Sarpur | Yfirlit RSS feed for this section

Hundaheppnin mín

2 Feb

Ég frétti að á ári hundsins, þ.e. árinu í ár, ættu allir þeir sem fæddir eru á hundaári (1982, 1994, 2006) að njóta sérstakrar blessunar, ástar og hamingju. Ennfremur að maður eigi að ýta undir hamingjuna með því að ganga með rauð belti eða í rauðum nærbuxum. Ég hef nú ekki gert mikið af því að ganga í rauðum nærbuxum (á þó einar) og ég á ekki rautt belti. Þrátt fyrir það vona ég heitt og innilega að ég eigi eftir að njóta sérstakrar blessunar í ár. Þá er ég ekki að halda því fram að ég sé ekki blessuð, öðru nær, því ég er ein hamingjusamasta mannvera sem ég þekki. En vitneskjan um að það sé samþykkt milli æðri máttarvalda og mín um að auðvelda mér lífsbaráttuna, gefur mér óneitanlega hlýja og mjúka tilfinningu í magann. Sem má nú alveg við því að upplifa eitthvað gott – það sem á hann hefur verið lagt undanfarið! Vona að hann verði til friðs framvegis…
Helstu fréttir eru þær að starfsþjálfunin ógurlega sem legið hefur í loftinu virðist loks vera að skella á. Hún byrjar á Fréttablaðinu á sunnudag. Síðan fer ég á RÚV útvarpið og sjónvarpið, NFS og Moggann. Þetta verður ábyggilega fróðlegt og skemmtilegt og vonandi fáum við að grípa pennann/hljóðnemann/kameruna og semja eitthvað frá eigin brjósti.
Ég er líka búin að bjóða slatta af fólki í bústaðinn í tilefni afmælis míns. Gleðin verður 17.-19.febrúar næstkomandi og gleðihúsið er á landi Drumboddsstaða sem er ekki langt frá Laugavatni/Úthlíð. Hér með eru þeir boðnir velkomnir sem hingað líta inn – hafi ég ekki sent þeim formlegt boðskort nú þegar!! Endilega kommentið hvort þið komið, viljið gista eða kíkja í kaffi. Afmæliskaffi verður á laugardeginum (formlegt) en grillið verður opið föstudags og laugardagskvöld og meðlæti verður á staðnum. Mættu með pylsuna þína!!!!

Jólafrí… hmm…

20 Des

sofa, borða, horfa á vídjó, taka til, elda góðan mat, fara í göngutúra, fara í sund, liggja í heitum pottum, kaupa jólagjafir, pakka þeim inn, skúra, lesa fullt fullt af góðum bókum, púsla, skipuleggja dótið mitt (mjög spennandi), fara í blóðprufu, vinna svoldið og njóta lífsins!
EKKI stressa sig, flýta sér, læra, vera í fýlu eða neitt annað neikvætt.
Síðast en ekki síst: Tékka hvort einhverjir af vinum mínum vilja tala við mig ennþá!!

4 Des

Það er laugardagskvöld – eiginlega sunnudagsmorgun… Ég sit hérna fyrir framan tölvuna og er að myndast við að læra – þarf nauðsynlega að klára heimapróf og lesa marga ferkílómetra af efni fyrir próf sem er 20.desember… en í staðinn horfi ég á Boston Legal og blogga/les annarra manna blogg…
Mikið vildi ég að ég gæti bloggað um eitthvað annað en lærdóminn, en það er afar lítið annað varið í líf mitt þessa dagana..
Annars hef ég nú gert mest lítið af lærdómi síðastliðna daga en hef hugsað þeim mun meira um hann – liggur eins og mara á mér, mig dreymir þetta helvíti meira að segja á nóttinni! Meðal annars hef ég farið í eina jarðarför, föndrað á fimmta tug jólakorta, búið mér til snotran „fjölskyldumynda“vegg, búið til laufabrauð, farið í afmælispartí, séð Harry Potter í bíó, farið í eina lyfjagjöf og pælt heilmikið í jólakökubakstri. Síðast en ekki síst eyddum við Ásgeir dágóðum tíma í Smáralindinni í leit að jólafötum/afmælisgjöf og fundum þessi gasalega flottu teinóttu jakkaföt! Hann verður sko flottastur á jólunum, hot damn!!! hihihi
Jæja, ætla að reyna að gera eitthvað

Ekki amalegt það!

3 Okt


Fékk ágætis einkunn áðan, er eiginlega bara hæstánægð með hana því með henni er nokkurn veginn hægt að lýsa lífi mínu.
-> Eyrún – prófarkalesari, stúdína, blaðamennskunemi, sundkappi, hnitstjarna, húsmóðir, ökumaður og ómagi…
Segir þetta ekki allt sem segja þarf??

Er ekki boðið…

4 Sep

Það er ýmislegt sem maður vildi nú síður hafa í lífinu en verður að sætta sig við:
1. Ómagi sem virðist ekkert vera að hjaðna heldur vaknaði af væru blundi og lætur mig ekki í friði, helv… andsk…
2. Óuppfærður ráder sem er samt bara 1 árs gamall en er strax orðinn úreltur, vildi sleppa við það og hafa internet sem virkaði heima hjá mér, for crying out loud!
3. Ákveðið borðstofuborð sem er í sjálfu sér ágætt en á eftir að slípa og leysa málningarhúð af sem ég vildi helst sleppa við.
4. Þegar vaktirnar á DV dragast á langinn. Eigum að vera búin kl. 21 en oftar en ekki kemst ég ekki út úr húsi fyrr en um eða eftir 10. AAaaarrrgg!!! Vildi alveg sleppa við það en get lítið gert í því – ekki er ég blaðamaður, því miður!!!
5. Gæti nú líka alveg lifað án þessara raunveruleikaþátta, hversu hliðholl ég hef verið þeim í fortíðinni þá eru þessir nýju íslensku þættir sem eiga að fara að byrja núna í haust kornið sem fyllir mælinn. Neyðist kannski bara til að hætta að horfa á sjónvarp til að forðast þá!!!

Búin að fá afhent!!!!

12 Ágú

Það kom okkur aldeilis skemmtilega á óvart í gær þegar seljandinn að íbúðinni okkar á Ásbraut hringdi og bauð okkur að sækja lyklana að íbúðinni, 4 dögum áður en við áttum að fá afhent, sem var sem sagt á mánudag! Auðvitað hoppuðum við hæð okkar í loft upp og ég rauk til og sótti lyklana í vinnuna til konunnar. Veivei, við eigum íbúð sem við eigum líka lykla að!!! Við vorum líka ógurlega hamingjusöm og stolt þegar við sýndum foreldrum og tengdaforeldrum slotið í gærkvöld. Það þarf að mála og ÞRÍFA (því eigandinn hefur greinilega ekki lagt sig mikið eftir því að þrífa neitt áður en hún losaði, sem er nú kannski allt í lagi af því við eigum eftir að mála en samt…) en annars er allt í gúddí og það sem verður gert, verður gert seinna. Við ætlum allavega að mála og flytja svo inn. Hitt er hægt að dunda við í rólegheitunum…
Eins og margir vita, höfum við skötuhjúin verið iðin við að flytja á síðustu 3 árum, erum eiginlega komin með meirapróf í flutningum og þess háttar stússi. Nú á sko að gera allt rétt, skal ég segja ykkur. Engin byrjendamistök eins og að láta bækur í risastóra kassa (ehemm…:) ) eða flytja kassa fyrst og svo stóra hluti, eða láta sjónvörp fremja sjálfsmorð með því að detta fram úr sófum (jú, það var líka ég). Nú á sko allt að vera pörrfekt. Sem dæmi um það var lögð áhersla á að rúgbrauð og salt skyldu vera það fyrsta sem kæmi inn í íbúðina, svo kotið yrði nú ekki matarlaust. Verst bara að það er ekki hlaupið að því að fá salt eftir að búðir loka á kvöldin. Og við gátum sko ekki beðið eftir að komast inn í íbúðina. Málinu var reddað og móðirin kom með poka af salti úr Garðabænum. Það sem meira var að þegar við fórum inn í geymsluna komumst við að því að þar voru ýmsir hlutir sem fyrrum eigandi hafði skilið eftir, t.a.m. heill og óopnaður pakki af sokkabuxum – í minni stærð, nota bene. Ég tók þær traustataki og þrammaði með þær ásamt rúgbrauði og salti inn í tóma íbúðina. Fyrst að rúgbrauð og salt eiga að koma í veg fyrir að mat vanti í búið hlýtur nýr pakki af sokkabuxum (ja, eða bara hvers kyns fatnaður nýr) að þýða að mig mun ekki skorta ný föt) Mikið gleðiefni!!!
Málverkið mikla verður sem sagt um helgina… auglýsi hér með eftir sérlegum aðstoðarmönnum og -konum sem eru til í að eyða tilvonandi sólardögum (ef spáin er þannig) í innivinnu launalaust… sem sagt besti díll sumarsins, eða hvað?? 😉