Sarpur | september, 2010

FF #39

30 Sep

Fyrir daginn í dag föndraði ég dálítið sængurgjafar-/skírnarkort.

Ég á útsaumsmynstur úr gömlu dönsku blaði þar sem hægt er að sauma kornabarn, fermingardreng og stúlku, brúðhjón o.fl. og hef gert dálítið af því að sauma svona út.

Það sem þarf er pappi fyrir kortið, útsaumuð mynd, lítill dúkahnífur til útskurðar, skraut og lím/límbyssa.

Fyrst bjó ég til kortið…

… og merkti svo fyrir myndinni

Ég skar svo út með dúkahnífnum.

Til að gera kortið svolítið skemmtilegra klippti ég út úr gamalli nótnabók (Góði hirðirinn) og límdi framan á kortið.

Útsaumsmyndin er límd á pappa og aftan á forsíðu kortsins. Lokapunkturinn var svolítið skraut neðst á kortið.

Til að fela fráganginn (límið o.fl.) límdi ég pappír aftan á forsíðuna.

Og þá er kortið tilbúið fyrir kveðjuna til nýburans eða skírnarbarnsins 🙂

Þetta fermingarkort gerði ég í vor eftir sama mynstri – fyrir fína fermingarstúlku!

FF #38

23 Sep

Ég sá þetta fallega og einfalda haustskraut hjá Elsie og datt í hug að föndra það fyrir daginn í dag. Laufin eru öll farin að fölna úti og það hefur verið svo sérstaklega fallegt haustveður undanfarið. Þetta skraut er ofsalega fljótlegt og gæti jafnvel verið gaman að gera með krökkum:

Allt sem þarf er marglitt fílt, stór nál og ullargarn.

Fíltið er klippt út eins og laufblöð.

Ég byrjaði á því að sauma miðjuna á laufin í mismunandi litum.

Og síðan voru laufin saumuð saman í borða sem hægt er að skreyta með og hengja hvar sem er!

FF #37

16 Sep

Föndur dagsins er ein af fyrstu hugmyndunum sem ég fékk í þessu föndurbrjálæði mínu. Ég fann hana þegar ég var að fara yfir bókamerkin mín í gærkvöldi og ákvað að slá bara til. Og var líka svo stálheppin að eiga tómar plastflöskur því að við höfum verið ansi löt að fara í endurvinnsluna undanfarið (!)

Föndrið er sum sé klinkbudda úr kókflöskubotnum og allt sem þarf eru botnar úr tveimur hálfslítra-kókflöskum, skæri, límband, 20 cm rennilás (ég átti bara 18 cm og hann var örlítið of stuttur), tvær nálar (breið og grönn) og garn.

Flöskubotnarnir eru klipptir af flöskunum og snyrtir til. Best er að klippa alveg niður að neðri brúninni á botninum.

Límband er límt hringinn og teiknað fyrir saumagötunum.

Flöskubotninn er svo gataður með breiðu nálinni – hún þarf að hafa hvassan odd. Þetta er dálítil þolinmæðisvinna…

Síðan er rennilásnum smeygt ofan í og hann renndur í sundur. Byrjað að sauma um 2-3 cm frá byrjun rennilássins. Þetta er gert til þess að það sé hægt að fela endann á rennilásnum í frágangi í lokin.

Þegar neðri hlutinn er tilbúinn er efri hlutinn saumaður á sama hátt.

Þetta er svo tilvalin lítil budda undir klink eða annað lítið dót, e.t.v. ömmuspennur sem vilja jú alltaf þvælast út um allt! Skemmtilegast hefði mér fundið að vera með tvo litaða botna, t.d. græna, rauða eða gula en ég átti bara einn bláan og svo glæra.

Passa þarf vel að botnarnir séu sem minnst beyglaðir. Það sést e.t.v. af myndunum að blái botninn er ögn beyglaður (flaskan var samanbrotin) og fyrir vikið er örlítið erfiðara að renna rennilásnum.

Fínar leiðbeiningar á ensku má finna hér og hugmyndin er héðan.

FF #36

9 Sep

Föndrið í dag er smávegis „meik-over“ á gamalli peysu sem ég var eiginlega hætt að nota. Þetta er svona týpísk golla en það var kominn ljótur blettur í stroffið á annarri erminni.

Svona leit hún út fyrir breytingu:

Ég klippti síðan bara stroffið af…

… og stytti ermarnar í 3/4.

Til að hressa upp á peysuna saumaði ég litla blúndu í hana

… og setti rjómalitar bryddingar á ermarnar í leiðinni!

Lítið mál – og fyrir vikið nánast ný peysa! Ekki slæmt 🙂

FF #35

2 Sep

Í gær föndraði ég svolítið fyrir haustið. Það er í rauninni viðeigandi því að það er farið að dimma á kvöldin og orkureikningarnir að hækka (!) að búa til kertastjaka fyrir sprittkerti. Ég er líka forfallinn blúndufíkill og ákvað að nýta mér hugmynd sem ég sá hér, að stífaðri blúndu sem kertastjaka.

Ég átti auðvitað blúndu/dúllu og ákvað að móta hana eftir ílöngum blómavasa/stjaka sem ég á. Annað sem ég þurfti var bara stífisprey (ég keypti þetta hérna). Í hugmyndinni hér að ofan er notast við þykkt lím og það er auðvitað hægt að gera líka.

Ég byrjaði á því að vefja smá Vitawrapi utan um vasann svo að stífispreyið skemmdi hann ekki. Ég tyllti honum svo upp á krukku því að dúllan var lengri en vasinn. Það er líka gott að hafa e-ð undir þessu svo að spreyið skemmi ekki borð eða undirlag.

Svo er það stífispreyið…

… og spreyjað og spreyjað. Ég gjörsamlega gegnbleytti dúlluna og reyndi svolítið að móta hana í fellingum á meðan hún var enn blaut.

Ég lét hana standa svona yfir nótt og tók hana svo af vasanum. Með Vitawrapinu er það frekar auðvelt. Nú er dúllan alveg stíf en til að gera hana enn „massívari“ þarf að spreyja fleiri umferðum af stífelsi.

Svo er bara að kveikja á kertum og hafa það huggulegt. Ég vil samt benda á að passa þarf ofsalega vel upp á kertin því að svona dúllur bleyttar í stífelsi geta auðveldlega fuðrað upp ef óvarlega er farið!

Hafið það gott í skammdeginu!