yrðum málkunnugar held ég að við gætum orðið góðir vinir.

6. NOTARÐU KALDHÆÐNI MIKIÐ? Bíddu, hvað er það?

7. FÆRIRÐU Í TEYGJUSTÖKK? Ég vil trúa því að ég sé nógu kjörkuð til að geta það en þegar á hólminn væri komið myndi gamla góða lofthræðslan taka öll völd, er ég hrædd um.

8. HVAÐA MORGUNMATUR ER Í UPPÁHALDI HJÁ ÞÉR? Ég er ein af þeim sem fæ æði fyrir einhverju ákveðnu í tiltekinn tíma en hætti því svo. Te og ristað brauð með banana/osti og paprikusneiðum er morgunverður meistaranna þessa dagana.

9. REIMARÐU FRÁ ÞEGAR ÞÚ FERÐ ÚR SKÓNUM? Yfirleitt já

10. TELURÐU ÞIG ANDLEGA STERKA? Þetta er flókin spurning… held ekki, nema kannski í stóráföllum. Ég fríka samt reglulega út, er úttauguð og stressuð árið um kring.

11. HVERNIG ÍS ER Í UPPÁHALDI HJÁ ÞÉR? Hvers lags spurning er þetta? Á að núa manni þessu endalaust um nasir? Hnuss!

12. HVAÐ ER ÞAÐ FYRSTA SEM ÞÚ TEKUR EFTIR Í FARI FÓLKS? Hvort það er opið og ófeimið eða hlédrægt.

13. RAUÐUR EÐA BLEIKUR VARALITUR? Rauður er eggjandi.

14. HVAÐ MISLÍKAR ÞÉR MEST VIÐ SJÁLFA ÞIG? Ég vísa í svör nr.5, 7 og 10.

15. HVAÐA MANNESKJU SAKNAR ÞÚ MEST? Amma minna beggja.

16. VILTU AÐ ALLIR SEM LESA ÞETTA SVARI ÞESSUM LISTA? Jább, og pósti á bloggið svo að ég geti hnýst í einkalíf þeirra, eins og þeir í mitt!

17. HVAÐA LIT AF BUXUM OG SKÓM ERTU Í NÚNA? Er í svörtum „vinnu“-buxum, sem ég hélt ég ætti aldrei eftir að ganga í dagsdaglega, svörtum sokkum og hvítu stúdentaútskriftarskónum mínum.

18. HVAÐ VAR ÞAÐ SÍÐASTA SEM ÞÚ BORÐAÐIR? Te og pizzasnúðarnir mislukkuðu sem við Diljá bökuðum á föstudag.

19. Á HVAÐ ERTU AÐ HLUSTA NÚNA? Samstarfskonu mína tala í símann. Guð hvað ég hlakka til að flytja!

20. EF ÞÚ VÆRIR LITUR, HVAÐA LITUR VÆRIR ÞÚ? Ég væri grænn eða rauður.

21. HVAÐA LYKT FINNST ÞÉR BEST? Ó svo mörg, blómalykt minnir mig á ömmu Steinu, matarlyktina heima hjá mömmu elska ég, graslykt, hestalykt, sundlyktina sem er föst á mér allan daginn alla daga og svona mætti lengi telja.

22. VIÐ HVERN TALAÐIRÐU SÍÐAST Í SÍMA? Vini mína hjá Vodafone.

23. LÍKAR ÞÉR VEL VIÐ ÞÁ MANNESKJU SEM SENDI ÞÉR ÞESSAR SPURNINGAR? Ég stal spurningunum af heimasíðu sem mér finnst mjög kúl og eigandinn ekki síður… eh Sjöfn 🙂

24. UPPÁHALDSÍÞRÓTT SEM ÞÚ HORFIR Á? Get dottið inn í handbolta, sérstaklega ef það eru stórmót. Mér finnast hins vegar sund, dýfingar og fimleikar mun skemmtilegri áhorfs.

25. ÞINN HÁRALITUR? Ljósbrúnn, segi ekki skol-músarlitur því að það er meira brúnt í því. Hárgreiðslumaðurinn minn segir að ég sé með gífurlega heilbrigt hár. Og hafiði það!

26. AUGNLITUR ÞINN? Gráblár.

27. NOTARÐU LINSLUR? Æ. Ætlaði að reyna það, gengur ekkert sérstaklega vel.

28. UPPÁHALDSMATUR? Allt sem ég má og má ekki borða.

29. HRYLLINGSMYND EÐA GÓÐUR ENDIR? Get ekki horft á hryllingsmyndir, finnst sögulegar korselettumyndir langbestar.

30. SÍÐASTA BÍÓMYND SEM ÞÚ SÁST Í BÍÓ? Mök og miðbærinn, hehehe.

31. KNÚS OG KOSSAR EÐA LENGRA Á FYRSTA DEITI? Ekki mikið lengra á fyrsta deiti, er það?

32. UPPÁHALDS EFTIRRÉTTUR? Allt annað en ís, eins og mamma hefur komist að!

33. HVER ER LÍKLEGASTUR TIL AÐ SVARA ÞESSU OG BIRTA? Veit ekki.

34. HVER ER ÓLÍKLEGASTUR?
Nenni ekki að svara þessu.

35. HVAÐA BÓK ERTU AÐ LESA? Er alltaf að lesa nokkrar bækur í einu. Núna er ég að lesa Mansfield Park eftir Jane Austen og Í þokunni eftir Philippe Claudel. Báðar mj. góðar.

36. HVAÐA MYND ER Á MÚSARMOTTUNNI ÞINNI? Engin, hún er blá með gelstuðningspúða fyrir úlnliðinn.

38. Á HVAÐ HORFÐIRÐU Í SJÓNVARPINU Í GÆR? Ji, man maður það svona daginn eftir? Sá aðeins af fréttum, skipti svo á Skjáinn þegar EM byrjaði (hef engan tolerans fyrir fótbolta, engan!!), horfði á örlítið Dynasty (WTF?), smá One Tree Hill og Eureka og CSI. Slökkti þegar Jay Leno byrjaði.

39. ROLLING STONES EÐA BÍTLARNIR? Bítlarnir.

40. HVAÐ ER ÞAÐ LENGSTA SEM ÞÚ HEFUR FARIÐ FRÁ ÍSLANDI? Hef ekki farið mjög langt, sennilega Ítalía.

41. HVERJIR ERU ÞÍNIR HELSTU EIGINLEIKAR? Of væmin skóladagbókarspurning til að svara þessu. Ég er stundvís, jú.

42. HVAR FÆDDISTU? Bangkok norðursins.

238. Árið 2007 gert upp

15 Jan

Hefst þá árleg yfirferð:

Janúar: Bíódagar sáu Kalda slóð og Foreldra í bíói og ég sá Sitji guðs englar og hinar Bakkynjur í Þjóðleikhúsinu með Helgu. Ég beið eftir einkunnum sem létu sjá sig seint og um síðir. Síðan tók við mesta vinnutörn sem ég hef upplifað; vinnan við MA-ritgerð og sjónvarpsþátt sem var hluti af lokaverkefni. Þeirri vinnu lauk ekki fyrr en seint á árinu. Við fórum á árshátíð URKÍ-R í lok janúar sem var mjög vel heppnuð. Ég tók líka að mér aðstoðarkennslu í námskeiði í grunnnámi íslenskunnar sem ég veit ekki enn hvort var góð ákvörðun eða ekki…

Febrúar: Við ÁPB lögðumst í eldhúsframkvæmdir sem tóku nokkra mánuði. Á meðan borðuðum við mest grillað brauð og höfðum ísskápinn í stofunni. Ég sá Misery á NASA með Maríu og Þóru. Haldið var upp á kvartaldarafmæli undirritaðrar. Herlegheitin voru haldin í sal á 13. hæð í húsinu þar sem systir mín býr. Blásið var til grímuballs og mætti her manns og flestallir í grímubúning sem gerði kvöldið ákaflega skemmtilegt. Verðlaun voru veitt fyrir besta og frumlegasta búninginn og þótti mörgum úrslitin lykta af spillingu en í dómnefnd sat afmælisbarnið sjálft! 😉 Ég sá Dag vonar í Borgarleikhúsinu. Farin var önnur árleg Akureyrarferð 23.-25. febrúar með B. og E. og var hún í alla staði frábær, fyrir utan smá húsnæðisörðugleika í upphafi :S (það kemur ekki fyrir aftur!) Við sáum Svartan kött hjá LA, fórum í sund, út að borða og nutum frísins!

Mars: Í upphaf mánaðarins hófust tökur fyrir lokaverkefnisþáttinn og gengu vel þó að ekki hafi þær gengið alltof hratt fyrir sig… Bókamarkaðurinn árlegi var heimsóttur og mikið verslað. Þessir fyrstu mánuðir ársins voru svo gott sem undirlagðir í ritgerðarvinnu, upplýsingaöflun og allsherjar lokaverkefnis-„plönun“. Bókaklúbburinn fór í bíó á Perfume eftir að hafa lesið Ilminn eftir Patrick Suskind. Spilaklúbbur norðursins hittist reglulega allt árið (mjög skilvirkt). Á flótta-leikur var spilaður á Sauðárkróki 16.-18. mars og var einkar skemmtilegur, ekki síst vegna góðs undirbúnings heimamanna. Við ÁPB fórum aftur norður í skírn hjá Emelíu Ísold. Við Helga tókum svo eina úber-lærdómshelgi í lok mánaðarins og slógum öllu öðru á frest!

Apríl: Í byrjun apríl fór ég á vortónleika Söngsveitarinnar Fílharmóníu. 22. apríl skellti ég mér við þriðja mann á Stokkseyri á tónleika Rásar 2 Plokkað hringinn en þar spiluðu Lay Low, Pétur Ben og Ólöf Arnalds. Þeir voru frábærir og Ólöf klárlega ein af uppgötvunum ársins í íslenskri tónlist.

Maí: Mikið spáð í Eurovision eins og endranær, hlustað á lögin og ég fylgdist vel með norrænu spekingunum. Keppnin sjálf var ágæt og ég er verulega sátt við lagið sem vann. Svo tökum við þetta bara í Zagreb! 😀 Á seinni Eurovision/kosningadeginum fórum við systkinin með M&P í sumarbústað í tilefni af afmæli múttu.
Ég vann hörðum höndum með ritstjórn Mímis, blaðs stúdenta í íslenskum fræðum, við að koma út tölublaði 51. Það náðist í lok mánaðarins. Fór á Kvennakórstónleika í Grensáskirkju 3. maí. Ég fór með bókaklúbbnum á söngleikinn Leg í Þjóðleikhúsinu.

Júní: Byrjaði að vinna fulla vinnu. Fór um miðjan mánuðinn til Þýskalands með hele familien. Það var stórgóð ferð þar sem við keyrðum yfir 2000 km á þýsku hraðbrautunum. Áttum góða viku suður við Bodensee í leiguíbúð og vorum svo í nokkra daga í Berlín á leiðinni heim.
Eftir að ég kom heim hófst hin mikla líkamsrækt sem stóð út árið og vel það… Ég fór að fara í sund á hverjum virkum degi í hádeginu (þ.e. sundlaugin var hinum megin við götuna frá vinnustaðnum mínum). Hef sjaldan tekið betri ákvörðun og synti og synti. Bætti þrek og þol og vonandi líkamsástand til einhverra muna.

Júlí: Vinnuvika verkefnastjórnar Á flótta. Sáum Shrek III og Harry Potter 5 í bíó. Buðum t.d. H. og Ó. í mat.

Ágúst: Ágúst leið með hefðbundinni vinnu, bæði á vinnustaðnum og lokavinnslu MA-verkefnis. Verkefnið Vellíðan á Vestfjörðum átti sér stað á Barðaströnd um verslunarmannahelgina. Lögðum hart að okkur um að hafa það nú gott!! 😉 Fórum t.d. í dásamlega göngu á Rauðasandi. Ég fór þó á tónleikana á Miklatúni á menningarnótt og horfði á flugeldasýninguna af svölunum á URKÍ. Í lok mánaðarins fórum við svo stór hópur upp í Landmannahelli þar sem Þóra var skálavörður um sumarið. Þar var dálítið rok og rigning en ofsalega gott að vera og vorum við þar yfir helgina, m.a. vígðum nýtt tjald sem ÁPB fékk í afmælisgjöf. Heimleiðin var ekki eins skemmtileg þar sem vatn fór inn á bílinn (nefni ekki við hvaða aðstæður) og við vorum dregin í bæinn í ískulda.

September: Annarfundur Á flótta 1. sept. Sá Astrópíu með Bíódögum, snilld að fá svona íslenska grínmynd. Var að vesenast með mataræði hluta af mánuðinum, matardagbækur o.fl.
Langþráð dagsetning, 13. sept, leit dagsins ljós: Þegar ég skilaði MA-verkefninu, sem hafði þá verið 9 mánuði í fæðingu (já, það má segja að ég hafi orðið léttari þarna…). Undanfarinn hafði verið langur og ég stússaðist heilmikið í prentun og brennslu á diskum. Allt í allt kostaði það mig tæp 30.000 að útskrifast með MA-próf! Ég fór í gönguferðir og matarboð, hélt fyrirlestur og stússaðist heilmikið fyrir Á flótta-verkefnið. Reyndar var svo leikurinn sem átti að vera á Sauðárkróki undir lok mánaðarins blásinn af. Fór á Vísindavöku í Hafnarhúsi sem fulltrúi vinnunnar minnar.

Október: Fór aðeins í Trimform í byrjun mánaðarins en svo datt það upp fyrir, einna helst vegna tíðra útlandaferða í þessum mánuði og þeim næsta. Ritstjórn Mímis sleit samstarfinu með því að fara út að borða. Haldið var til Póllands 11.-15. október í brúðkaup hjá vinafólki okkar sem við kynntumst fyrst þar í landi árið 2002. Við fórum saman sex og var þetta heilmikið ævintýri á 5 dögum; töskur týndust, brúðkaupið, brúðkaupsveisla nr. 1 og nr. 2, vodkadrykkja og gömul kynni endurnýjuð. Frábær haustferð. Eftir að við komum heim fór ég í speglun, spilaði flóttaleik á Kjalarnesi daginn sem formleg útskrift fór fram úr HÍ (fór bara í vikunni á eftir og sótti plaggið) og hitti fólk í hinum ýmsu klúbbum o.fl.

Nóvember: Í byrjun mánaðar var haldið lítið samsæti í tilefni útskriftarinnar hjá m&p. Ég lét draga úr mér endajaxl, fór í lyfjagjöf og afmæli. Ég hélt aftur til Póllands með Maríu á námskeið um hlutverkaleiki (LARP) dagana 13.-20. nóvember. Þar voru gömul kynni einnig endurnýjuð og stofnað til nýrra. Margar hugmyndir kviknuðu sem vinna þarf meira með. Æðislegt að heimsækja Pólland, sérstaklega Kraków, að vetrarlagi. Jólin nálguðust og við fórum á jólahlaðborð og skárum út laufabrauð. ÁPB tekur upp á að viðbeinsbrotna. Nýr spilaklúbbsmeðlimur lítur dagsins ljós þann 28.11 og ég fer á jólatónleika Kvennakórsins.

Desember: Ég uppgötvaði að ég hef ekki verið upplifað desember án prófa og stress í heil 19 ár, eða síðan ég byrjaði í skóla! Samt var ekki fyrir mikilli jólakyrrð í desember að fara. Mér fannst hann fljúga áfram og ég ekki hafa tíma fyrir neitt. Svona er þetta þegar maður er orðin vinnandi kona! Ég fór með vinnunni á málþing í Reykholti þann 1. desember sem var mjög áhugavert. Fór í klippingu, í bókaklúbb, jólaðist (gerði jólakort og bakaði smákökur), fór á Jólasöngva í Langholtskirkju og borðaði jólamat með systkinum. Rétt fyrir jól lagðist ég í sjálfsdekur þegar ég fór bæði í fótsnyrtingu á Nordica og nudd í Bláa lóninu. Einnig fórum við á jólahlaðborð og í 95 ára afmæli í Iðnó.

Svona hefur nú árið liðið. Vonandi hefur einhver komist í gegnum þetta. Tek fram að þetta eru svona helstu hápunktar hvers mánaðar sem tilgreindir eru. Kannski er þetta mikill sparðatíningur en ég er nú heldur ekki vön því að skrifa „borða-vinna-sofa“-blogg, nema þá bara einu sinni á ári 😀

165. Uppgjör ársins 2006

9 Jan

Hérna kemur samantekt á því sem ég gerði markvert á árinu 2006 – og eftir á að hyggja var þetta barasta þrusugott ár.

Janúar: Lyfjagjafirnar sem byrjuðu í des 2005 héldu áfram allt síðasta ár á ca. 2 mánaða fresti. Fór að sjá Sölku Völku í Borgarleikhúsinu og fór í fyrsta skipti í nýstofnaðan bókaklúbb sem átti eftir að haldast við með herkjum út árið 2006. Badmintonið var líka massíft og við gáfum ekkert eftir í íþróttahúsi HÍ. Í janúar fengum við líka fyrsta hlutann í sjónvarpsskápnum sem við pöntuðum úr IKEA. Sá síðasti kom tveimur mánuðum síðar (raunasaga sem ekki verður rakin hér).

Febrúar: Mánuðurinn einkenndist af starfsþjálfun á hinum ýmsu miðlum sem var hluti af náminu. Ég fór að sjá Eldhús eftir máli og Viðtalið í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Afmælinu var svo fagnað í sumarbústað sem BYKO á að Drumboddsstöðum og ætlaði allt um koll að keyra þegar Silvía Nótt vann Eurovision.

Mars: Í byrjun mánaðarins gerðist ég svo fræg að sjá Öskubusku í Íslensku óperunni sem var upplifun. Spilaklúbbur norðursins var formlega stofnaður í mánuðinum (hlaut nafn sitt ekki fyrr en seinna) og samanstendur hann mestmegnis af gömlum MH-ingum. Við hjúin fórum í vetrarferð í Þórsmörk ásamt fleirum sem og í menningarreisu til Akureyrar þar sem við sáum Litlu hryllingsbúðina. Í mars var líka árshátíð Snápsins á Thorvaldsen.

Apríl: Nokkur blaðamanna-og fréttapróf voru þreytt og gamlir dagar mundir með Sinfóníunni, Eivöru og Röggu Gröndal.

Maí: Það sem stendur upp úr er Lúndúnaferðin ógleymanlega þar sem við lögðum í kraftgöngu um borg og bý og soguðum í okkur ævaforna sem og aðeins nýrri menningu Engilsaxa. Skemmtilegasta lífsreynslan en jafnframt sú hræðilegasta var leikhúsferðin á The Producers. Ég fór að prófarkalesa fyrir Málvísindastofnun og fékk vinnu á Orðabókinni í nýsköpunarverkefni en er þar víst enn í dag. Vorið og sumarið komu og við flugum flugdrekum í Hveragerði.

Júní: Tók þátt í gæsun og fór í dásamlegt brúðkaup norður á Hvammstanga. Keyrðum um Norðurland í kjölfarið og fórum Kjölinn heim. Við stöllurnar tókum til við að spila badminton í TBR og þóttumst nokkuð brattar.

Júlí: Kvikmyndaklúbburinn Bíódagar hóf sýningar en hann er helgaður íslenskum kvikmyndum. Ég sá Footloose í Borgarleikhúsinu, fór á Írska daga á Akranesi, skellti mér í útilegu á Varmaland sem endaði í bröns á Akranesi og fór á ættarmót á Húnavöllum. Ég fór líka í fótsnyrtingu og svo beint í Esjugöngu. Hápunkturinn Belle og Sebastian-tónleikar á NASA.

Ágúst: ÁPB átti afmæli og ég labbaði Úlfarsfell með Húbbu og dönskum vinkonum hennar. Um verslunarmannahelgina fórum við Húbba með þær í útilegu á Flúðir og lentu á svaka balli á Útlaganum. Gamli kórinn minn hittist í safnaðarheimili Vídalínskirkju eftir mikið plan og bollaleggingar. Fór á Gay Pride-ball og í Bláa lónið með Húbbu. Íslensku skvískuhittingur var á Rossopomodoro og við vorum viðstödd skírn Daníels Árna.

September: Fórum í jeppatúr á Suðurnes og sáum ásamt Bíódögum Börn í bíó. Skipulagði kóræfingar fyrir gamla kórinn í Flataskóla.

Október: Söng Carmina Burana á tónleikum, vann myrkranna á milli við gerð Festival TV sem sýnt var á Iceland Film Festival, lagði á flótta, fór í útskrift í Keflavík og sá Fögnuð í Þjóðleikhúsinu.

Nóvember: Sótti Hugvísindaþing og tók þátt í dagskrá á 60 ára afmælishátíð Mímis. Sá svo Stórfenglega í Þjóðleikhúsinu.

Desember: Jólahlaðborð með Tinu Turner-sjóvi á Broadway. Ég söng á einum jólatónleikum í Langholtskirkju og borgaði mig inn á aðra. Varð viðstödd skírn Lilju Natalie og tók þátt í friðargöngunni. Milli jóla og nýárs var svo spilað út í hið óendanlega.

Mjög sátt við árið sem leið og vona að árið 2007 verði jafnfarsælt – og ég fari að minnsta kosti jafnoft í leikhús!! 🙂

148. Summer Night City – uppgjör

17 Sep

Óhætt að segja að sumarið sé endanlega liðið og haustið tekið við.

Ég gerði lista hér í upphafi sumars yfir það sem ég ætlaði að gera og hér kemur uppgjörið:

Sumarið 2006:
Við byrjuðum á því í byrjun maí að fara í 6 daga ferð til London sem var algjörlega æðislegt. Þvílíkt gott að komast saman frá amstri hversdagsins og slappa af. Þó að það afslappelsi hafi nú meira falist í því að skunda um borgina þvera og endilanga… Við náðum þó að sjá margt, fara í leikhús, á underground-uppistand, borða vel og njóta góða veðursins. Jú og versla pínu.
Eftir að við komum heim fór ég að vinna bæði hjá OH og við prófarkalestur. Við skruppum einn sunnudag í lok maí í Hveragerði með Á&T&JL og flugum flugdrekum. Það var rosalega gaman.
Haldin voru ein þrjú spilakvöld í sumar hjá hinum geysiskemmtilega Spilaklúbbi norðursins og slík skemmtun er ófáanleg annars staðar!! Einnig hélt ég eitt spilakvöld fyrir vinnuna þar sem við fórum á kostum í miðaleiknum (sumir þó á meiri kostum en aðrir…)
Ég mætti í eina gæsun í byrjun júní sem var í blíðskaparveðri og heppnaðist svakalega vel. Á 17.júní var síðan haldið í brúðkaup norður á Hvammstanga sem var ógleymanlegt og afskaplega fallegt. Þaðan fórum við í þriggja daga ferð norður á Akureyri þar sem við gistum hjá R&G og keyrðum í Mývatnssveit og Bárðardal. Síðan gistum við á Blönduósi hjá ömmu Ásgeirs og keyrðum Kjalveg heim.
Kórinn hélt kompudag í Kolaportinu 25. júní þar sem mér tókst að losna við ótrúlegasta dót, þ.á m. fótanuddtækið!! Veit nú ekki hvort eða hversu mikið kaupandinn borgaði en mér er slétt sama…
Við fórum svo í afmæli og útskriftir í lok júní, byrjun júlí, þar á meðal eitt sextugsafmæli sem var afskaplega fínt og uppvörtunin var Mjög góð…
Í sumar var líka kvikmyndaklúbburinn Bíódagar stofnaður og hittist fimm sinnum. Nánar um hann síðar.
Ég sá Footloose með Rósu vinkonu í Borgarleikhúsinu, mikið fjör!!
Skruppum á Írska daga á Akranesi þar sem Hörður mágur minn rúllaði upp keppninni um rauðasta skegg landsins, congrats…
Í lok júlí gengum við Húbba á Esjuna, reyndar ekki alveg alla leið á toppinn en svo gott sem (gífurleg þoka efst uppi, við sáum ekki handa okkar skil)
Ég fór í fótsnyrtingu í fyrsta sinn sama dag, en ég ætti nú ekki að segja nokkrum lifandi manni frá því (þorði allavega ekki að segja fótsnyrtidömunni það!!)
Stórfjölskyldan hjá Ásgeiri fór í útilegu á Varmaland í Borgarfirði og gistum við eina nótt. Daginn eftir var svo brönch á Akranesi hjá föðursystur hans.
Ég fór svo á Belle & Sebastian og Emilíönu Torrini 27.júlí.
Ættarmót var haldið á Húnavöllum í Skagafirði 28.-30.júlí. Það var ágætlega heppnað en veðrið ekkert spes.
Ásgeir varð 25 ára og afmælisboð var haldið á sjálfan afmælisdaginn en partý í tilefni afmælisins um tveimur vikum síðar.
Við Húbba löbbuðum á Úlfarsfell með dönskum vinkonum hennar. Helgina þar á eftir (sum sé verslunarmannahelgina) gistum við á Flúðum, fórum á sveitaball og tókum svo Gullna hringinn í þynnkunni daginn eftir.
Kórhittingur Skólakórs Garðabæjar var um miðjan ágúst og var sérlega vel heppnaður. Stefnt er að því að hittast reglulega í vetur og syngja saman.
Við skvísurnar úr íslenskunni hittumst nokkrar og borðuðum saman á Rossopommodoro. Sem er orðinn nokkurs konar hefð, held ég 🙂
Fórum í eitt stk. skírn í lok ágúst hjá Daníeli Árna sem fékk að halda nafninu sínu, merkilegt nokk…

Jahá. Svona var þá sumarið. Þetta var nú barasta ágætasta sumar og hrein hátíð miðað við sumarið í fyrra sem ég notaði mikið til í að sofa og aumingjast. Hehehe.
En nú tekur annað við og verkefnin hlaðast upp…

117.færsla

14 Jún

Innihaldið í veskinu mínu: (já, ég veit, ég hef of mikinn tíma í vinnunni til að dunda mér)

 • Krúttlegt kort frá kærastanum í tilefni 5 ára afmælisins um daginn
 • Gleraugnaafþurrkunarklútur með mynd af Íslandi
 • Kvittanir
 • ISIC-kort
 • Bókasafnskort í Kópavogi og Reykjavík
 • Fjölnota lyfseðill
 • Útrunnið afsláttarkort frá Tryggingastofnun
 • Gleraugnarecept – sem ég held að sé úrelt
 • Inneignarnótur í Húsgagnahöllinni og 66°N
 • Debetkort og visakort
 • Ökuskírteini
 • Sundkort í Kópavogslaug
 • Nokkur afsláttarkort; Kaupás, Húsasmiðjan, Hans Petersen, FS kaffistofur, Videoheimar, Te og Kaffi,
 • Klippikort hjá Íþróttahúsi Háskólans
 • Ljósritunarkort á Bókhlöðu

Fyrirbæri dagsins: Nýja saumavélin hennar mömmu á heiðurinn að þessu sinni. Ef það væri ekki fyrir hana (og auðvitað mömmu) ætti ég ekki fernar nýstyttar, og fyrir vikið eins og nýjar, gallabuxur!! Mikið er ég ánægð!!

113. Klámfengið sumarplan

9 Jún

Af titlinum mætti halda að ég ætlaði að fara með svívirðu og klámkjaft hér á opinberum vettvangi. En það geri ég ekki, einfaldlega vegna þess að klámfengið er hér samheiti orðsins grófur sem er andstæða orðsins smár, fínlega gerður. Sum sé, uppkast að skema yfir sumarafþreyingu mína og minna. Því ekki ætla ég að vinna í allt sumar. (Ég uppfæri þetta svo jafnóðum:)

17. júní: Brúðkaup á Hvammstanga
Nokkrir dagar þar á eftir: Ferðalag um Norðurland, Húsavík, Akureyri o.fl. – Bóndinn er í einhverjum jeppahugleiðingum.
24. júní: Einar þrjár útskriftir.
25. júní: Kompudagur og útsala Fílharmóníunnar í Kolaportinu! Allir að mæta!
6. júlí: Mega spilakvöld!

– Best að stefna á kórhitting um miðjan júlí

27. júlí: Tónleikar Belle og Sebastian & Emilíönu Torrini á NASA kl.21
28.- 30. júlí: Ættarmót fyrir norðan
Verslunarmannahelgin: Tjaldferðalag með útlendinga

28. sept – 3. okt: Búlgaríuferð Fílharmóníunnar!!

-ok, ég veit að þetta síðasta er kannski ekki beint á sumrinu en ég hlakka bara svo til! Vona bara að við kórkonurnar komum ekki skornar í andliti til baka…

Fyrirbæri dagsins: Klárlega Emilíana Torrini og Belle og Sebastian í tilefni gærdagsins. Kann Emilíönu aftur á bak og áfram enda hér á ferð einn fyrsti og tryggasti aðdáandi hennar frá því hún söng í Hárinu hér um árið!