Sarpur | 08:52

FF #32

12 Ágú

Mikið er ég fegin að ég kláraði föndur dagsins! Ég hef haft það hangandi yfir mér í allt sumar en ekki komið mér í það, enda dálítið mikið maus!

Ég hef alltaf verið rosalega hrifin af kveðjum á mörgum tungumálum og féll algjörlega í stafi yfir myndinni hérna til vinstri.

Þetta er hugverk konu sem framleiðir og prentar undir nafninu MadeByGirl og hérna má nálgast þessi plaköt. Ég hef líka séð þau í hvítu og einnig með orðinu love.

Íslenska er hins vegar ekki á þessu plakati (surprise, surprise) og mig langaði svoldið að ráða mínum eigin tungumálum þannig að ég ákvað að búa mér bara til mína eigin útfærslu á þessu „halló“-plakati!

Það sem ég notaði var stór rammi og pappakarton í hann. Ég vildi nota landakort eða e-ð slíkt í bakgrunninn, þ.e. ekki hafa hann einlitan þannig að ég notaði gamlar landabréfabækur (úr Góða hirðinum). Að sjálfsögðu þarf að prenta út orðin sem eiga að vera á myndinni, en ég prentaði þau út í svörtu á örlítið stífan pappír. Að lokum tvöfalt límband og skæri, ég notaði líka smávegis af límstifti.

Eftir að hafa skoðað allar landabréfabækurnar komst ég að þeirri niðurstöðu að vegakort væri besta leiðin, og notaði þessa stórgóðu þýsku kortabók:

Orðin klippti ég öll niður (og skar út með dúkahníf) og setti hvert í sitt box; stafirnir voru mjög misstórir og því vont að blanda þessu saman.

Blaðsíður bókarinnar voru rifnar úr og límdar á pappakartonið…

… og stafirnir einfaldlega límdir þar á!

Auðvitað þurfti nákvæmar mælingar, a.m.k. milli orða svo að þau dreifðust sem best. Þetta tók langan tíma, sérstaklega þar sem sumir stafir voru talsvert litlir.

Afraksturinn er þó nokkuð góður þó að ég segi sjálf frá. Hérna er heilsað á 10 tungumálum og þar á meðal íslensku! Hin málin eru franska, spænska, pólska, portúgalska, danska, japanska, ástralska, hindí og ítalska!

Þið afsakið glampann á myndinni og lélega uppstillingu… ég var að lengi fram eftir í gærkvöldi og hafði því ekki tíma til að finna myndinni endanlegan stað. Set inn nýja mynd eftir að myndin hefur verið hengd upp!