2010 Jóladagatal #15

15 Des

Í dag er barasta 15. desember og einungis 9 dagar til jóla! Áttið þið ykkur á því? Mér finnst alltaf tíminn hlaupa helmingi hraðar frá mér þegar það eru minna en 10 dagar til jóla. En þá er bara að spýta í lófana og klára það af sem þarf að gera 🙂

Ég gerði smávegis jólatrésföndur og gerði jólaköngulkúlu. Hugmyndin er nú upphaflega héðan og sú sem setti inn leiðbeiningarnar notaðist við frauðplastegg. Ég átti hins vegar bara kúlu og notaði hana þess vegna bara!

Efniviður:

 • Frauðplastegg/-kúla
 • Útprentuð blöð í stærðinni ca. 2,5 cm x 3 cm (ég notaði afganga af útprentinu frá föndrinu í gær)
 • Títuprjónar

Galdurinn við þessa kúlu felst í því að brjóta upp á styttri endann á hverjum miða svo að hann myndi gogg…

… og festa svo á kúluna með títuprjónum með því að byrja neðst og vinna sig upp. Ég passaði alltaf að hafa miðana á víxl svo að skilin á milli sæjust sem minnst!

Að lokum er svo hægt að skella einni slaufu á toppinn og bandi í gegn og hengja á jólatréð!

2010 Jóladagatal #14

14 Des

Í dag er 14. desember og 10 dagar til jóla!

Það er ofsalega stutt – sérstaklega í ljósi þess að jólakortin eru enn á leiðinni á pósthúsið *ehemm*Mér sýnist nú samt að ég sé enn í góðum málum með skiladaga.

Það er því ekki úr vegi að skella inn myndum af afrakstrinum – tilbúnum jólakortum sem bíða eftir því að komast á pósthúsið:

Ég ætla ekki að fara nánar út í hvernig kortin eru gerð – frekar en ég gerði í fyrra! En glöggir lesendur gætu rekist á nokkra hluti í þeim sem ég hef verið að birta hérna að undanförnu…

Ábending: Það má oft finna mjög skemmtileg mynstur á netinu sem hægt er að prenta út og föndra með. Ég fann t.d. þetta hér í fyrra og nýtti mér það mjög mikið, í borða, kúlur og einnig núna í jólakort!

2010 Jóladagatal #13

13 Des

Áfram heldur jóladagatalið í nýrri viku. Við skelltum upp jólaseríum um helgina sem vinnur aðeins á skammdeginu. Það er alveg voðalegt að fara að heiman í myrkri á morgnana og koma heim í myrkri seinnipartinn; þess vegna verður maður að fá smá birtu í daginn! Í dag er 13. desember og 11 dagar til jóla! Í dag gerði ég dálítinn jólaengil sem væri hægt að hengja á jólatréð. Hugmyndina rakst ég á hér og sú föndurkona gerði einnig svona nælu – sem væri líka hægt, þó að ég sé lítið að ganga með jólanælur 🙂

Efniviður:

 • Blúndur úr dúk/gardínu o.fl. (stór ca. 10 cm fyrir búkinn og tvær minni ca. 5-7 cm fyrir vængi)
 • Þráður og nál
 • Einhvers konar hnoðri fyrir haus (hægt að nota bómullarhnoðra en ég notaði ullarhnoðra sem ég þæfði í þvottavélinni með því að setja inn í ónýtar sokkabuxur og binda hnút fyrir hvern og einn)
 • E.t.v. smávegis skraut og borði til að hengja upp

Blúndan í búkinn er saumuð saman = rykkt saman.

Blúndurnar í vængina eru líka rykktar saman á sama hátt og saumaðar hvor sínu megin á stóru blúnduna.

Hausinn er saumaður á milli vængjanna og efst á stóru blúnduna.

Síðan festi ég band í og setti örlítið skraut framan á engilinn.

Svona er frágangurinn aftan á:

Þetta er svo auðvelt að það væri þess vegna hægt að gera heilan englakór til að hengja á jólatréð! 🙂

2010 Jóladagatal #12

12 Des

Þriðji sunnudagur í aðventu og tíminn bókstaflega flýgur áfram! Það eru ábyggilega flestir farnir að undirbúa jólin, gera jólakort og smákökur og jafnvel kaupa jólagjafir. Jólasveinarnir eru líka farnir að láta á sér kræla. Í dag er sem sagt 12. desember og 12 dagar til jóla!

Ég flikkaði aðeins upp á ljósaseríu sem ég átti í tilefni hátíðarinnar. Ég sá t.d. eina hugmynd hér.

Efniviður:

 • Ljósasería (ég notaði gula en hún mætti líka vera marglit eða jafnvel rauð)
 • Litlar pappírsdúllur sem notaðar eru undir kökur (ég fékk mínar lífstíðarbirgðir í Megastore í Smáralind)
 • Skæri
 • E.t.v. teiknibólur/kennaratyggjó

Pappírsdúllurnar eru brotnar saman í miðjunni…

… og svo klippti ég aðeins upp í þær.

Svo eru þær settar utan um hvert ljós í seríunni. Serían sem ég notaði er hitaþolin sem ég held að sé algjört möst – því að pappírinn er jú gríðarlegur eldsmatur!

Dúllurnar mynda þannig ljómandi fallega umgjörð um hvert ljós. Pínu jólalegt, ekki satt?

2010 Jóladagatal #11

11 Des

Enn ein helgin í desember runnin upp og í dag er 11. desember og 13 dagar til jóla!

Í dag fékk ég gestaföndrara til að sýna sitt föndur. Hún Karen Pálsdóttir er mikil föndurkona og gerir t.d. allt sitt skraut á jólatréð sjálf.

Hér fyrir neðan má sjá dæmi um nokkur skraut sem hún hefur gert:

1. Jólasveinn og snjókarl úr tölum. Tölur eru þræddar upp á vír og þeim raðað eftir litum og stærð í jólalegar fígúrur. Eina hugmynd að þessu skrauti má finna hjá Mörthu Stewart.

2. Perlur þræddar í hjarta. Grannur vír gerður hjartalaga og rauðar perlur þræddar upp á hann. Mjög flott í glugga eða á jólatréð!

3. Perluenglar. Hér eru mismunandi perlur og glerperlur þræddar á vír og mótaðir englar úr þeim. Gott að eiga góðar vírtangir til að beygja vírinn!

4. Snjókorn úr vír og perlum!

5. Perluð snjókorn eru föndur sem öll fjölskyldan getur gert saman. Passa bara að það sé einhver fullorðinn sem straujar yfir!

6. Perluð hjörtu og stjörnur eru líka einfalt og skemmtilegt föndur sem er ofsalega fallegt á jólatréð!

7. Gulllituð egg. Hér er notuð heil eggjaskurn (rauðan blásin úr eggjunum, sbr. Fimmtudagsföndur #13) og þau síðan spreyjuð með gulllit.

Takk kærlega fyrir skemmtilegar föndurhugmyndir, Karen – nú getum við hafist handa við að prófa! 🙂

2010 Jóladagatal #10

10 Des

Ég er ofsalega fegin að geta loksins opnað þennan glugga í dagatalinu því að hann hefur verið í vinnslu í dálítinn tíma – og hefði eðli málsins samkvæmt átt að vera fyrsti glugginn 🙂 Þetta er nefnilega jóladagatal! Eftir að hafa setið yfir saumaskap í gærkvöldi hafðist það loksins og mér tókst að klára föndrið í dag.  Í dag er 10. desember og því 14 dagar til jóla – ekki seinna vænna að draga fram jóladagatalið…

Ég sá jóladagatal á flickr um daginn og langaði ferlega að gera svoleiðis – þannig að ég hermdi bara!

Efniviður:

 • Efni í vasana og grunninn í dagatalinu (grunnflötinn hafði ég 60cm x 85cm og vasarnir eru ca. 10cm x 10cm)
 • Ýmislegt til að skreyta vasana, t.d. blúndur, garn, slaufur o.fl.
 • Góð skæri
 • Saumavél
 • Prik til að hengja dagatalið upp með

Ég klippti 24 vasa út úr þunnu hvítu léreftsefni. Hugsunin var að sauma þá tvöfalda á rauðröndótt grunnefni sem ég keypti ódýrt í IKEA.

Þegar allir vasarnir voru komnir handsaumaði ég alla tölustafi í þá og staðsetti á efninu.

Því næst sikksakkaði ég vasana á efnið. Ég hafði fráganginn nokkuð grófan því að mér fannst það koma nokkuð skemmtilega út – auk þess að hafa gulan tvinna!

Síðan var skraut saumað á hvern vasa. Ég hefði hugsanlega getað sleppt því að gera það í höndunum eftir á og byrjað á því að sauma það á vasana áður en þeir voru festir á grunnefnið – en sumt af skrautinu (t.d. stórar blúndur) náðu örlítið út fyrir vasana og þess vegna gerði ég þetta svona:

Blúndurnar og skrautið var bara það sem ég átti til og hef sankað að mér í gegnum föndur-tíðina, þetta er t.d. úr útsaumuðu koddaveri:

– silfraðir rikkrakk-borðar eru líka upplífgandi:

Aðfangadagur var saumaður með rauðum þræði og blúndan var ögn öðruvísi:

Það sést á myndinni hér fyrir neðan að ég átti ekki alveg nógu langt prik (hefði þurft >70 cm langt) en skellti þessu upp fyrir myndatökuna:

Frágangurinn fyrir prikið var ekki mjög flókinn, tveir samhliða saumar…

… og prikinu stungið þar á milli!

Fullgert og tilbúið lítur dagatalið svona út. Við ÁPB höfum enn 14 daga til stefnu til að fylla vasana af góðgæti og skemmtilegum hlutum!

2010 Jóladagatal #9

9 Des

Í dag er 9. desember og því styttist óðum biðin fyrir börnin, aðeins 15 dagar til jóla. Fyrir jóladagatalið í dag gerði ég meira skraut til að hengja á jólatréð, lítinn origami-krans úr nótnablöðum. Ég rakst á leiðbeiningar hér og þar sem ég er óð í pappírsföndur varð ég bara að prófa!

Efniviður

 • Pappír! (nokkuð þykkur, a.m.k. ekki bara þunnur ljósritunarpappír)
 • E.t.v. borði

 

Falleg nótnablöð eru klippt eða skorin niður í 4cm x 8cm renninga. Í hvern lítinn krans þarf 8 svona renninga.

Renningurinn er brotinn í tvennt þversum…

… og aftur langsum.

Brotið er upp á hornin (efra að neðra) en passað að þverbrotið á renningnum vísi niður!

Þetta er endurtekið fyrir hina sjö renningana. Við þetta verða til 8 „goggar“.

Ofan á hverjum þeirra má sjá nokkurs konar vasa…

… goggunum/renningunum samanbrotnu er síðan raðað hverjum ofan á annan í hring.

(Ég sá fyrir mér að þeir litu út eins og skór og þá er „táin“ á hverjum skó sett ofan í þann á undan)

Að lokum er gengið frá fyrsta og síðasta renningnum á sama hátt.

Og þá er skrautið tilbúið!

Svo má hengja í það garn eða borða og skella á jólatréð!

2010 Jóladagatal #8

8 Des

Í áttunda glugga jóladagatalsins er ósköp lítið og létt föndur, brjóstsykursborði! Ég gerði hann meira að segja yfir sjónvarpinu í gærkvöldi 🙂 Allur galdurinn felst í því að binda saman litríka sælgætismola með marglitum borðum. Hugmyndina fann ég hér og þar er einmitt bent á að hægt er að nota þetta sem jóladagatal, þ.e.a.s. binda saman 24 mola og losa svo alltaf einn og einn í einu.  Það myndi sýna á áþreifanlegan hátt (sérstaklega fyrir lítið fólk) hvað dagarnir eru margir eftir fram að jólum! 🙂

Efniviður:

 • Brjóstsykurs- eða sælgætismolar, helst í marglitum eða skemmtilegum umbúðum
 • Marglitir borðar til skreytingar

Ég keypti poka með rauðröndóttum molum 🙂

… sem ég batt svo saman á endunum með svörtum og bleikum borðum…

Þetta mætti jafnvel nota í skreytingar, t.d. hengja í loftið eins og músastiga.

2010 Jóladagatal #7

7 Des

Upp er runninn 7. desember og nú eru bara 17 dagar til jóla. Kannski maður fari að hugsa aðeins út í jólagjafakaupin svona á næstu dögum? Jólastressið fer nú bráðum að segja til sín, eða hvað? Ég er með nokkur verkefni í gangi, sum meira langtímaverkefni, og því ætla ég að spara mér tímann í dag og skella inn einu jólaskrauti af vefnum (sem er ekkert verra fyrir það!): Jólakúla úr gamalli bók… pínulítið öðruvísi jólatrésskraut fyrir pappírsfíkla eins og mig!

Efniviður:

 • Dúkahnífur
 • Gömul bók, t.d. kilja sem þú ert hætt/-ur að lesa
 • Fljótandi lím
 • Þrjár klemmur, t.d. þvottaklemmur
 • Borði

Byrjað er á því að strika út mynstrið fyrir jólakúlunni en hún er í viktoríönskum stíl – minnir á svona jólakúlur! Gott er að gera það á karton sem er svo notað sem mót fyrir pappírinn. Og vel á minnst, þá er þetta aðeins hálf kúlan!

Síðan eru forsíðan og bakhliðin af kiljunni fjarlægðar og leifarnar hreinsaðar með dúkahnífnum. Það getur verið gott að beygja og sveigja kjölinn aðeins til að mýkja hann upp – sérstaklega ef um lítið lesna bók er að ræða 🙂

Kartonið er svo lagt fyrir bókina og passað að kjölurinn falli undir miðjuna á mynstrinu – þannig að þegar búið er að skera og bókin er tekin í sundur sé jólakúlan heil!

Síðan er skorið meðfram kartoninu og í gegnum kiljuna – passið að hafa e-ð undir bókinni!

Bókin er síðan brotin í sundur og þá á að myndast hringur úr blaðsíðunum!

Þá er borðinn tekinn og búin til lykkja á hann – hann er svo settur í miðjan kjölinn. Límið er svo notað til að líma borðann í miðjuna og niður með öllum kilinum. Klemmurnar eru settar á og þrýsta síðunum saman þar til límið er þornað.

Að lokum er svo hægt að skreyta kúluna enn frekar, t.d. strá yfir hana glimmeri eða bæta við stórum borða! Hægt er að hafa börnin með í þessum hluta og þau skemmta sér við glimmerið, því að dúkahnífurinn getur verið ansi beittur fyrir óvana fingur!

Stolið samviskulaust HÉÐAN!

2010 Jóladagatal #6

6 Des

Velkomin í aðra vikuna í desember. Nú eru þrjár vinnuvikur til jóla, jibbí! 🙂 Í dag er 6. desember og því 18 dagar til jóla. Er ekki tími til kominn að gera jólatrésskraut? Mér finnst það og dundaði mér við það um helgina að búa til fíltkúlu. Hugmyndin er héðan en netið er yfirfullt af alls konar fíltskrauti svo að það verður af nógu að taka fyrir áhugasama.

Efniviður:

 • Fílt (ATH. það verður að vera nokkuð þykkt og stíft, mæli ekki með örkunum sem keyptar eru í Tiger eða þ.h. heldur svona „gæða“fílti)
 • Skæri
 • Nál og tvinni
 • Borði og perlur

Fíltið er klippt niður í 6 jafnstóra hringi. Í leiðbeiningunum sem ég fór eftir var sagt a.m.k. 10 cm í þvermál en mínir voru sennilega 6-7 cm. Ég var með fílt sem var glimmerað öðru megin og ég sneri hringjunum þannig að þeir stóðust á: glimmerhliðin upp til skiptis.

Hringirnir sex eru lagðir saman og í miðjuna er settur borði. Hann er saumaður fastur við þegar hringirnir eru saumaðir saman.

Síðan er miðjan þrædd (og borðinn þar með festur)

Nú hefurðu fyrir framan þig hringi sem er skipt til helminga…

… byrjaðu þá á því að sauma fyrsta hringinn saman fyrir miðju:

Ég setti líka perlu til skrauts:

Svo eru næstu tveir helmingar saumaðir uppi og niðri:

– og þannig til skiptis allan hringinn:

Að lokum ættu allir helmingarnir að vera festir saman, annað hvort uppi og niðri eða í miðjunni. Passaðu að fela endana vel þegar þú gengur frá saumunum.

Hérna sést hvað það skiptir miklu máli að hafa nokkuð stíft fílt – annars hefði kúlan ekki haldið þessari fallegu hringlögun heldur bara lagst saman:

Þá er komið afbragðs jólatrésskraut! Þeir sem eru afkastamiklir gætu gert 14 í viðbót og skipt út fyrir venjulegu jólakúlurnar 😉