Tag Archives: Fimmtudagsföndur

Föndur-apríl leit svona út! :)

3 Maí

FF #17 – fimmtudagsgjöfin!

29 Apr

Í dag ætla ég að brydda upp á örlítilli nýjung í Fimmtudagsföndrinu! Það er fimmtudagsgjöfin (spennóspennó! :))

Þá verð ég öðru hverju með gjöf fyrir heppinn lesanda sem kommentar hér á síðunni. Hugmyndin er frá systrunum flinku sem blogga á Systraseið. Vonandi líst ykkur vel á 😉

Til að kommenta skrollaðu neðst í færsluna og smelltu á Comment/Ummæli. Þar skilurðu eftir nafn og netfang (sem er ekki sýnilegt en notað til staðfestingar). Á mánudagsmorgun kl. 10 dreg ég svo úr innkomnum kommentum og sendi vinningshafanum gjöfina!!
—-

Föndrið í dag er nokkuð einfalt og bara mjög skemmtilegt helgarföndur fyrir alla – blúndueyrnalokkar!
Það eina sem þarf til eru blúndur – og nóg af þeim!!

Úr blúndugardínum sem ég fann í Góða hirðinum (en ekki hvað?) klippti ég falleg blóm og mynstur.

Til skreytingar má nota hvers kyns borða:

Ég keypti lítinn pakka með 20 eyrnalokkafestingum í Litum og föndri á tæpan 400 kr. Svo er festingin einfaldlega fest á blúnduna; það getur verið gott að nota skartgripatöng ef maður er ekki þeim mun handsterkari!

Eftir smá stund var framleiðslan komin á þetta stig:

Ég prófaði að stífa nokkrar blúndur í sykurvatni en þær sem ekki voru stífaðar komu alveg jafnvel út.

… bara svolítið fínt, er það ekki?

Einir svona litlir í lokin – þessar blúndur voru óstífaðar og mjúkar:


Þá er komið að fimmtudagsgjöfinni. Það eru þessir eyrnalokkar með fjólubláum borða. Þeir eru jafnstórir þeim með bleika borðanum. Nú er komið að ykkur að kommenta!

Hugmyndin er héðan.

FF #16

22 Apr

Elsku lesendur, gleðilegt sumar!

Eitthvað hefur tíminn farið í annað en föndur undanfarið. Ég fór þó á Föndurheimsveldishitting um daginn þar sem ég undirbjó föndur dagsins, bókakrans!

Í tilefni af viku bókarinnar langar mig að tileinka föndrið bókaklúbbnum mínum, Skruddunum, og sérstaklega Helgu vinkonu sem eignaðist lítinn snáða í vikunni 🙂

Varúð: Viðkvæmir ættu að staldra við, í þessari færslu er farið illa með bækur!

Fyrst sótti ég mér bók í Góða hirðinn. Ég segi ‘sótti’ því að ég keypti hana ekki, hún lá frammi í afgreiðslunni þar sem alltaf liggja nokkrar GEFINS bækur og blöð. Mjög hentugt. Fyrir valinu varð Maðurinn með stálhnefana (sem ég hef því miður aldrei lesið) en leit út fyrir að vera dálítið lúin og lesin 😉

Annað sem til þurfti var frauðplasthringur (ég notaði ca. 12 cm í þvermál), límbyssu og nokkra títuprjóna.

Tilgangurinn var að rífa/klippa blaðsíður bókarinnar niður, rúlla þeim síðan upp og líma á kransinn með líminu. Límbyssulím er mjög heitt. Mjööög heitt. Þetta var því talsvert klístur- og brunaverk!

Fyrst er límt á allt yfirborð kransins:

Það er það sem snýr niður á kransinum. Ég lét þunga bók hvíla ofan á frauðhringnum til að fletja blaðsíðurnar betur út.

Síðan er kransinum snúið við og byrjað að líma hinum megin frá. Ég reyndi að líma í lögum til að allt væri jafnt. Sumar blaðsíðurnar voru sérstaklega óþægar og vildu ekki límast. Þrátt fyrir að ég hefði brennt mig á öllum fingrum. Þá greip ég til títuprjónanna 🙂

Rétt nýbyrjuð:

alveg að verða búin!

Til að festa herlegheitin upp á vegg þarf maður hanka. Ég límdi lítinn borða aftan á kransinn. Eins og þið sjáið þá vildi hann ekki festast svo að ég títaði hann niður. Þolinmæðin aðeins farin að bresta á síðustu metrunum!

Svona lítur þá bókin út í þessu formi. Engu verri nýting en innbundin, er það nokkuð? 😉


Hugmyndina fékk ég héðan.

FF #15

15 Apr

Undanfarna viku hef ég verið alveg á kafi í vinnu og nánast EKKERT pælt í föndrinu, sem hefur bara ekki gerst lengi. Í dag er því svona hraðferðarföndur, hárband 🙂 Allt í allt tók þetta ekki nema svona hálftíma!

Það sem þarf er blúnda, borði til að skreyta og teygja. Ég keypti svarta teygju í hárið í Skarthúsinu á 300 kall og get notað hana í a.m.k. tvö hárbönd. Svo þarf saumavél og límbyssuna góðu!

Blúndan er fest á endann á teygjunni…

… sem er svo saumað saman í saumavélinni.

Ef þið eruð eins og ég þá eru endarnir ekkert til að hrópa húrra yfir. Það er hér sem borðinn kemur til sögunnar.

Smá borða er vafið utan um ljóta endann og límt. Miklu betra!

Svo má alveg skreyta smá. Ég átti svona plasthringi og tölu sem ég límdi bara á blúnduna.

Lítur ágætlega út, er það ekki? Kosturinn við svona hárbönd er að maður fær ekki hausverk eins og oft eftir spangirnar, sérstaklega eftir að hafa verið með þær í heilan dag í vinnunni!  (Þið afsakið þreyttu fyrirsætuna = vinnan)

Fleiri hugmyndir: Hér.

FF #14

8 Apr

Föndrið að þessu sinni var gert af nauðsyn. Ég hef verið að gera svo mikið af alls konar fyrirferðarmiklu hálsskrauti að ég varð að búa til e-n stað til að geyma þá á, svona skartgripahengi!

Ég fann gamlan, ljótan ramma í Góða hirðinum. Þar er oft hægt að gera ágætiskaup á römmum ef maður nennir að flikka upp á þá. Minn var meira að segja svolítið skemmdur sem mér finnst bara gera hann flottari, með meiri karakter.

Ég tók bakið úr rammanum, grunnaði hann og lakkaði silfurlitan. Hann er „Suzuki-grár“, því að ég stalst í lakkið sem pabbi notar á bílinn sinn 🙂

Ég keypti svo svokallaða gataplötu í Málmtækni. Það er hægt að fá alls kyns mynstur en ég keypti svona smáramynstur:

Af því að gataplatan er úr stáli og alveg glansandi ný lakkaði ég aðeins yfir hana með svörtu lakki til að gefa henni „eldra“ yfirbragði. Svo var hún klippt til inn í rammann:

Ég gekk frá gataplötunni með því að líma hana kirfilega inn í rammann. Hún fer ekki neitt!

Svo var ramminn hengdur upp.

Í Húsasmiðjunni keypti ég það sem heita S-krókar og líta út eins og S. Með þeim er lítið mál að breyta uppröðun og skipta út.

Það má líka hengja eyrnalokka í rammann því að smáragötin eru alveg nægilega stór, meira að segja fyrir klemmueyrnalokka.

Ótrúlega ánægð með afraksturinn 🙂

FF #13

1 Apr

Ég læt ekki mitt eftir liggja í páskaföndrinu frekar í jólaföndrinu og í dag, skírdag, ætla ég að sýna ykkur þrjár týpur af páskaeggjaskrauti – því páskarnir snúast eins og allir vita einungis um egg! 🙂

1. ULLAREGGIN

Þessa hugmynd rakst ég á í bókinni Föndur fyrir alla fjölskylduna, en þar voru reyndar notuð tréegg. Ég notaði lítil pappaegg með páskamyndum sem ég keypti einhvern tímann og eru um 1/2 af stærð venjulegs hænueggs. Síðan var ég með ullargarn úr Europris, trélím+vatn og nokkra títuprjóna.

Eggin sjást hér – utan á bókinni! (margt mjög sniðugt árstíðarskraut í henni, KP! :))

Eins og segir í bókinni er gengið frá endanum á bandinu á breiðari enda eggsins og títuprjóni stungið í það til að festa. Síðan er það vætt í lími og vafið þétt utan um.

Gengið er frá bandinu á mjóa endanum á sama hátt, með því að binda örlítinn hnút og festa niður með títuprjón.

Útkoman verður þá sisvona:

Þornuð líta eggin svona út. Í bókinni segir líka að það sé sniðugt að grunna eggin í sama lit og bandið. Kannski ég geri það næstu páska. Þá sést ekki skærliti bakgrunnurinn í gegn.

2. BLÁSNU EGGIN

Þessa hugmynd fékk ég frá Föndurheimsveldis-samherjanum KP sem skreytir páskaegg af miklum móð. Ég hafði bara blásið egg og málað örsjaldan þegar ég var lítil en ákvað að slá til.

Það sem ég notaði voru hænuegg, matarlitur (rauður, gulur og grænn), vatn og nál til að gera gat á eggin. Gott er að blanda matarediki út í vatn+matarlit, þá þekur liturinn betur.

Stungið er gat á eggið á báðum endum. Síðan er nálinni/títuprjóni stungið inn í eggið og rauðan sprengd. Það skiptir svolitlu máli til að auðvelda blásturinn.

ÁPB var dugnaðarforkur að blása úr eggjunum!

Síðan voru eggin lituð og látin þorna.

Ég stillti þeim upp á flöskutappa til að þau þornuðu jafnt og að allur vökvi sem safnaðist inni í þeim rynni út. Eins og sést tókst mér ekkert alltof vel upp með sum (brotin skurn o.fl.)

Þá var bara að skreyta þau! Ég notaði ýmislegt til að skreyta; borða, blúndur, glansmyndir, perlur, pappírsdúllur og auðvitað límbyssu!

Afraksturinn varð svona:

Hér gefur að líta eggin hennar KP – mun fegurra handbragð, verð ég að segja:

Páskaskreytingin á heimilinu!

3. GLIMMER-EGGIN

Mér datt í hug að kannski væri gaman að prófa að setja glimmer á pappaeggin sem mér fannst vera pínuþreytt. Þannig að ég notaði fljótandi lím og glimmerduft…

dýfði eggjunum í duftið…

… og lét þorna!

GLEÐILEGA PÁSKA! –


Yfirlit marsmánaðar :)

29 Mar

FF #12

25 Mar

Föndur dagsins spratt út frá hugmynd að hálsmeni sem ég rakst á á netvafrinu mínu. Héðan fékk ég hugmyndina. En þetta er hálsmenið sem ég skoðaði á Anthropologie.com og kostar $42:

Hugmyndin er frekar einföld; að sauma saman reipi! Ég var hins vegar ekki á þeim buxunum að kaupa mér hvítt reipi bara til að föndra úr (og ekki átti ég til reipi sem ég vildi klippa niður). Reipið á fyrirmyndinni var hvítt og því í sjóarastílnum/matrósastílnum en ég ætlaði nú ekki að setja það neitt sérstaklega fyrir mig.

Svarið kom þegar ég rakst á gardínuhanka með dúski, eins og voru festir á þungu gluggatjöldin í gamla daga. Svoleiðis hanka sá ég í Vogue á 450.- stk. en keypti einn bleikan í Góða hirðinum á 100.-

Á myndinni sést dúskafestingin vel og ég er viss um að allir kannast við kauða!

Sem skraut notaði ég eyrnalokk sem ég keypti e-n tímann fyrir slikk og  hafði brotnað. Ég gekk svo frá endunum með föndurvír.

En fyrst af öllu var að sauma reipið saman. Ég lagði það á sama hátt og reipið í Anthropologie-hálsmeninu og saumaði á köntunum.

Svona lítur það þá út!

Endunum hætti til að trosna í sundur þannig að ég vafði aðeins límbandi utan um og límdi þá svo saman með límbyssunni. Að lokum vafði ég föndurvírnum þétt utan um. Núna er það svo vítt að ég get sett það yfir höfuðið en ef ég vildi stytta hálsmenið þyrfti ég að ganga öðruvísi frá endunum.

Að lokum límdi ég fyrrverandi eyrnalokkinn á með límbyssunni – sem skraut!

Útkoman er svona!

FF #11

18 Mar

Þetta föndur var bókstaflega það, föndur! Ég vissi alls ekki hvernig það kæmi út og var bara að prófa mig áfram. Hugmyndin sem ég fékk var að búa til skerma/skraut á inniljósaseríu.


Það sem ég notaði voru nokkrar vatnsblöðrur (líka hægt að nota aðrar blöðrur og blása þær lítið upp), hvítt og gráyrjað ullargarn sem ég keypti í Europris, pensill og böns af lími!!

Og þá meina ég böns! Ég byrjaði á því að nota glært föndurlím (sem ég keypti einhvern tímann í Klinkinu í Skeifunni) og þynnti það aðeins með vatni. Það var hins vegar ekki nóg, þannig að ég fékk trélím í byggingarvöruverslun og þynnti það líka. Það er hvítt en verður nærri glært þegar það þornar.

Það sem gerði þetta föndur að F-Ö-N-D-R-I var klessuverkið og límið sem fylgir þessu. Ég blés upp blöðrurnar ca. hnefastórar. Vafði svo garninu utan um – fyrst því hvíta og svo gráyrjótta. Og svo gluðaði ég límblöndunni yfir þannig að garnið varð allt gegnblautt.

Að lokum var ég komin með nokkra garnbolta. Ég passaði mig samt á því að vefja ekki of þétt því að ég vildi fá ljósið út á milli á skemmtilegan hátt. Svo tyllti ég boltunum ofan á glös til að þeir þornuðu. Þurfti reyndar að snúa þeim nokkrum sinnum. Þannig lak líka af þeim auka límið og þeir festust ekki við neitt eins og kannski hefði gerst ef ég hefði lagt þá á sléttan flöt.

Þegar boltarnir voru orðnir alveg þurrir hófst fjörið! Að sprengja blöðrurnar innan úr þeim!

Að vísu þurfti ég að losa límið á milli blöðrunnar og garnsins því að annar festust blöðrutægjur innan í kúlunum. Þetta tók smá stund en var samt mjög skemmtilegt 😉

Ég fékk síðan glæra ljósaseríu með hitaþolnum perum, fást t.d. í Byggt og búið. Ég held að perurnar verði að vera hitaþolnar annars skapast eldhætta af þessu. Þið sem hafið verið að fást við heklaðar bjöllur utan um svona seríur vita það e.t.v. betur (?)

Þar sem þetta var bara föndur og algjört tilraunaverkefni stakk ég bara ljósaperunum inn í kúlurnar og kveikti á. Þannig gengur þetta upp á lárréttum fleti. Ég þyrfti að finna út hvernig ég festi perurnar inn í kúlurnar og allar tillögur eru vel þegnar!

Hérna sést á annars óskýrri mynd að ég skildi eftir smá gat í ullarvafningnum þar sem hnúturinn var á blöðrunni og gerði ráð fyrir að þar færi peran inn í kúluna.

Skemmtilegast við þetta er að kúlurnar verða svo ólíkar, misstórar og misjafnlega vafnar. Sjáið bara hvað birtan verður flott á veggnum!

FF #10

11 Mar

Föndur dagsins kemur af fundi Föndurheimsveldisins sem hittist í gærkvöldi. Þar var mikið um dýrðir og hin ótrúlegustu föndur litu dagsins ljós. Ég tók mig til og bjó til hárspennu og tvo hringa.

Spennan var ákaflega einföld og það eina sem ég þurfti var nál og tvinni, hvítt tjull sem ég keypti í Vogue, lím og blúnda (nema hvað ;)).

Til skreytingar setti ég gamlan stakan eyrnalokk sem ég hafði fengið gefins.

Tjullið og blúnduna braut ég saman og saumaði í nokkurs konar fellingu.

Síðan límdi ég eyrnalokkinn framan á með límbyssu. Til þess að loka saumnum að aftan setti ég lítinn hvítan fíltbút. Annan fíltbút setti ég inn í spennuna sjálfa og límdi þá svo saman svo að skreytingin detti ekki af spennunni.

Voilá! Hugmyndina fékk ég héðan!

Síðan skáldaði ég tvo hringa sem ég gerði úr borðum. Ég hafði séð þá einhvers staðar en gat ómögulega munað hvernig þeir voru gerðir.

Það sem ég notaði var nál og tvinni, frekar þykkur borði, perlur eða tölur, gömul hárteygja sem var farin að slitna svolítið og lím.

Ég byrjaði á að þræða borðann með tvinnanum.

Síðan rykkti ég hann saman og saumaði eins og mér fannst fallegast. Ofan á rykkinguna saumaði ég perlur og tölur. Síðan setti ég einn límdropa undir og límdi teygjuna, hæfilega stóra fyrir fingurinn á mér.

Svona litu hringarnir út á endanum. Fljótlegt og ódýrt skart!