Fimmtudagsföndurrófan kveður!

30 Des

Elsku lesendur!
Í dag er síðasti fimmtudagur ársins 2010 og því ekki úr vegi að líta yfir liðið ár!

Upphafið

Ég byrjaði að leggja drög að þessu föndurverkefni í fyrstu viku ársins og fyrsta fimmtudagsföndrið var áramótaspöngin um síðustu áramót:

Í byrjun ákvað ég að fara varlega í að lýsa því yfir að ég myndi pósta í hverri viku, þar sem ég þekki sjálfa mig og hélt að ég myndi fljótt missa úr einhverja fimmtudaga. Fljótlega komst föndrið þó upp í rútínu og nokkrar hugmyndir vann ég dálítið fram í tímann. Ég var þó miklu oftar að leggja lokahönd á föndrið helgina áður en það birtist, eða jafnvel bara kvöldið áður 🙂

Ég hef verið ansi dugleg að sk0ða föndur á netinu í nokkurn tíma og er með stórt safn tengla (bookmarks) sem ég er alltaf að bæta í. Fólk hefur líka verið duglegt að gauka að mér ýmsum hugmyndum sem ég er mjög þakklát fyrir. Hugmyndirnar virðast kannski vera óþrjótandi hjá mér- en það er þá vegna þess að netið er auðvitað endalaust! 😉

Jóladagatalið hefur mér líka fundist ótrúlega skemmtilegt þrátt fyrir að það hafi verið meira en að segja það að henda inn föndri á hverjum einasta degi nú í desember. Þið munið að skoða það hérna á stikunni fyrir ofan (Jóladagatal 2010 og 2009)

Markmiðið

Markmiðið með föndrinu hefur alls ekki verið að „hanna“ eitt eða neitt sem ég gæti gert að mínu. Það væri líka í hæsta máta óviðeigandi þar sem ég nýti nánast undantekningarlaust hugmyndir annarra!

Mig langaði miklu frekar að sýna fram á að venjuleg föndurrófa eins og ég, með tíu þumalfingur þegar kemur að saumavélum og sem kann ekki að prjóna, getur samt með góðum leiðbeiningum búið til ýmislegt sniðugt og hagnýtt! Ekki síst þegar kemur að því að endurvinna gamalt og nota í nýjum tilgangi eða með nýjum áherslum.

Eins og þið hafið tekið eftir hef ég verið nærri vikulegur gestur í Góða hirðinum og mæli eindregið með þeirri búð fyrir allar föndurrófur. Þar er sko allt milli himins og jarðar hægt að finna! Mig langar til að vinna að því að vera umhverfisvæn og þess vegna er mjög sniðugt að nýta gamla hluti.

Auk þess gefa gamlir hlutir með sögu alltaf sérstakt yfirbragð og tengslin geta orðið skemmtilegri fyrir vikið. Gamli ónýti eyrnalokkurinn sem hefur verið í fjölskyldunni heillengi en enginn getur notað lengur, getur nefnilega sómt sér prýðilega sem skraut á hárspöng og fær þar með nýtt gildi!

Takk kærlega fyrir mig!

Með þessum síðasta föndurpósti langar mig að þakka ykkur öllum sem lásuð og höfðuð gagn (og jafnvel gaman) af því sem ég hef verið að gera. Þið hafið verið ótrúlega mörg og mun fleiri en ég átti nokkurn tímann von á!

Það hefur gefið mér svo mikið að sjá allar heimsóknirnar sem losa 20.000 á þessu ári (!) og ekki hvað síst að lesa kommentin frá ykkur 🙂

Ég er ekki hætt að föndra og hver veit nema hingað slæðist föndur á næsta ári en ég ætla samt ekki að halda þessu úti vikulega 🙂

Að lokum langar mig að henda inn þeim fimmtudagsföndrum sem ykkur líkaði hvað best við og fengu langflestar heimsóknir, svona nokkurs konar topp 10-lista yfir fimmtudagsföndrið 🙂

10. Glasamottur með álímdum landakortum – birt 13. maí

9. Hárspangir með íslenska fánanum – birt 27. maí
(í miðju Eurovisioni :))

8. Skál úr gamalli vinylplötu – birt 8. júlí

7. Kökudiskur gerður úr gömlum diskum og glösum – birt 14. janúar

6. Hálsfesti úr gardínufestingu – birt 25. mars

5. Uppgerður lampafótur úr Góða hirðinum – birt 25. febrúar

4. Eyrnalokkar úr stífaðri blúndu – birt 29. apríl

3. Garnboltaskraut á seríu – birt 18. mars

2. Nálaveski – birt 1. júlí

1. Skartgripahengi úr gömlum ramma – birt 8. apríl

2010 Jóladagatal #24

24 Des

(Gleðilega hátíð! Ég kom mér aldrei í það að opna föndurgluggann á aðfangadag en finnst hálf hallærislegt að sleppa honum svo að hér kemur hann …)

Í dag er stóri dagurinn sem allir hafa verið að bíða eftir, 24. desember og þess vegna jólin í dag! Jibbí 🙂 Af því að jólin eru nú einu sinni hátíð gjafanna (svona auk þess að vera hátíð ljóssins/friðarins/barnanna/gleðinnar o.s.frv.) ætla ég að skella inn myndum af innpökkun gjafanna í ár!

Ég skreytti tvo IKEA-kassa með landakortum og notaði sem gjafakassa. Hugmyndina fékk ég héðan og hún kom vel út; þetta er líka gjafakassi sem á framhaldslíf 🙂

2010 Jóladagatal #23

23 Des

Upp er runnin Þorláksmessa sem er líklega einn erilsamasti undirbúningsdagurinn hjá flestum. Ég hlakka allavega til saltfisksveislu í kvöld hjá mömmu og pabba (erum ekkert í skötunni) og ganga frá síðustu gjöfunum. Jólatréð er komið upp og verður skreytt í kvöld!

Ég uppgötvaði allt í einu að ég er ekki með eitt einasta skraut hjá mér í vinnunni og datt þess vegna í hug að gera e-ð lítið og einfalt til að jólin gætu líka komið þar. Ég fékk eina hugmynd héðan sem er mjög fljótleg og pínu hátíðleg.

Efniviður:

 • Stífur pappi
 • Límband
 • Fljótandi lím
 • Garn og heklunál

Búnar eru til keilur úr pappanum – í líkingu við jólatré 🙂

Svo eru tveir litir heklaðir saman í loftlykkjur. Ég gerði þrjú „tré“ og hafði eitt rautt/hvítt, eitt grænt/hvítt og það minnsta grátt/hvítt.

Þegar heklun er lokið (mjög fljótlegt) er heklaða keðjan límd á keiluna, byrjað neðst og unnið upp.

Hún lítur þá svona út að lokum:

Ágætis borðskraut í vinnunni, ekki satt? 😉

2010 Jóladagatal #22

22 Des

Nú þegar það eru bara tveir dagar til jóla og stysti dagur ársins runninn upp, 22. desember, ætla ég að nýta mér hinn víðfeðma veraldarvef og pósta hérna „stolnu“ jólaföndri – til að spara tíma.

Hugmyndin er að nýta fílt (svona stíft fílt, kannski bara hægt að stífa það?) og búa til þrívíddarskraut. Hugmyndin er tekin af þessari síðu og hannað af þessum föndurbloggara.

Hægt er að hala niður af síðunni skapalóni fyrir skrautið (það er hér) og það svo notað til að klippa fíltið út.

Fjögur stykki af skrautinu eru svo saumuð saman í saumavél. Toppurinn og botninn eru svo saumaðir saman.

Litlum fíltrenningum er síðan rúllað upp og þeir vættir í fljótandi lími til að haldast saman. Rúllunum er svo skellt inn á milli „blaðanna“ í skrautinu og límdar þar fastar. Svo má hengja skrautið upp!

Stolið HÉÐAN!

2010 Jóladagatal #21

21 Des

Nú fer að styttast í annan endann á þessu jóladagatali og bara þrír gluggar eftir að opna, fjórir með þessum pósti! Í dag er 21. desember og því 3 dagar til jóla. Og það sést greinilega á öllum fjöldanum sem þvælist um í umferðinni og verslunarmiðstöðvunum 🙂

Í dag ætla ég að gera dálítið útsaumsföndur með ártali. Það væri gaman að byrja á hefð þar sem ég bý til nýtt skraut fyrir hvert ár, en við skulum nú sjá hvernig mér tekst að möndla það um næstu jól! 🙂

Hugmyndin kviknaði þegar ég rakst á skemmtilega uppskrift á netinu. Hérna má nálgast mynstrið.

Ég náði mér í rauðan þráð og saumaði það í:

Svo datt mér í hug að það væri gaman að búa til fylltan púða og hengja á jólatréð. Þá fann ég mér efnisbút í bakgrunninn og borða til að hengja upp með.

Ég sneri „réttunum“ á efninu saman og títaði niður. Borðann setti ég inn á milli þannig að hann sneri ofan í:

Þá kom hann svona út þegar ég var búin að sauma saman.

Ég skildi eftir eina hlið ósaumaða á púðanum til að koma tróðinu inn í. Það er hægt að nota allt mögulegt í tróð: efnisbúta, bómullarhnoðra o.s.frv.

Fyrsta ártalsskrautið komið upp – reyndar ekki á jólatréð, en verður sett þangað innan skamms! 🙂

2010 Jóladagatal #20

20 Des

Jæja, þá eru það síðustu vinnudagarnir fyrir jól, ég dauðöfunda fólk sem komið er í jólafrí!

Í dag er 20. desember og bara fjórir dagar til jóla. Finnst ykkur þetta hægt, tíminn bara flýgur áfram?

Ég gerði örlítið pappírsskraut á jólatréð í gærkvöldi. Ég fann hugmyndina á einni af uppáhaldssíðunum mínum, How About Orange – hér er hún! Höfundurinn kallar þetta „sirkus-geimskip“ og það er bara ágætis lýsing 🙂

Efniviður:

 • Tveir litir af venjulegum pappír
 • Nál og tvinni
 • Skæri og perlur

Pappírinn er klipptur niður í litla renninga, 9 cm á lengd og ca. 1,5 cm á breidd. Til að gera svona skraut þarf níu renninga af hvorum lit.

Renningarnir eru síðan brotnir létt í tvennt:

Auk renninganna eru klipptir tveir ca. 1 cm stórir hringir. Byrjað er á því að þræða perlu/-r upp á þráðinn og einnig annan hringinn.

Nálin er síðan þrædd í gegnum annan enda renninganna, einn af öðrum og litirnir skiptast á:

Þegar búið er að þræða í gegnum þá alla er þráðurinn þræddur í gegnum efri hluta renninganna á sama hátt; byrjað á þeim fyrsta og endað á þeim síðasta. Þá myndar skrautið nokkurs konar tvílitan blævæng.

Gengið er frá þræðinum með því að setja hinn pappírshringinn ofan á síðasta renninginn og perla þrædd þar ofan á.

Síðan er hnútur hnýttur til að festa perluna:

Öðrum megin á skrautinu verður líklega dálítið gat (því að renningarnir falla ekki allir saman) – en það má snúa þeirri hlið upp að jólatrénu 😉

2010 Jóladagatal #19

19 Des

Aftur er ég dálítið sein með jóladagatalið í dag – jólastússið er sannarlega farið að segja til sín þegar maður þarf að skjótast í búðir og leita gjafa!

Í dag er 19. desember og 5 dagar til jóla.

Mér datt í hug að gera praktískt skraut að þessu sinni, þ.e. ekki jólatrésskraut sem bara má nota á jólunum og með jólaskrautinu. Ég hef  verið með nokkurs konar pappírshengi fyrir glugganum í vinnuherberginu í stað gluggatjalda. Pappírinn er skrautlegur og ég klippti líka út ljósmyndir og setti upp. Hringina tengdi ég með litlum hring úr málmi, sem t.d. er notaður í skartgripagerð.

Hér að neðan má sjá gamla hengið en mig langaði að breyta aðeins til:


Ég ákvað að nýta sömu hugmynd, en búa til hjörtu og hringi/hnetti úr pappír og stífa svo blúndur. Svona gerir maður pappírshjörtun og hér er hugmyndin að hringjunum.

Efniviður:

 • Gamlar blaðsíður úr bókum (væri líka hægt að nota nótnablöð!)
 • Skapalón fyrir hring (ca. 8 cm) og fyrir hjarta, svipuð stærð
 • Skæri
 • Saumavél og nokkrar perlur til skrauts

Ég bjó til skapalón til að gera hjörtun og hringina. Fyrir pappírshjörtun þarf tvö stykki í hvert og í hringina þarf 10 stykki. Þess vegna skiptir máli að hjörtun og hringirnir sé allt jafnstórt!

Svo er þetta bara klippt út:

Með hvítum þræði saumaði ég svo hjörtun saman tvö og tvö í saumavélinni.

Hringirnir eru saumaðir saman 10 saman eins og áður sagði og síðan brotnir í sundur eins og blævængur:

Blúndurnar stífaði ég með sykurvatni (sjóðandi vatn og sykur sem leystur er upp í því) og festi á korktöflu og lét þorna. Síðan klippti ég þær út eins og ég vildi hafa þær.

Hjörtun voru brotin í sundur og hringirnir og hengt upp. Ég hengdi nokkrar perlur neðst í strenginn til að þyngja og strekkja á honum:

2010 Jóladagatal #18

18 Des

Afsakið að jóladagatalið í dag skuli vera svona seint – iðnaðarmaðurinn á heimilinu var að útskrifast og við vorum að koma úr tilheyrandi kaffiboði!

Í dag er sem sagt 18. desember og 6 dagar til jóla! Í dag gerði ég dálítið föndur sem mjög auðvelt er að gera með krökkum: WC-rúllukrullur! Hér eru leiðbeiningar sem ég studdist við.

Efniviður:

 • WC-rúlla
 • Hvít málning og pensill
 • Fljótandi glimmer
 • Dúkahnífur eða skæri
 • Gatari
 • Sívalur trjábútur

Byrjað er á að skera upp WC-rúlluna eftir samskeytunum:

– og síðan í nokkra búta hæfilega þykka, ca. 1 cm.

Gatarinn er notaður til að gera gat sem þráður er þræddur í gegnum í lokin þegar búið er að skreyta.

Til að krulla upp á bútana er þeim vafið utan um sívalninginn nokkuð þétt.

Þeir eru svo málaðir hvítir, innan sem utan:

Í leiðbeiningunum er notað glimmer og fljótandi lím, en ég átti helling af glimmerpennum með fljótandi glimmeri og það er alveg hægt að nota þá:

Glimmerinu er makað á í ýmsum litum:

– og hengt á jólatréð! Aftur held ég að þetta komi mun betur út á jólatrénu sjálfu en það sem það er ekki komið upp þá læt ég þessa mynd fylgja:

2010 Jóladagatal #17

17 Des

Í dag er 17. desember og því barasta vika til jóla! Ég gaf mér loks tíma í gærkvöldi og föndraði dálítið, á milli þess að horfa á jólamyndir og drekka heitt súkkulaði:)

Þar á meðal gerði ég dálítið óhefðbundið skraut á jólatréð – sem kalla mætti „art deco“ skraut úr skinnum! Þessa brilliant hugmynd má finna hér og ég bara varð að prófa þegar ég sá þetta!

Aðalmálið er að redda sér *skinnum* (*fyrir ykkur sem ekki vitið hvað það er, eruð t.a.m. ekki í sambúð með iðnaðarmanni, þá eru það þunnir málmhringir sem eru notaðir með skrúfum).

Ég fékk góðfúslegt leyfi til að róta í skrúfuboxi sambýlismannsins og hirti það sem ég fann. Þetta má einnig kaupa í Byko/Húsasmiðjunni á nokkrar krónur stykkið.

Efniviður:

 • Skinnur í nokkrum stærðum
 • Epoxy-lím eða annað mjög sterkt lím
 • Eyrnapinni
 • Sterkur þráður eða vír

Skinnunum er raðað saman eftir stærð – ég notaði þessari í tvö stykki:

Svona átti lokaútkoman að verða:

Þetta er náttúrulega málmur og því gáfulegt að líma þetta saman í nokkrum hlutum, t.d. tvær og tvær skinnur saman. Epoxy-límið er MJÖG fljótt að þorna (passið fingurna!) en með svona þungt efni tekur það nokkurn tíma að taka sig.

Að lokum límdi ég þetta svo þessa tvo og tvo hringi saman í eitt skraut:

Þráðurinn verður að halda þessu uppi og ég notaði glært girni. Mér finnst útkoman nokkuð góð, og á eflaust eftir að verða enn betri á fallegu jólatré (mitt er ekki komið upp enn)!

2010 Jóladagatal #16b

16 Des

Fyrir glögga lesendur er þetta ekki sami póstur og birtist fyrr á blogginu!

Ég hafði skrifað póst þar sem ég vísaði í föndurbloggara og þýddi leiðbeiningar um viktoríanska fíltskrautið hennar. Eftir að hafa fengið ábendingu frá þessum bloggara og hönnuði skrautsins um að hún væri ósátt við að ég notaði myndirnar hennar og leiðbeiningar ákvað ég að taka póstinn út. Ég taldi mig vísa fyllilega í heimildir (fjórir linkar á síðuna hennar) en þar sem hún hefur lifibrauð sitt af þessu virði ég það við hana.

Fyrir nánari leiðbeiningar um þetta fína skraut (sem mig langar enn mikið að gera, en hef þó ekki gefið mér tíma til) farið hingað!