FF #33

19 Ágú

Bráðum fer nýtt skólaár í hönd. Það er alltaf skemmtilegur tími og flestir spenntir að byrja aftur í skólanum. Föndrið þessa vikuna er líka svona „back to school“-föndur, eins og föndurkonur úti í netheimum gera mikið þessa dagana.

Það besta við nýtt skólaár finnst mér alltaf vera ný skóladagbók/skipulagsbók. Fullt af óútfylltum blaðsíðum til að skrifa á og skreyta! En skóladagbækur eru oft mjög leiðinlegar og hálflitlausar með helling af auglýsingum. Ég ákvað því að búa til mína eigin skipulagsbók sem hefur ENGAR auglýsingar heldur bara auðar skemmtilegar blaðsíður. Ég notaði auðar hvítar og ljósar síður, en til skrauts nótur og eina blaðsíðu úr landabréfabók, bara að gamni.

Ég fékk hugmyndina héðan.

Það sem ég notaði voru sem sé blaðsíðurnar, dúkahnífur og skæri og gömul bók með flottri kápu sem ég fékk í Góða hirðinum (en hefði líka getað notað hvaða bók sem er – kannski skemmtilegt að nota kápu utan af gamalli Biblíu, ef fólki finnst það ekki helgispjöll!) Ég notaði líka breiða nál til að stinga í gegnum blaðsíðurnar og aðra grennri og sterkan þráð/girni.

Ég byrjaði á því að skera blaðsíðurnar sem fyrir voru í bókinni úr með dúkahnífnum.

Svo klippti ég kjölinn upp á bókinni…

…og límdi skemmtilegar myndir innan á kápur bókarinnar beggja vegna.

Þá var komið að blaðsíðum bókarinnar. Ég skipti þeim í fimm minni bunka og í hverjum voru ca. 6-10 blöð. Hver bunki var brotinn saman á þverveginn og kantinum þrýst niður  – ég notaði breiðan bréfahníf til þess.

Til að gera göt í blaðsíðurnar klippti ég smá pappabút út og gerði skapalón fyrir fimm göt svo að jafnt væri á milli þeirra. Passaði líka að hafa eitthvað undir blöðunum þegar ég stakk í gegn til að rispa ekki borðið…

… og þá voru götin komin á blaðsíðurnar!

Þá var bara að sauma hvern blaðsíðubunka saman. Lykillinn er að byrja aftan á blaðsíðunum að stinga og fara svo út úr næsta gati og yfir í það næsta – þannig að það verði alltaf undir-yfir-undir-yfir (_-_-)

Síðasta stungan á að vera innan í og út í gegnum miðjugatið og þar er þráðurinn bundinn saman í þéttan hnút. Þetta er gert við alla bunkana.

Það þarf líka að gata kápuna og passa að götin standist á…

… svo er bara að sauma saman! Þráðurinn er þræddur í við hnútana á kilinum á öllum bunkunum og saumað þannig saman að þeir haldist allir fastir saman sem og kápan.

Voilá!

Innan í bókinni eiga bara að sjást sléttir einfaldir saumar – og aldrei saumað tvisvar yfir sama þráðinn (nema í öryggisskyni)

Að lokum fannst mér betra að líma með rafvirkjalímbandi (þykkt sterkt límband, allir iðnaðarmenn nota svoleiðis) yfir kjölinn til að fela saumana.

Og þar með lauk ég við mitt fyrsta bókbandsföndur! Ekki slæmt, er það nokkuð? Og nú get ég svo sannarlega byrjað að skipuleggja haustið og gera listana mína 🙂

9 svör til “FF #33”

 1. Arnór Bogason ágúst 19, 2010 kl. 09:34 #

  Þessi bókagerðarheimur er ótrúlega spennandi. Það er búð sem heitir Hvítlist, held hún sé í Krókhálsi, sem selur efni til bókagerðar. Ég held alveg örugglega að þar fáist svona tauteip sem er örugglega skemmtilegra en rafvirkjalímbandið, sérstaklega með svona gamalli bók. Það er líka betra upp á bindingu og endingu að gera. Ef það er of kostnaðarsamt er líka hægt að fá svona svart bókbandslímband með tauþráðum í flestum bókabúðum.

  • eyrun ágúst 19, 2010 kl. 09:54 #

   Flott! Takk fyrir ábendinguna, Arnór – ég reyni að verða mér út um svona tauteip fyrir næstu önn 😉

 2. Hildur ágúst 19, 2010 kl. 09:46 #

  Vá hvað þetta er mikil snilld! Ég sko þoli illa skóladagbækur og ég var mjög dugleg við að finna aðrar lausnir þó ég hafi aldrei farið svona langt að búa hana hreina til.

 3. Helga ágúst 19, 2010 kl. 10:05 #

  Þetta er svooooo smart! Vildi óska að ég gæti gert svona í staðinn fyrir að húka endalaust yfir matreiðslubókum …

  • eyrun ágúst 19, 2010 kl. 10:33 #

   Þetta er barnaleikur, Helga mín! Þú getur sko alveg prófað 🙂

 4. erla J ágúst 19, 2010 kl. 11:26 #

  Mjög flott og frábærar leiðbeiningar að vanda 🙂
  Fíla líka innlegg Arnórs til bókbandsins.

  • eyrun ágúst 19, 2010 kl. 11:52 #

   Takk 🙂 Ég er sammála – gott að fá innlegg frá kunnáttumanni! 🙂

 5. Marín ágúst 19, 2010 kl. 20:57 #

  Vá, ekkert smá flott og virðist einfalt svona þegar maður sér hvernig þú ber þig að. En efast samt um að mér takast jafn vel upp ef ég reyndi.

  Haustð lookar vel með svona bók í veskinu 😉

 6. Erla ágúst 19, 2010 kl. 22:44 #

  Vá það er eins og þú hafir ekki gert annað en að binda inn bækur 🙂 Svaka flott

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: