2010 Jóladagatal #18

18 Des

Afsakið að jóladagatalið í dag skuli vera svona seint – iðnaðarmaðurinn á heimilinu var að útskrifast og við vorum að koma úr tilheyrandi kaffiboði!

Í dag er sem sagt 18. desember og 6 dagar til jóla! Í dag gerði ég dálítið föndur sem mjög auðvelt er að gera með krökkum: WC-rúllukrullur! Hér eru leiðbeiningar sem ég studdist við.

Efniviður:

 • WC-rúlla
 • Hvít málning og pensill
 • Fljótandi glimmer
 • Dúkahnífur eða skæri
 • Gatari
 • Sívalur trjábútur

Byrjað er á að skera upp WC-rúlluna eftir samskeytunum:

– og síðan í nokkra búta hæfilega þykka, ca. 1 cm.

Gatarinn er notaður til að gera gat sem þráður er þræddur í gegnum í lokin þegar búið er að skreyta.

Til að krulla upp á bútana er þeim vafið utan um sívalninginn nokkuð þétt.

Þeir eru svo málaðir hvítir, innan sem utan:

Í leiðbeiningunum er notað glimmer og fljótandi lím, en ég átti helling af glimmerpennum með fljótandi glimmeri og það er alveg hægt að nota þá:

Glimmerinu er makað á í ýmsum litum:

– og hengt á jólatréð! Aftur held ég að þetta komi mun betur út á jólatrénu sjálfu en það sem það er ekki komið upp þá læt ég þessa mynd fylgja:

2010 Jóladagatal #17

17 Des

Í dag er 17. desember og því barasta vika til jóla! Ég gaf mér loks tíma í gærkvöldi og föndraði dálítið, á milli þess að horfa á jólamyndir og drekka heitt súkkulaði:)

Þar á meðal gerði ég dálítið óhefðbundið skraut á jólatréð – sem kalla mætti „art deco“ skraut úr skinnum! Þessa brilliant hugmynd má finna hér og ég bara varð að prófa þegar ég sá þetta!

Aðalmálið er að redda sér *skinnum* (*fyrir ykkur sem ekki vitið hvað það er, eruð t.a.m. ekki í sambúð með iðnaðarmanni, þá eru það þunnir málmhringir sem eru notaðir með skrúfum).

Ég fékk góðfúslegt leyfi til að róta í skrúfuboxi sambýlismannsins og hirti það sem ég fann. Þetta má einnig kaupa í Byko/Húsasmiðjunni á nokkrar krónur stykkið.

Efniviður:

 • Skinnur í nokkrum stærðum
 • Epoxy-lím eða annað mjög sterkt lím
 • Eyrnapinni
 • Sterkur þráður eða vír

Skinnunum er raðað saman eftir stærð – ég notaði þessari í tvö stykki:

Svona átti lokaútkoman að verða:

Þetta er náttúrulega málmur og því gáfulegt að líma þetta saman í nokkrum hlutum, t.d. tvær og tvær skinnur saman. Epoxy-límið er MJÖG fljótt að þorna (passið fingurna!) en með svona þungt efni tekur það nokkurn tíma að taka sig.

Að lokum límdi ég þetta svo þessa tvo og tvo hringi saman í eitt skraut:

Þráðurinn verður að halda þessu uppi og ég notaði glært girni. Mér finnst útkoman nokkuð góð, og á eflaust eftir að verða enn betri á fallegu jólatré (mitt er ekki komið upp enn)!

2010 Jóladagatal #16b

16 Des

Fyrir glögga lesendur er þetta ekki sami póstur og birtist fyrr á blogginu!

Ég hafði skrifað póst þar sem ég vísaði í föndurbloggara og þýddi leiðbeiningar um viktoríanska fíltskrautið hennar. Eftir að hafa fengið ábendingu frá þessum bloggara og hönnuði skrautsins um að hún væri ósátt við að ég notaði myndirnar hennar og leiðbeiningar ákvað ég að taka póstinn út. Ég taldi mig vísa fyllilega í heimildir (fjórir linkar á síðuna hennar) en þar sem hún hefur lifibrauð sitt af þessu virði ég það við hana.

Fyrir nánari leiðbeiningar um þetta fína skraut (sem mig langar enn mikið að gera, en hef þó ekki gefið mér tíma til) farið hingað!

2010 Jóladagatal #15

15 Des

Í dag er barasta 15. desember og einungis 9 dagar til jóla! Áttið þið ykkur á því? Mér finnst alltaf tíminn hlaupa helmingi hraðar frá mér þegar það eru minna en 10 dagar til jóla. En þá er bara að spýta í lófana og klára það af sem þarf að gera 🙂

Ég gerði smávegis jólatrésföndur og gerði jólaköngulkúlu. Hugmyndin er nú upphaflega héðan og sú sem setti inn leiðbeiningarnar notaðist við frauðplastegg. Ég átti hins vegar bara kúlu og notaði hana þess vegna bara!

Efniviður:

 • Frauðplastegg/-kúla
 • Útprentuð blöð í stærðinni ca. 2,5 cm x 3 cm (ég notaði afganga af útprentinu frá föndrinu í gær)
 • Títuprjónar

Galdurinn við þessa kúlu felst í því að brjóta upp á styttri endann á hverjum miða svo að hann myndi gogg…

… og festa svo á kúluna með títuprjónum með því að byrja neðst og vinna sig upp. Ég passaði alltaf að hafa miðana á víxl svo að skilin á milli sæjust sem minnst!

Að lokum er svo hægt að skella einni slaufu á toppinn og bandi í gegn og hengja á jólatréð!

2010 Jóladagatal #14

14 Des

Í dag er 14. desember og 10 dagar til jóla!

Það er ofsalega stutt – sérstaklega í ljósi þess að jólakortin eru enn á leiðinni á pósthúsið *ehemm*Mér sýnist nú samt að ég sé enn í góðum málum með skiladaga.

Það er því ekki úr vegi að skella inn myndum af afrakstrinum – tilbúnum jólakortum sem bíða eftir því að komast á pósthúsið:

Ég ætla ekki að fara nánar út í hvernig kortin eru gerð – frekar en ég gerði í fyrra! En glöggir lesendur gætu rekist á nokkra hluti í þeim sem ég hef verið að birta hérna að undanförnu…

Ábending: Það má oft finna mjög skemmtileg mynstur á netinu sem hægt er að prenta út og föndra með. Ég fann t.d. þetta hér í fyrra og nýtti mér það mjög mikið, í borða, kúlur og einnig núna í jólakort!

2010 Jóladagatal #13

13 Des

Áfram heldur jóladagatalið í nýrri viku. Við skelltum upp jólaseríum um helgina sem vinnur aðeins á skammdeginu. Það er alveg voðalegt að fara að heiman í myrkri á morgnana og koma heim í myrkri seinnipartinn; þess vegna verður maður að fá smá birtu í daginn! Í dag er 13. desember og 11 dagar til jóla! Í dag gerði ég dálítinn jólaengil sem væri hægt að hengja á jólatréð. Hugmyndina rakst ég á hér og sú föndurkona gerði einnig svona nælu – sem væri líka hægt, þó að ég sé lítið að ganga með jólanælur 🙂

Efniviður:

 • Blúndur úr dúk/gardínu o.fl. (stór ca. 10 cm fyrir búkinn og tvær minni ca. 5-7 cm fyrir vængi)
 • Þráður og nál
 • Einhvers konar hnoðri fyrir haus (hægt að nota bómullarhnoðra en ég notaði ullarhnoðra sem ég þæfði í þvottavélinni með því að setja inn í ónýtar sokkabuxur og binda hnút fyrir hvern og einn)
 • E.t.v. smávegis skraut og borði til að hengja upp

Blúndan í búkinn er saumuð saman = rykkt saman.

Blúndurnar í vængina eru líka rykktar saman á sama hátt og saumaðar hvor sínu megin á stóru blúnduna.

Hausinn er saumaður á milli vængjanna og efst á stóru blúnduna.

Síðan festi ég band í og setti örlítið skraut framan á engilinn.

Svona er frágangurinn aftan á:

Þetta er svo auðvelt að það væri þess vegna hægt að gera heilan englakór til að hengja á jólatréð! 🙂

2010 Jóladagatal #12

12 Des

Þriðji sunnudagur í aðventu og tíminn bókstaflega flýgur áfram! Það eru ábyggilega flestir farnir að undirbúa jólin, gera jólakort og smákökur og jafnvel kaupa jólagjafir. Jólasveinarnir eru líka farnir að láta á sér kræla. Í dag er sem sagt 12. desember og 12 dagar til jóla!

Ég flikkaði aðeins upp á ljósaseríu sem ég átti í tilefni hátíðarinnar. Ég sá t.d. eina hugmynd hér.

Efniviður:

 • Ljósasería (ég notaði gula en hún mætti líka vera marglit eða jafnvel rauð)
 • Litlar pappírsdúllur sem notaðar eru undir kökur (ég fékk mínar lífstíðarbirgðir í Megastore í Smáralind)
 • Skæri
 • E.t.v. teiknibólur/kennaratyggjó

Pappírsdúllurnar eru brotnar saman í miðjunni…

… og svo klippti ég aðeins upp í þær.

Svo eru þær settar utan um hvert ljós í seríunni. Serían sem ég notaði er hitaþolin sem ég held að sé algjört möst – því að pappírinn er jú gríðarlegur eldsmatur!

Dúllurnar mynda þannig ljómandi fallega umgjörð um hvert ljós. Pínu jólalegt, ekki satt?