Tag Archives: Fimmtudagsföndur

Yfirlit yfir júní-föndrið!

28 Jún

FF #25

24 Jún

Mig hefur lengi langað að búa mér til krítartöflu sem er svona skemmtilega retró og sæt, eins og t.d. þessi hér eða þessi. Ég lét verða af því fyrir fimmtudagsföndrið í dag og keypti mér gamlan ljótan ramma í Góða hirðinum og lakkaði hann upp. Svo lenti ég í smá vandræðum því að ég fann hvergi plötu til að mála. Mér var sagt að ég þyrfti svokallaða „masónít“-plötu, svipaða þessu:

Þær var bara hægt að kaupa í 4 m plötum í byggingarvöruverslunum, og voru eftir því dýrar – og það var ekki alveg málið! Á endanum fór ég styttri leiðina: Keypti mér einfaldlega eldgamla krítartöflu af ca. þeirri stærð sem ég vildi í Góða hirðinum (kostaði 100 kall!) og sagaði hana til!

Gamla platan var orðin mjög ljót og því ákvað ég að lakka hana með krítartöflumálningu. Hana fékk ég bara í Byko og 1 lítri kostaði tæpar 2000 kr. Ég lakkaði svo bara töfluna nokkrum sinnum til að fá fallega áferð.

Þegar platan var tilbúin límdi ég hana í rammann með epoxy-lími, einhverju sterkasta lími sem ég hef fundið – og maður notar t.d. til að líma postulín.

Að lokum skreytti ég rammann smávegis, setti t.d. stafina okkar ÁPB:

Svo get ég bara farið að nota fínu töfluna mína – fyrir innkaupalista, minnisatriði og almenn og hressileg skilaboð: 🙂

FF #24

17 Jún

Gleðilegan þjóðhátíðardag, Íslendingar!
Í fyrsta sinn á ævinni föndraði ég alla nóttina. Púllaði all-nighter með límbyssunni og sjónvarpinu. Ástæðan er sú að ég verð með föndrið mitt á Rútstúni í Kópavogi á 17. júní-hátíðinni í dag. Fyrirvarinn var stuttur og ég átti ekki mikið til „á lager“, satt að segja bara sáralítið.

Ég er í fyrsta sinn að „framleiða“, hef bara verið að gera fyrir mig og í tækifærisgjafir. Það verður gaman að sjá hvernig gengur. Ég verð allavega með ýmis konar spangir:

Svo gerði ég dálítið af eyrnalokkum til að selja. Þeir eru hvítir og gráir blómaeyrnalokkar úr blúndum með marglitum borðum. Takið eftir því hvað miðarnir eru fínir 🙂

Af því að það er 17. júní, gott veður og fánarnir blakta við hún ákvað ég að gera slatta af fánaspöngum. Þær eru hvítar, rauðar/bleikar og bláar með yo-yo-dúllum, fánaborðum og blúndum eða tjulli.

Njótið dagsins í góða veðrinu! Hvet ykkur öll að kíkja við í Kópavoginum og heilsa upp á mig!

FF #23

10 Jún

Föndrið í dag skorar ekki hátt á hagnýtniskalanum, eins og sumt af því sem ég hef verið að gera áður… og er meira kannski svona skraut. Ég held mig þó við endurnýtinguna 🙂

Í dag föndra ég pinwheel horse ribbon-orður, ef svo má kalla. Þið kannist við þær því að þær eru gerðar til að festa á eyrun á verðlaunahestum!

Það sem ég notaði er ýmis konar pappír og úrklippur, límstifti, borðar og límbyssan góða!

Ég byrjaði á því að fletta gömlum blöðum og klippti út skemmtilegar setningar og tölur.

Ég festi númerin og orðin á sterkara karton – og líka á eina svona viðartölu!

Harmonikkupappírsorðan sjálf er afskaplega einföld að gerð: pappírinn klipptur niður í langar ræmur (t.d. lengdin á einu A4 blaði) og breiddin er smekksatriði. Síðan er búturinn brotinn sundur og saman eins og harmonikka.

Að því loknu eru endarnir tveir festir saman með lítilli límrönd úr límbyssunni og þá er þetta orðinn harmonikkuhólkur. Til að gera hann hringlaga er hann opnaður varlega eins og blævængur.

Erfiðast getur reynst að festa harmónikkuorðuna í hring, sérstaklega ef pappírinn er þykkur. Ég setti smá límbyssulím inn í miðjuna – og til að vera alveg safe límdi ég smá pappírsbút yfir sárið.

Þá getur þetta litið svona út:

Á síðunni Style Me Pretty sem er síða helguð brúðkaupsundirbúningi eru sýndar svona pappírsdúllur með tölum í miðjunni í staðinn fyrir pappaspjald – og það kemur ekki síður vel út! Skemmtilegt og ódýrt skraut fyrir brúðkaup!

Ég gerði nokkrar týpur t.d. úr landakorti:

Svo er nítjánda sætið náttúrulega mikið í umræðunni þessa dagana 🙂 Bjó til eitt með tölunni 19 og íslenska fána-borða neðan úr. Hera hefði kannski átt að fá svona orðu?

Það er líka minnsta mál að skella öryggisnælu aftan á svona pappaorðu og nota sem barmmerki!

Héðan kemur innblásturinn minn fyrir daginn í dag!

FF #22

3 Jún

Ég er alltaf öðru hverju að gera spangir – eins og sást í síðustu viku. Ætla hér með að láta flakka nokkrar myndir af þeim!

1. Fyrir dömuboð. Ég notaði aðferðina úr þessu jólaföndri til að búa til blómið. Keypti spöngina í Tiger, límdi á hana blúndu og blómið og ofan á það gamlan eyrnalokk sem hafði brotnað. Marglita garnið keypti ég í Europris – fannst það of flott til að nota ekki! 🙂

2. Einföld með slaufu. Slaufan einfaldlega límd á mjóa spöng. Mjög fín og smart t.d. við svart.

3. Rauð yo-yo spöng. Svipuð og íslenska-fána-spöngin, yo-yo-dúllurnar hafðar marglitar og límdar ofan á tjullbút og blúndu. Skemmtilegt að setja tölur með líka.

4. Fílt-blóm. Til að búa til þessi fíltblóm þarf að gera svona. Þetta er nú ekki mikið mál og gaman að finna ólíkar tölur og hnappa til að setja ofan á. Blómin eru svo bara límd á spöngina.

– Endalausir möguleikar á hárspöngum! Nú er bara að finna eitthvað fyrir sumarið 🙂

Svona var föndrið í maí!

2 Jún

FF #21

27 Maí

Fimmtudagsföndrið í dag er í seinna lagi og ég biðst afsökunar á því en það er sent út beint úr pressutjaldinu við Telenor-höllina í Osló þar sem ég er að fylgjast með Eurovision!

Föndrið er líka í takt við það – og ég gerði það áður en ég fór út.

Ég bjó til íslenskafánaspangir til að skarta á keppnisdaginn. Ég gerði nokkrar sem við tókum með vinkonurnar. 

Það sem ég notaði var blá spöng sem ég keypti í Tiger, fánaborði sem fæst í öllum föndurbúðum, smávegis af tjulli og yo-yo-rósettur sem ég gerði úr efnisafgöngum og hafði í fánalitunum!

Þetta límdi ég svo allt saman á spangirnar og hafði þær mismunandi. Þessu skörtuðum við svo á undankeppninni og verðum með þetta líka á aðalkeppninni.

Hér gildir sko að vera vel merktur með íslenska fánanum! 🙂

FF #20

20 Maí

Æ, ég hef nú verið sáttari við föndur en læt þetta flakka. Ég hef verið að prófa mig áfram með að breyta fötum, sem hefur kannski ekki alveg gengið eins vel og ég vonaði. Ég er ekki mikil nákvæmnismanneskja í saumaskapnum og finnst betra að slumpa bara. Þið getið ímyndað ykkur hvað það skilar oft góðum árangri 🙂

En ég ætlaði sumsé að sauma mér kjól með því að sauma neðan á hlýrabol. Hljómar einfalt ekki satt?

Ég fékk gamlan jersey-kjól hjá mömmu sem var skósíður (og reyndar af systur minni) og ákvað að nota neðrihlutann af honum.

Ég mældi bara hlýrabolinn og títaði neðrihlutann á og saumaði. Ekki fegursta saumspor sem ég hef séð, ég átti pínulítið í erfiðleikum með fellingar, kann ekki alveg á svoleiðis…

Svona lítur hann þá út að endingu:

Ég setti smá jó-jó-dúllu framan á til að fela versa saumaskapinn, en þið sjáið hvernig þetta er annars.

Bara svona fjarska-fallegt held ég … og ég get alveg notað hann í sumar!

FF #19

13 Maí

Föndrið í dag gerði ég reyndar fyrir um hálfu ári síðan og gaf það í jólagjöf. Það voru landakortsglasamottur.

Ég keypti ódýrar glasamottur á nytjamarkaðnum í Mörkinni á 100 kr. stk.

Síðan sneið ég niður af gömlu landakorti sem ég átti (hafði keypt í Góða hirðinum fyrir slikk).

Ég límdi kortið á glasamotturnar með dobbelteipi og lakkaði svo með glæru föndurlakki yfir. Við það urðu kortin dálítið upphleypt en það lagaðist eftir að þær þornuðu.

FF #18

6 Maí

Takk fyrir frábærar viðtökur í síðustu viku. Eins og ég sagði á Facebook, var dreginn út vinningshafi í Fimmtudagsgjöfinni og það var Karen Pálsdóttir en hún sendi þetta komment:

Í fimmtudagsföndrinu í dag gerði ég hálsmen úr prjónuðum strokki með glerperlum. Það er hægt að kaupa prjónaða strokka t.d. í A4 í metravís og þeir kosta ekkert mikið. Ég átti svo glerperlur í poka sem ég notaði í festina.

Ég notaði svo bara samlitan tvinna og nál og saumaði stokkinn saman eftir hverja glerkúlu.

Ég skildi svo dálítinn spotta eftir, saumaði endann saman og setti í tölu.

Mjög ánægð með árangurinn 🙂

Fyrr í vetur prófaði ég það sama með gulum strokki. Þá hafði ég hann styttri en saumaði svo við band sem ég gerði úr gömlum stuttermabol.

Til að fela samskeytin setti ég svona yo-yo og tölu með smá tjulli.

Þarna var ég reyndar með plastperlur sem virka held ég betur, glerkúlurnar verða dálítið þungar, allavega ef maður er með festina í heilan dag! 🙂