Sarpur | júlí, 2010

FF #30

29 Júl

Í föndrinu í dag bjó ég til hárskraut sem ég skreytti með fíltblómum og tölum. Leiðbeiningarnar við að gera fíltblómin eru hér og felast í því að klippa fíltið út, saumað það saman að neðan og draga saman þannig að það myndi blóm. Talan er svo saumuð í miðjuna og fíltbútur límdur á bakvið.

Ég gerði litla stelpuspöng með tveimur blómum…

… líka hárbönd fyrir enn minni stelpur sem vilja samt vera fínar! Bætti við smá tjulli og öðrum lit…

… og svo gerði ég líka svona spöng fyrir mig með svörtum og rauðum blómum! Ótrúlega sniðugt og einfalt, væri hægt að nota til að skreyta föt og fleira 🙂

FF #29

22 Júl

Ég gerði aðra útfærslu á skartgripahengi fyrir daginn í dag. Eins og þið munið kannski gerði ég svona skartgripahengi í apríl.

Föndrið í dag er gert á samskonar hátt – eyrnalokkahengi. Hugmyndin er af síðunni Pearl, Handcuffs and Happy Hours:

Ég keypti lítinn skrautlegan ramma í Góða hirðinum og hænsnanet í metravís í Byko.

Ég límdi svo hænsnanetið aftan á og þykkt karton sem ég plastaði aftan á það. Þannig er hægt að hengja upp eyrnalokkana án þess að stinga í gegnum kartonið.

Að lokum límdi ég lítinn hanka aftan á rammann til að hengja upp. Afraksturinn leit svona út:

FF #28

15 Júl

Föndrið í dag var gert handa lítilli afmælisskvísu og er ein enn útfærslan á yo-yo-unum sem ég hef til dæmis notað í spangir áður, eins og hér. Þetta er armband úr yo-yo-um með tölum. Ég missti reyndar af tækifærinu að taka mynd af henni með armbandið (því að hún var rokin af stað) en í staðinn er hérna mynd frá Zakkalife þaðan sem ég fékk hugmyndina:

Fyrst þarf að búa til yo-yo. Á þessari síðu eru ágætar kennsluleiðbeiningar. Yo-yoin eru svo saumuð saman, eins og Zakkalife sýnir:

Þau eru svo saumuð í lengju og tölurnar ofan á.

Síðasta talan í lengjunni er jafnframt talan sem festir armbandið saman. Ég bjó til litla lykkju undir yo-yo-ið sem er svo smeygt yfir töluna:

Svona leit litla armbandið svo út – ekki á handlegg! 🙂

FF #27

8 Júl

Föndur dagsins er einfalt endurvinnsluföndur sem ég fann meðal annars hér. Ef þú átt gamlar rispaðar vinylplötur sem þvælast bara fyrir, væri nú óvitlaust að nýta þær í svona föndur: vinylplötuvasa!

Það sem þarf er ein gömul vinylplata, e-s konar skál sem þolir hita og ofn.

Skálin er sett á ofnplötu. Ég notaði sósuskál úr stáli sem hafði kringlóttan botn og var sæmilega há.

Vinylplatan er sett ofan á skálina og inn í ofn.

Ofninn er stilltur á 100°C. Bið ykkur að afsaka skítuga eldavél – ég var í miðjum bökunarklíðum og datt í hug að nýta ofninn meðan hann var heitur 😉

Eftir nokkrar mínútur hefur platan bráðnað örlítið og lekur þá niður. Þá er hún tekin út úr ofninum.

Ég notaði svo ofnhanska til að móta skálina örlítið og lét hana svo kólna. TILBÚIN!

Eins og gefur að skilja er tæplega hægt að bera fram súpu í þessari skál – það er jú alltaf gat í botninum! En það væri nú t.d. hægt að gera smart ávaxtaskál…

… eða fjarstýringageymslu eins og á mínu heimili 🙂

FF #26

1 Júl

Föndrið í dag er ótrúlega fljótlegt og hagnýtt.

Ég veit ekki með ykkur en ég er alltaf að vandræðast með nálarnar mínar þegar ég er að sauma. Hingað til hef ég geymt þær á stórum nálapúða en það er vægast sagt ópraktískt, sérstaklega þegar maður þarf að ferðast með dótið.  Ég fann mjög skemmtilegar leiðbeiningar um nálabók hjá föndurkonunni Kelly Rachel og ákvað að deila henni með ykkur hér.

Nálabókin er hugsuð sem lítið veski sem hægt er að opna eins og umslag með fílt-„blaðsíðum“ þar sem nálarnar eru geymdar. Útlit nálabókarinnar má nálgast hér. Það sem þarf er tvenns konar efnisbútar fyrir innra og ytra byrði veskisins, 2 fíltbútar og lítill efnisbútur sem má nota sem frímerki. Saumavélin er nauðsynleg ásamt dökkum og ljósum tvinna (eða sem passar við efnið) og ég hafði straujárnið líka við hendina.

Ég byrjaði á því að klippa út formið, bæði fyrir veskið sjálft (innra og ytra byrði), fíltsíðurnar tvær og frímerkið. Svo straujaði ég vel efnið, áður en ég títaði frímerkið fast við ytra byrðið. Ég saumaði það svo fast og svo línurnar þrjár sem líta út eins og heimilisfang utan á umslaginu 🙂

Svona leit þetta þá út:

Næst braut ég fíltið saman í miðjunni og títaði niður á efnisbútinn sem átti að vera inni í veskinu. Svo renndi ég þessu í gegnum saumavélina og passaði að loka vel í báða enda (sauma fram og til baka).

Þá er maður kominn með tvö stykki: ytra byrðið með frímerki og línum og innra byrði með ásaumuðum fíltsíðum. Því næst sneri ég réttunum saman á þessum tveimur stykkjum og festi með títuprjónum. Þetta var svo saumað saman með neutral-tvinna, ég notaði hvítan. Passið bara að skilja eftir smá gat til að geta snúið veskinu við á réttuna.

Ég klippti svo í hornin og gekk frá röngunni og sneri við á réttuna. Nú er gott að strauja aftur og sauma svo með fínu spori þá hlið sem skilin var eftir opin.

Hliðarnar eru straujaðar niður og brotnar saman eins og um umslag sé að ræða:

Þá er veskið bara tilbúið! Fullkomið til að geyma allar óþægar nálar sem vilja týna tölunni þegar maður skilur þær eftir hér og þar…

Ég ætla að ganga betur frá veskinu við tækifæri og setja á það smellu. Þangað til nota ég bara öryggisnælu til að loka 🙂